Ferill 7. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Prentað upp.

Þingskjal 73  —  7. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, með síðari breytingum (dvalarleyfi vegna iðnnáms).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Berglindi Báru Sigurjónsdóttur, Bryndísi Helgadóttur, Ívar Má Ottason og Lilju Borg Viðarsdóttur frá dómsmálaráðuneyti, Tönju Ýri Jóhannsdóttir frá Útlendingastofnun og Elísabetu Pétursdóttur og Ólaf Grétar Kristjánsson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti.
    Frumvarpið felur í sér breytingar á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, þess efnis að annars vegar er lögfest heimild til að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi vegna iðnnáms eða annars viðurkennds starfsnáms á framhaldsskólastigi og hins vegar er felld út skilgreining á hugtakinu nám í orðskýringaákvæði 3. gr. laganna, en þess í stað verður skilgreining á námi takmörkuð við skýringu í 1. mgr. 65. gr. laganna.
    Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að tilgangur með frumvarpinu er að færa framkvæmd varðandi dvalarleyfi vegna náms til fyrra horfs, nánar tiltekið þess sem í gildi var í eldri lögum um útlendinga, nr. 96/2002, þannig að heimilt verði að veita dvalarleyfi til nema sem hyggjast stunda hér iðnnám eða viðurkennt starfsnám á framhaldsskólastigi. Í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga, nr. 80/2016, er ekki að finna skýra vísbendingu um að fella iðnnám sérstaklega úr skilgreiningu laganna á námi.
    Við meðferð málsins fyrir nefndinni var fjallað um hvort skilgreining á námi í frumvarpi þessu væri fullnægjandi, sérstaklega er varðar iðnnám og viðurkennt starfsnám á framhaldsskólastigi. Fram kom að slíkt nám þurfi að skilgreina í námskrá og ráðherra að samþykkja. Nefndin leggur áherslu á að gætt verði samræmis milli laga um útlendinga, nr. 80/2016, og þeirra laga og reglna sem gilda um nám.
    Enn fremur fór nefndin yfir fyrirkomulag sem gildir um dvalarleyfi barna námsmanna og rétt þeirra til að dvelja hér á landi á grundvelli dvalarleyfis foreldra þeirra. Núgildandi lög kveða á um að aðeins maki, sambúðarmaki og börn þeirra námsmanna sem stunda framhaldsnám á háskólastigi, doktorsnám og rannsóknir hér á landi á grundvelli 65. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, geti með umsókn fengið dvalarleyfi, sbr. 1. mgr. 69. gr. laganna. Nefndin telur að þetta fyrirkomulag feli í sér mismunun eftir tegund náms. Það verður ekki séð hver nauðsyn þess er að undanskilja börn eða maka námsmanna í öðru námi sem 65. gr. laga um útlendinga tekur til, þ.e. að undanskilja iðnnám og grunnnám á háskólastigi. Mikilvægt er að iðnnám og grunnnám á háskólastigi sé að þessu leyti metið til jafns við framhaldsnám á háskólastigi og doktorsnám. Nefndin telur að núverandi fyrirkomulag geti stuðlað að misrétti kynjanna til náms. Þannig gætu konur með börn síður átt möguleika á að sækja hingað í nám ef réttindi barna þeirra eða þeirra sem hér kunna að fæðast eru ekki tryggð með viðunandi hætti. Nefndin beinir því til ráðuneytisins að leggja til úrbætur við næstu endurskoðun laganna í upphafi árs 2018.
    Nefndin telur mikilvægt að skoða löggjöfina með hliðsjón af löggjöf Finnlands, Noregs og Svíþjóðar í þeim efnum sem og almennt reglur um dvalarleyfi barna. Þar virðist sem að dvalarleyfi til náms sé ekki takmarkað við ákveðna tegund af námi líkt og tíðkast hefur hér og í Danmörku. Nefndin beinir því til ráðuneytisins að þetta fyrirkomulag verði skoðað með hliðsjón af löggjöf þessara landa og brýnir mikilvægi þess að tryggja jafnrétti og rétt barna til samvista við foreldra sína. Þá sé rétt að samræmi sé við alþjóðasamninga um réttindi barna.
    Við meðferð málsins í nefndinni var fjallað um starfsnám sem er ótengt námi á háskólastigi. Í 4. mgr. 65. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að heimilt sé að veita útlendingi dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu að uppfylltum skilyrðum a-liðar 2. mgr. vegna náms sem fram fer á vinnustöðum hér á landi enda hafi verið veitt tímabundið atvinnuleyfi á grundvelli laga um atvinnuréttindi útlendinga. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um útlendinga segir að 4. mgr. 65. gr. sé nýmæli þar sem um sé að ræða heimild sem hægt sé að veita útlendingi til að stunda nám á háskólastigi sem fram fer á vinnustöðum. Nefndin beinir því til ráðuneytisins að skoða hvort tilefni sé til breytinga vegna þessa og hvort starfsnám sem er ótengt námi á háskólastigi geti einnig veitt rétt til dvalar hér á landi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
    Nefndin bendir á að eftir gildistöku laga um útlendinga, nr. 80/2016, hafa verið gerðar nokkrar breytingar á lögunum. Nefndin leggur áherslu á mikilvægi þess að vandað sé til verka við samningu laga þegar um persónuleg réttindi einstaklinga er að ræða.
    Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 21. desember 2017.

Páll Magnússon,
form.
Steinunn Þóra Árnadóttir, frsm. Guðmundur Andri Thorsson.
Andrés Ingi Jónsson. Anna Kolbrún Árnadóttir. Birgir Ármannsson.
Jón Steindór Valdimarsson. Líneik Anna Sævarsdóttir. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.