Ferill 39. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Prentað upp.

Þingskjal 39  —  39. mál.
Leiðrétt fjárhæð.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð, með síðari breytingum (afnám sérstakrar uppbótar til framfærslu).

Flm.: Halldóra Mogensen, Björn Leví Gunnarsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


I. KAFLI

Breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum.
1. gr.

    Í stað „956.088 kr.“ í 3. mgr. 22. gr. laganna kemur: 2.465.376 kr.

II. KAFLI

Breyting á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, með síðari breytingum.

2. gr.

    2. mgr. 9. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2018.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er sérstök uppbót til framfærslu, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, felld úr gildi og fjárhæð hennar færð undir 22. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007. Með því að fella úr gildi sérstaka uppbót til framfærslu og færa hámarksfjárhæð hennar inn í ákvæði um tekjutryggingu er stuðlað að minni skerðingu fyrir lífeyrisþega þar sem sérstaka uppbótin skv. 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð skerðist um 100% vegna allra tekna sem lífeyrisþegi kann að fá. Slík skerðing hefur í daglegu tali verið nefnd „krónu á móti krónu“ skerðing. Það gerir það að verkum að fyrir ákveðna upphæð tekna skerðast lífeyrisgreiðslur að sama marki og verða því tekjur lífeyrisþega óbreyttar þrátt fyrir atvinnuþátttöku hans. Það að ein gerð tekna eyði annarri gerð að öllu leyti hefur mjög letjandi áhrif á atvinnuþátttöku lífeyrisþega.
    Margir lífeyrisþegar hafa kosið að taka ekki þátt á atvinnumarkaði vegna umfangs þeirra skerðinga sem þeir mundu þá verða fyrir. Ákvörðun um að taka ekki þátt í vinnumarkaði getur virst betri fyrir lífeyrisþega þar sem atvinnuþátttaka þeirra mundi ekki skila þeim auknum tekjum. Vegna þessa sjá margir lífeyrisþegar sér ekki hag í að vinna þrátt fyrir að þeir kunni að hafa starfsgetu. Hætta er á að upplifun þeirra verði sú að vinnuframlag þeirra sé lítils eða einskis virði. Með afnámi þessarar uppbótar myndast aukinn hvati til atvinnuþátttöku þeirra sem þessi uppbót á við um í dag.
    Skerðing á sérstakri uppbót til framfærslu vegna atvinnutekna var áður einnig við lýði hjá ellilífeyrisþegum. Hún var afnumin með lögum um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um málefni aldraðra, nr. 116/2016, þar sem gerðar voru ýmsar einfaldanir og breytingar á ellilífeyriskerfinu. Að gera slíkt hið sama fyrir örorkulífeyrisþega er réttlætismál óháð hugmyndum um starfsgetumat.
    Á 146. löggjafarþingi lagði Björn Leví Gunnarsson fram fyrirspurn til félags- og jafnréttismálaráðherra. Meðal þess sem fram kom í fyrirspurninni var eftirfarandi:
    „Hver yrði árlegur aukakostnaður ríkissjóðs við almannatryggingakerfið af því að fella sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu skv. 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð inn í tekjutryggingu skv. 22. gr. laga um almannatryggingar þannig að hætt yrði að skerða uppbótina „krónu á móti krónu“ vegna annarra tekna lífeyrisþega?“
    Samkvæmt svari ráðherra yrði kostnaður við slíka aðgerð 10,9 milljarðar kr. Gæta verður þó að því að þar er einungis metinn hreinn kostnaður við slíka aukningu. Ekki er lagt mat á mögulegar tekjur sem mundu skapast af þessari aðgerð, t.d. með aukinni atvinnuþátttöku lífeyrisþega, aukinni framleiðslu og auknum skatttekjum.
    Fjárhæð sérstakrar uppbótar til framfærslu til tekjulausra örorkulífeyrisþega fer eftir því hversu háa upphæð þeir fá í aldurstengda örorkuuppbót og eftir því hvort þeir búa einir eða ekki. Fjárhæðin fer úr því að vera 4.953 kr. á mánuði hjá þeim sem búa með öðrum og eru með hæstu mögulegu aldurstengda örorkuuppbót í að vera 59.000 kr. á mánuði hjá þeim sem búa einir og eru með lægstu mögulegu aldurstengda örorkuppbót. Til að tryggja að enginn lífeyrisþegi verði fyrir skerðingu vegna frumvarps þessa er nauðsynlegt að hækkun tekjutryggingar sé jafnhá og hæsta mögulega fjárhæð sérstakrar uppbótar til framfærslu. Er því gert ráð fyrir því að sérstök uppbót til framfærslu falli niður og í staðinn hækki tekjutrygging um 59.000 kr. á mánuði. Í fjárhæð skv. 1. gr. þessa frumvarps hefur verið gert ráð fyrir 4,7% hækkun sem fram kemur í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2018. Sú fjárhæð sem nefnd er í 1. gr. byggist á fjárhæð tekjutryggingar 1. janúar 2017. Sé talan uppfærð um 4,7% eins og gert er í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2018 og sérstök uppbót til framfærslu felld inn í verður ný fjárhæð 2.465.376 kr.