Ferill 56. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 181  —  56. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Ara Trausta Guðmundssyni um Menntamálastofnun og útgáfu námsefnis.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver voru svör ráðuneytis og ráðherra við bréfum umboðsmanns Alþingis, dags. 19. desember 2014 og 19. maí 2015, í máli nr. 8279/2014 um stjórnsýsluhætti og aðrar ráðstafanir við undirbúning stofnunar Menntamálastofnunar?

    Mennta- og menningarmálaráðuneyti svaraði erindum umboðsmanns Alþingis með bréfum, dags. 12. mars 2015 og 28. ágúst 2015. Umboðsmaður hefur ekki fylgt málinu eftir og því verið lokað.
    Efni bréfs ráðuneytisins 12. mars 2015:
    „Með bréfi umboðsmanns Alþingis til mennta- og menningarmálaráðuneytis, dags. 29. desember 2014, var gerð grein fyrir kvörtun Tryggva Jakobssonar yfir stjórnsýslu ráðuneytisins vegna nánar tilgreindra atriða í tilefni af fyrirhugaðri stofnun Menntamálastofnunar, nýrrar stjórnsýslustofnunar á sviði menntamála. Tilgreint er í kvörtuninni að fram hafi komið að unnið væri að því að Námsmatsstofnun og Námsgagnastofnun hverfi inn í nýja sameiginlega stjórnsýslustofnun á sviði menntamála. Í erindi umboðsmanns Alþingis er óskað eftir að ráðuneytið láti í té upplýsingar um hvort einhverjar ákvarðanir hafi verið teknar um breytingar á högum starfsfólks stofnunarinnar, svo sem um starfslok, starfsheiti, verkefni, laun og önnur starfskjör eða starfsstað, vegna áforma um sameiningu stofnananna tveggja og hvað af slíku hafi þegar komið til framkvæmda. Ef svo sé er óskað afhendingar afrita af þeim gögnum sem kunni að hafa verið tekin saman í ráðuneytinu um fyrirhugaða sameiningu stofnananna og þá í ráðuneytinu eða hjá umræddum stofnunum um fyrrgreind málaefni starfsfólks. Með bréfi umboðsmanns Alþingis, dags. 12. febrúar 2015, var framangreind beiðni ítrekuð.
    Af framangreindu tilefni skal tekið fram að undirbúningur að stofnun nýrrar stjórnsýslustofnunar á sviði menntamála hefur staðið yfir frá árinu 2012. Í byrjun var um að ræða einstök verkefni á sviði skólamála sem voru flutt úr ráðuneytinu til úrvinnslu hjá Námsmatsstofnun. Fljótlega kom þá í ljós að aukin verkefni hjá Námsmatsstofnun kölluðu á stærra húsnæði en stofnunin hafði þá yfir að ráða í Borgartúni 7 í Reykjavík (1.286 fm.). Einn af þeim möguleikum sem komu til greina var að flytja starfsemi Námsmatsstofnunar að Víkurhvarfi 3 í Kópavogi, þar sem Námsgagnastofnun er til húsa (1.900 fm.). Greining á rýmisþörf fyrir Námsmatsstofn og Námsgagnastofnun, eftir endurmat á þörf fyrir birgðahald námsbóka, leiddi í ljós að unnt væri að koma 46 starfsmönnum beggja stofnana fyrir á 2. og 3. hæð að Víkurhvarfi 3 með tilteknum breytingum á húsnæðinu.
    Í febrúar 2014 birti ráðuneytið auglýsingu um laust embætti forstöðumanns Námsmatsstofnunar þar sem fram kom að ráðuneytið ynni að sameiningu Námsmatsstofnunar og Námsgagnastofnunar í nýja stjórnsýslustofnun menntamála og að miðað væri við að nýr forstöðumaður Námsmatsstofnunar yrði forstjóri hinnar nýju stofnunar og myndi þar af leiðandi gegna mikilvægu hlutverki við að undirbúa sameininguna. Arnór Guðmundsson var í kjölfar ráðningarferlis sem hófst með þessari auglýsingu skipaður forstöðumaður Námsmatsstofnunar 28. júlí 2014. Frá því að Arnór tók við starfi forstöðumanns hefur hann leitt vinnu við undirbúning hinnar nýju stofnunar, þ.e. undirbúning húsnæðismála og tillögu að skipulagi hinnar nýju stofnunar.
