Ferill 80. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 187  —  80. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Evu Pandoru Baldursdóttur um innheimtuaðgerðir tollstjóra.


     1.      Hversu mörg innheimtumál eru til meðferðar hjá tollstjóra og öðrum innheimtumönnum ríkissjóðs vegna ógreiddra opinberra gjalda og skatta, gagnvart einstaklingum annars vegar og lögaðilum hins vegar?
    Tollstjóri fer með innheimtu um 80% skatta og gjalda á landsvísu. Tekjubókhaldskerfi ríkissjóðs (TBR), sem heldur utan um skattkröfur og innheimtu þeirra, býður ekki upp á möguleika á greiningu upplýsinga um einstök innheimtumál. Af þeim sökum er verulegum erfiðleikum bundið að greina á milli einstaklinga og lögaðila í kerfinu. Af sömu orsökum m.a. liggja ekki fyrir upplýsingar um þann fjölda innheimtumála sem nú er til meðferðar. Hins vegar liggja fyrir upplýsingar um fjárhagslegt umfang álagningar og eftirstöðva og innheimtuárangurs.
    Á árabilinu 2015–2017 hefur innheimtuárangur álagðra skatta á landsvísu verið rúmlega 98% að meðaltali. Í eftirfarandi töflu kemur fram yfirlit yfir markmið tollstjóra, þegar að innheimtu kemur, ásamt mælingum innheimtuárangurs áranna 2015 og 2016 og það sem af er ári 2017:

Mælikvarði Gögn lögð til grundvallar Mæling
2015
Mæling
2016
Mæling
2017
Innheimtuárangur vegna álagningar fyrra árs verði a.m.k. 97% hjá Tollstjóra og 96,5% á landsvísu, 1. júlí árið eftir álagningarár í skilgreindum gjaldflokkum. Tekjubókhald ríkisins. Gjaldflokkar: staðgreiðsla launagreiðanda, tryggingagjald, þing- og sveitarsjóðsgjöld einstaklinga, þinggjöld lögaðila, virðisaukaskattur, bifreiðagjöld, greiðslufrestur í tolli og vörugjöld af ökutækjum. Tollstjóri:
98,06%

Á landsvísu:
98,05%
Tollstjóri:
98,17%

Á landsvísu:
98,16%
Tollstjóri:
98,31%

Á landsvísu:
98,30%

    Í eftirfarandi töflu kemur fram yfirlit yfir innheimtumál á árinu 2016, miðað við stöðu 1. júlí 2017, sundurliðað eftir innheimtumönnum, álagningu og eftirstöðvum hennar, hlutdeild hvers innheimtumanns í heildarálagningu og innheimtuárangri:
Innheimtuumdæmi

Samtals

Hlutfall álagningar af heild

Samtals

Álagning
Eftirstöðvar
Tollstjóri 570.950 11.487 78,35% 97,99%
Sýslumaðurinn á Suðurnesjum 28.399 859 3,90% 96,97%
Sýslumaðurinn á Vesturlandi 21.312 428 2,92% 97,99%
Sýslumaðurinn á Vestfjörðum 8.829 288 1,21% 96,74%
Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra 10.530 164 1,44% 98,44%
Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra 41.123 608 5,64% 98,52%
Sýslumaðurinn á Austurlandi 15.553 143 2,13% 99,08%
Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum 7.580 100 1,04% 98,67%
Sýslumaðurinn á Suðurlandi 24.480 673 3,36% 97,25%
Samtals 728.756 14.750 100,00% 97,98%


     2.      Hversu mörgum innheimtumálum lauk árin 2015, 2016 og það sem af er ári 2017? Svar óskast flokkað eftir því hvort fjárkrafan var greidd að fullu, að hluta eða ekki?
    Þar sem tekjubókhaldskerfi ríkissjóðs býður ekki upp á möguleika á greiningu upplýsinga um einstök innheimtumál er ekki unnt að greina frá þeim fjölda innheimtumála sem lokið var á árunum 2015 og 2016 og það sem af er ári 2017.

     3.      Hversu margar aðfarargerðir fóru tollstjóri og aðrir innheimtumenn ríkissjóðs í vegna ógreiddra opinberra gjalda og skatta á árunum 2015, 2016 og það sem af er ári 2017? Svar óskast flokkað eftir tegund aðfarargerða og eftir því hvort gerðarþolar voru einstaklingar eða lögaðilar.
    Þar sem tekjubókhaldskerfi ríkissjóðs býður ekki upp á möguleika á greiningu upplýsinga um einstök innheimtumál er ekki unnt að greina á milli einstaklinga og lögaðila í kerfinu. Að öðru leyti er svarið að finna í eftirfarandi töflu:
2014 2015 2016
Fjöldi fjárnámsbeiðna 7.357 9.435 8.879
Fjárnám í eign 594 643 892
Árangurslaus fjárnám 5.840 6.742 6.165
Fjöldi greiðsluáætlana 9.107 10.604 12.236
Nauðungarsölubeiðnir fasteignir 226 138 248


