Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 93  —  1. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2018.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.


    Fulltrúi Samfylkingarinnar sem skipar 1. minni hluta gagnrýnir harðlega fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Fjárlagafrumvarpið ber vott um svik við kjósendur og algjört metnaðarleysi þegar kemur að fjárfestingum í velferðarkerfum þjóðarinnar. Enda lýstu langflestir hagsmunaaðilar sem komu á fund fjárlaganefndarinnar miklum vonbrigðum með fjárlagafrumvarpið.
    Það er mikilvægt að hér á landi sé bæði tryggður efnahagslegur og félagslegur stöðugleiki. Fjárlagafrumvarpið gerir því miður hvorugt. Hvorki er ráðist í nauðsynlegar fjárfestingar í innviðum samfélagsins né er ráðist í nauðsynlega tekjuöflun fyrir hið opinbera sem rétt er að gera á þessum tíma uppsveiflunnar. Það skiptir einnig miklu máli að hér séu stunduð ábyrg ríkisfjármál á sama tíma og þörf fyrir opinbera fjárfestingu er sinnt. Hætt er við að þegar hægir á í efnahagslífinu muni tekjur ríkissjóðs ekki duga til að fjármagna núverandi útgjöld. Þess vegna er nauðsynlegt að líta á bæði gjaldahlið frumvarpsins og tekjuhliðina.
    Því til viðbótar kemur upp mjög áhugaverð mynd þegar þetta fjárlagafrumvarp er borið saman við fjárlagafrumvarpið sem sú ríkisstjórn sem sprakk í haust lagði fram. Það frumvarp hafa fulltrúar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs kallað „hægri sveltistefnu“ og „ömurlegt“. Hins vegar kemur í ljós að einungis er gerð 2% breyting á útgjöldum ríkisins milli fjárlagafrumvarpa og nemur breytingin aðeins 0,64% af landsframleiðslu, sem er óralangt frá kosningaloforðunum sem eru ekki eldri en sjö vikna gömul.
    Afar fá merki er að finna um stefnubreytingu eða sérstakar tillögur sem ætla mætti að kæmu vegna áhrifa velferðarflokks innan ríkisstjórnarinnar. Innkoma Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í ríkisstjórn og áhrif hennar á ríkisfjármálin eru því afar takmörkuð og ber að harma það. 1. minni hluti gagnrýnir sérstaklega skort á velferðaráherslum í fjárlagafrumvarpinu.
    Nú kemur í ljós að tillögur meiri hlutans ná afskaplega skammt þegar kemur að nauðsynlegum breytingum á frumvarpinu. Í raun leggur meiri hlutinn til breytingar á fjárlagafrumvarpinu um einungis 0,2% stig. Því er ekki lengur um að ræða 2% frumvarp Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs heldur 2,2% frumvarp. Slík minni háttar breyting á frumvarpi sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð gagnrýndi harðlega fyrir nokkrum vikum er merki um mikið árangursleysi og er í raun svik við kjósendur.
    Hér á eftir er einungis tæpt á helstu gagnrýnisatriðum sem lúta að frumvarpinu og er ekki um að ræða tæmandi talningu á því sem aflaga fer í fjárlagafrumvarpinu eða þeim breytingum sem æskilegar væru á frumvarpinu.

Ekkert tekið á misskiptingunni.
    Það fyrsta sem vekur athygli við lestur fjárlagafrumvarpsins er að ekkert er tekið á misskiptingunni í samfélaginu. Núna eiga 5% af ríkustu landsmönnum næstum jafnmikið af hreinum eignum landsmanna og 95% landsmanna. Fyrir kosningar talaði Vinstrihreyfingin – grænt framboð um að það þyrfti að taka á þessari ótrúlegu misskiptingu í gegnum skattkerfið. Í fjárlagafrumvarpinu er það hins vegar ekki gert. Skattastefna sem þjónar best þeim tekjuhæstu verður einnig ofan á í stjórnarsáttmálanum. Þar er lögð áhersla á lækkun tekjuskatts sem gagnast fyrst tekjuhærri hópunum en fólk með 800.000 kr. eða meira í laun fær þrefalt meira en fólk á lægstu laununum ef áform stjórnarsáttmálans ganga eftir. Til viðbótar á hugsanlega að endurskipuleggja fjármagnstekjuskattskerfið þannig að fjármagnseigendur eiga að fá vernd gegn verðbólgu, vernd sem launafólk býr ekki við.
