Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 89  —  1. mál
.
2. umræða.


Nefndarálit .


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2018.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Annað árið í röð eru fjárlög unnin og rædd á Alþingi við afar sérstakar aðstæður. Stjórnarslit í haust, kosningar og myndun ríkisstjórnar í lok nóvember hafa gengið mjög á þann tíma sem þingið hefur til að ræða og afgreiða fjárlagafrumvarp. Er þetta að sjálfsögðu bagalegt á ýmsan hátt og kemst vonandi betra lag á fjárlagaumræðu á komandi tímum. Nokkur stoð er í þeim umræðum sem fram fóru um fjármálaáætlun vorið 2017 og enda þótt stuðningslið ríkisstjórnar sé skipað á annan veg nú en þá nýtur umfjöllun um fjárlög góðs af hinni ítarlegu umræðu um opinber fjármál og ráðstöfun opinbers fjár sem þá fór fram. Áhersla er lögð á menntamál, heilbrigðismál og samgöngur í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi. Því fer þó fjarri að á þeim skamma tíma sem liðinn er frá stjórnarskiptum hafi verið unnt að móta fjárlagafrumvarp sem kemur í framkvæmd á einu ári breytingum sem boðaðar eru í sáttmála ríkisstjórnarflokkanna um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis.
    Væntingar til úrbóta á ýmsum sviðum samfélagsins, hækkunar ríkisútgjalda og fjármögnunar á brýnum verkefnum eru eðlilega talsverðar, enda má segja að næstum áratugur í endurnýjun og endurbótum á innviðum og mikilvægri þjónustu við landsmenn hafi horfið.
    Ekki er síður mikilvægt að verja þann efnahagslega árangur sem náðst hefur á undanförnum misserum. Þrátt fyrir forgangsröðun aukinna útgjalda til þessara málaflokka er gætt að því að skila jákvæðri afkomu með áherslu á að sýna aðhald, verja efnahagslegan stöðugleika og halda áfram að greiða niður opinberar skuldir og lækka vaxtabyrði ríkissjóðs.

Verklag nefndarinnar.
    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið eftir að því var vísað til hennar 15. desember sl. Ekki er því nema slétt vika liðin frá 1. umræðu. Á þeim tíma hefur nefndin átt fundi með fjölda gesta og vill meiri hlutinn sérstaklega þakka gestum fyrir að bregðast við fundarboðum með mjög skömmum fyrirvara til þess að fylgja eftir umsögnum um frumvarpið.
    Nefndin fékk á sinn fund fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytis og kallaði einnig til fulltrúa allra ráðuneyta sem bera ábyrgð á einstökum málefnasviðum og málaflokkum ríkisins. Einnig hafa fulltrúar Háskóla Íslands, Félags skólameistara, Alþýðusambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins, Ríkisendurskoðunar, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka atvinnulífsins, Seðlabanka Íslands, Skólameistarafélags Íslands, skrifstofu Alþingis og Viðskiptaráðs Íslands komið fyrir nefndina.
    Enn fremur komu framkvæmdastjórar stjórnmálaflokka á fund nefndarinnar auk fulltrúa frá Landspítalanum, Sýslumannafélagi Íslands, Sjúkrahúsinu á Akureyri og frá öllum heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni fyrir utan Heilbrigðisstofnun Vestfjarða en fulltrúar hennar komust ekki á vettvang vegna óveðurs. Fulltrúar frá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, Landsamtakanna Þroskahjálpar, Öryrkjabandalags Íslands, Landssambands eldri borgara og EAPN á Íslandi (félög sem berjast gegn fátækt og félagslegri einangrun) komu einnig á fund nefndarinnar.

Heildaráhrif breytingartillagna.
    Gerðar eru breytingartillögur við tekjuáætlun frumvarpsins sem nema 263,2 millj. kr. til lækkunar tekna og breytingartillögur við sundurliðun 2, þ.e. fjárheimildir málefnasviða eftir málaflokkum og ráðuneytum, sem samtals nema 1.745,4 millj. kr. til hækkunar gjalda. Á rekstrargrunni verða því heildartekjur ársins 840.126,3 millj. kr., gjöldin 806.904,2 og heildarafkoman verður þá jákvæð um 33.152,1 millj. kr. sem er 2.008,6 millj. kr. minni afgangur en gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Afgangurinn er engu að síður vel innan þeirra marka sem lagt var upp með í tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu sem lögð var fram samhliða frumvarpinu.

Frumvarp Breytingartillögur Samtals
Frumtekjur 827.488,5 -263,2 827.225,3
Frumgjöld 733.128,8 2.663,4 735.792,2
Frumjöfnuður 94.359,7 -2.926,6 91.433,1
Vaxtatekjur 12.901,0 0,0 12.901,0
Vaxtagjöld 72.100,0 -918,0 71.182,0
Vaxtajöfnuður -59.199,0 918,0 -58.281,0
Heildartekjur 840.389,5 -263,2 840.126,3
Heildargjöld 805.228,8 1.745,4 806.904,2
Heildarjöfnuður 35.160,7 -2.008,6 33.152,1

    Í töflunni koma fram breytingar á frumjöfnuði og vaxtajöfnuði. Með frumjöfnuði er átt við afkomu ríkissjóðs án vaxtagjalda og tekna. Hann hefur verið jákvæður allt frá árinu 2012 og ekki veitt af til að vega upp á móti neikvæðum vaxtajöfnuði.
    Í samræmi við lög um opinber fjármál er framsetning frumvarpsins nú í annað sinn með allt öðrum hætti en áður tíðkaðist. Nú er 1. gr. byggð á alþjóðlegum hagskýrslustaðli, GFS-staðli, þar sem sýna skal meginstærðir ríkisfjármála og áætlun um tekjur og gjöld sundurliðaðar eftir hagrænni flokkun ásamt helstu breytingum á eignum og skuldum og stöðu þeirra.
    Fyrir vikið er torveldara að bera saman gjöld og tekjur aftur í tímann, ekki síst vegna þess að uppgjör stofnana ríkisins miðast við svokallaðan IPSAS-reikningsskilastaðal og því eru gjöld málefnasviða og málaflokka ekki á sama grunni og gjöld skv. 1. gr. frumvarpsins. Í greinargerð frumvarpsins er yfirlit yfir helstu frávik á framsetningu ríkisfjármála samkvæmt GFS-staðli og IPSAS-staðli.

Efnahagshorfur.
    Sökum þess hve frumvarpið kemur seint fram í þetta sinn hefur nú þegar verið tekið tillit til nýjustu þjóðhagsspár Hagstofu Íslands frá því í nóvember sem hefur veruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs til hækkunar frá því sem áður var áætlað. Í heildina eru efnahagshorfur mjög hagfelldar. Hagvöxtur ársins 2016 nam 7,4% en endurskoðuð áætlun fyrir yfirstandandi ár nemur 4,9% sem er 0,6 prósentustigi meiri vöxtur en febrúarspáin gerði ráð fyrir.
    Hagvaxtarspár gefa nú til kynna minnkandi hagvöxt. Undanfarin ár hefur einkaneysla verið helsti drifkraftur hagvaxtar en ætla má að það breytist nokkuð með auknum opinberum framkvæmdum og uppbyggingu.
    Verðbólgan hefur verið undir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands í fjögur ár. Án húsnæðisliðar í verðbólgu er reyndar verðhjöðnun. Samanburður við spá Hagstofunnar í febrúarmánuði sýnir m.a. að á næsta ári er nú áætlað að einkaneysla vaxi um 5,3% í stað 3,9% og hagvöxtur verði lítillega minni eða 0,1% en ætlað var áður. Fjárfesting vex hraðar en áður var talið sem skýrist aðallega af minni samdrætti atvinnuvegafjárfestingar en fyrri spá gerði ráð fyrir. Áfram er gert ráð fyrir mikilli fjárfestingu í íbúðarhúsnæði. Gert er ráð fyrir að innflutningur aukist verulega í takt við aukna einkaneyslu. Þá vaxa þjóðarútgjöld meira en reiknað var með.

