Ferill 19. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 19  —  19. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, nr. 88/1995 (leyfi frá opinberu starfi og starf með þingmennsku).

Flm.: Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


1. gr.

    4. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpinu er lagt til að 4. gr. laga um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, nr. 88/1995, falli brott en ákvæðið mælir fyrir um rétt alþingismanns til leyfis frá opinberu starfi sem hann gegnir, í allt að fimm ár og tryggingu á sambærilegu starfi hjá hinu opinbera í fimm ár eftir það, afsali hann sér starfinu. Einnig er gert ráð fyrir því að alþingismaður geti gegnt starfi hjá ríki eða ríkisstofnun með þingmennsku og notið launa fyrir það starf.
    Að mati flutningsmanna gerir ákvæðið að verkum að augljóslega er betra að verða alþingismaður eftir að hafa sinnt störfum fyrir hið opinbera en að koma af hinum almenna vinnumarkaði. Það er engin ástæða til að hygla opinberum starfsmönnum umfram aðra og er því lagt til að lagagreinin falli brott.