    Þá er gert ráð fyrir að veiðigjöld séu áfram einungis 1,2% af tekjum ríkisins en það eru ekki margir eigendur auðlinda sem myndu sætta sig við að fá einungis um 1% af tekjum sínum frá meginauðlind sinni en íslenska þjóðin er látin gera það.

Ekkert í barnabætur og fæðingarorlof.
    Það er þjóðarskömm hversu mörg börn búa við óviðunandi aðstæður á Íslandi en talið er að allt að 6.000 börn líði skort í okkar ríka samfélagi. Tekjur heimila, bæði laun og félagslegar bætur, eru helsti áhrifaþáttur barnafátæktar. Vanda láglaunafólks og einnig fólks með meðaltekjur mætti þó mæta með almennum hætti með því að hækka barnabætur og húsnæðisstuðning. Þrátt fyrir það hefur barnabótakerfið fengið að grotna niður undanfarin ár sem er afskaplega miður í því ljósi að barnabætur eru mjög góð leið til að aðstoða ungar fjölskyldur í landinu.
    Tekjuskerðingarmörk barnabóta hafa lækkað verulega að raungildi en þau hafa frá verið óbreytt frá árinu 2013 á sama tíma og launavísitala hefur hækkað um tæplega 40%. Útgjöld til barnabóta halda því áfram að dragast saman að raungildi líkt og undanfarin ár og fjölskyldum sem fá greiddar barnabætur að fækka. Verulega hefur því dregið úr stuðningi og tekjujöfnunarhlutverki barnabótakerfisins á liðnum árum. Samkvæmt umsögn Alþýðusambands Íslands mun tekjuskerðing barnabóta á næsta ári miðað við áform frumvarpsins hefjast við tæplega 241.000 kr. mánaðartekjur foreldris sem er langt undir lágmarkslaunum fyrir fullt starf á vinnumarkaði, sem eru nú 280.000 kr. og verða frá og með 1. maí 2018 300.000 kr. Gera má ráð fyrir að hjón með tvö börn, sem bæði hafa tekjur við neðri fjórðungsmörk fái saman um 3.000 kr. í barnabætur á mánuði.
    Sé hins vegar litið á fjárlagafrumvarp Katrínar Jakobsdóttur kemur í ljóst að barnabætur eru nákvæmlega jafnháar og voru fyrirhugaðar í fjárlagafrumvarpi síðustu ríkisstjórnar sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð gagnrýndi harðlega fyrir kosningar og taldi meira að segja að væri dæmi um hægri sveltistefnu. Ungar fjölskyldur á Norðurlöndum munar um stuðninginn sem barnabætur veita og jöfnunarhlutverk þeirra er mikilvægt fyrir samfélagið allt. Barnabótakerfi norrænu ríkjanna er verðug fyrirmynd enda góð reynsla af þeim fyrir börnin og foreldra þeirra. Það þarf að standa við bakið á barnafjölskyldum hér á landi og hækka barnabæturnar þannig að fleiri njóti þeirra.
    Sömuleiðis er engu bætt við í fæðingarorlofið og sitja málefni fjölskyldufólks því á hakanum með nýrri ríkisstjórn að þessu leyti. Í raun er ekki gert ráð fyrir fjármunum til að mæta tillögum starfshóps um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum sem lagði til að hámarksbætur hækkuðu í 600.000 kr. og tekjur upp að 300.000 kr. skerðist ekki. Ekki er heldur gert ráð fyrir að lengja fæðingarorlof í 12 mánuði líkt og starfshópurinn lagði til.
    Kaupmáttur hámarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði er í dag um 40% lægri en á árinu 2007 og yrði hámarksgreiðslan hækkuð í 600.000 kr. yrði kaupmáttur hennar enn um 30% lægri en á árinu 2007. Þá hafa hámarksgreiðslur úr sjóðunum farið úr því að vera ríflega 120% af meðallaunum fullvinnandi launafólks niður í um 66% á árinu 2017.
    1. minni hluti leggur fram breytingartillögu þar sem barnabætur (málefnasvið fjölskyldusvið) verða auknar um 3 milljarða kr.

Ekkert í vaxtabætur og húsnæðismál.
