Ferill 127. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 184  —  127. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur um kröfur um menntun landvarða og heilbrigðisfulltrúa sem fara með valdheimildir, stjórnsýsluaðgerðir og löggæslu.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða kröfur eru gerðar um fræðslustig og menntun annars vegar landvarða og hins vegar heilbrigðisfulltrúa sem fara með valdheimildir, stjórnsýsluaðgerðir og löggæslu?

    Samkvæmt 80. gr. laga nr. 60/2013, um náttúruvernd, starfa landverðir, og eftir atvikum aðrir starfsmenn, á náttúruverndarsvæðum. Landverðir annast daglegan rekstur og umsjón, eftir atvikum, í samræmi við stjórnunar- og verndaráætlun, sinna fræðslu og fara með eftirlit á viðkomandi svæði. Landverðir hafa eftirlit með því að virt séu ákvæði náttúruverndarlaga og þær reglur sem gilda um náttúruverndarsvæði. Í því eftirliti getur m.a. falist að stöðva fólk og farartæki þegar það er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir brot á ákvæðum laganna um umferð, sbr. 1. mgr. 88. gr. Í 2. mgr. 80. gr. laganna er kveðið á um setningu reglugerðar um nánari ákvæði um menntun og starfsskyldur þeirra sem starfa á náttúruverndarsvæðum. Núgildandi reglugerð um landverði er nr. 61/1990. Rétt til að starfa sem landvörður hafa þeir sem hafa lokið námskeiði í landvörslu á vegum Umhverfisstofnunar í samræmi við fyrrgreinda reglugerð. Samkvæmt reglugerðinni skulu námskeið Umhverfisstofnunar fjalla m.a. um Ísland – náttúrufar og þjóðlíf, náttúruvernd, umhverfisrétt og landvörslu. Þess má geta að ráðuneytið vinnur nú að endurskoðun á umræddri reglugerð.
    Samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, skal heilbrigðisnefnd ráða heilbrigðisfulltrúa til starfa á hverju eftirlitssvæði til að annast eftirlit sveitarfélaganna með þeim viðfangsefnum sem undir lögin falla, sbr. 49. gr. laganna. Heilbrigðisnefndir og heilbrigðisfulltrúar í umboði þeirra hafa heimildir til að beita þvingunarúrræðum sem mælt er fyrir í XVII. kafla laganna. Má þar nefna veitingu áminningar, takmörkun á starfsemi eða notkun og álagningu dagsekta. Eingöngu má ráða í starf heilbrigðisfulltrúa þá sem hafa leyfi umhverfis- og auðlindaráðherra til starfans. Ráðherra setur reglugerð um menntun, réttindi og skyldur heilbrigðisfulltrúa, sbr. reglugerð nr. 571/2002 um menntun og skyldur heilbrigðisfulltrúa. Til þess að geta öðlast leyfi sem heilbrigðisfulltrúi þarf viðkomandi að uppfylla þrjú skilyrði, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 571/2002. Í fyrsta lagi að hafa háskólamenntun á sviði heilbrigðisvísinda, raunvísinda, verkfræði eða sambærilega menntun. Í öðru lagi að hafa sex mánaða starfsreynslu sem nær til allra sviða heilbrigðiseftirlits og fer starfsþjálfun fram á heilbrigðiseftirlitssvæðum. Í þriðja lagi að hafa sótt námskeið hjá Umhverfisstofnun um stjórnsýslu, lög og reglugerðir sem heilbrigðisfulltrúum ber að sjá um að sé framfylgt.