     4.      Hversu margar nauðungarsölur fóru tollstjóri og aðrir innheimtumenn ríkissjóðs fram á vegna ógreiddra opinberra gjalda og skatta og hversu mikill hluti nauðungarsölubeiðna endaði með aðilaskiptum og ráðstöfun söluverðs til tollstjóra á árunum 2015, 2016 og það sem af er ári 2017? Svar óskast flokkað eftir því hvort gerðarþolar voru einstaklingar eða lögaðilar.
    Í upphafi er rétt að vekja athygli á að fjárnám sem beiðst er á seinni hluta árs kann að verða lokið árið þar á eftir og taka þarf sundurliðun upplýsinga um fjölda nauðungarsala eftir árum með þeim fyrirvara. Þá er rétt að halda því til haga að ekki er unnt að greina milli einstaklinga og lögaðila í fyrirliggjandi gögnum. Hafa þarf einnig í huga að tollstjóri afturkallar stærstan hluta þeirra nauðungarsölubeiðna sem hann leggur fram. Þá er það verklag viðhaft að tollstjóri óskar í öllum tilvikum frestunar á byrjun uppboðs á grundvelli ákvæðis 27. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu, berist greiðsla sem nemur 20% fjárhæðar krafna samkvæmt nauðungarsölubeiðni. Þegar framhaldssala hefur verið ákveðin er beiðni afturkölluð gegn greiðslu sem nemur 50% fjárhæðar krafna samkvæmt nauðungarsölubeiðni. Nauðungarsölubeiðnir eru að sjálfsögðu alltaf afturkallaðar þegar kröfur hafa verið greiddar að fullu.
    Árið 2015 voru fyrirhuguð framhaldsuppboð (lokasala) á 68 fasteignum sem gert hafði verið fjárnám í fyrir tilstuðlan tollstjóra. Framhaldssala átti sér hins vegar aðeins stað í 17 af þeim tilvikum og var fjármunum aðeins úthlutað til ríkisins vegna einnar þeirra. Árið 2016 voru fyrirhuguð framhaldsuppboð á 97 fasteignum sem fjárnám hafði verið gert fyrir tilstuðlan tollstjóra. Framhaldssala átti sér stað í 12 af þeim tilvikum og var fjármunum aðeins úthlutað til ríkisins vegna einnar þeirra. Frá 1. janúar til 1. október 2017 hafa verið fyrirhuguð framhaldsuppboð á 34 fasteignum sem gert hafði verið fjárnám í fyrir tilstuðlan tollstjóra. Framhaldssala fór fram í 3 tilvikum og var fjármunum úthlutað til ríkisins vegna einnar þeirra. Rétt er að taka fram að í nær öllum þeim tilvikum þegar framhaldssala hefur farið fram og orðið endanleg hafa fleiri gerðarbeiðendur en tollstjóri farið fram á nauðungarsölu viðkomandi eignar.

     5.      Hafa tollstjóri og aðrir innheimtumenn ríkissjóðs einhverjar heimildir til að fresta innheimtuaðgerðum í innheimtumálum er varða opinber gjöld þegar einstaklingar sem hafa ekki greiðslugetu til skemmri tíma eru tilbúnir að gera samning um greiðslu á lengri tíma? Ef svo er, beitir tollstjóri þeirri heimild? Ef ekki, kemur til skoðunar að veita tollstjóra þannig heimildir?
    Tollstjóra er, að uppfylltum skilyrðum sem fram koma í verklagsreglum embættisins, heimilt að bjóða einstaklingum og lögaðilum að gera greiðsluáætlanir í flestum skrefum vanskilainnheimtu. Haldi gjaldandi greiðsluáætlun stöðvast vanskilainnheimtuaðgerðir á hendur honum.
    Undanfarin ár hefur fjöldi gerðra greiðsluáætlana vaxið umtalsvert. Ástæðan er fyrst og fremst sú að tollstjóri hefur lagt áherslu á að gera einstaklingum og lögaðilum fært að komast hjá íþyngjandi vanskilainnheimtuaðgerðum. Samkvæmt verklagsreglum tollstjóra er heimilt að gera greiðsluáætlanir við gjaldendur til allt að sex mánaða í senn. Einstaklingum sem eiga við varanlega greiðsluerfiðleika að stríða er mögulegt að sækja um greiðsluaðlögun hjá embætti umboðsmanni skuldara en greiðsluaðlögun nær til allra skattskulda að undanskildum virðisaukaskatti og staðgreiðslu launagreiðanda.
    Hinn 3. nóvember 2016 skipaði ráðherra starfshóp um gerð nýrrar innheimtulöggjafar og var hópnum fengið það verkefni að setja fram tillögur að heildstæðri innheimtulöggjöf opinberra gjalda. Vegna anna hefur starfshópurinn ekki lokið störfum og tillögur hans liggja því ekki fyrir.