    Frumvarp tillaga um Menntamálastofnun var lagt fram á Alþingi 9. desember 2014 og mælti mennta- og menningarmálaráðherra fyrir frumvarpinu 21. janúar sl. Í ákvæði til bráðabirgða I í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherra verði heimilt frá gildistöku laganna að skipa forstjóra fyrir stofnunina sem verður heimilt að undirbúa starfsemi hennar. Í ákvæðinu er enn fremur gert ráð fyrir að embætti og störf þeirra sem eru með ráðningarsamband við Námsgagnastofnun, Námsmatsstofnun og eftir atvikum mennta- og menningarmálaráðuneyti, sem heyra munu undir Menntamálastofnun við gildistöku laga þessara, verði lögð niður 30. júní 2015 og að þeim skuli boðið nýtt starf hjá Menntamálastofnun. Fram kemur í ákvæðinu að þeir kunni þó að þurfa að hlíta breytingum á starfi eða starfsstigi í samræmi við nýtt skipurit og starfslýsingu. Í skýringum við ákvæðið í frumvarpinu segir að komið hafi til skoðunar hvort beita ætti lögum um aðilaskipti, nr. 72/2002, en skv. 1. mgr. 1. gr. þeirra laga gildi þau um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtæki eða hluta fyrirtækis innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamnings Evrópu eða í Færeyjum. Hins vegar hafi ekki verið talið rétt að beita ákvæðum laganna enda gilda lögin ekki um breytingar á skipulagi og starfsháttum stjórnvalds eða tilfærslu á verkefnum milli stjórnvalda, sbr. a-lið 2. mgr. 1. gr. laga nr. 72/2002. Þá er vísað til þess að í athugasemdum við 2. mgr. 1. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 77/2002 komi fram að undanþága þessi sé byggð á e-lið 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 2001l23/EB. Aðilaskipti á rekstri frá hinu opinbera til einkaaðila eða eftir atvikum frá fyrirtækjum til hins opinbera falla undir ákvæði frumvarpsins að uppfylltum öðrum ákvæðum. Með hliðsjón af framangreindu hafi það verið mat mennta- og menningarmálaráðuneytis að ákvæði laga nr. 72/2002 ættu ekki við í þessu tilviki, þrátt fyrir að Menntamálastofnun væri bæði ætlað að fara með stjórnsýsluverkefni og verkefni á einkaréttarlegum grundvelli, eins og nánar er fjallað um í frumvarpinu.
    Með samkomulagi milli forstöðumanns Námsgagnastofnunar, Ingibjargar Ásgeirsdóttur og ráðuneytisins, sem undirritað var 10. nóvember 2014, var ákveðið að henni yrði veitt námsleyfi til 15. febrúar 2016 og að henni yrði veitt lausn frá embætti frá sama tíma. Arnóri Guðmundssyni hefur verið falið að gegna embætti forstöðumanns Námsgagnastofnunar samhliða starfi sínu sem forstöðumaður Námsmatsstofnunar í leyfi Ingibjargar Ásgeirsdóttur. Þá hafa störf þriggja starfsmanna á skrifstofu mennta- og vísindamála í ráðuneytinu verið flutt til Námsmatsstofnunar. Um er að ræða störf sem tengjast miðlægri innritun nemenda í framhaldsskóla, undirbúningur að staðfestingu námsbrauta í framhaldsskólum, undirbúningur viðurkenningar á sjálfstætt starfandi framhaldsskólum og grunnskólum, auk verkefna sem tengjast starfsmenntun á framhaldsskólastigi.
    Eins og fram kemur í meðfylgjandi gögnum er unnið að því að flytja starfsemi Námsmatsstofnunar og Námsgagnastofnunar undir sama þak að Víkurhvarfi 3 í Kópavogi. Á vegum vinnuhóps með fulltrúum starfsmanna Námsmatsstofnunar og Námsgagnastofnunar hefur verið undirbúin tillaga að skipuriti og starfaskipulagi Menntamálastofnunar.