    Það er staðreynd að húsnæðiskostnaður er hlutfallslega mjög hár ( hátt hlutfall ) af tekjum þeirra sem minnstar hafa tekjurnar. Sé hins vegar litið til vaxtabótakerfisins þá er staðan enn verri en það sem sést í barnabótakerfinu því um helmingur þeirra sem nutu vaxtabóta fyrir nokkrum árum gera það ekki lengur. Það er engin innspýting í vaxtabótakerfið með nýrri ríkisstjórn og dragast vaxtabætur meira að segja saman um 2 milljarða kr. milli ára.
    Húsnæðisstuðningur í gegnum vaxtabótakerfið hefur lækkað um 67% að raungildi frá árinu 2013 og heimilum sem fengu greiddar vaxtabætur fækkaði um tæplega 16.000 milli áranna 2013 og 2016 og má gera ráð fyrir að þeim haldi áfram að fækka. Frumvarpið gerir ráð fyrir að viðmiðunarfjárhæðir og eignarmörk í vaxtabótakerfinu verði óbreytt á milli ára en þau hafa rýrnað verulega í samanburði við laun og fasteignaverð á undanförnum árum.
    Samkvæmt umsögn Alþýðusambands Íslands hafa eignarviðmið (eignarskerðingarmörk) einungis hækkað um 12,5% og bótafjárhæðir (hámarksbætur) hafa verið óbreyttar frá árinu 2010 á sama tíma og fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur til að mynda hækkað um ríflega 90%, almennt verðlag hefur hækkað um 23% og launavísitala hefur hækkað um tæplega 68%. Þetta gerir það að verkum að kerfið styður við sífellt færri heimili. Tekjulágt fólk sem á lítið eigið fé í húsnæði sínu (20%) fær því í dag lítinn sem engan stuðning í gegnum vaxtabótakerfið.
    Því til viðbótar er ekki að sjá að gert sé ráð fyrir framlögum til hækkunar á bótafjárhæðum húsnæðisbóta né skerðingarmarka vegna tekna sem þýðir að dregið er úr stuðningi við leigjendur að raunvirði og fækka mun í hópi þeirra sem rétt eiga á stuðningi. Þá er samkvæmt ASÍ gert ráð fyrir að framlög til húsnæðisbóta fari lækkandi til ársins 2020.
    Þá er engin aukning í húsnæðismálin milli fjárlagafrumvarpa sem eru þó eitt brýnasta úrlausnarefni stjórnvalda. Alþýðusamband Íslands hefur metið að byggja þurfi a.m.k. 1.000 íbúðir á ári til að mæta uppsafnaðri þörf. Fjárlagafrumvarpið hins vegar mætir ekki þessari þörf og þarf a.m.k. 2 milljarða kr. til viðbótar í formi stofnframlaga frá ríkinu svo það sé hægt.
    1. minni hluti leggur fram breytingartillögu þar sem lagt er til að vaxtabætur (málefnasvið húsnæðisstuðningur) verði auknar um 2 milljarða kr.
    1. minni hluti leggur fram breytingartillögu um að stofnframlög til almennrar íbúða (málefnasvið húsnæðisstuðningur) aukist um 2 milljarða kr.

Heilbrigðismálin vanrækt.
    Samfylkingin telur mikla þörf á að styðja vel við alhliða uppbyggingu á hinu opinbera heilbrigðiskerfi sem þarf sárlega á því að halda eftir hrunið sem lék samfélagið grátt. Þá vill Samfylkingin huga sérstaklega að mönnun og álagi starfsfólks innan heilbrigðiskerfisins. Samkvæmt nýrri skýrslu OECD er Ísland neðst allra evrópskra OECD-ríkja þegar kemur að hlutfallslegu fé til innviðauppbyggingar í heilbrigðisþjónustu. Ísland er til dæmis töluvert neðar en Rúmenía sem er næstneðst.
    Það veldur því miklum vonbrigðum hjá 1. minni hluta að í einu stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar sem eru heilbrigðismálin, er aukningin í málaflokkinn minna en 3% með tilkomu nýrrar ríkisstjórnar. Það er því ekki hægt með nokkru móti að segja að hér sé á ferðinni einhver stórsókn í auknum fjármunum til heilbrigðiskerfisins.
    Hér á eftir má sjá töflu frá velferðarráðuneytinu þar sem dregin er fram sú viðbót sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tryggir í þennan mikilvæga málaflokk þegar kemur að velferðarmálum miðað við það fjárlagafrumvarp sem dagaði uppi í þinginu í september vegna stjórnarslita.