Útgjaldabreytingar á milli ára.
    Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2017 voru gjöldin aukin umtalsvert frá fyrra ári. Í frumvarpinu núna er enn bætt í að raungildi. Samtals nemur áætlaður útgjaldaauki ríkissjóðs á tveimur árum um 125 milljörðum kr. eða um 18%.
    Fjárlaganefnd hefur varið mestum tíma sínum í umfjöllun um nokkra veigamikla útgjaldaflokka. Á bls. 136 í frumvarpinu er tafla sem sýnir helstu útgjaldatilefnin frá fjárlögum yfirstandandi árs. Í heild aukast gjöldin um 51,6 milljarða kr. og þar af nema launa-, verðlags- og gengisbætur 17,3 milljörðum kr. þannig að hækkun að raungildi nemur 34,3 milljörðum kr. eða um 4,6% af heildargjöldum.
     Í töflu á bls. 141 í frumvarpinu koma fram útgjaldabreytingar milli ára sundurliðaðar á 34 málefnasvið og sýnd er breyting frá fjárlögum ársins 2017 að raungildi.
    Fjárfrekasta málefnasviðið hefur undanfarin ár verið vextir og lífeyrisskuldbindingar. Nú er gert ráð fyrir mikilli lækkun þar eða 12,3 milljörðum kr. sem er 14,6% breyting til lækkunar. Útgjaldamesta sviðið á næsta ári verður sjúkrahúsþjónusta en útgjöld til hennar aukast um meira en 7,2% að raungildi. Málefni aldraðra eru þriðja stærsta málefnasviðið og aukast útgjöld þar um 8,3% að raungildi. Útgjöld á sviði örorku og málefna fatlaðs fólks hækka um 8,6% að raungildi en langmesta hækkunin varðar lyf og lækningavörur eða 35% og skýrist það af bæði verð- og magnaukningu í lyfjum og hjálpartækjum langt umfram forsendur fjárlaga ársins 2017 og er brugðist við því með þessari hækkun.

Áherslur og breytingartillögur nefndarinnar.
    Eins og áður sagði lagði nefndin mesta áherslu á umfjöllun um nokkur veigamikil útgjaldasvið en einnig hefur nefndin í yfirferð sinni fengið innsýn í átak fjármála- og efnahagsráðuneytisins um bættan ríkisrekstur, ekki síst varðandi innkaup hins opinbera. Meiri hlutinn vill þó nefna fleiri þætti um aðhald og bættan ríkisrekstur. Við framkvæmd fjárlaga og í rekstri ríkisins þarf að taka nýjum og föstum tökum hvernig fjármunir eru nýttir. Gera verður stórátak í að fylgja betur eftir í hvað fjárveitingar fara og hvernig þær nýtast. Ráðherrar þurfa á hverjum tíma að fara yfir verkefni málefnasviða sinna og velta því upp hvernig hægt sé að gera betur.
    Almenn aðhaldskrafa hefur þann meginkost að árlega er rekstur rýndur og metið hvort og hvernig hægt er að gera betur. Margir þröskuldar geta verið í veginum fyrir ýmsar stofnanir og embætti til að takast á við slíkar áskoranir. Í umræðum nefndarinnar hafa margar ábendingar komið fram sem benda til þess að meiri skilvirkni sé þörf svo að hægt sé að grípa til aðgerða til að bæta rekstur og ná fram betri nýtingu fjármuna ríkisins.

Heilbrigðismál.
    Meiri hlutinn gerir tillögur um auknar fjárheimildir á nokkrum málefnasviðum velferðarráðuneytis til viðbótar við verulega aukningu sem er að finna í frumvarpinu sjálfu. Tillögurnar eru ekki veigamiklar í hlutfalli við umfang málaflokksins en þá ber að hafa í huga að í frumvarpinu er lagt til að framlög til sjúkrahúsþjónustu og heilsugæslu auk lyfja og lækningavara aukist um samtals 16,3 milljarða kr. að raungildi milli ára. Því verður ekki annað sagt en að frumvarpið sé í samræmi við áform um uppbyggingu.
    Nefndin hefur aflað sér upplýsinga um framlög á föstu verðlagi til lykilstofnana frá fjárlögum ársins 2015 til frumvarpsins og koma þær fram í eftirfarandi töflu. Framlög á fjárlögum til stofnana hafa í öllum tilvikum verið umfram launa- og verðlagsbætur, að meðaltali 14% frá árinu 2015 og þar af nálægt einum þriðja eða 4,7% frá fjárlögum 2017.

Heilbrigðisstofnanir

Fjárlög 2015 Fjárlög 2016 Fjárlög 2017 Frumvarp 2018
Sjúkrahúsið á Akureyri 6.362 6.370 6.621 6.787
Landspítali 50.048 50.209 53.459 56.625
Heilbrigðisstofnun Vesturlands 3.639 3.689 3.779 3.789
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða 1.710 1.730 1.901 1.959
Heilbrigðisstofnun Norðurlands 4.153 4.363 4.475 4.593
Heilbrigðisstofnun Austurlands 2.692 2.760 2.853 2.948
Heilbrigðisstofnun Suðurlands 4.156 4.191 4.359 4.436
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 2.203 2.225 2.295 2.314
Nokkrir safnliðir 292 1.472 2.338 2.956
75.256 77.009 82.078 86.408

    Meiri hlutinn gerir að auki tillögu um 400 millj. kr. aukin útgjöld vegna heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni auk 50 millj. kr. til Sjúkrahússins á Akureyri, eins og fram kemur í skýringum við breytingartillögur hér á eftir. Gert er ráð fyrir að velferðarráðuneytið kveði á um nánari skiptingu framlagsins í samræmi við stefnumörkun í heilbrigðismálum sem birtist í næstu fjármálaáætlun og kynni hana fyrir bæði forstöðumönnum og fjárlaganefnd. Sérstaklega þarf að huga að geðheilbrigðismálum í þessu sambandi.
    Starfsemi hjúkrunarheimila og önnur öldrunarþjónusta er nú þegar veigamikill þáttur í heilbrigðis- og félagsþjónustu hér á landi og þegar litið er til aldurssamsetningar þjóðarinnar getur enginn vafi leikið á að þessi rekstur mun aukast til muna á næstu árum og áratugum.
    Rekstur hjúkrunarheimila er víða þungur og í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram að sveitarfélög telja sig greiða allt að milljarð króna með rekstrinum sem ekki fæst bættur.
    Í skýrslu sem Ríkisendurskoðun gerði að undirlagi Alþingis og birt var árið 2014 kemur fram að launakostnaður var að meðaltali um 76% af rekstrargjöldum hjúkrunarheimila. Miklu skiptir því að vinnuafl nýtist vel og er raunin sú að þar koma stærri rekstrareiningar betur út en hinar minni. Nauðsynlegt er að taka mið af þessu og fleiru sem varðar rekstrarhagkvæmni hjúkrunarheimila þegar teknar verða ákvarðanir um byggingu þeirra og rekstur. Þá er þjónustustig hjúkrunarheimila mismunandi og starfsemi þeirra nokkuð ólík innbyrðis. Mikilvægt er að hið opinbera geri þjónustusamninga við veitendur öldrunarþjónustu þar sem skýrt sé í hverju hin keypta þjónusta felst. Með því móti ætti að vera unnt að ná betur utan um útgjöld og rekstrarkostnað en nú er raunin.
    Meiri hlutinn hvetur til samráðs milli samtaka sveitarfélaga, samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og stjórnvalda um markvissa vinnu um efldan og bættan rekstur. Þá er óhjákvæmilegt að áframhald verði á viðræðum um kröfulýsingar og fjárhæð daggjalda. Ekki eru lagðar til breytingar á fjárhagsramma daggjaldastofnana í tillögum meiri hlutans að þessu sinni.