    Umfram framangreint hafa engar ákvarðanir verið teknar um breytingar á högum starfsfólks Námsmatsstofnunar og Námsgagnastofnunar, enda er gert ráð fyrir í fyrir því í framangreindu lagafrumvarpi um Menntamálastofnun að svo verði ekki gert fyrr en frumvarpið hefur orðið að lögum.
    Óski umboðsmaður Alþingis frekari upplýsinga um framangreint skal fúslega orðið við slíkri beiðni. Beðist er velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur á að svara erindinu.“
    Efni bréfs ráðuneytisins, dags. 28. ágúst 2015:
    „Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur borist bréf umboðsmanns Alþingis, dags. 19. maí 2015, þar sem gerð er grein fyrir niðurstöðum athugunar í tilefni af kvörtun starfsmanns Námsgagnastofnunar, sem barst umboðsmanni í nóvember 2014. Fram kemur að athugun umboðsmanns hafi lokið með bréfi til starfsmannsins þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að engar ákvarðanir hafi á þeim tíma verið teknar sem raski réttindum hans eða stöðu sem gefi tilefni til frekari athugunar.
    Í bréfi umboðsmanns Alþingis er því lýst að athugun hans á framangreindu máli gefi tilefni til athugasemda og frekari fyrirspurna til ráðuneytisins. Af þeim gögnum sem umboðsmaður fékk afhent frá ráðuneytinu dregur hann þá ályktun að starfsemi, skipulag og húsnæðismál Námsmatsstofnunar og Námsgagnastofnunar taki nú þegar að ýmsu leyti mið af áformuðu sameiningu stofnana og starfsemi fyrirhugaðrar Menntamálastofnunar þrátt fyrir að Alþingi eigi eftir að samþykkja þær í lagafrumvarpi um Menntamálastofnun. Máli sínu til stuðnings nefnir umboðsmaður flutning starfsmanna frá ráðuneytinu, skipun og verkefni nýrrar framkvæmdastjórnar og að sameiginlegur forstöðumaður stofnana tveggja muni, gangi áform um stofnun Menntamálastofnunar eftir, verða forstjóri þeirrar stofnunar. Í því sambandi vekur umboðsmaður jafnframt athygli á að í því að í frumvarpi til laga um Menntamálastofnun (þingmál 456 á 144. löggjafarþingi Alþingis) sé m.a. gert ráð fyrir heimildum fyrir ráðherra og ráðuneyti hans til þess að fela Menntamálastofnun að fara með tiltekin verkefni. Ekki verði annað séð en að þar á meðal séu verkefni sem ráðuneytið lýsi í bréfi sínu að hafi verið viðfangsefni þeirra starfa sem nú hafi verið flutt til Námsmatsstofnunar. Umboðsmaður vísar til þess að í ákvæði 1. til bráðabirgða í frumvarpinu sé jafnframt að finna heimild til þess að bjóða m.a. þeim sem hafa gegnt embættum og störfum sem verða lögð niður í ráðuneytinu vegna sameiningar stofnananna ný störf hjá Menntamálastofnun. Tillaga um hliðstæða almenna heimild liggi einnig fyrir Alþingi í frumvarpi um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands. Umboðsmaður telur að ekki verði annað ráðið af fyrirliggjandi upplýsingum en að nú þegar sé unnið að flutningi starfsstöðvar Námsmatsstofnunar úr núverandi húsnæði í Reykjavík í sama húsnæði og Námsgagnastofnun að Víkurhvarfi 3 í Kópavogi. Þá vísar umboðsmaður til nýlegs álits í máli hans nr. 8181/2014 um flutning á höfuðstöðvum ríkisstofnunar milli sveitarfélaga um túlkun Hæstaréttar Íslands á þeim skorðum sem lögmætisreglan setji fyrir ákvörðunum ráðherra um flutning höfuðstöðva ríkisstofnana.
    Af framangreindu tilefni vill ráðuneytið benda á að gera verður greinarmun á því hvort Námsmatsstofnun er falið að undirbúa málefni sem ráðherra tekur ákvörðun um og því hvort um er að ræða útvistun verkefnis að fullu til stofnunarinnar. Árétta ber að flutningur umræddra verkefna felur í engu tilviki í sér valdframsal í málefnum sem ráðherra hefur ákvörðunarvald um að lögum. Sá þáttur í úrvinnslu verkefnanna er enn afgreiddur í ráðuneytinu.
