Ferill 3. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 84  —  3. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2018.

Frá 3. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Þriðji minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar gagnrýnir þær miklu skatta- og gjaldahækkanir sem felast í frumvarpinu, til að mynda hækkun á kolefnisgjaldi um 50%, hækkun á fjármagnstekjuskatti um 10%, verulegar hækkanir olíu-, kílómetra-, bensín- og bifreiðagjalda og þannig mætti lengi telja. Einnig bendir 3. minni hluti á að tryggingagjald helst óbreytt þrátt fyrir ærin tilefni til lækkunar og loforð fjármála- og efnahagsráðherra þar um frá því í janúar 2016. Þvert á móti er fram haldið með stöðuga hækkun skatta og gjalda og þeirra álagna sem atvinnulífið er látið standa undir.
    Hækkun kolefnisgjalds um 50%, sem og óljós áform um áframhaldandi hækkanir þess og um aðra græna skatta, breytir litlu sem engu um útblástur en bitnar þyngst á þeim einstaklingum og fjölskyldum sem þurfa búsetu sinnar vegna að komast leiðar sinnar akandi, þ.e. íbúum landsbyggðarinnar. 3. minni hluti gagnrýnir harðlega gegndarlausar hækkanir skatta sem aðallega leggjast landsbyggðarfólk.
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir frá þeim áformum að hækka fjármagnstekjuskatt um tvö prósentustig og markmið þess sagt vera að „gera skattkerfið réttlátara óháð uppruna tekna“. Þar virðist gleymast að taka tillit til þess að þeir sem hafa lifibrauð af fjármagnstekjum greiða ekki aðeins fjármagnstekjuskatt. Sá sem greiðir sér laun af hagnaði eigin fyrirtækis, svo sem iðnaðarmaður með fyrirtæki utan um eigin rekstur, greiðir fyrst 20% tekjuskatt lögaðila og síðan 20% fjármagnstekjuskatt ofan á það, á arðgreiðslur til eiganda. Heildarskatthlutfallið verður því 36%. Hækkun fjármagnstekjuskatts upp í 22% þýðir að þetta hlutfall verður 37,6%. Í tilviki eldri borgara sem lifir á ævisparnaði fer endanlegt skatthlutfall eftir samspili vaxta og verðbólgu og raunverulegt skatthlutfall getur hæglega farið yfir 50%. Sá sem á 100 millj. kr. sparifé á 5% vöxtum í 3% verðbólgu hefur 2 millj. kr. í tekjur af höfuðstólnum þar sem 3 millj. kr. fara í að viðhalda virði höfuðstólsins vegna verðbólgu. Viðkomandi greiðir hins vegar 20% fjármagnstekjuskatt af 5 millj. kr., sem gerir 1 millj. kr. eða 50% af rauntekjum viðkomandi. Væri markmið ríkisstjórnarinnar raunverulega að jafna skattbyrði óháð uppruna tekna þyrfti að lækka, en ekki hækka, fjármagnstekjuskatt.
    Þegar fjármagnstekjuskatti var komið á fyrir 20 árum var það sjónarmið látið ráða að hafa lága skattprósentu, 10%, fremur en hærri skattprósentu og ýmiss konar frádráttarliði á móti líkt og tíðkaðist sums staðar annars staðar. Nú er svo komið að fjármagnstekjuskattur hefur tvöfaldast, án þess að frádráttarliðir komi á móti, og hyggst ríkisstjórnin hækka hann enn frekar. Mörg rök hníga gegn því að hækkun skattsins muni skila sér í auknum tekjum ríkissjóðs. Þegar fjármagnstekjuskattur var hækkaður í skrefum upp í 18% á árunum 2009–2010, eftir að hafa staðið óbreyttur í 10% frá 1997, var fyrir að fara ströngum gjaldeyrishöftum sem stóðu í vegi fyrir stórfelldum fjármagnsflótta frá Íslandi. Sömu sögu er ekki að segja nú. Jafnframt mæla sanngirnisrök gegn hækkun fjármagnstekjuskatts. Eldri borgurum sem hafa lagt fyrir af þeim tekjum sem þeir hafa aflað og greitt tekjuskatt af er nú refsað tvöfalt; annars vegar með gríðarháum raunskatti af fjármagnstekjum, eins og dæmi var tekið um að framan, og hins vegar með skertum lífeyrisgreiðslum vegna fjármagnsteknanna.
    Margþættar hækkanir sem ríkisstjórnin boðar á krónutöluliðum eru til þess fallnar að ýta undir verðbólgu og falla illa að áformum stjórnvalda um að vera ekki leiðandi í verðlagshækkunum, áformum um afnám verðtryggingar og niðurstöðum skýrslu nefndar um leiðir til að sporna gegn sjálfvirkum vísitöluhækkunum sem forsætisráðherra skipaði í júlí 2014. 1 Krónutöluhækkanir á borð við þær sem ríkisstjórnin boðar hafa augljós víxlverkandi áhrif til almennra verðhækkana í landinu og hafa í för með sér hækkanir verðtryggðra lána heimilanna.
    Þriðja minni hluta þykir sæta furðu að á tímum fordæmalausrar uppsveiflu í efnahagsmálum gangi ríkisstjórnin fram með eintómum skatta- og gjaldahækkunum og auknum álögum án þess að á móti komi nokkur einasta lækkun. Mestri furðu sætir þar að tryggingagjald haldist óbreytt, líkt og minnst var á í inngangi, þrátt fyrir augljóst svigrúm til lækkunar þess, vegna þverrandi atvinnuleysis og góðrar stöðu ríkissjóðs, og stríðir gegn samkomulagi sem fjármála- og efnahagsráðherra og Samtök atvinnulífsins undirrituðu í janúar 2016 um lækkun þess til fyrra horfs í áföngum. Á grundvelli þessa samkomulags undirrituðu Samtök atvinnulífsins kjarasamning við ASÍ sumarið 2016. Þvert gegn loforðinu helst tryggingagjald ekki aðeins óbreytt heldur aukast álögur á fyrirtæki enn frekar vegna samspils tryggingagjalds og aukins framlags vinnuveitenda í lífeyrissjóði sem mælt er fyrir um í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2018. Eðli málsins samkvæmt bitna svikin loforð og auknar álögur verst á litlum og meðalstórum fyrirtækjum.
    Auk alls þessa þykir 3. minni hluta rétt að gagnrýna það ógagnsæi í ríkisfjármálum sem felst í frumvarpi því sem hér er til umfjöllunar og fjárlagafrumvarpi. Verulega skortir á fyrirsjáanleika um framhaldið og nægir þar að nefna hækkun fjármagnstekjuskatts án þess að samtímis sé ráðist í breytingu á uppgjörsaðferð líkt og þó er minnst á í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, sem og óvissu um enn frekari hækkun og fjölgun svokallaðra grænna skatta.
    Að öllu ofangreindu virtu lýsir 3. minni hluti yfir andstöðu við frumvarpið.

Alþingi, 20. desember 2017.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.



1     www.stjornarradid.is/media/forsaetisraduneyti-media/media/Skyrslur/sjalvirkar-verdbreytingar-skyrsla.pdf