Málefni aldraðra, örorkulífeyrisþega og málefni fatlaðs fólks.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hækka framlög til málefna aldraðra, örorkulífeyrisþega og málefna fatlaðs fólks um samtals 10,3 milljarða kr. að raungildi. Það jafngildir 8,4% raunhækkun milli ára.
    Lagt er til að frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega verði hækkað í ársbyrjun 2018 í 100.000 kr. á mánuði. Gjaldskrá vegna tannlækninga aldraðra og örorkulífeyrisþega verður einnig uppfærð frá miðju næsta ári til að minnka kostnað þessara hópa.
    Meiri hlutinn gerir breytingartillögu um að auknu fjármagni verði varið til útfærslu hækkunar bóta almannatrygginga til tekjulausra örorkulífeyrisþega sem halda einir heimili. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir hækkun framfærsluviðmiðs um 6.840 kr. til að ná 300.000 króna hækkun frá 1. janúar 2018. Breytingartillaga meiri hlutans felur í sér að heimilisuppbót hækki sérstaklega umfram almennar bótahækkanir um 6.840 kr. á mánuði. Sú leið er til þess fallin að draga úr svokallaðri „krónu á móti krónu skerðingu“ og kemur betur til móts við gagnrýni Öryrkjabandalagsins á útfærslu hækkunarinnar í 300.000 kr. Auk þess hefur hún þau áhrif að þeir örorkulífeyrisþegar sem búa einir og uppfylla skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar munu fá hærri greiðslur frá almannatryggingum og hækkar þannig hlutfall þeirra lífeyrisþega sem fá hækkunina.
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að ætlunin sé að efna til samráðs við forsvarsmenn örorkulífeyrisþega um breytingar á bótakerfinu. Tilgangurinn er að reyna að skapa sátt og einfalda kerfið um leið og öryrkjum er tryggð framfærsla og kjör þeirra leiðrétt. Mikilvægt að stjórnvöld gangi á undan með góðu fordæmi og tryggi framboð hlutastarfa hjá hinu opinbera fyrir fólk með skerta starfsgetu en mikilvægt er að atvinnulífið verði virkur aðili í því verkefni.
    Hvað varðar málefni fatlaðs fólks er tryggt að þeir sem hafa notendastýrða persónulega aðstoð njóti hennar áfram á árinu 2018 og fylgir fjármagn svo að hægt sé að fjölga samningum. Meiri hlutinn gerir breytingartillögu um 70 millj. kr. hækkun umfram tillögur frumvarpsins, þar af 30 millj. kr. vegna þeirra sem þurfa á sólarhringsmeðferð í öndunarvél að halda. Þó er vitað að til framtíðar þarf að fjölga samningum enn frekar en nánari útfærsla á því bíður meðferðar velferðarnefndar, sem hefur frumvörp um félagsþjónustu sveitarfélaga og málefni fatlaðs fólks með miklar stuðningsþarfir til umfjöllunar.

Mennta- og menningarmál.
    Af breytingartillögum meiri hlutans til útgjaldaauka flokkast allmargar tillögur undir menningarmál. Með breytingum sem gerðar voru á stuðningi við mennta- og menningarmál árið 2012 var að mestu horfið frá því að fjárlaganefnd og Alþingi væru að fást við slíkt. Við gerð sóknaráætlana og menningarsamninga er stefnt að því að minnka þörfina fyrir slíkar tilfærslur. Framlög til menningarmála hafa á undanförnum árum aukist nokkuð. Í fjárlagafrumvarpinu er til að mynda veruleg hækkun á framlagi til Hörpu í Reykjavík sem er mikilvæg menningarbygging. Það er álit meiri hlutans að rýna verði rekstur hússins og mögulega endurskoða tekjugrunn. Á það er bent að meðan framlög hækka jafn ríflega og raunin er, þá er á sama tíma ekki það sama um menningarmál annars staðar á landinu að segja. Við ákvörðun um byggingu Hörpu var horft til eflingar á menningarlífi víða um land og ætlunin var að styðja við menningarhús eða -sali. Vegna efnahagshruns var þeim áætlunum slegið á frest. Því er mikilvægt að mennta- og menningarmálaráðherra marki stefnu um framtíð þeirra áætlana. Enn hefur ekki verið lokið við menningarsali eða hús á Sauðárkróki, Egilsstöðum og Selfossi. Víðar voru áætlanir um stuðning við minni áform. Það er því eindreginn vilji meiri hlutans að samhliða stórhækkuðum framlögum til Hörpu verði tekin ákvörðun um framtíð þessara áforma.
    Framlög til háskóla hafa að mestu þróast í takt við breytingar á fjölda nemenda. Í frumvarpinu nú er einnig að finna viðbótarframlög bæði vegna kennslu og rannsókna í háskólum. Hækkanirnar eru áfangi að því markmiði sem fram kemur í stjórnarsáttmálanum að framlög til háskólastigsins nái meðaltali OECD-ríkjanna innan fárra ára. Framlög til Háskóla Íslands hækka um 3,3% að raungildi milli ára og um 2,2% til Háskólans á Akureyri.

Málefnasvið 21.10

Verðlag 2015 í millj. kr.
Fjárlög 2015 Fjárlög 2016 Fjárlög 2017 Frumvarp 2018
Háskóli Íslands 17.128 17.756 18.028 18.622
Háskólinn á Akureyri 2.122 2.256 2.427 2.481
Landbúnaðarháskóli Íslands 1.267 1.308 1.326 1.248
Hólaskóli – Háskólinn á Hólum 577 564 615 538
Háskólinn á Bifröst 308 362 383 384
Háskólinn í Reykjavík 2.593 2.770 2.747 2.729
Listaháskóli Íslands 788 855 964 959
Háskóla- og vísindastofnanir,
    viðhald og stofnkostnaður
4 4 0 0
Varasjóður málaflokks 21.10 0 0 107 188
24.786 25.873 26.597 27.148

Samgöngumál.
    Í frumvarpinu er þó nokkur aukning til samgöngumála. Meiri hlutinn gerir einnig tillögur til breytinga og leggur til hækkun sem nánar er skýrð hér á eftir. Áhersla meiri hlutans er lögð á umferðaröryggismál og almenningsamgöngur.
    Samningur um almenningssamgöngur við landshlutasamtök hefur verið í gildi um nokkurt skeið. Ábendingar í umsögnum sveitarfélaga um verkefnið benda til að tímabært sé að endurmeta og endurskoða það fyrirkomulag. Áskoranir og verkefni í samgöngumálum eru umfangsmikil og næstum óþrjótandi.
    Margir merkir áfangar hafa náðst og einn þeirra er að nú styttist í að lokið verði við smíði á nýrri Vestmannaeyjaferju, Herjólfi. Þrátt fyrir að meiri hlutinn geri engar breytingartillögur í þessum efnum nú er nauðsynlegt að ræða um framtíð eldri ferju sem nýtt skip á að leysa af hólmi. Ferjusiglingar yfir Breiðafjörð hafa undanfarnar vikur legið niðri vegna bilunar á ferjunni Baldri. Það stopp hefur alvarleg áhrif á atvinnulíf á sunnanverðum Vestfjörðum. Verðmætasköpun á svæðinu er veruleg og vaxandi. Samgöngur á landi eiga mjög langt í land með að teljast boðlegar þannig að áfram verður að treysta á ferjusamgöngur. Nauðsynlegt er að huga að því að halda úti varaferju og mögulega í framhaldi af komu nýs Herjólfs að endurnýja Baldur. Varaferja sem gæti þjónað bæði Vestmannaeyjum og Breiðafirði þarf að vera til svo að hagsmunir atvinnu- og mannlífs séu betur tryggðir.

Umhverfismál, náttúrustofur.
    Náttúrustofur gegna veigamiklu hlutverki til að efla þekkingu á lífríki og rannsóknir á starfssvæðum þeirra. Meiri hlutinn leggur til að horfið verði frá þeirri skerðingu sem boðuð var í fjárlagafrumvarpinu á framlögum til náttúrustofanna átta sem starfa allt í kringum landið. Náttúrustofurnar sinna ýmsum mikilvægum verkefnum og framlag þeirra skiptir máli við rannsóknir á náttúru landsins og náttúruvernd í nærsamfélögum. Samfélagslegt hlutverk náttúrustofa er ekki síður mikilvægt og skipta þær miklu máli í byggðalegu tilliti, en m.a. á þeim grunni var einmitt stofnað til þeirra á sínum tíma. Mikilvægt er að bæta rekstrarumhverfi náttúrustofa enn frekar og auka um leið skilvirkni og samstarf í náttúrurannsóknum á Íslandi til framtíðar litið. Meiri hlutinn beinir því til umhverfis- og auðlindaráðherra að við endurskoðun samninga um rekstur náttúrustofanna verði fyrirkomulag og fjármögnun tekin til skoðunar. Óvissa um framtíðina bitnar á starfinu og ekki er boðlegt að hafa fjármögnunina í slíkri óvissu sem verið hefur.

Sýslumenn.
    Þær miklu breytingar sem gerðar voru á fjölda sýslumannsembætta og starfsemi þeirra í ársbyrjun 2015 hafa því miður ekki tekist sem skyldi og kemur einkum tvennt til. Fjárveitingar til embættanna hafa ekki nægt til að standa við þau fyrirheit sem gefin voru um starfsstöðvar og starfsmannahald hjá embættunum og ekki hefur verið unnið nægilega markvisst að því að afla þeim nýrra verkefna og treysta starfsgrundvöll þeirra.