    Ráðuneytið telur að þau álitaefni sem upp komu í máli umboðsmanns Alþingis nr. 8181/2014 eigi ekki við um flutning Námsmatsstofnunar úr Borgartúni í Reykjavík í Víkurhvarf í Kópavogi. Alkunna er að almennt er litið svo á að höfuðborgarsvæðið sé eitt atvinnusvæði. Það telst því vart íþyngjandi fyrir starfsfólk þótt höfuðstöðvar opinberra stofnana flytjist milli sveitarfélaga innan höfuðborgarsvæðisins. Til stuðnings þessu sjónarmiði skal bent á að Alþingi samþykkti á liðnu ári lög um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, nr. 50/2014, þar sem allt höfuðborgarsvæðið er gert að einu stjórnsýsluumdæmi. Í kjölfar lagasetningarinnar var aðalskrifstofa sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu fyrir afgreiðslu ýmissa leyfa og vottorða flutt að Dalvegi í Kópavogi. Þá má benda á að þegar skrifstofa og verslun Námsgagnastofnunar voru flutt frá Brautarholti og Laugavegi í Reykjavík að Víkurhvarfi í Kópavogi árið 2009 komu ekki upp nein álitaefni um íþyngjandi áhrif þeirra breytinga.
    Um samstarf Námsmatsstofnunar og Námsgagnastofnunar skal að öðru leyti tekið fram að fulltrúum starfsmanna beggja stofnana hefur í samráði við trúnaðarmenn og stéttarfélög boðist að taka þátt í skipulagsvinnu við undirbúning að stofnun Menntamálastofnunar, þ.m.t. vinnu við gerð skipurits, starfaskipulags, undirbúning starfslýsinga og þess háttar. Slík þátttaka verðandi starfsmanna Menntamálastofnunar er talin mikilvægur þáttur í farsælli uppbyggingu nýrrar stofnunar. Á hinn bóginn hefur starfandi forstöðumaður beggja stofnana beitt sér fyrir samstarfi og samvinnu milli starfsmanna beggja stofnana í þeim mæli sem lögbundin skipting milli verkefna þeirra segir til um.
    Í framangreindu bréfi umboðsmanns Alþingis, var óskað svara við eftirfarandi spurningum og afhendingar gagna sem kynnu að varpa ljósi á málefnið. Svör ráðuneytisins við spurningum umboðsmanns Alþingis eru rakin hér á eftir í sömu röð og spurt var í bréfi umboðsmanns.
    1. Óskað var upplýsinga um á hvaða lagagrundvelli ráðherra taldi heimilt að gera samkomulag frá 10. nóvember 2014 við forstöðumann Námsgagnastofnunar? Jafnframt var óskað upplýsinga um þau efnisatriði sem þar koma fram og hver hefði verið aðdragandi þess að samkomulagið var gert?
    Um almennan lagagrundvöll samkomulags við forstöðumann Námsgagnastofnunar skal tekið fram að ráðuneytið lítur svo á að heimilt sé að gera samkomulag við opinbera starfsmenn um fyrirkomulag á innlausn uppsafnaðra starfsréttinda þeirra með tilliti til starfskjara, starfsaldurs, lífaldurs og annarra sérstakra aðstæðna sem tengjast starfinu og persónulegum aðstæðum starfsmannsins. Við gerð slíkra samninga gilda bæði meginreglur einkaréttar (t.d. samningalaga) sem og reglur stjórnsýsluréttar. Af reglum stjórnsýsluréttar leiðir m.a. að stjórnvöld þurfa að virða valdmörk sín við gerð samninga og að stjórnvaldið er bundið af lögum við gerð samnings, þ.m.t. Ráðuneytið er þó meðvitað um aðtalsverðar takmarkanir eru á heimild stjórnvalda til samningsgerða. Sú takmörkun skv. 41. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 33/1944, þar sem mælt er fyrir um að ekkert gjald megi greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.
