Ferill 3. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 83  —  3. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2018.

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Annar minni hluti vill í upphafi lýsa vonbrigðum með það fyrirkomulag sem viðhaft hefur verið við afgreiðslu nefndarinnar og Alþingis í heild á frumvarpi því sem hér er til umfjöllunar samhliða frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2018. Með því að veita fagnefnd Alþingis örfáa daga til að fjalla um jafnviðamikil og -mikilvæg mál er faglegum vinnubrögðum kastað fyrir róða og aðkoma þingsins að vinnunni, einkum stjórnarandstöðuflokkanna, veikt og nánast að engu höfð. Annar minni hluti telur þennan hátt með öllu óforsvaranlegan og lýsir eindreginni andstöðu við vinnubrögðin.
    Af tillögum í frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2018 má sjá að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hyggst ekki beita skatta- og bótakerfinu til að vinna gegn vaxandi ójöfnuði í samfélaginu. Ójöfnuður hefur aukist hratt hér á landi undanfarin ár. Nú er nettóeign þeirra 5% landsmanna sem mest eiga jafnmikil og samanlögð eign 95% landsmanna svo sláandi dæmi sé tekið.
    Á árunum fyrir efnahagshrunið jókst ójöfnuður hér á landi mikið og mun meira en annars staðar á Vesturlöndum en minnkaði síðan í hruninu. Um þetta er m.a. fjallað í bókinni Ójöfnuður á Íslandi sem kom út á dögunum eftir þá Stefán Ólafsson og Arnald Sölva Kristjánsson. Þar kemur fram að um tveir þriðju aukins ójafnaðar fyrir hrun skýrist af miklum vexti fjármagnstekna í efri hluta tekjustigans. Stærsti hluti þess þriðjungs sem eftir stendur skýrist af breyttri stefnu stjórnvalda í skatta- og bótamálum. Eftir hrun snerist þetta algjörlega við því þá skýrðist vaxandi jöfnuður að einum þriðja hluta af stefnu stjórnvalda í skatta- og bótamálum en af tveimur þriðju hlutum af minnkandi fjármagnstekjum. Nú hefur sú þróun sem varð fyrir efnahagshrunið hins vegar hafist aftur og aðgerðir ríkisstjórnarinnar ýta undir vaxandi ójöfnuð líkt og aðgerðir hinna tveggja ríkisstjórnanna sem starfað hafa eftir hrun.
    Stjórnvöld búa yfir stýritækjum sem geta í senn mildað og magnað ójöfnuðinn í skiptingu tekna og eigna í samfélaginu. Spurningin er aðeins hvort eða hvernig þau beita þeim stýritækjum. Ljóst er að stefna ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er að ekki eigi að beita stýritækjunum til að auka jöfnuð á árinu 2018.
    Miðstjórn ASÍ bendir í ályktun sinni um fjárlagafrumvarpið á að rannsókn hagdeildar ASÍ á skattbyrði sýni að skattbyrði launafólks síðastliðin 20 ár hafi aukist og þeim mun meira eftir því sem tekjurnar séu lægri. „Það eru því mikil vonbrigði að ekki sé brugðist við þessari þróun í fjárlagafrumvarpinu heldur þvert á móti haldið áfram á sömu braut með því að lækka útgjöld til barnabóta, vaxtabóta og húsnæðisbóta. Tekjuójöfnuður mun halda áfram að aukast þar sem dregið er enn frekar úr jöfnunarhlutverki skattkerfisins,“ segir í ályktuninni.
    Skattastefna stjórnvalda segir til um hvernig þau vilja búa að almenningi og hvernig stjórnvöld vilja sjá samfélagið þróast. Jöfnunarhlutverk skattkerfisins og áhrif þess á eignamyndun og tekjudreifingu eru ekki síður mikilvæg en tekjuöflunarhlutverk þess. Franski hagfræðingurinn Thomas Piketty er sama sinnis og leggur til í metsölubók sinni sem kom út árið 2014 að komið verði á þrepaskiptum fjármagnsskatti til að auka jöfnuð í heiminum. Hann telur að skattkerfið sé langáhrifamesta tæki samfélagsins til að ná því markmiði að jafna kjör fólks.
    OECD (Efnahags- og framfarastofnunin) birti í desember 2014 skýrslu þar sem vitnað er til rannsókna sem sýna að aukinn ójöfnuður dregur úr hagvexti. Þær rannsóknir og fleiri virtar rannsóknir sýna að meiri jöfnuður leiðir til sanngjarnari samfélaga og styrkir hagkerfi og hagsæld. Breytingar síðustu ára hér á landi á barna- og húsnæðisbótum, virðisaukaskatti og tekjuskatti ásamt afnámi auðlegðarskatts hafa allar haft neikvæð áhrif á tekjujöfnun. Niðurstöður alþjóðlegra rannsókna, sem sýna neikvæð áhrif ójafnaðar á samfélög ásamt íslenskum og erlendum greiningum sem sýna skýr áhrif tekjujöfnunaraðgerða ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, ættu að vera stjórnarmeirihlutanum næg rök fyrir því að hverfa frá stefnu ójafnaðar síðastliðinna ára og ætti meiri hlutinn að forðast að róa aftur á mið vaxandi misskiptingar.

