Ferill 58. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Prentað upp.

Þingskjal 188  —  58. mál.
Fylgiskjal.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um skólavist barna og ungmenna í hælisleit.


     1.      Hefur verið mótuð stefna um það, eða er slík stefnumörkun í undirbúningi, hvernig skuli framfylgt ákvæðum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, laga nr. 91/2008, um grunnskóla, og laga nr. 80/2016, um útlendinga, varðandi skólaskyldu og rétt barna og ungmenna í hælisleit til náms?
    Þar sem meginefni fyrirspurnarinnar varðar málefni sem heyrir undir dómsmálaráðuneyti er svarið byggt á upplýsingum sem voru fengnar frá Útlendingastofnun í gegnum dómsmálaráðuneytið.
    Lög nr. 80/2016 heyra undir dómsmálaráðuneyti sem hefur sett reglugerð um útlendinga nr. 540/2017. Í 27. gr. reglugerðarinnar eru ákvæði um menntun barna í leit að alþjóðlegri vernd. Þar segir að börnum fram að 18 ára aldri skuli tryggð menntun. Útlendingastofnun skal tryggja að barn sé að jafnaði ekki lengur en fjórar vikur í umsjá stofnunarinnar án þess að vera komið í almennan skóla eða annað úrræði til menntunar. Leitast skal við að barn sé komið í almennan skóla innan 12 vikna frá umsókn um alþjóðlega vernd. Leitast skal við að koma til móts við þarfir fjölskyldna í þjónustu sveitarfélaga með daggæslu, leikskóla, framhaldsskóla eða öðrum menntaúrræðum eftir því sem við á.
    Í lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, felst almenn stefnumörkun um rétt barna og ungmenna á skólaskyldualdri til náms og kveða lögin á um skýra ábyrgð sveitarfélaga um að veita öllum börnum með lögheimili í sveitarfélaginu skólavist. Þar segir m.a. að sveitarfélögum sé skylt að sjá til þess að skólaskyld börn skv. 3. gr. sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu og börn sem hafi verið ráðstafað í fóstur til fósturforeldra, sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu, njóti skólavistar eftir því sem nánar segir í lögunum. Þá segir enn fremur að liggi ekki fyrir ákvörðun stjórnvalds um lögheimili barns kveður sveitarstjórn á um skólaskyldu þess, enda búi barnið í sveitarfélaginu og leitað hafi verið eftir innritun þess í skóla, sbr. 19. gr. Synjun sveitarstjórnar er kæranleg eftir fyrirmælum 47. gr. laga um grunnskóla. Í úrskurði getur ráðuneytið lagt fyrir sveitarfélag að tryggja barni skólavist innan sveitarfélagsins.
    Ákvörðun um búsetu barna í leit að alþjóðlegri vernd liggur hjá Útlendingastofnun sem heyrir undir dómsmálaráðuneytið. Það er því á ábyrgð Útlendingastofnunar að sjá til þess að börn í þjónustu þeirra sæki skóla í því sveitarfélagi þar sem barninu er fundin búseta.

     2.      Hvernig er staðið að því að veita börnum og ungmennum í hælisleit aðgang að skólavist?
    Útlendingastofnun ber ábyrgð á að börn í leit að alþjóðlegri vernd fái menntun á meðan unnið er að afgreiðslu umsóknar þeirra.
    Rammi um menntun barna í alþjóðlegri vernd var unnin árið 2016 í samvinnu innanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands, Rauða krossins og Útlendingastofnunar. Samkvæmt þessum ramma er gert ráð fyrir að Útlendingastofnun geti veitt börnum menntun í móttökumiðstöð allt að 12 vikur á meðan umsókn þeirra er í vinnslu Útlendingastofnunar. Velji Útlendingastofnun að veita barni menntun í móttökumiðstöð ber að sjá til þess að barnið fái menntun sem leiðir til þess að barnið eflist þannig að það verði betur undir það búið að takast á við það sem á eftir kemur. Áhersla er á að meta stöðu barnsins þannig að fyrir liggi stöðumat sem hægt er að byggja áframhaldandi nám á. Sjá nánari útfærslu rammans í fylgiskjali.