    Ráðuneytið telur með hliðsjón af framsögðu heimilt að veita embættismanni launað námsleyfi í samræmi við reglur sem um það gilda, sbr. 4. gr. reglna kjararáðs um starfskjör, útg. 30. júní 2014. Í reglunum kemur fram að embættismaður sem stundar sérnám eða sækir framhalds- og/eða endurmenntunarnámskeið með samþykki ráðherra haldi launum og fái greiddan ferða- og dvalarkostnað samkvæmt reglum ferðakostnaðarnefndar. Lengd leyfis samkvæmt þessu er allt að tveimur vikum á ári en unnt er að veita lengra námsleyfi á lengra árabili í samræmi við uppsöfnun réttinda. Samkomulag varð um að forstöðumanni Námsgagnastofnunar yrði veitt námsleyfi frá 15. nóvember 2014 til 15. febrúar 2016 á grundvelli framangreindra reglna en Ingibjörg Ásgeirsdóttir hefur gengt embætti forstöðumanns Námsgagnastofnunar frá 1. júlí 1998. Með sérstöku tilliti til starfsaldurs hennar og þess að hún hafði ekki áður tekið námsleyfi þótti eitt ár hæfileg leyfislengd.
    Ráðuneytið er meðvitað um þá afstöðu fjármálaráðuneytis að almennt sé óheimilt að gera starfslokasamninga, sbr. það sem fram kemur í áliti umboðsmanns Alþingis 29. nóvember 2007, í máli nr. 4962/2007. Á hinn bóginn telur ráðuneytið að heimilt sé að gera samninga um fyrirkomulag starfsloka þar sem áunnin réttindi starfsmanns eru eingöngu útfærð nánar. Embættismenn, sem hafa verið í þjónustu ríkisins í lengri tíma en 15 ár, eiga rétt á að halda óbreyttum launakjörum er embættinu fylgdi í tólf mánuði eftir að embætti hefur verið lagt niður enda hafi hann þá ekki hafnað öðru sambærilegu starfi, óháð því hvort það er á vegum ríkisins eða annars aðila, sbr. 34. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Ráðuneytið álítur að sá samningur sem gerður var á milli ráðuneytisins og forstöðumannsins sé í reynd útfærsla á þeim réttindum sem hann hefði hvort sem er notið og því sé ekki um eiginlegan starfslokasamning að ræða hvað varðar tímabilið 16. febrúar 2016 til 15. febrúar 2017, sbr. einnig 4. mgr. 1. gr. samkomulagsins. Með hliðsjón af því er jafnframt litið svo á að eðlilegt sé að ekki verði greitt orlof eða að ávinnsla veikindaréttar haldist á tímabilinu, líkt og gerist þegar um biðlaunagreiðslur samkvæmt 34. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er að ræða. Þá vill ráðuneytið nefna sérstaklega að umræddur samningur leiðir ekki til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð umfram það sem niðurlagning starfs forstöðumanns Námsgagnastofnunar hefði haft í för með sér. Gert er ráð fyrir þeim kostnaði sem samningur milli ráðuneytisins og Ingibjargar mun hafa í för með sér í kostnaðarmati sem fylgir frumvarpi tillaga um Menntamálastofnun. Einnig er gert ráð fyrir að sótt verði um fjárheimild í fjáraukalögum 2015 vegna þessa kostnaðar. Komi til þess að forstöðumanninum bjóðist sæti í fagráð Menntamálastofnunar vill ráðuneytið taka fram að um er að ræða stöðu sem verður skipað í af ráðherra, í samræmi við lög um Menntamálastofnun. Útfærslan um 30% starfshlutfall var ætluð til að sýna fram á hvaða þóknun hann fengi fyrir störf sín.
    Eins og fram kemur í 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins ber að auglýsa opinberlega öll störf. Frá þeirri meginreglu er þó sú undantekning að heimilt er að ráða starfsmann tímabundið til starfa án undanfarandi auglýsingar, sbr. 2. gr. reglna nr. 464/1996 um auglýsinga á lausum störfum með síðari breytingum. Samningur ráðuneytisins við forstöðumanninn kveður enn fremur á um að til eins árs frá 16. febrúar 2017 skuli honum standa til boða staða í ráðuneytinu ef þurfa þykir og þá í 30% starfshlutfalli. Í ljósi þess að um er að ræða ráðningu til eins árs á auglýsingaskylda samkvæmt framangreindu lagaákvæði ekki við.