    Af þessari töflu sést að grundvallarþættir íslensks velferðarkerfis eru að fá litla eða enga fjáraukningu með tilkomu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í ríkisstjórn og þar sem aukning á sér stað er hún langt í frá því sem lofað var fyrir eingöngu sjö vikum í kosningabaráttunni.

Breytingar frá fjárlögum eftir málaflokkum Fjárlög
2017
Viðb.sept. Viðb.des. Frumvarp
2018
M2310 Sérhæfð sjúkrahúsþjónusta 72.860,7 4.425,9 2.787,0 80.073,6
M2320 Almenn sjúkrahúsþjónusta 8.129,1 826,4 200,0 9.155,5
M2330 Erlend sjúkrahúsþjónusta 2.009,3 302,4 13,0 2.324,7
M2410 Heilsugæsla 21.920,0 1.320,0 560,0 23.800,0
M2420 Sérfræðiþjónusta og hjúkrun 14.633,3 1.674,6 60,0 16.367,9
M2430 Sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun 3.153,1 1.473,3 653,0 5.279,4
M2440 Sjúkraflutningar 2.330,3 23,7 100,0 2.454,0
M2510 Hjúkrunar- og dvalarrými 40.471,7 976,9 170,0 41.618,6
M2520 Endurhæfingarþjónusta 4.999,8 28,2 190,0 5.218,0
M2610 Lyf 13.586,2 1.605,3 2.523,7 17.715,2
M2630 Hjálpartæki 3.538,8 675,3 579,7 4.793,8
M2710 Bætur skv. lögum um almannatryggingar,
    örorkulífeyrir
36.412 ,9 4.125,0 490,0 41.027,9
M2720 Bætur skv. lögum um félagslega aðstoð, örorka 13.451,1 1.109,7 870,0 15.430,8
M2730 Málefni fatlaðs fólks 360,5 132,7 0,0 493,2
M2740 Aðrar örorkugreiðslur (Önnur velferðarmál,
    lífeyristrygg.)
78 ,0 83,6 0,0 161,6
M2810 Bætur skv. lögum um almannatryggingar,
    lífeyrir aldraðra
61.983 ,1 5.889,1 1.900,0 69.772,2
M2820 Bætur skv. lögum um félagslega aðstoð, öldrun 5.324,7 1.127,1 0,0 6.451,8
M2830 Þjónusta við aldraða og aðrar greiðslur, óta. 25,0 0,0 0,0 25,0
M2920 Fæðingarorlof 10.357,0 1.214,8 0,0 11.571,8
M2930 Bætur skv. lögum um félagslega aðstoð, fjölskyldur 395,2 22,8 0,0 418,0
M2940 Annar stuðningur við fjölskyldur og börn 5.753,4 314,9 190,0 6.258,3
M2950 Bætur til eftirlifenda 481,0 22,6 0,0 503,6
M2960 Bætur vegna veikinda og slysa 1.857,1 108,9 0,0 1.966,0
M2970 Málefni innflytjenda og flóttamanna 153,1 257,7 0,0 410,8
M3010 Vinnumál og atvinnuleysi 15.783,4 2.175,9 0,0 17.959,3
M3020 Vinnumarkaður 1.096,2 105,8 0,0 1.202,0
M3110 Húsnæðisstuðningur 8.211,8 1.180,8 0,0 9.392,6
M3210Lýðheilsa, forvarnir og eftirlit 2.617,5 27,0 230,0 2.874,5
M3220 Jafnréttismál 224,0 20,5 0,0 244,5
M3230 Stjórnsýsla velferðarmála 5.461,1 168,6 39,9 5.669,6
357.658,4 31.419,5 11.556,3 400.634,2

    Heildaraukningin í öll sjúkrahús landsins átti að vera um 3 milljarðar kr. sem er aðeins um 0,35% af tekjum ríkisins. Heilsugæslan fær um 3% hækkun á fjárframlögum. Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta fá enn minni hækkun eða 0,6% milli fjárlagafrumvarpa en í tilviki hjúkrunar- og dvalarýma er meira að segja lækkun á fjárframlögum milli ára.
    Röksemdafærsla meiri hlutans um að þetta verði leiðrétt í fjármálaáætlun heldur engu vatni því að það mun ekki skila sér fyrr en ári of seint.