Málaflokkur 10.30

Verðlag 2015 í millj. kr.
Fjárlög
2015
Fjárlög
2016
Fjárlög
2017
Frumvarp
2018
Sýslumaður höfuðborgarsvæðisins 788 765 801 779
Sýslumaður Vesturlands 167 166 166 179
Sýslumaður Vestfjarða 156 154 154 161
Sýslumaður Norðurlands vestra 183 182 181 179
Sýslumaður Norðurlands eystra 215 222 222 219
Sýslumaður Austurlands 106 114 114 112
Sýslumaður Suðurlands 203 201 201 208
Sýslumaður Suðurnesja 164 163 163 161
Sýslumaður Vestmannaeyja 66 65 65 64
Ýmis rekstrarkostnaður
    sýslumannsembætta
153 183 258 251
2.201 2.215 2.325 2.312

    Framlög til embættanna í heild dragast lítillega saman að raungildi milli ára. Sýslumannsembættin eru mikilvæg sökum hlutverks síns og verkefna og einnig vegna þeirra starfa sem þeim fylgja. Því er þeirri áskorun beint til ríkisstjórnarinnar að hún vinni að því ötullega að efla sýslumannsembættin og tryggja að þau geti gegnt hlutverkum sínum öllum eins og vera ber.

Alþingi og eftirlitsstofnanir þess.
    Rík áhersla er lögð á eflingu Alþingis í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og í frumvarpinu má sjá fyrstu skref í þeim efnum. Lagt er til að framlag vegna sérfræðiaðstoðar við þingflokka verði aukin. Einnig að skrifstofa Alþingis verði efld, m.a. til að tryggja að Alþingi hafi faglega þekkingu til jafns við ráðuneytin sem og að tryggja faglegan stuðning við störf forsætisnefndar, nefndasviðs og þingfundaskrifstofu.
    Meiri hlutinn gerir tillögur um viðbótarframlög, bæði til skrifstofu Alþings og umboðsmanns Alþingis sem skýrð eru hér á eftir.

Ýmis áherslumál.
    Meiri hlutinn vill í áliti þessu vekja sérstaka athygli á nokkum málum sem fram koma í frumvarpinu þó að ekki séu gerðar tillögur um breytingar við 2. umræðu. Þar má nefna eftirfarandi:

Barnabætur.
    Áætlað er að útgjöld til barnabóta hækki um tæplega 10% milli ára í krónum talið. Þá er miðað við að tekjuviðmiðunarmörk þeirra hækki í takt við launaþróun samkvæmt nóvemberspá Hagstofunnar, eða kringum 7%, en bótafjárhæðir heldur meira, eða um 8,5%. Jafnframt er á kjörtímabilinu stefnt að betri samhæfingu bóta- og skattkerfa.

Varasjóðir fjárlaga.
    Lög um opinber fjármál kveða á um tvenns konar varasjóði í fjárlögum. Annars vegar skal í frumvarpi til fjárlaga gera ráð fyrir óskiptum varasjóði til að bregðast við útgjöldum sem eru tímabundin, ófyrirsjáanleg og ekki er unnt að bregðast við með öðrum hætti samkvæmt lögum um opinber fjármál. Slíkur varasjóður skal að lágmarki vera 1% af fjárheimildum fjárlaga. Hins vegar er gert ráð fyrir varasjóði fyrir hvern málaflokk og skal fjárveiting til þeirra nema að hámarki 2% af fjárheimildum málaflokks.
    Meiri hlutinn telur að marka þurfi stefnu um uppbyggingu varasjóða málaflokka. Í nokkrum málaflokkum á kannski ekki við að hafa varasjóð en veruleg þörf virðist vera á þeim í öðrum. Við gerð fjármálaáætlunar er mikilvægt að huga að uppbyggingu varasjóða og þannig auka möguleika gildandi fjárlaga á að takast á við sveiflur.

Sala eigna.
    Frumvarpið felur í sér heimildir til kaupa og sölu á eigum ríkisins og koma þær fram í 6. gr. þess. Samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er gerð hvítbókar um fjármálafyrirtæki undanfari ákvörðunar um sölu á eignarhlut ríkisins í bönkum. Eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum er það umfangsmesta í Evrópu og er það vilji ríkisstjórnarinnar að draga úr því. Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið á Íslandi verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar áður en stefnumarkandi ákvarðanir verða teknar.
    Allmargar heimildir eru í frumvarpinu til sölu ríkisjarða. Í umsögnum til fjárlaganefndar á undanförnum árum og við umræður hafa komið fram sjónarmið um sölu og meðferð ríkisjarða. Víða háttar þannig til að ríkið á nokkurn fjölda bújarða í sumum byggðarlögum. Í nefndinni hefur verið rædd framkvæmd á ábúðar- og leigufyrirkomulagi bújarða. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur undanfarið unnið að úttektum á því fyrirkomulagi. Nauðsynlegt er að hefja í framhaldinu stefnumörkun um sölu og útleigu bújarða. Það er álit meiri hlutans að stefnumörkun á þessu sviði verði að styðja eflingu byggðar í sveitum. Í framhaldi af þessari vinnu fjármála- og efnahagsráðuneytisins telur meiri hlutinn að skipa verði starfshóp um framtíðarstefnumörkun.

Húsnæðisstuðningur.
    Sómasamlegt húsnæði á viðráðanlegum kjörum er meðal þess sem gefur hugtakinu velferð merkingu. Það er hverjum og einum íbúa landsins brýnt hagsmunamál að eiga þess kost að búa í húsnæði sem í senn uppfyllir eðlilegar þarfir og ofbýður ekki fjárhag leigjenda eða kaupenda. Eins og sjá má af stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar hyggjast stjórnvöld axla ábyrgð á þessum málaflokki og stuðla að umbótum í húsnæðismálum, m.a. með því að efla stuðningskerfi og lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágs fólks inn á húsnæðismarkaðinn.
    Svo skammt er um liðið frá því að ríkisstjórnin settist að völdum að henni hefur ekki gefist tóm til að móta og útfæra aðgerðir til samræmis við fyrirheitin í stjórnarsáttmálanum. Þeirra sér því ekki stað í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi en framtíðarsýnin mun birtast í fjármálaáætlun sem verður lögð fram í vor.
    Það er yfirlýst markmið stjórnvalda að haga vaxtabótum svo að einkum þeir hópar sem hafa lægstar tekjur njóti þeirra. Beina þarf þessum stuðningi þangað sem brýnust þörf er fyrir hann en gæta þarf þess að mörkin verði ekki sett of neðarlega þannig að vaxtabætur hverfi sem raunverulegur áhrifavaldur á íslenskum húsnæðismarkaði. Vísbendingar eru um að þróunin hafi þegar orðið sú að tekjulágar barnafjölskyldur njóti ekki lengur góðs af vaxtabótum og mun ríkisstjórnin endurskoða stuðningskerfi hins opinbera þannig að stuðningurinn nýtist fyrst og fremst þessum hópum.

Flutningskerfi raforku.
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er áhersla lögð á byggðamál með eflingu raforkudreifikerfis. Tækifæri til eflingar atvinnulífs og verðmætasköpunar í dreifðum byggðum eru víða. Á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins er áhersla lögð á að beina fjármunum sem ætlaðir eru til eflingar atvinnu með því að styðja við endurbætur á þriggja fasa raforkudreifikerfi þar sem það heftir atvinnuuppbyggingu. Þótt aðeins verði um takmarkaðar endurbætur að ræða getur í einstökum tilfellum verið mikilvægt að veita stuðning gegn mótframlagi. Ekki er gerð tillaga um útgjaldaaukningu heldur er ætlunin að breyta nýtingu fjármuna og forgangsröðun þeirra.

Aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota.
    Innleiðing á framkvæmd aðgerðaáætlunar um úrbætur í meðferð kynferðisbrota í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er fjölþætt. M.a. eru innviðir lögreglu á sviði rannsóknar kynferðisbrota styrktir og einnig er framlag aukið til héraðssaksóknara og heilsugæslu. Einnig er framlag til aðalskrifstofu dómsmálaráðuneytis aukið m.a. til að vinna að fullgildingu Istanbul-samningsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi.