    Um aðdraganda samkomulagsins er það að segja að forstöðumaðurinn óskaði eftir því við yfirstjórn ráðuneytisins á haustmánuðum 2014 um ofangreind atriði. Í framhaldi af því fóru fram viðræður milli hans og ráðuneytisins sem leiddu til þeirrar niðurstöðu sem fram kemur í umræddu samkomulagi.
    2. Umboðsmaður óskaði upplýsinga um á hvaða lagagrundvelli störf þriggja/fjögurra starfsmanna mennta- og menningarmálaráðuneytis voru flutt til Námsmatsstofnunar?
    Tekið skal fram að þau verkefni sem flutt voru frá ráðuneytinu til Námsmatsstofnunar voru verkefni er varða innritun og upplýsingagjöf um nám á framhaldsskólastigi, fagráð og velferðarmál, viðurkenningu á skólum og fræðsluaðilum (vottun á námskrám og staðfestingu á námsbrautarlýsingum) og starfsmenntun. Þá voru matsnefndir og undanþágunefndir fluttar til Námsmatsstofnunar. Frá ráðuneytinu hafa verið fluttir þrír starfsmenn. Það eru Erla Guðjónsdóttir, Kristrún Birgisdóttir og Guðrún Birna Jóhannsdóttir. Tveir fyrrnefndu starfsmennirnir fluttust á milli stofnana á grundvelli samnings um vistaskipti starfsmanna og eru því enn starfsmenn mennta- og menningarmálaráðuneytis og á launaskrá þess, þrátt fyrir að þeir hafi unnið störf í þágu Námsmatsstofnunar. Á grundvelli verkskipulagsvalds ráðherra, þ.e. heimildar hans til að skipta verkefnum stjórnsýslunnar á milli stjórnvalda eða einstakra starfsmanna hennar og til að útdeila verkefnum og skipuleggja stjórnsýsluna innan marka laga og stjórnvaldsfyrirmæla hafa verkefni síðastnefnda starfsmannsins verið flutt yfir til Námsmatsstofnunar. Þau verkefni voru flutt frá ráðuneytinu til Námsmatsstofnunar á grundvelli laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti á fyrirtækjum, nr. 72/2002. Það var mat ráðuneytisins að þau verkefni sem umræddur starfsmaður sinnti hjá ráðuneytinu hafi verið það sjálfstæð að unnt hafi verið að flytja þau ásamt starfmanni frá ráðuneyti til undirstofnunar. Það athugast sérstaklega að ekki er um stjórnsýsluverkefni að ræða eða töku stjórnvaldsákvarðana. Flutningur starfsmannsins á grundvelli aðilaskiptalaganna var talinn best tryggja réttindi hans.
    3. Umboðsmaður óskaði upplýsinga um hvort að þeir starfsmenn, sem fluttir hafa verið til Námsmatsstofnunar, fari með að einhverju leyti stjórnsýsluvald sem lögum samkvæmt er hjá ráðuneytinu? Ef fyrri spurningunni er svaraðjátandi óskað umboðsmaður upplýsinga um hvort að þessar ákvarðanir séu teknar í nafni ráðuneytisins eða Námsmatsstofnunar?
    Þau verkefni sem flutt hafa verið frá ráðuneytinu til Námsmatstofnunar fela ekki í sér vald til að kveða á um réttindi og skyldur manna. Umræddir starfsmenn taka því ekki bindandi ákvarðanir í skjóli stjórnsýsluvalds um rétt eða skyldur aðila í fyrirliggjandi stjórnsýslumáli. Þess ber þó að geta að þeir starfsmenn sem eru í vistaskiptum hjá Námsmatsstofnun sinna formennsku í sjálfstæðum undanþágunefndum. Annars vegar ræðir um undanþágunefnd grunnskóla og hins vegar undanþágunefnd framhaldsskóla. Hlutverk undanþágunefndar grunnskóla er að meta umsóknir grunnskóla til að lausaráða starfsmenn til kennslustarfa til bráðabirgða, í þeim tilvikum þar sem engir með starfsleyfi kennara hafa sótt um auglýstar stöður, sbr. 18. gr. laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 87/2008. Hlutverk undanþágunefndar framhaldsskóla er að meta umsóknir skólameistara um heimild til þess að lausráða til kennslu- og stjórnunarstarfa starfsmann sem hefur ekki leyfi mennta- og menningarmálaráðherra til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari, sbr. 19. gr. sömu laga. Seta þessara starfsmanna í umræddum nefndum stóð ekki í beinum tengslum við störf þeirra hjá ráðuneytinu enda er um að ræða sjálfstæðar nefndir sem ráðuneytið, Félag íslenskra framhaldsskóla, Kennarasamband Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga tilefna fulltrúa í.