    Landspítalinn staðfesti á fundi sínum hjá fjárlaganefnd að hann vantar tæplega 3 milljarða kr. bara til að halda í horfinu. Á fundi með fjárlaganefnd staðfesti forstjóri Landspítalans að hér sé því engin stórsókn á ferðinni þegar kemur að Landspítalanum. Þrátt fyrir mikla framleiðniaukningu glímir spítalinn enn við mikla fjárþörf en svo að spítalinn geti haldið óbreyttri starfsemi þarf hann að minnsta kosti 645 millj. kr. Einnig vantar spítalann um 1.700 millj. kr. í fasteignir og um 400 millj. kr. í tækjakaup.
    Verði fjárlagafrumvarpið að lögum munu fjárheimildir Landspítalans til rekstrar á næsta ári verða 1.800 millj. kr. lægri en árið 2008, þrátt fyrir verulega fjölgun og öldrun landsmanna.
    Starfsemi spítalans byggist á því starfsfólki sem þar vinnur og því þarf að hlúa vel að þeim mannauði. Samhliða er mikilvægt að lögð sé áhersla á vísinda- og rannsóknarhlutverk spítalans. Þegar kemur að uppbyggingu spítalans styður Samfylkingin uppbyggingu spítalans við Hringbraut.
    Það vekur mikla athygli og vonbrigði að meiri hlutinn leggur ekki til neina fjárveitingu til Landspítalans.
    Í umsögn sinni til fjárlaganefndar tekur ASÍ undir áhyggjur Landspítala sem hefur bent á að umtalsvert meira fé vanti til reksturs, viðhalds og tækjakaupa á spítalanum en að óbreyttu mun enn þurfa að skera niður í þjónustu spítalans. Svipuð varnaðarorð hafi heyrst frá forstjórum annarra heilbrigðisstofnana. Í umsögn heilbrigðisstofnunar Norðurlands segir: „Óeðlilegt er íbúar Norðurlands njóti ekki yfirlýstrar stefnu yfirvalda um að efla heilbrigðisþjónustu.“
    Þá lýsir 1. minni hluti einnig miklum áhyggjum af fjárveitingum til Sjúkrahússins á Akureyri en í umsögn þaðan kemur eftirfarandi fram: „Stjórnir hjúkrunarráðs og læknaráðs Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) lýsa yfir vonbrigðum og þungum áhyggjum af ófullnægjandi fjárframlagi til Sjúkrahússins á Akureyri í fjárlagafrumvarpi ársins 2018. Stjórnirnar telja að það geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir starfsemi og stöðu sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu.“
    Þessi umsögn er ein staðfestingin á að engin stórsókn sé á ferðinni þegar kemur að fjárfestingum til heilbrigðismála. Miðað við það fjármagn sem er eyrnamerkt Sjúkrahúsinu á Akureyri í fjárlagafrumvarpi 2018 er raunaukning til almenns reksturs 47 millj. kr. (um 0,6%) sem er óbreytt upphæð frá frumvarpinu sem lagt var fram sl. september. Þá eru á safnliðum málaflokksins 50 millj. kr. sem ætlaðir eru sjúkrahúsinu og tímabundið framlag til tækjakaupa um 20 millj. kr. Samkvæmt upplýsingum frá stjórnendum dugar þessi upphæð engan veginn til að standa undir síaukinni þjónustuþörf sem hefur vaxið á bilinu 2– 4% árlega, auk aukins þunga sjúkraflugs. Því er mjög mikilvægt að styðja betur við starfsemi sjúkrahússins.
    Í umsögn Sjúkrahússins á Akureyri kemur fram að það vantar um 400 millj. kr. til að standa undir nauðsynlegri þjónustu. Því mun tillaga fjárlaganefndar Alþingis um 50 millj. kr. til viðbótar til Sjúkrahússins á Akureyri duga skammt.
    Þá er mikilvægt að muna að heilbrigðiskerfi landsins má finna um allt land, en þess er ekki merki að sjá í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Því sé litið til sjúkrahúsþjónustu einstakra heilbrigðisstofnana út á landi þá áttu þær ekki að fá neinar viðbætur í sjúkrahúsþjónustu umfram það sem þá þegar hafði verið lagt til í fjárlagafrumvarpinu frá því í september.
    Í eftirfarandi töflu má sjá breytingu á fjárframlögum undir málefnasviðinu sjúkrahúsþjónusta milli fjárlagafrumvarpsins sem fyrrverandi ríkisstjórn lagði fram („hægri sveltistefnan“) og þess fjárlagafrumvarps sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð stendur að.

