Ferill 38. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 38  —  38. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007 (frítekjumark vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar).

Flm.: Halldóra Mogensen, Björn Leví Gunnarsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


1. gr.


    Í stað „300.000 kr.“ í b-lið 2. mgr. 16. gr. laganna kemur: 1.315.200 kr.

2. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2018.

Greinargerð.

    Meðal greiðslna sem örorkulífeyrisþegar hljóta er svonefnd tekjutrygging, en mælt er fyrir um hana í 22. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar. Tekjutrygging er greiðslur sem skal greiða þegar tekjur eru undir ákveðnu marki, svonefndu frítekjumarki. Við ákvörðun á því hvort einstaklingur eigi rétt á tekjutryggingu er litið til allra tekna hans að undanskildum greiðslum frá Tryggingastofnun, húsaleigubótum og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Samkvæmt b-lið 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar skulu tekjur lífeyrisþega af atvinnu hafa áhrif við útreikning á fjárhæð tekjutryggingar skv. 22. gr., sbr. þó 4. mgr. Þá segir að örorkulífeyrisþegi skuli hafa 300.000 kr. frítekjumark vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar. Með þessu er kveðið á um grunnupphæð frítekjumarks vegna atvinnutekna, en undanfarin ár hefur hækkun frítekjumarks verið haldið við með setningu bráðabirgðaákvæða. Raunverulegt frítekjumark hefur frá 2009 verið 1.315.200 kr., en sú fjárhæð hefur verið endurnýjuð árlega með setningu nýs bráðabirgðaákvæðis.
    Bág kjör örorkulífeyrisþega hafa mikið verið til umræðu undanfarin missiri. Möguleiki þeirra til að afla sér aukinna tekna án viðamikilla skerðinga skiptir miklu máli. Í þeirri venju sem hér hefur myndast, að ár hvert séu sett ný lög sem framlengja bráðabirgðaákvæði sem kveður á um hærra frítekjumark, felst gífurleg óvissa og óöryggi. Þegar slíkt óöryggi snýr að atvinnuaðstæðum manna er vegið að möguleikum þeirra til að sjá sjálfum sér og fjölskyldu sinni farborða. Margir öryrkjar hafa lýst því yfir að þetta fyrirkomulag valdi þeim miklum kvíða þar sem tekjuöflun þeirra er ekki örugg. Það er óásættanlegt að óvissu um réttindi þessa hóps sé viðhaldið með þessum hætti. Nauðsynlegt er að tryggja fyrirsjáanleika í tekjuöflun þeirra sem þiggja örorkulífeyri. Með ákvæði samkvæmt frumvarpi þessu væri fyrirsjáanleiki tryggður, auk þess sem óvissu og óöryggi væri eytt.
    Þar sem að þessi aðgerð felur ekki í sér breytingu frá núverandi fyrirkomulagi, einungis varanlega lögfestingu þess, mun samþykkt frumvarpsins ekki fela í sér aukinn kostnað ríkissjóðs og því er ekki þörf á að fjalla sérstaklega um hann.
    Með frumvarpinu er upphæð frítekjumarks sem kveðið er á um í b-lið 2. mgr. 16. gr. laganna hækkuð úr 300.000 kr. í 1.315.200 kr., og sú upphæð sem hingað til hefur verið endurnýjuð ár frá ári með bráðabirgðaákvæði lögfest varanlega.