    Óski umboðsmaður Alþingis frekari upplýsinga um framangreint skal fúslega orðið við slíkri beiðni. Beðist er velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur á að svara erindinu.“

     2.      Hver var heildarkostnaður við stofnun Menntamálastofnunar, að meðtalinni ráðgjöf sérfræðinga, og kostnaður við breytingar á húsnæði, tímabundna leigu á lagerhúsnæði og tímabundna ráðningu starfsmanna? Óskað er eftir sundurliðun í helstu þætti í svarinu.

Tafla: Heildarkostnaður við stofnun Menntamálastofnunar.

I. Ráðgjöf sérfræðinga 20.679.716
II. Kostnaður við breytingar á húsnæði 35.525.473
III. Kostnaður vegna tímabundinnar leigu á lagerhúsnæði (Víkurhvarf 2) 2.763.749
IV. Kostnaður vegna tímabundinna ráðninga starfsmanna 0
V. Kostnaður vegna sameiningar/stofnunar Menntamálstofnunar, annað 7.945.589
Heildarkostnaður 66.914.527



     3.      Hver er stefna Menntamálastofnunar varðandi útgáfu námsefnis fyrir grunnskóla?
    Lögum samkvæmt ber Menntamálastofnun að sjá öllum grunnskólanemendum fyrir fjölbreyttum og vönduðum námsgögnum sem eru í samræmi við aðalnámskrá. Í þessu verkefni felast umtalsverðar skyldur bæði hvað varðar gerð námsefnis og þjónustu við skóla. Menntamálastofnun ber að leggja gildandi aðalnámskrár til grundvallar námsgagnaútgáfu, hafa samráð við skóla og kennara og fylgjast með þróun og nýsköpun í námsgagnagerð.
    Með tilkomu Menntamálastofnunar breyttust ýmsar forsendur varðandi mótun stefnu við útgáfu námsgagna. Áður fór slík stefnumótun fram á vettvangi stjórnar Námsgagnastofnunar sem mótaði stefnu fyrir útgáfu í samvinnu við stjórnendur stofnunarinnar. Var þar m.a. tekið tillit til áherslna í námskrá og mati stofnunarinnar á þörf fyrir endurnýjun á námsefni eða að nýtt yrði samið. Á grundvelli stefnunnar var síðan samin útgáfuáætlun fyrir hverja námsgrein þar sem kostnaður við útgáfu var áætlaður og forgangsröðun fór fram.
    Menntamálastofnun hefur sent mennta- og menningarmálaráðuneyti minnisblað þar sem lýst er þörf fyrir mótun stefnu um námsgagnagerð almennt sem lokið verði með endurskoðun laga um námsgögn. Sú stefnumótunarvinna mun væntanlega á einhverjum stigum hafa áhrif á mótun útgáfustefnu stofnunarinnar en unnt ætti að vera að vinna að þessum stefnum samhliða. Mikilvægt er að sú stefnumótunarvinna sem fram undan er í þessum málaflokki verði unnin á grundvelli áreiðanlegrar greiningar og upplýsinga svo að framtíðarskipulag námsefnisútgáfu fyrir grunnskóla á Íslandi taki mið af þörfum nemenda og skóla fyrir gott námsefni.