September Desember Breyting Breyting%
Heilbrigðisstofnun Vesturlands 2.306,2 2.306,2 0,0 0,0%
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða 797,8 797,8 0,0 0,0%
Heilbrigðisstofnun Norðurlands 1.200,0 1.200,0 0,0 0,0%
Heilbrigðisstofnun Austurlands 1.071,9 1.071,9 0,0 0,0%
Heilbrigðisstofnun Suðurlands 1.935,9 1.935,9 0,0 0,0%
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 1.070,4 1.070,4 0,0 0,0%

    Miðað við þetta fjárlagafrumvarp er því ljóst að enn er áframhaldandi sveltistefna gagnvart heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni og í raun engin viðbót sett inn til heilbrigðisstofnana. Staða heilbrigðisstofnana út á landi er þannig að forstöðumenn þeirra standa að óbreyttu frammi fyrir uppsögnum starfsfólks og lokun deilda og starfsstöðva.
         Í umsögn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands til fjárlaganefndar segir: „Enn vantar ríflega 200 millj. kr. Í fjárveitingum til HSU hefur enn ekki verið bætt fyrir eftirfarandi aukningu sem öll tilheyrir lögbundinni heilbrigðisgrunnþjónustu á Suðurlandi“ og „komi ekki til viðbótarfjárframlag til rekstrar á árinu 2018 munu hagræðingaraðgerðir einar og sér ekki duga til að brúa bilið og er því nauðsynlegt að grípa strax í ársbyrjun 2018 til niðurskurðaraðgerða og lokunar að hluta á heilsugæslu- og sjúkrasviði HSU í heilbrigðisumdæmi Suðurlands“. Þar kom einnig fram að fyrir einn milljarð kr. „hefði verið hægt að endurreisa heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni allri og tryggja innviði og kaupa nauðsynlegan lágmarksbúnað sem víða er úr sér genginn og ónýtur á heilbrigðisstofnunum“.
    Samkvæmt tillögum meiri hlutans munu fjárveitingar til heilbrigðisstofnana út á landi hækka um 400 millj. kr. Slíkri hækkun ber að fagna en er minna en helmingur af því sem þessar stofnanir þurfa til að halda óbreyttri starfsemi. Eins og víðast annars staðar er því ekki um neina stórsókn í fjárfestingum til heilbrigðisstofnana um að ræða.
    Ef standa á við markmið um að heilsugæslan skuli vera fyrsti viðkomustaður almennings í heilbrigðiskerfinu er nauðsynlegt að endurskoða rekstrarlíkan stöðvanna, einkum á landsbyggðinni. Að auki eru málefni heilsugæslunnar sérstakt áskorunarefni í ljósi hins nýja greiðsluþátttökukerfis sem færir heilsugæslustöðvunum enn frekari verkefni sem hliðvörðum inn í heilbrigðiskerfið. Það krefst aukins viðbúnaðar, bæði hvað varðar aðstöðu og skipan fagfólks.
    Það var sláandi að hlusta á fulltrúa hjúkrunarheimilanna á fundi fjárlaganefndar þar sem beinlínis er farið aftur á bak í málaflokknum. Heildarfjárheimild til málaflokksins hjúkrunar- og dvalarrýma lækkar um 156 millj. kr. milli ára.
    Samkvæmt gildandi fjármálaáætlun er stefnt að byggingu á um 260 nýjum hjúkrunarrýmum til ársins 2020 sem er þó einungis um helmingur af áætlaðri þörf. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að bæta í þá áætlun og því fyrirséður áframhaldandi skortur á hjúkrunarrýmum. Gert er ráð fyrir viðbótarfé til reksturs nýrra hjúkrunarrýma á næsta ári en ekki er að sjá að bætt sé í rekstrargrunn þeirra sem fyrir eru en hjúkrunarheimilin eiga mörg í umtalsverðum rekstrarvanda. Þá er áfram gert ráð fyrir að framlengja heimild til að nýta fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra til reksturs hjúkrunarrýma sem er andstætt hlutverki hans.
    Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga segir: „Í stjórnarsáttmála koma fram fyrirheit um að hugað verði að því að styrkja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila og jafnframt lögð áhersla á aðra þjónustuþætti, svo sem heimahjúkrun, dagþjálfun og endurhæfingu. Þessa sést þó hvergi stað í frumvarpi til fjárlaga.“ Þar stendur einnig: „Afar brýnt er að fjölga dagdvalarrýmum þannig að tryggt sé að þróunin sé að lágmarki í samræmi við reiknaða þörf. Til þess að ná því markmiði þurfa fjárveitingar að vera mun hærri en þær 39,1 millj. kr. sem fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir.“
    Ekki er að sjá að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir framlagi til að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu eins og fyrirheit hafa verið gefin um. Nýtt greiðsluþátttökukerfi tók gildi þann 1. maí sl. en samkvæmt því greiða almennir notendur að hámarki 69.700 kr. á ári fyrir heilbrigðisþjónustu sem er umtalsvert meira en það 50.000 kr. hámark sem fyrirheit voru gefin um við afgreiðslu breytinganna á Alþingi vorið 2016.
    Samfylkingin telur að greiðsluþátttaka allra sé nú þegar of mikil í heilbrigðisþjónustunni, nýtt kerfi sé vanfjármagnað, þakið of hátt og hætta á að hækkun á kostnaði hjá stórum hluta notenda muni leiða til þess að tekjulægri hópar neiti sér um heilbrigðisþjónustu í enn meira mæli en nú er. Samfylkingin vill að stefnt sé að því að heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls og talaði fyrir því í aðdraganda kosninga að greiðsluþátttaka sjúklinga yrði minnkuð í áföngum.
    Að lokum vakti það athygli að fulltrúar velferðarráðuneytisins staðfestu á fundi fjárlaganefndar að enn eru gerðar aðhaldskröfur á heilbrigðisstofnanir og kemur það sérkennilega fyrir sjónir í ljósi þeirra yfirlýsinga stjórnarflokkanna um að hér eigi að hefja stórsókn í fjárfestingum í heilbrigðismálum. Til dæmis fær Landspítalinn um 330 millj. kr. aðhaldskröfu frá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.
    1. minni hluti leggur fram breytingartillögu um að útgjöld til sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu, sem mundu fyrst og fremst gagnast Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri, aukist um 3.000 millj. kr.
    1. minni hluti leggur fram breytingartillögu um að útgjöld til almennrar sjúkrahúsþjónustu, sem mundu m.a. gagnast heilbrigðisstofnunum út á landi, hækki um 500 millj. kr.
    1. minni hluti leggur fram breytingartillögu þar sem útgjöld til heilsugæslunnar (málefnasvið heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa) aukast um 400 millj. kr.

Gera þarf betur í menntamálunum.
    Við stöndum frammi fyrir samfélagsbreytingum á næstu áratugum þar sem allt bendir til þess að atvinnulíf muni taka stakkaskiptum. Með aukinni sjálfvirknivæðingu og gervigreind munu mörg störf hverfa, önnur haldast og ný verða til. Eina raunhæfa leiðin til að mæta þessari áskorun er að efla skólastarf og aðlaga það nýjum veruleika.
    Þegar litið er til menntamála í fjárlagafrumvarpinu er vandséð að hafin sé stórsókn í þeim málaflokki eins og ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu. Framhaldsskólar fá einungis 1,8% aukningu frá því sem var búið að ákveða og fullyrtu fulltrúar félags skólameistara á fundi fjárlaganefndarinnar að margir framhaldsskólar væru enn á þolmörkum þrátt þá aukningu sem frumvarpið getur um.
    Framhaldsskólarnir standa frammi fyrir miklum áskorunum á næstu skólaárum, m.a. að: – tryggja eins gott aðgengi að námi og mögulegt er, enda eru framhaldsskólar hornsteinar byggða um allt land, – bregðast við því að nemendum fækkar í bóknámi vegna styttingar námstíma til stúdentsprófs, – takast á við tímabundna fækkun nýnema vegna færri einstaklinga í árgangi, – fámennari skólar þurfa að vinna meira saman til að tryggja fjölbreytt námsframboð ýmist með staðbundnu námi eða fjarnámi, – vinna gegn brottfalli nemenda, – efla starfsmenntun.
    Það vakti athygli að í umsögn BHM um fjárlagafrumvarpið segir að „nauðsynlegt er að efla rannsóknir á mörgum sviðum en fjármagn til rannsókna er af of skornum skammti og þeir styrkir sem eru í boði t.d. frá rannsóknarsjóðum of fáir og of lágir“.
    Samfylkingin mun vakta það mjög vel það loforð ríkisstjórnarflokkanna að fjármögnun háskólastigsins nái meðaltali OECD-ríkjanna árið 2020 og Norðurlandanna árið 2025. Samfylkingin telur afar mikilvægt að þessu markmiði sé náð.