Fjármagnstekjuskattur.
    Annar minni hluti er hlynntur hækkun á fjármagnstekjuskatti. Hlutur fjármagnstekna af heildartekjum hátekjuhópa hefur vaxið umtalsvert eftir hrun. Frá árinu 2012 til ársins 2016 var samanlögð raunhækkun launatekna um 24% en hækkun fjármagnstekna um 58%. Annar minni hluti gagnrýnir hins vegar að hækkunin er smávægileg og verður ekki til þess að þeir sem mestar fjármagnstekjurnar hafa nýti sér skattahagræði með því að greiða sér arð frekar en laun. Hækkunin frá neðra þrepi tekjuskattskerfisins er aðeins 0,66 prósentustig en 8,64 prósentustig eru enn upp í hærra tekjuskattsþrepið. Auk þess gagnrýnir 2. minni hluti það að um leið og tilkynnt var um hækkun fjármagnstekjuskattsins var einnig greint frá áformum um að breyta skattstofninum. Sérstaklega yrði skoðað hvort skattleggja ætti raunávöxtun fjármagnstekna en ef það verður niðurstaðan þýðir breytingin sennilega tekjutap fyrir ríkissjóð en bætta stöðu þeirra sem mestar hafa fjármagnstekjurnar.

Barnabætur.
    Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur leggur til nákvæmlega sömu krónutölu til barnabóta og ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar gerði, en viðmiðum til úthlutunar barnabóta er lítillega breytt. Foreldrar með minna en 242.000 kr. í mánaðarlaun fá óskertar barnabætur í stað 225.000 kr. í ár. Greiðslur með fyrsta barni hækka aðeins um 1.447 krónur á mánuði og greiðslur hækka um 1.758 kr. á mánuði við hvert barn eftir það. Það er allt og sumt og ótrúlega rýrt í ljósi þess að barnabætur hafa dregist saman um 23% að raunvirði frá árinu 2008. Þeim fjölskyldum sem njóta barnabóta hefur fækkað um 12 þúsund frá árinu 2013.
    Á Norðurlöndum og víða í Evrópu hefur ríkt mikil sátt um gildi stuðnings til barnafjölskyldna en hér hafa hægri stjórnir dregið úr vægi þeirra og þeirri stefnu á að halda áfram í ríkisstjórn undir forystu Vinstri grænna. Barnabætur á Norðurlöndum eru föst upphæð á barn á meðan stuðningur á Íslandi er háður fjölda og aldri barna, tekjum foreldra og hjúskaparstöðu. 2. minni hluti leggur til að þróuninni verði snúið við og barnabætur lagaðar að norræna kerfinu þar sem barnabætur hafa það hlutverk að jafna lífskjör fólks með svipaðar tekjur en mismunandi framfærslubyrði.
    Í bókinni Ójöfnuður á Íslandi eftir Stefán Ólafsson og Arnald Sölva Kristjánsson er fjallað um áhrif barnabóta og þeirra viðmiða sem eru notuð við úthlutun bótanna. Raunin er sú að mikil skerðing barnabóta strax við lágar tekjur, líkt og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur leggur til, stuðlar að meiri fátækt meðal vinnandi fólks. Hjón sem bæði eru í launaðri vinnu en á lágum launum fá litlar barnabætur hér á landi og það er ein af ástæðunum fyrir því að fátækt meðal barnafjölskyldna er meiri en hjá barnlausum fjölskyldum. Þetta er þekkt staðreynd og engra frekari greininga er þörf. Ríkisstjórnin þarf ekki að bíða með aðgerðir og ætti að hækka barnabæturnar strax og breyta viðmiðum úthlutunar. Annar minni hluti leggur til breytingar sem miða að því að skref verði tekið í átt til hækkunar barnabóta. Fyrsta skrefið verði breytingar á viðmiðunartölum í 3. málsl. 4. mgr. A-liðar 68. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.

