Ferill 43. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 43  —  43. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um byggingu 5.000 leiguíbúða.


Flm.: Logi Einarsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir, Oddný G. Harðardóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að koma að byggingu að minnsta kosti 5.000 leiguíbúða svo fljótt sem auðið er. Íbúðirnar eiga að nýtast til þess að koma fótunum undir leigumarkað sem er rekinn án hagnaðarsjónarmiða.

Greinargerð.

    Það er nauðsynlegt að bregðast við neyðarástandi á húsnæðismarkaði þar sem mikill fjöldi fólks fær ekki lausnir við hæfi og býr við mikið óöryggi. Koma þarf ungu fólki og leigjendum í öruggt húsaskjól og mæta kröfum stéttarfélaga um aukinn félagslegan stöðugleika.
    Það er best gert með því að ríkið komi að stórfelldri uppbyggingu á íbúðum til að mæta skorti og tryggi að sú mikla uppbygging á nýjum íbúðum sem er í farvatninu nýtist þeim sem lakast standa á húsnæðismarkaði. Aðkoma ríkisins er nauðsynleg til þess að leggja grunn að traustum leigumarkaði og tryggja að mikil fjölgun íbúða á næstu árum verði hagkvæm fyrir samfélagið og nýtist í baráttunni gegn fátækt.
    Útfæra þarf aðkomu ríkisins í nánu samstarfi við sveitarfélögin í landinu og Íbúðalánasjóð. Meta þarf hvar þörfin er fyrir nýtt húsnæði og tryggja að uppbygging eigi sér stað þar.
    Aðkoma ríkisstjórnarinnar að uppbyggingu 5.000 íbúða samkvæmt þingsályktunartillögu þessari verði á grundvelli laga um almennar íbúðir, nr. 52/2016. Veita þarf stofnstyrki á grundvelli laga um almennar íbúðir í ríkari mæli en nú er gert. Árið 2015 var samið við stéttarfélög um uppbyggingu 2.300 almennra íbúða. Byggja þarf mun fleiri íbúðir og hraða uppbyggingunni. Íbúðalánasjóður áætlar að til ársloka ársins 2019 verði þörf fyrir 9.000 nýjar íbúðir á landinu öllu og rúmlega 2.000 á hverju ári þar á eftir.