Ferðaþjónusta.
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er áhersla lögð á að mörkuð verði langtímastefna í ferðaþjónustu í samvinnu við hagsmunaaðila með sjálfbærni að leiðarljósi. Lögð er áhersla á að skapa forsendur fyrir betri dreifingu ferðamanna um allt land.
    Í fjárlagafrumvarpinu er lögð áhersla á enn frekari stuðning við markaðsstofur landshlutanna.
    Öflugur vöxtur hefur verið í komum erlendra ferðamanna á undanförnum árum til Íslands og hann hefur haft mikil áhrif á efnahagslífið. Meiri hlutinn leggur áherslu á að rannsóknir og sviðsmyndagreiningar sem snúa að efnahagslegum áhrifum atvinnugreinarinnar verði efldar. Hér er rétt að ítreka mikilvægi þess að hinn öflugi flugrekstur sem stundaður er af íslenskum flugrekstraraðilum sé einnig skoðaður í þessu samhengi. Sá rekstur skapar umtalsverðan hluta gjaldeyristekna ferðaþjónustunnar.

Löggæsla.
    Heildarhækkun til löggæslumála milli áranna 2017 og 2018 verður samkvæmt frumvarpinu 7,3% að teknu tilliti til launa- og verðlagsbreytinga en um 4% á föstu verðlagi. Þrátt fyrir að svigrúmið sé ekki mikið geta þó rúmast innan hækkunarinnar mikilvægar áherslubreytingar, svo sem vinna að úrbótum á meðferð kynferðisbrota, og takist þær vel má koma miklu til leiðar fyrir tiltölulega lítið fé. Fyrir liggur að ný löggæsluáætlun fyrir Ísland er vel á veg komin og má því telja eðlilegt að beðið sé með endurskoðun fjárveitinga til málaflokksins uns hún er fullmótuð og hefur tekið gildi. Hins vegar er ástæða til að minna á mikilvægi þessa málaflokks og gildi þess fyrir samfélagið að vanrækja hann ekki.

Aukið samráð.
    Óvenjulegar aðstæður við samningu fjárlagafrumvarps, fjármálastefnu og fjármálaáætlunar kalla á aukið samráð. Ríkisstjórnin hefur boðað aukið samráð við forsvarsmenn örorkulífeyrisþega um úrbætur á því kerfi með það að markmiði að efla samfélagsþátttöku, virkni á vinnumarkaði og tryggja framfærslu. Slíkt samráð við aðila vinnumarkaðarins má segja að hafi þegar hafist í stjórnarmyndunarviðræðum ríkisstjórnarflokkanna með samtali við helstu aðila um komandi kjarasamningaviðræður þar sem áherslan var á lögð að treysta félagslegan stöðugleika.

Skýringar við breytingartillögur á tekjuhlið.
    Lagðar eru til tvær breytingar á tekjuhlið frumvarpsins, sem tengjast breytingartillögum meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar við frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2018 (3. mál).
    Annars vegar er lögð til 200 millj. kr. lækkun tekna af fjármagnstekjuskatti vegna hækkunar á frítekjumarki vaxtatekna úr 125.000 i 150.000 krónur.
    Hins vegar er lögð til 63,2 millj. kr. lækkun sem er leiðrétting vegna áforma um lækkun á gjaldi til umboðsmanns skuldara.

Skýringar við breytingartillögur á gjaldahlið.

01 Alþingi og eftirlitsstofnanir þess.
01.10 Alþingi.
    Gerð er tillaga um 38 millj. kr. hækkun á framlagi til Alþingis vegna aukins kostnaðar við þingfararkaup og laun. Þar sem einn ráðherra ríkisstjórnarinnar er utan þings hefur þeim sem greitt er þingfararkaup fjölgað samsvarandi, formönnum stjórnarandstöðu og formönnum þingflokka hefur fjölgað með tilheyrandi hækkun á álagsgreiðslum á þingfararkaup og bæst hefur við einn aðstoðarmaður formanns stjórnarandstöðuflokks.

01.20 Eftirlitsstofnanir Alþingis.
    Gerð er tillaga um 24 millj. kr. framlag til umboðsmanns Alþings vegna OPCAT-verkefnisins, þ.e. til að skipuleggja og annast eftirlit á grundvelli valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

02 Dómstólar.
02.20 Héraðsdómstólar og 02.40 Dómstólasýslan.
    Gerð er tillaga um 35 millj. kr. millifærslu tímabundins framlags til endurnýjunar á málaskrá héraðsdómstólanna sem færist frá héraðsdómstólunum til Dómstólasýslunnar.

03 Æðsta stjórnsýsla.
03.30 Forsætisráðuneyti.
    Gerð er tillaga um 14 millj. kr. tímabundið framlag til Hins íslenska fornritafélags.
    Einnig eru lagðar til þrjár millifærslur vegna flutnings verkefna frá forsætisráðuneyti til miðlægrar stoðþjónustueiningar í umsjá fjármála- og efnahagsráðuneytis:
          6 millj. kr. millifærsla vegna Stjórnarráðsskóla,
          14,1 millj. kr. millifærsla vegna umsjónar með sameiginlegum vef ráðuneytanna, þ.m.t. vefstjórnar,
          15 millj. kr. millifærsla vegna rekstrar- og þróunarfjár fyrir vef Stjórnarráðsins.

04 Utanríkismál.
04.10 Utanríkisþjónusta og stjórnsýsla utanríkismála.
    Lagt er til að utanríkisráðuneytið fái 15 millj. kr. viðbótarfjárveitingu á ári tímabundið í tvö ár, 2018 og 2019, vegna vaxandi umsvifa Hringborðs norðurslóða (Arctic Circle) og verulegrar fjölgunar á þátttakendum erlendis frá á hið árlega þing Hringborðs norðurslóða hér á landi. Um er að ræða greiðslu á húsaleigu í tengslum við þingið en það er skipulagt og rekið af Climate Research Foundation (Loftslagsrannsóknum) sem er sjálfseignarstofnun sem starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.
    Lagt er til að hagræn skipting framlags til norðurslóðasamstarfs verði færð að skiptingu útgjalda í bókhaldi með flutningi á 20,3 millj. kr. úr rekstrartilfærslu í rekstrarframlög (önnur gjöld). Sömuleiðis að hagræn skipting framlags til ýmissa verkefna verði færð að skiptingu útgjalda í bókhaldi með flutningi á 6,0 millj. kr. úr rekstrarframlagi (önnur gjöld) í rekstrartilfærslu.

04.30 Samstarf um öryggis- og varnarmál.
    Lagt er til að hagræn skipting framlags verði færð að skiptingu útgjalda í bókhaldi með flutningi á 216,8 millj. kr. úr rekstrartilfærslu í rekstrarframlög (önnur gjöld).

05 Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla.
05.30 Fjármálaumsýsla ríkisins.
    Vegna endurmats á útfærslu fjárveitinga innan ramma málefnasviðsins er lagt til að fjárveiting til Ríkiskaupa hækki um 16 millj. kr. og verði samtals 100,0 millj. kr., sem er jafn hátt framlag og árið 2017. Á móti lækki framlag í varasjóð málaflokksins um 6 millj. kr. og framlag til verkefna sem snúa að umbótum í ríkisrekstri lækki um 10 millj. kr. Breytingarnar leiða ekki til aukinna útgjalda ríkissjóðs og eru innan málefnasviðsins.
    Einnig eru lagðar til nokkrar millifærslur vegna flutnings verkefna frá forsætisráðuneyti til miðlægrar stoðþjónustueiningar í umsjá fjármála- og efnahagsráðuneytis. Unnið hefur verið að endurskipulagningu miðlægrar þjónustu- og þróunareiningar Stjórnarráðsins og tekur ný eining til starfa í byrjun árs 2018. Markmið breytinganna eru að ná fram auknu hagræði og samlegð í rekstrarþáttum sem eru ráðuneytunum sameiginleg. Um er að ræða eftirfarandi millifærslur:
          6 millj. kr. millifærsla vegna Stjórnarráðsskóla,
          14,1 millj. kr. millifærsla vegna umsjónar með sameiginlegum vef ráðuneytanna, þ.m.t. vefstjórnar,
          15 millj. kr. millifærsla vegna rekstrar- og þróunarfjár fyrir vef Stjórnarráðsins.

