Ferill 16. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Prentað upp.

Þingskjal 16  —  16. mál.
Flutningsmenn.
Beiðni um skýrslu


frá umhverfis- og auðlindaráðherra um aðdraganda að útgáfu starfsleyfis til kísilverksmiðju Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík o.fl.


Frá Hönnu Katrínu Friðriksson, Jóni Steindóri Valdimarssyni, Þorgerði K. Gunnarsdóttur, Þorsteini Víglundssyni, Oddnýju G. Harðardóttur, Loga Einarssyni, Guðjóni S. Brjánssyni, Halldóru Mogensen, Ásmundi Friðrikssyni, Vilhjálmi Árnasyni, Ara Trausta Guðmundssyni og Rósu Björk Brynjólfsdóttur.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að umhverfis- og auðlindaráðherra flytji Alþingi skýrslu um aðdraganda að útgáfu starfsleyfis til kísilverksmiðju Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík og framtíð rekstrar. Ítarleg greining verði gerð á því hver eftirfylgni með verkferlum og endurskoðun þeirra hefur verið, kostnaður ríkisins og fyrirsjáanlegur óbeinn kostnaður af umhverfismengun.

Greinargerð.

    Þessi beiðni um skýrslu var áður flutt á 147. löggjafarþingi (115. mál) og er nú endurflutt.
    Stóriðjustarfsemi á Íslandi hefur frá upphafi vega hlotið ýmiss konar ívilnun af hálfu stjórnvalda, t.d. í formi skattaívilnana og hagstæðs raforkuverðs. Þá hefur starfsemi af þessum toga löngum verið umdeild í ljósi sjónarmiða sem varða umhverfisvernd og mengunarvarnir, nú síðast að því er varðar starfsemi Sameinaðs sílikons í Helguvík. Í ljósi þess að verulegir ágallar virðast hafa verið á undirbúningi og framkvæmd þess verkefnis, sérstaklega með hliðsjón af neikvæðum áhrifum á umhverfi og nærsamfélag starfseminnar, fara flutningsmenn fram á það að ráðherra láti greina ítarlega ferla og ákvarðanatöku stjórnvalda í aðdraganda að veitingu starfsleyfis til fyrirtækisins. Flutningsmenn telja nauðsynlegt að slík skoðun fari fram, ekki síst til að draga fram hvort samfélagslegur ávinningur réttlæti umræddar ívilnanir stjórnvalda til starfsemi af þessu tagi.
    Framtíð starfsemi verksmiðju Sameinaðs sílikons hf. er enn óljós. Óskað er eftir að gerð verði grein fyrir því hvaða sjónarmið og athuganir þurfi að liggja fyrir til grundvallar mati á starfseminni, ef af verður. Meðal annars verði leitað svara við eftirfarandi spurningum:
     1.      Hver er munurinn á þeim forsendum fyrir veitingu starfsleyfis sem lágu fyrir í upphafi og þeim raunveruleika sem nú blasir við?
     2.      Hvaða kröfur eru gerðar af hálfu stjórnvalda til upplýsinga frá rekstraraðilum í aðdraganda útgáfu starfsleyfis? Hvaða upplýsingar lágu fyrir í umræddu tilviki og voru þær fullnægjandi?
     3.      Er til staðar af hálfu ríkisins kostnaðar- og ábatagreining sem leiðbeinir stjórnvöldum um það hversu langt eigi að ganga í að gefa rekstraraðilum færi á að ráðast í fullnægjandi úrbætur áður en endanleg ákvörðun verður tekin um framtíð verksmiðjunnar?
     4.      Hversu mikinn kostnað hefur íslenska ríkið lagt í verkefnið?
     5.      Hver er fyrirsjáanlegur óbeinn kostnaður af þeirri umhverfismengun sem þegar hefur orðið?
     6.      Hafa verkferlar um útgáfu starfsleyfis og eftirlit með starfsemi af þessum toga verið teknir til endurskoðunar í ljósi þess að fyrirhugað er að hefja sams konar starfsemi á öðrum landsvæðum eða stendur til að ráðast í slíka endurskoðun?