     3.      Hafa öll börn og ungmenni sem sækja um hæli hér sömu möguleika á skólavist? Ef svo er ekki, í hverju felst mismununin og á hverju byggist hún?
    Samkvæmt lögum um grunnskóla er öllum börnum á skólaskyldualdri skylt að sækja skóla og fela lögin ekki í sér sérstakar undanþágur frá skólaskyldu í tilvikum barna í leit að alþjóðlegri vernd. Einnig er sveitarfélögum skylt að veita öllum börnum sem hafa lögheimili í sveitarfélaginu skólavist.
    Ákvörðun um hvar börn í leit að alþjóðlegri vernd búa og sækja skóla á meðan mál þeirra eru afgreidd liggur hjá Útlendingastofnun. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur því ekki upplýsingar um hvort öll börn sem sækja um alþjóðlega vernd hafi sömu möguleika á skólavist.

     4.      Hyggst ráðherra gera ráðstafanir, og þá hverjar, til þess að öllum börnum og ungmennum í hælisleit standi til boða skólavist í samræmi við alþjóðaskuldbindingar og lög þar að lútandi?
    Ráðuneytið vinnur í samvinnu við velferðarráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambandið og Heimili og skóla aðgerðaáætlun í kjölfar úttektar á menntun án aðgreiningar sem fram fór árið 2016. Þar verður m.a. fjallað um hvernig tryggð verði sem best þjónusta við öll börn án aðgreiningar. Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar hér að framan ber sveitarfélögum samkvæmt grunnskólalögum að veita öllum börnum sem þar búa skólavist.
    Þjónusta við börn og ungmenni í leit að alþjóðlegri vernd er á ábyrgð Útlendingastofnunar sem heyrir undir dómsmálaráðherra.

Fylgiskjal.


Áætlun um skólaþjónustu barna í hælisleit.

Í vinnslu UTL Í þjónustu UTL Í þjónustu sveitarfélags
Ekki í skóla Móttökumiðstöð Almennur skóli
Að hámarki líði 4 vikur þangað til barn er komið í skólaúrræði móttökumiðstöðvar eða almennan skóla. Barn á leikskólaaldri: að aflað verði upplýsinga um stöðu og fyrri reynslu barns. Nám barna á leikskólaaldri: Lögð verði áhersla á sálfélagslegan stuðning, tónlist – sköpun og samskipti. Barn sé komið í þjónustu sveitarfélags/skóla innan 12 vikna frá umsókn um vernd. Börn á leikskólaaldri sem fari í þjónustu til sveitarfélaga eigi kost á leikskóladvöl.
Á meðan beðið er eftir þjónustu er barni búið umhverfi sem tryggir því möguleika á örvun og leik. Barn á grunn- og framhaldsskólaaldri: að aflað verði upplýsinga um fyrri skólagöngu og námsleg staða metin eftir því sem hægt er. Lögð verði áhersla á sálfélagslegan stuðning og menntun.
Kennsla í grunn- og framhaldsskóla: umhverfislæsi, mindfulness, listþerapía, mannréttindafræðsla, móðurmál enska (erl. tungumál), stærðfræði, íþróttir og sund, upplýsingatækni, heimilisfræði, handmennt – smíðar, menningarlæsi, tónlist. Æskilegt að sé tengt við skólaumhverfi.
Markmið: Sterkari einstaklingar sem eru tilbúnir að takast á við það sem á eftir kemur, hvort sem það verður þjónusta í sveitarfélagi eða brottvísun.
Afurð: Stöðumat (læsi, stærðfræðikunnátta, tungumálakunnátta, félagsleg færni o.fl.), upplýsingar um stöðu nemanda fyrir móttökuaðila, hver sem það verður (fylgigögn í næsta úrræði).