Vaxtabætur.
    Þrengri fjárhagsleg staða ungs fólks og veiking barnabóta- og vaxtabótakerfisins hefur vafalaust haft áhrif á það að barneignum hefur fækkað hér á landi. Lífskjör ungs fólks eru nú verri en foreldrar þess bjuggu við og staða ungs fólks á húsnæðismarkaði hefur versnað. Minnkandi stuðningur stjórnvalda til barnafjölskyldna er því risastórt skref aftur á bak. Samhliða skuldaleiðréttingunni svokölluðu á þarsíðasta kjörtímabili lækkuðu stjórnvöld vaxtabætur, létu barnabætur tapa verðgildi sínu og gerðu tekjuskerðingar bótanna þar að auki grimmari. Fólk sem á rétt á vaxtabótum sér afborganir sínar lækka lítillega en vaxtabæturnar lækka miklu meira þar sem fasteignaverð hefur hækkað umtalsvert. Mörg heimili sitja vegna þessa eftir með mun minna ráðstöfunarfé en áður.
    Hugmyndin með vaxtabótum er að auka ráðstöfunarfé þeirra sem eru með lágar tekjur og meðaltekjur og taka þátt í þeim mikla vaxtakostnaði sem lagður er á fólk með þeirri ákvörðun að halda úti minnsta sjálfstæða gjaldmiðli í heimi, íslensku krónunni. Þetta jöfnunartæki vill ríkisstjórnin veikja enn frekar. Það telur 2. minni hluti mikið óráð og alls ekki til hagsbóta fyrir fólk með lágar tekjur eða meðaltekjur og leggur til breytingar.

Óábyrg hagstjórn.
    Annar minni hluti varar við þeim áformum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur sem felast í því að lækka skatta og auka útgjöld í senn á toppi hagsveiflunnar. Annar minni hluti telur nauðsynlegt bregðast við mikilli þörf fyrir innviðauppbyggingu en hana þarf að fjármagna með varanlegum tekjum í stað óreglulegra tekna. Fjármálaráð, hagdeild ASÍ og fleiri hafa bent á að rekstur ríkisins er í járnum ef litið er fram hjá áhrifum hagsveiflunnar. Óábyrg hagstjórn mun valda almenningi tjóni í formi versnandi kjara.

Loftslagsmarkmið og grænir skattar.
    Íslenskt samfélag stendur frammi fyrir gríðarlegum áskorunum sem felast í loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á umhverfi og samfélag. Það er forgangsverkefni að setja hagstjórnina í samhengi við breyttar aðstæður í heiminum, endurskoða hagræna mælikvarða og koma á loftslagsbókhaldi í ríkisrekstrinum. Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sem féll í haust, lagði nokkra áherslu á græna skatta en ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur fellur frá áformum hennar um tvöföldun kolefnisgjalda. Nú er lagt til að þau verði hækkuð um 50%. Áætlað er að ríkissjóður verði af 2 milljörðum kr. miðað við áform fyrri ríkisstjórnar vegna þessa. Hvatinn til að skipta yfir í vistvænar samgöngur minnkar sem því nemur og fjárhæðin sem fer í samneysluna minnkar að sama skapi.
    Enginn vafi er á því að ef góður árangur á að nást í baráttunni gegn hlýnun jarðar verður að minnka útblástur. Til að samstaða náist um græna skatta þarf að skoða þá í samhengi við aðrar skattbreytingar. Ganga verður þannig frá málum að grænir skattar leggist ekki þungt á viðkvæma hópa og að ekki sé gefið með annarri hendi en tekið með hinni. Áform ríkisstjórnarinnar um að gefa áfram afslátt af vörugjöldum til bílaleiga er aðgerð sem vinnur gegn markmiðum um að draga úr losun koltvísýrings. Alþingi hefur samþykkt og gefið góðan fyrirvara um að afslátturinn falli niður 1. janúar 2018. Nú nokkrum dögum fyrir gildistöku þeirra laga er lagt til að framlengja helming afsláttarins í eitt ár til viðbótar. Þetta er tillaga sem stenst enga skoðun enda bílaleigur væntanlega löngu búnar að gera ráð fyrir lagabreytingunni í áætlunum sínum um rekstur næsta árs. Áleitnar spurningar vakna einnig um skattastyrki til atvinnugreina almennt og áhrif styrkjanna á samkeppnisstöðu greinanna.
    Annar minni hluti lýsir, að framangreindu virtu, andstöðu við frumvarpið. Þá boðar 2. minni hluti að lagðar verði fram breytingartillögur í samræmi við það sem í áliti þessu greinir við 3. umræðu þar sem ekki hefur unnist tími til að afla forsendna tillagnanna.

Alþingi, 20. desember 2017.

Oddný G. Harðardóttir.