05.40 Stjórnsýsla ríkisfjármála.
    Lagt er til að framlag til ýmissa verkefna fjármála- og efnahagsráðuneytis lækki um 10 millj. kr. og verði 40 millj. kr. í stað 50 millj. kr.
    Einnig er gerð tillaga um 362 millj. kr. hækkun á framlögum til stjórnmálaflokka. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 286 millj. kr. framlagi en það hefur lækkað um helming að raunvirði frá árinu 2008. Gert er ráð fyrir að þetta sé að hluta til leiðrétt með þessari tillögu og er þá tekið mið af vegnu meðaltali launa- og neysluverðsvísitalna. Tillagan er studd með yfirlýsingu formanna allra stjórnmálasamtaka á Alþingi utan tveggja flokka. Í yfirlýsingunni kemur m.a. fram að tilgangur opinberra fjárframlaga til stjórnmálasamtaka er að tryggja fjármögnun, sjálfstæði og lýðræðisleg vinnubrögð allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi. Virk starfsemi stjórnmálasamtaka er hornsteinar lýðræðisins og er nauðsynlegt að tryggja á hverjum tíma að þau geti sinnt hlutverki sínu með eðlilegum hætti og án þess að þurfa að treysta um of á fjárframlög einkaaðila. Er það ósk formanna sem rita undir yfirlýsinguna að forsætisráðherra setji af stað vinnu við endurskoðun laga nr. 162/2006, um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda, með þátttöku fulltrúa allra stjórnmálasamtaka sem sæti eiga á Alþingi.
    Að auki er gerð tillaga um 12 millj. kr. millifærslu innan málaflokksins vegna flutnings á endurnýjun, viðhaldi og rekstri ráðherrabifreiða til nýrrar miðlægrar þjónustu- og þróunareiningar Stjórnarráðsins. Frá árinu 2015 hefur hvert ráðuneyti annast rekstur bifreiðanna en fjárveiting til endurnýjunar bifreiða hefur verið vistuð í fjármála- og efnahagsráðuneyti. Hér er lagt til að fjárveiting til endurnýjunar bifreiða flytjist til nýrrar stoðþjónustueiningar. Málaflokkur innan málefnasviðsins breytist með þessari endurskipulagningu úr 05.40 í 05.30.

06 Hagskýrslugerð, grunnskrár og upplýsingamál.
06.10 Hagskýrslugerð, grunnskrár og upplýsingamál.
    Gerð er tillaga um millifærslu að fjárhæð 38 millj. kr. frá Þjóðskrá Íslands til ýmissa verkefna fjármála- og efnahagsráðuneytis vegna breytinga á skipulagi Stjórnarráðsins samkvæmt forsetaúrskurði. Um er að ræða framlag vegna reksturs island.is sem er upplýsinga- og þjónustuveita opinberra aðila á Íslandi. Framlagið var áður á fjárlagalið upplýsingasamfélagsins og millifært til Þjóðskrár en það var veitt tímabundið til eins árs með gildistíma 2018.
    Einnig eru lagðar til þrjár millifærslur innan málaflokksins í tilefni af forsetaúrskurði nr. 84/2017, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.
    Í fyrsta lagi millifærsla 1.391,3 millj. kr. fjárveitingar til Hagstofu Íslands frá fjármála- og efnahagsráðuneyti til forsætisráðuneytis en samkvæmt forsetaúrskurðinum færast verkefni hagskýrslugerðar og upplýsinga um landshagi, þ.m.t. málefni Hagstofu Íslands, frá fjármála- og efnahagsráðuneyti til forsætisráðuneytis.
    Í öðru lagi millifærsla vegna þess að samkvæmt forsetaúrskurðinum flytjast málefni upplýsingasamfélagsins, þar á meðal verkefnið Ísland.is, til fjármála- og efnahagsráðuneytis en málefnið heyrði áður undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. Í samræmi við þetta er lögð til sú breyting frá fyrra frumvarpi að í stað þess að 38,0 millj. kr. framlag fari til Þjóðskrár Íslands vegna rekstrar á þjónustugáttinni island.is verði fjárveitingin áfram óskipt á safnlið upplýsingasamfélagsins. Fjárveiting safnliðarins árið 2018 verði því 90,2 + 38 = 128,2 millj. kr. Þriggja ára áætlun taki samsvarandi breytingum. Breytingin leiðir ekki til aukinna útgjalda ríkissjóðs.
    Í þriðja lagi millifærslu 90,2 millj. kr. fjárheimildar frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti til fjármála- og efnahagsráðuneytis vegna breytinga á skipulagi Stjórnarráðsins samkvæmt forsetaúrskurðinum sem felur m.a. í sér tilfærslu á málefnum upplýsingasamfélagsins.

08 Sveitarfélög og byggðamál.
08.20 Byggðamál.
    Gerð er tillaga um leiðréttingu á skiptingu fjárheimilda þannig að 100 millj. kr. færist af öðrum gjöldum yfir á tilfærslu til samræmis við skiptingu síðustu ára.

09 Almanna- og réttaröryggi.
09.10 Löggæsla.
    Gerð er tillaga um 18 millj. kr. millifærslu af ýmsum löggæslu- og öryggismálum yfir á sjálfstæða eftirlitsnefnd með störfum lögreglu.

10 Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála.
10.40 Stjórnsýsla dómsmálaráðuneytis.
    Lagt er til að 87,9 millj. kr. framlag vegna fastanefnda dómsmálaráðuneytis verði flutt úr málaflokki 10.50 Útlendingamál yfir í málaflokkinn 10.40 Stjórnsýsla dómsmálaráðuneytis. Um er að ræða leiðréttingu á málaflokkaskipan fastanefnda eftir að kærunefnd útlendingamála var flutt af viðfangi nefndanna á sérstakan lið hjá ráðuneytinu í fjárlögum fyrir árið 2017.

10.50 Útlendingamál.
    Gerð er tillaga um 18 millj. kr. framlag til sjálfstæðrar eftirlitsnefndar með störfum lögreglu sem verði millifært af ýmsum löggæslu- og öryggismálum.
    Einnig er lagt til að 87,9 millj. kr. framlag vegna fastanefnda dómsmálaráðuneytis verði flutt úr málaflokki 10.50 Útlendingamál yfir í málaflokkinn 10.40 Stjórnsýsla dómsmálaráðuneytis. Um er að ræða leiðréttingu á málaflokkaskipan fastanefnda eftir að kærunefnd útlendingamála var flutt af viðfangi nefndanna á sérstakan lið hjá ráðuneytinu í fjárlögum fyrir árið 2017.

11 Samgöngu- og fjarskiptamál.
11.10 Samgöngur.
    Gerð er tillaga um 755 millj. kr. tímabundið framlag til samgöngumála sem skiptist í þrennt. Í fyrsta lagi 480 millj. kr. til þess að leggja bundið slitlag á veginn um Skriðdal og endurbæta hann. Í öðru lagi 200 millj. kr. til endurbóta á Grindavíkurvegi vegna umferðaröryggismála. Loks 75 millj. kr. til almenningssamgangna á landsbyggðinni.
    Einnig er lögð til leiðrétting á skiptingu fjárveitinga þannig að 511 millj. kr. færist af öðrum gjöldum yfir á tilfærslur til samræmis við skiptingu síðustu ára.

12 Landbúnaður.
12.20 Rannsóknir, þróun og nýsköpun í landbúnaðarmálum.
    Gerð er tillaga um 45 millj. kr. tímabundið framlag til Sambands íslenskra loðdýraræktenda til að mæta hluta af kostnaði minkabænda við að stækka búr vegna nýrra krafna um dýravelferð.

13 Sjávarútvegur og fiskeldi.
13.10 Stjórnun sjávarútvegs og fiskeldis.
    Lagt er til að 28 millj. kr. verði fluttar af Fiskistofu á Hafrannsóknastofnun vegna samnings stofnananna um að Hafrannsóknastofnun taki yfir hluta af rekstri tölvudeildar Fiskistofu. Fiskistofa hefur annast hluta af tölvumálum Hafrannsóknastofnunar en hún mun nú annast þau sjálf. Starfsmenn, notendaþjónusta og gögn flytjast frá Fiskistofu til Hafrannsóknastofnunar vegna þessa.

13.20 Rannsóknir, þróun og nýsköpun í sjávarútvegi.
    Gerð er tillaga um tímabundna 25 millj. kr. hækkun á framlagi til Matís.
    Einnig er lagt til að að 28 millj. kr. verði fluttar af Fiskistofu á Hafrannsóknastofnun vegna samnings stofnananna um að Hafrannsóknastofnun taki yfir hluta af rekstri tölvudeildar Fiskistofu. Fiskistofa hefur annast hluta af tölvumálum Hafrannsóknastofnunar en hún mun nú annast þau sjálf. Starfsmenn, notendaþjónusta og gögn flytjast frá Fiskistofu til Hafrannsóknastofnunar vegna þessa.