    Menntamálastofnun mun á næstu mánuðum vinna að mótun útgáfustefnu. Stefnan mun taka til útfærslu tengsla við aðalnámskrá, innihalds, kennslufræði, miðlunar, höfundaréttar og kynningar og starfsþróunar kennara. Einnig verður fjallað um val á efni, hvaða form skal notað og að námsefni verði gefið út í þeim greinum þar sem efni er ekki til þannig að samfellt námsefni sé ávallt til reiðu fyrir grunnskólanám í öllum námsgreinum.
    Vinna við stefnumótunina hófst haustið 2017 og verður henni lokið vorið 2018. Þangað til verður í meginatriðum stuðst við fyrri útgáfustefnu Námsgagnastofnunar og útgáfuáætlun fyrir árið 2018 tekur einnig mið af henni. Útgáfuáætlun til lengri tíma verður hins vegar mótuð á grundvelli nýrrar útgáfustefnu.
    1. desember 2017 stendur Menntamálastofnun fyrir málþingi um áherslur í útgáfu námsgagna þar sem erlendir og innlendir sérfræðingar munu fjalla um þetta efni.

     4.      Hver er stefna Menntamálastofnunar í útgáfu stafræns efnis fyrir grunnskóla í ljósi stöðu íslenskunnar í stafrænum heimi og mikillar útbreiðslu stafræns efnis á ensku?
    Allt nýtt námsefni sem að Menntamálastofnun gefur út er einnig aðgengilegt á rafrænum miðlum, sem geta verið margvíslegir. Má þar nefna vefi, rafrænar flettibækur, gagnvirkt efni, pdf-skjöl og aðra þá rafræna miðla sem algegnir eru og hægt er að nýta með öllum tölvubúnaði. Þá má einnig geta þess að allir endurútgáfusamningar fela í sér ákvæði þess efnis að efnið megi birta á rafrænu formi. Allar endurútgáfur eru þannig einnig birtar á rafrænu formi. Samkvæmt stefnu Mentamálastofnunar er gert ráð fyrir að 90% alls námsefnis verði aðgengilegt á rafrænu formi í lok árs 2019.
    Ljóst er að miklar breytingar eru framundan í þróun stafræns efnis. Má þar nefna námskerfi sem laga sig að þörfum hvers og eins nemenda (adaptive learning systems), sýndarveruleiki og gervigreind. Í útgáfustefnunni, sem nú er unnið að, verða lagðar áherslur hvað þetta varðar. Menntamálastofnun leggur áherslu á að þróun í útgáfu stafræns efnis sé í samræmi við íslenska námskrá og þarfir og áherslur kennara og nemenda. Tæknin styðji við skólastarf en stýri því ekki.

     5.      Hvaða breytingar hafa orðið á þjónustu við grunnskóla vegna útgáfu, kynningar og dreifingar á námsefni við flutning námsgagnaútgáfu til Menntamálastofnunar? Telur ráðherra að þessi mál séu í betra horfi nú en fyrir breytinguna?
    Nokkrar breytingar hafa orðið á þjónustu við grunnskóla, kynningu og dreifingu námsefnis við flutning námsgagnaútgáfu til Menntamálastofnunar. Í lok 2016 var birgðahald og dreifing boðin út á vegum Ríkiskaupa og samið við A4 um þann verkþátt. Áætlað er að flutningur lagersins og dreifingar námsgagna og aðrar hagræðingaraðgerðir muni skapa umtalsvert svigrúm til að auka námsgagnaútgáfu og þjónustu við skóla. Tekjur fást með því að leigja út það húsnæði stofnunarinnar sem áður hýsti námsgagnalager og prentun og dreifing hafa verið endurskipulögð. Kvóti, sem settur var fyrir hvern skóla fyrir úthlutun námsgagna hjá Námsgagnastofnun, hefur nú verið afnumin hjá Menntamálastofnun en með því eykst svigrúm skóla til að nýta sér námsefni verulega.
    Starfsfólk sem áður sinnti lagerhaldi og dreifingu námsgagna hjá Námsgagnastofnunar hélt sínum störfum við þessar breytingar og mun vinna að því að bæta þjónustu við skóla frekar. Má þar nefna eflingu upplýsingamiðlunar til skóla, aðstoð við pantanir og kynningu á nýju efni sem nú er unnið að í nýju þjónustuveri.