Ferill 131. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 186  —  131. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins.


     1.      Hvenær verður lokið við skýrslu um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins og hvenær verður hún birt opinberlega?
    Samkvæmt upplýsingum frá viðsemjanda má gera ráð fyrir að gerð skýrslunnar og yfirlestri ljúki innan tíðar. Efnistök og birting eru á ábyrgð verksala.

     2.      Hvenær bar að skila skýrslunni samkvæmt verksamningi?
    Fjármála- og efnahagsráðuneytið gerði árið 2014 samning við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands um 10 millj. kr. styrk vegna verkefnisins. Gert var ráð fyrir verklokum í júlí 2015.

     3.      Hvenær og hve mikið hefur verksali fengið greitt fyrir verkið og hve mikið er ógreitt?
    Greiddar hafa verið 7,5 millj. kr. vegna verkefnisins í samræmi við samninginn. Samkvæmt samningnum er áætluð 2,5 millj. kr. greiðsla við verklok.

     4.      Hver ákvað samningsfjárhæð fyrir verkefnið?
    Samningsfjárhæð var niðurstaða verkkaupa og verksala.

     5.      Hvernig er verkstjórn og eftirliti með framgangi verkefnisins háttað af hálfu verkkaupa?
    Verkstjórn er á hendi verksala. Verkkaupi hefur fengið upplýsingar um framvindu verkefnisins meðan á vinnslu þess hefur staðið.

     6.      Hverjir eru helstu verkþættir samningsins?
    Helstu verkþættir koma fram í samningnum. Þeir eru rannsókn á forsendum bandaríska seðlabankans fyrir gjaldeyrisskiptasamningum og neitun á slíkum samningum, rannsókn á forsendum breska fjármálaeftirlitisins fyrir lokun sumra banka í fjármálakreppunni 2007– 2008 og björgun annarra, rannsókn á forsendum bresku ríkisstjórnarinnar fyrir að nota lög gegn hryðjuverkum til að loka íslenskum banka, og mat á tjóni íslenskra banka og fyrirtækja á skyndisölu ýmissa eigna sem knúin var fram með ákvörðunum erlendra stjórnvalda eða fyrirtækja.