14 Ferðaþjónusta.
14.10 Stjórnun ferðamála og 14.20 Rannsóknir, þróun og nýsköpun í ferðamálum.
    Lagt er til að 20 millj. kr. flytjist af málaflokki 14.20 yfir á málaflokk 14.10 til að efla samninga við markaðsstofur landshlutanna.

16 Markaðseftirlit, neytendamál og stjórnsýsla atvinnumála.
16.10 Markaðseftirlit og neytendamál.
    Lagt er til að 8 millj. kr. framlag flytjist af varasjóði málaflokks 16.10 yfir á framlög til neytendamála til að koma til móts við aukin verkefni í neytendamálum.

17 Umhverfismál.
17.10 Náttúruvernd, skógrækt og landgræðsla.
    Gerð er tillaga um 150 millj. kr. tímabundið framlag til þjóðgarðsmiðstöðar á Hellissandi. Framkvæmdakostnaður er áætlaður 380 millj. kr. og ófjármagnað af því eru um 150 millj. kr. Hönnun liggur fyrir og geta framkvæmdir hafist með tiltölulega stuttum fyrirvara en fyrsta skóflustunga að miðstöðinni var tekin í ágúst 2016.

17.20 Rannsóknir og vöktun á náttúru Íslands.
    Gerð er tillaga um 44,8 millj. kr. tímabundið framlag til náttúrustofa sem er tvíþætt. Annars vegar er lagt til að hver stofa fái 3 millj. kr., en þær eru átta talsins, til að föst framlög haldi verðgildi sínu. Hins vegar er lagt til að tryggð verði verkefnabundin framlög til Náttúrustofu Vestfjarða, 10,1 millj. kr., og Náttúrustofu Norðausturlands, 10,7 millj. kr.

18 Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál.
18.10 Safnamál.
    Gerð er tillaga um samtals 17,8 millj. kr. hækkun á framlagi til safnamála sem skiptist í tvennt. Annars vegar 4 millj. kr. tímabundið framlag til Flugsafns Íslands. Hins vegar 13,8 millj. kr. tímabundið framlag til Hollvinasamtaka varðskipsins Óðins vegna viðhalds skipsins sem er hluti af Sjóminjasafni Reykjavíkur.

18.20 Menningarstofnanir.
    Samtals er lögð til 74 millj. kr. hækkun á framlagi til málaflokks menningarstofnana sem skiptist sem hér segir:
          25 millj. kr. tímabundið framlag til áframhaldandi viðgerðar og uppbyggingar mannvirkja á lóð Kvennaskólans á Blönduósi,
          30 millj. kr. tímabundið framlag til Vínlandsseturs í Dalabyggð,
          3 millj. kr. tímabundið framlag til Fischerseturs,
          5 millj. kr. tímabundið framlag til Söguseturs íslenska hestsins,
          3 millj. kr. tímabundið framlag til Fræðaseturs um forystufé,
          8 millj. kr. tímabundið framlag til Sigurhæðar ses.

18.30 Menningarsjóðir.
    Samtals er lögð til 41 millj. kr. hækkun á framlagi til málaflokks menningarsjóða sem skiptist sem hér segir:
          15 millj. kr. tímabundið framlag til RIFF, kvikmyndahátíðar í Reykjavík,
          10 millj. kr. tímabundið framlag til Skaftfells, myndlistarmiðstöðvar á Austurlandi,
          6 millj. kr. tímabundið framlag til Handverks og hönnunar,
          5 millj. kr. tímabundið framlag til Dansverkstæðisins,
          5 millj. kr. tímabundið framlag til Skáksögufélagsins vegna útgáfu skákævisögu Friðriks Ólafssonar og minnismerkis um hann.

21 Háskólastig.
21.20 Rannsóknastarfsemi á háskólastigi.
    Gerð er tillaga um 50 millj. kr. tímabundið framlag til að styrkja rannsóknir í landbúnaði við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri.
    Einnig er gerð tillaga um 10 millj. kr. tímabundið framlag til Rannsóknastöðvarinnar Rifs.
    Að auki er lögð til leiðréttingu á skiptingu fjárveitinga Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Önnur gjöld lækka um 20 millj. kr. og tilfærslur hækka um 20 millj. kr.

22 Önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og menningarmála.
22.20 Framhaldsfræðsla og menntun óflokkuð á skólastig.
    Samtals er lögð til 65 millj. kr. hækkun á framlagi til málaflokksins.
    Lagt er til að fjárveiting til Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra verði hækkuð um 25 millj. kr. til að styrkja rekstrargrunn stofnunarinnar. Laun starfsmanna sem sjá um túlkaþjónustu hafa hækkað umfram það gjald sem hefur verið innheimt vegna túlkaþjónustu og því er rekstur stofnunarinnar mjög þungur. Hluti af vanda stofnunarinnar felst í því að þegar gert er ráð fyrir launa- og verðlagshækkun framlaga er reiknað með að sú hækkun sé að hluta fjármögnuð með hækkun á rekstrartekjum. Þar sem stofnunin hefur ekki sjálftökurétt á hækkun gjalda hefur þetta ekki gengið eftir.
    Einnig er gerð tillaga um 30 millj. kr. tímabundið framlag til Austurbrúar vegna háskólastarfsemi á Austurlandi og tillaga um 10 millj. kr. tímabundið framlag til LungA-skólans á Seyðisfirði.

22.30 Stjórnsýsla mennta- og menningarmála.
    Gerð er tillaga um leiðréttingu á skiptingu fjárveitinga aðalskrifstofu mennta- og menningarmálaráðuneytis. Tilfærslur lækka um 59 millj. kr. og laun hækka um 59 millj. kr.

23 Sjúkrahúsþjónusta.
23.10 Sérhæfð sjúkrahúsþjónusta.
    Samtals er lögð til 256 millj. kr. hækkun á framlagi til málaflokksins sem skiptist í þrennt.
    Í fyrsta lagi er gerð tillaga um 30 millj. kr. tímabundna fjárheimild til að gera þarfagreiningu vegna nýrrar leguálmu við Sjúkrahúsið á Akureyri.
    Í öðru lagi er gerð tillaga um 50 millj. kr. tímabundið framlag til Sjúkrahússins á Akureyri vegna eflingar og þróunar sérhæfðrar göngudeildarþjónustu.
    Í þriðja lagi er gerð tillaga um að 176 millj. kr. fjárveiting vegna nokkurra sérsamninga Sjúkratrygginga Íslands og Landspítala verði millifærðir frá Sjúkratryggingum til Landspítala. Þessir samningar hafa verið í gangi sl. ár og litið á þá sem þróunarverkefni en í ljósi þess að töluverð reynsla er nú komin á þau verkefni sem kveðið er á um í samningunum er talið eðlilegt að þau verði hluti af fastri starfsemi spítalans.

23.20 Almenn sjúkrahúsþjónusta.
    Gerð er tillaga um 200 millj. kr. tímabundið framlag til heilsugæslu á landsbyggðinni sem er hluti af tillögu um samtals 400 millj. kr. tímabundið framlag til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni sem skiptist þannig að 200 millj. kr. gangi til heilsugæslu (málaflokkur 24.10) og aðrar 200 m.kr. til sjúkrasviða (málaflokkur 23.20). Gert er ráð fyrir því að við undirbúning fjármálaáætlunar liggi fyrir heildstæð stefna í báðum málaflokkunum sem m.a. taki til endanlegrar sundurliðunar fjárhæðarinnar.
    Einnig eru lagðar til þrjár millifærslur af málaflokki almennrar sjúkrahúsþjónustu yfir á málaflokk heilsugæslu sem fela í sér að tilteknar fjárveitingar til heilbrigðisstofnana sem samþykktar voru við 3. umræðu fjárlagafrumvarps fyrir árið 2017 færist frá sjúkrasviði yfir á heilsugæslusvið. Þar er um að ræða 70 millj. kr. til heimahjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands, 50 millj. kr. til að mæta auknu álagi í sjúkraflutningum og til heimahjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og 50 millj. kr. til að mæta auknu álagi vegna fjölgunar íbúa á svæði Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.

