Ferill 4. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 4  —  4. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um mannvirki, nr. 160/2010, með síðari breytingum (faggilding, frestur).

Frá umhverfis- og auðlindaráðherra.1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum:
     a.      1. málsl. verður svohljóðandi: Mannvirkjastofnun og byggingarfulltrúar hafa eftirfarandi frest til að afla sér faggildingar í samræmi við ákvæði 19. gr.:
                  a.      frest til 1. janúar 2019 til að afla sér faggildingar til að yfirfara séruppdrætti og annast úttektir,
                  b.      frest til 1. janúar 2020 til að afla sér faggildingar til að yfirfara aðaluppdrætti.
     b.      Í stað ártalsins ,,2018“ í 3. málsl. kemur: 2020.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Í 2. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögum um mannvirki, nr. 160/2010, er kveðið á um að Mannvirkjastofnun og byggingarfulltrúar hafi frest til 1. janúar 2018 til að afla sér faggildingar til að fara yfir hönnunargögn og annast úttektir, sbr. 19. gr. laganna. Tilgangur frumvarpsins er að lengja þann frest.
    Umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði starfshóp, 25. maí 2016, sem hafði það hlutverk að gera tillögur að breytingu á regluverki laganna, þar á meðal um frestun á gildistöku faggildingar skv. 19. gr. Starfshópinn skipuðu Hafsteinn Pálsson, verkfræðingur, og William Freyr Huntingdon-Williams, lögfræðingur, báðir hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Ingibjörg Halldórsdóttir, sviðsstjóri lögfræðisviðs Mannvirkjastofnunar, og Tryggvi Þórhallsson, lögfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru hluti af vinnu við breytingar á lögum um mannvirki vegna yfirlýsingar ríkisstjórnar 28. maí 2015 um ráðstafanir til að greiða fyrir gerð kjarasamninga. Í yfirlýsingunni kemur m.a. fram það markmið að lækka byggingarkostnað og einfalda stjórnsýslu við mannvirkjagerð. Þá byggjast breytingarnar einnig á aðgerðaáætlun stjórnvalda í húsnæðismálum frá júní 2017.
    Í ljósi þess að undirbúningur embætta byggingarfulltrúa til að afla sér faggildingar er skammt á veg kominn og gera má ráð fyrir að skortur verði á lögbærum aðilum samkvæmt lögum um mannvirki til að annast þau verkefni sem krefjast faggildingar frá og með 1. janúar 2018 er nauðsynlegt að leggja fram sérstakt frumvarp þar sem eingöngu er lögð til sú breyting á lögunum að umræddur frestur í bráðabirgðaákvæðinu verði framlengdur.
    Við vinnslu frumvarpsins var tekið mið af reynslu af framkvæmd laganna og ákvæðum byggingarreglugerðar, nr. 112/2012.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er lagt til að Mannvirkjastofnun og byggingarfulltrúar fái rýmri frest til að afla sér faggildingar í samræmi við ákvæði 19. gr. laga um mannvirki. Með þessu er komið til móts við athugasemdir Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags byggingarfulltrúa sem hafa lagt áherslu á að embættum byggingarfulltrúa verði veittur rýmri frestur til þess að afla sér faggildingar en gefinn er í núgildandi lögum. Það er gert í ljósi þess að undirbúningur embætta byggingarfulltrúa til að afla sér faggildingar er skammt á veg kominn þrátt fyrir að ákvæði þar um hafi verið í lögum frá gildistöku laga nr. 160/2010 1. janúar 2011. Jafnframt er ráðuneytinu ekki kunnugt um fyrirtæki á markaði sem hafa fullnægt kröfum laganna til þess að annast verkefni sem krefjast faggildingar. Verði ekki brugðist við með framlengingu tímafrests má gera ráð fyrir að skortur verði á lögbærum aðilum til að annast verkefni sem krefjast faggildingar frá og með 1. janúar 2018.
    Samhliða þessari breytingu er lagt til að heimildir Mannvirkjastofnunar til að framkvæma úttektir á gerð og virkni gæðastjórnunarkerfa verði framlengdar til 1. janúar 2020, til samræmis við aðrar breytingar.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins kallar ekki á sérstaka skoðun á samræmi ákvæða þess við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Starfshópurinn fékk á fund sinn í upphafi árs 2017 til samráðs og kynningar ýmsa aðila sem starfa að framkvæmd mannvirkjamála, þar á meðal fulltrúa frá Arkitektafélagi Íslands, Byggingafræðingafélagi Íslands, Félagi byggingarfulltrúa, Samtökum iðnaðarins og Verkfræðingafélagi Íslands.
    Óskað var eftir athugasemdum við efni frumvarpsins með almennri kynningu og auglýsingu sem birtist m.a. á vef ráðuneytisins í lok sumars 2017. Þær athugasemdir sem bárust, varðandi faggildingu Mannvirkjastofnunar og byggingarfulltrúa, sneru að því að lengja tímafrestinn til þess að afla faggildingar. Í framhaldi af yfirferð umsagna er bárust var gerð sú breyting að framlengja frest Mannvirkjastofnunar og byggingarfulltrúa til að afla sér faggildingar. Í þessu fólst framlenging til 1. janúar 2019 til að afla sér faggildingar til að yfirfara séruppdrætti og annast úttektir og til 1. janúar 2020 til að afla sér faggildingar til að yfirfara aðaluppdrætti.

6. Mat á áhrifum.
    Með frumvarpinu er komið til móts við athugasemdir Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags byggingarfulltrúa sem hafa lagt áherslu á að embættum byggingarfulltrúa verði veittur rýmri frestur til þess að afla sér faggildingar en gefinn er í gildandi ákvæði.
    Ekki er gert ráð fyrir að samþykkt frumvarpsins hafi nein fjárhagsáhrif fyrir ríkissjóð.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með greininni eru lagðar til breytingar á ákvæði laganna til bráðabirgða hvað varðar kröfu um faggildingu Mannvirkjastofnunar og byggingarfulltrúa, sem í lögunum er gert ráð fyrir að verði uppfyllt 1. janúar 2018. Markmið greinarinnar er að áfangaskipta innleiðingu á faggildingu leyfisveitenda og lengja þann frest sem nú þegar gildir um faggildingu leyfisveitenda. Það er gert í ljósi þess að undirbúningur embætta byggingarfulltrúa til að afla sér faggildingar er skammt á veg kominn þrátt fyrir að ákvæði þar um hafi verið í lögum frá 1. janúar 2011. Skilyrði gildandi laga gera það að verkum að það mun reynast byggingarfulltrúum ógerlegt að rækja lögbundin hlutverk sín. Að öðru leyti er vísað til þess sem fram kemur fyrr í greinargerðinni.
    Þá er jafnframt lagt til að tímabil úttekta Mannvirkjastofnunar á gerð og virkni gæðastjórnunarkerfa verði lengt til 1. janúar 2020, til samræmis við aðrar breytingar.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.