24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa.
24.10 Heilsugæsla.
    Gerð er tillaga um 46 millj. kr. millifærslu af málaflokki sérfræðiþjónustu og hjúkrunar á málaflokk heilsugæslu. Heilsugæslulæknar sem starfað hafa utan heilsugæslu með samning við Sjúkratryggingar Íslands færast til heilsugæslustöðva.
    Einnig er gerð tillaga um 200 millj. kr. tímabundið framlag til sjúkrasviða heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni sem er hluti af tillögu um samtals 400 millj. kr. tímabundið framlag til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni sem skiptist þannig að 200 millj. kr. gangi til heilsugæslu (málaflokkur 24.10) og aðrar 200 m.kr. til sjúkrasviða (málaflokkur 23.20). Gert er ráð fyrir því að við undirbúning fjármálaáætlunar liggi fyrir heildstæð stefna í báðum málaflokkunum sem m.a. taki til endanlegrar sundurliðunar fjárhæðarinnar.
    Að auki eru lagðar til þrjár millifærslur af málaflokki almennrar sjúkrahúsþjónustu yfir á málaflokk heilsugæslu sem fela í sér að tilteknar fjárveitingar til heilbrigðisstofnana sem samþykktar voru við 3. umræðu fjárlagafrumvarps fyrir árið 2017 færist frá sjúkrasviði yfir á heilsugæslusvið. Þar er um að ræða 70 millj. kr. til heimahjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands, 50 millj. kr. til að mæta auknu álagi í sjúkraflutningum og til heimahjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og 50 millj. kr. til að mæta auknu álagi vegna fjölgunar íbúa á svæði Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.

24.20 Sérfræðiþjónusta og hjúkrun.
    Gerð er tillaga um 46 millj. kr. millifærslu af málaflokki sérfræðiþjónustu og hjúkrunar á málaflokk heilsugæslu. Heilsugæslulæknar sem starfað hafa utan heilsugæslu með samning við Sjúkratryggingar Íslands færast til heilsugæslustöðva.
    Einnig er gerð tillaga um að 176 millj. kr. fjárveiting vegna nokkurra sérsamninga Sjúkratrygginga Íslands og Landspítala verði millifærð frá Sjúkratryggingum til Landspítala. Þessir samningar hafa verið í gangi sl. ár og litið á þá sem þróunarverkefni en ljósi þess að töluverð reynsla er nú komin á þau verkefni sem kveðið er á um í samningunum er talið eðlilegt að þau verði hluti af fastri starfsemi spítalans.

27 Örorka og málefni fatlaðs fólks.
27.20 Bætur skv. lögum um félagslega aðstoð, örorka.
    Lagt er til 166 millj. kr. aukið framlag til heimilisuppbótar örorkulífeyrisþega vegna breyttrar útfærslu á hækkun bóta til örorkulífeyrisþega 1. janúar 2018. Árið 2018 verða bætur almannatrygginga til tekjulausra örorkulífeyrisþega sem halda einir heimili 280.000 kr. á mánuði með uppbót á lífeyri vegna framfærslu. Í forsendum fjárlagafrumvarpsins er gert ráð fyrir að bætur almannatrygginga hækki um 4,7% frá og með 1. janúar 2018 og yrði þá fjárhæð bótanna 293.160 kr. Í yfirlýsingu stjórnvalda frá árinu 2016 var gert ráð fyrir að elli- og örorkulífeyrisþegar sem halda einir heimili fengju 300.000 kr. í bætur frá og með 1. janúar 2018. Í fjárlagafrumvarpinu var gert ráð fyrir viðbótarhækkun á framfærsluviðmiði sem nemur 6.840 kr. þannig að þeir örorkulífeyrisþegar sem halda einir heimili fengju samtals 300.000 kr. í bætur. Nú er lagt til að í stað þess að hækka framfærsluviðmiðið um 6.840 kr. verði farin sú leið, líkt og hjá ellilífeyrisþegum, að hækka heimilisuppbót til örorkulífeyrisþega um 6.840 kr. Áætlað er að þessi leið kosti ríkissjóð 166 millj. kr. umfram það sem áætlað var í frumvarpinu.

27.30 Málefni fatlaðs fólks.
    Gerð er tillaga um 70 millj. kr. hækkun á framlagi til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, þar af 30 millj. kr. vegna þeirra sem þurfa á sólarhringsmeðferð í öndunarvél að halda, til að hægt verði að gera fleiri samninga um slíka aðstoð en gert var ráð fyrir í frumvarpinu, sbr. nefndarálit velferðarnefndar í 28. máli. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir fjölgun samninga úr 55 upp í 80 en með þessari viðbót verður hægt að bæta 20 við og ná því markmiði að samningarnir verði um 100 á árinu 2018 til að mæta uppsafnaðri þörf.

29 Fjölskyldumál.
29.40 Annar stuðningur við fjölskyldur og börn.
    Gerð er tillaga um 40,6 millj. kr. millfærslu frá aðalskrifstofu velferðarráðuneytis til Barnaverndarstofu þar sem að svo komnu máli verður ekki af fyrirhuguðum flutningi á verkefnum tengdum eftirliti með barnavernd frá Barnaverndarstofu til sérstakrar stjórnsýslustofnunar.
    Einnig er gerð tillaga um samtals 50 millj. kr. tímabundið framlag sem skiptist í tvennt. Annars vegar 20 millj. kr. tímabundið framlag til Miðstöðvar foreldra og barna. Hins vegar 30 millj. kr. tímabundið framlag til ART-verkefnisins sem snýst um félagsfærni-, sjálfstjórnar- og siðferðisþjálfun barna með hegðunarvanda.

30 Vinnumarkaður og atvinnuleysi.
30.10 Vinnumál og atvinnuleysi.
    Lagt er til 55,8 millj. kr. viðbótarframlag til starfsendurhæfingarsjóða árið 2018 þannig að það nemi samtals 747 millj. kr. á árinu. Það svarar til 0,05% af gjaldstofni tryggingagjalds eins og hann er áætlaður í fjárlagafrumvarpinu og er í samræmi við fyrirhugaða framlengingu á samkomulagi félags- og húsnæðismálaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra annars vegar og VIRK, starfsendurhæfingarsjóðs, hins vegar síðan í desember 2015 um framlög til sjóðsins.

32 Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála.
32.30 Stjórnsýsla velferðarmála.
    Tillögur í málaflokknum eru þrenns konar.
    Í fyrsta lagi er gerð tillaga um 36 millj. kr. framlag vegna aukins kostnaðar við sameiningu skrifstofa Sjúkratrygginga Íslands á einum stað við Vínlandsleið í samræmi við vilyrði sem fjármála- og efnahagsráðuneytið og velferðarráðuneytið gáfu Sjúkratryggingum áður en ákveðið var að færa starfsemi þeirra úr ríkishúsnæði við Rauðarárstíg.
    Í öðru lagi er gerð tillaga um samtals 75 millj. kr. tímabundin framlög sem skiptast á eftirfarandi hátt:
          10 millj. kr. tímabundið framlag til Aflsins, samtaka gegn kynferðis- og heimilisofbeldi,
          25 millj. kr. tímabundið framlag til Hlaðgerðarkots þar sem Samhjálp rekur áfengis- og vímuefnameðferð,
          15 millj. kr. tímabundið framlag til viðhalds innviða á Sólheimum í Grímsnesi,
          25 millj. kr. tímabundið framlag til Ljóssins, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðvar fyrir krabbameinsgreinda.
    Í þriðja lagi er gerð tillaga um 40,6 millj. kr. millfærslu frá aðalskrifstofu velferðarráðuneytis til Barnaverndarstofu þar sem að svo komnu máli verður ekki af fyrirhuguðum flutningi á verkefnum tengdum eftirliti með barnavernd frá Barnaverndarstofu til sérstakrar stjórnsýslustofnunar.

33 Fjármagnskostnaður, ábyrgðir og lífeyrisskuldbindingar.
33.10 Fjármagnskostnaður.
    Gerð er tillaga um 918 millj. kr. lækkun vaxtagjalda vegna endurfjármögnunar skuldabréfa í evrum í desember 2017. Gefin voru út skuldabréf að fjárhæð 500 milljónir evra á 0,5% föstum vöxtum til fimm ára. Á sama tíma voru greidd upp eldri skuldabréf, gefin út árið 2014, að fjárhæð 397,6 milljónir evra á 2,5% föstum vöxtum. Miðað við spá um þróun gengis krónunnar gagnvart evru á árinu 2018 nema vextir af nýju útgáfunni 309 millj. kr. á næsta ári. Á móti kemur lækkun vaxta vegna uppgreiðslu eldra lánsins um 1.227 millj. kr. Lækkun vaxtagjalda vegna endurfjármögnunarinnar nemur því samtals 918 millj. kr.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um á sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 21. desember 2017.

Willum Þór Þórsson,
form., frsm.
Haraldur Benediktsson. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
Njáll Trausti Friðbertsson. Páll Magnússon.