    1. minni hluti leggur fram breytingartillögu þar sem framlög til framhaldsskólastigs munu aukast um 400 millj. kr.

Samgöngur vanfjármagnaðar.
    Augljóst er að þau framlög sem ríkisstjórnin gerir ráð fyrir til samgangna og fjarskipta nægja engan veginn til að mæta þeirri þörf sem fyrir er í landinu. Landshlutasamtök sveitarfélaga hafa lýst áhyggjum af ástandi vegakerfisins sem er orðið mjög bágborið. Þar kemur til að ekki hefur verið veitt nægt fé í viðhald og nýframkvæmdir og álag hefur aukist vegna fjölgunar ferðamanna, einkum á ákveðnum svæðum landsins. Bættar samgöngur munu skila sér í margvíslegu formi til íbúa landsins. Betri og greiðari samgöngur styrkja atvinnuvegina og búsetuskilyrðin og stuðla að uppbyggingu og bættri líðan fólks á landsvæðum þar sem samgöngur eru svo slæmar að ástandið bitnar á lífsgæðum íbúa. Eitt af meginskilyrðunum fyrir búsetu um allt land er að fjarskipti séu í góðu lagi alls staðar. Því þarf að styrkja þá áætlun sem fyrir er í fjarskiptamálum og flýta því að kerfið virki á öllu landinu.
    Í umfjöllun fjárlaganefndar kom fram að samgönguáætlun verður enn vanfjármögnuð um 7 milljarð kr. þrátt fyrir þá viðbót sem núverandi ríkisstjórn tryggir og með þeirri viðbót sem meiri hlutinn leggur til.
    1. minni hluti leggur fram breytingartillögu þar sem útgjöld til samgangna (málefnasvið samgöngu- og fjarskiptamál) aukast um 1.000 millj. kr.

Í skugga valdsins: #Metoo.
    Það kom fram við umfjöllun fjárlaganefndar á fjárlagafrumvarpinu að þegar búið væri að draga frá uppbyggingu á upplýsingakerfi og uppfærslu hugbúnaðar væri aðgerðaráætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota að fá 178 millj. kr. á næsta ári. Ríkisstjórnin er því að verja aðeins 0,02% af tekjum sínum í þetta mikilvæga verkefni sem allt samfélagið hefur kallað eftir að stjórnvöld setji í forgang.
    1. minni hluti leggur fram breytingartillögu þar sem útgjöld til aðgerðaáætlunar um úrbætur í meðferð kynferðisbrota (málefnasvið löggæsla) aukast um 800 millj. kr. þannig að m.a. sé hægt að fara í nauðsynlega fjölgun lögreglumanna.

Aldraðir látnir sitja á hakanum.
    Samfylkingin áréttar að hækkun á frítekjumarki vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega úr 25.000 kr. á mánuði í 100.000 kr. er breyting sem eingöngu gagnast þeim ellilífeyrisþegum sem stunda atvinnu og hafa atvinnutekjur umfram 25.000 kr. á mánuði. Það eru um 14% ellilífeyrisþega sem hafa yfirleitt atvinnutekjur og af þeim aðeins þriðjungur sem hefur tekjur yfir þessum mörkum. Aðgerðin mun því ekki gagnast tekjulægstu lífeyrisþegunum auk þess sem breytingin mun skila sér betur til karla en kvenna enda eru þeir fleiri í þessum hóp og með hærri atvinnutekjur. Breytingin bætir hins vegar ekki kjör verst settu lífeyrisþegana sem einungis hafa bætur almannatrygginga eða lágar greiðslur úr lífeyrissjóðum. Til að bæta kjör þeirra ætti að koma til skoðunar að hækka bótafjárhæðir almannatrygginga eða draga úr almennu skerðingarhlutfalli ellilífeyris sem nú er 45%. Samfylkingin vill minna á að um 40% aldraða sem eru undir framfærslumörkum sem er ólíðandi í 11. ríkasta landi heimi.
    Stjórn Landssambands eldri borgara bendir á í umsögn sinni til fjárlaganefndar að sú ráðstöfun sé „óásættanleg að hækka lífeyri almannatrygginga aðeins um 4,7%“ og að sú hækkun sé „ekki í samræmi við launaþróun í landinu sem ber að fara eftir sem fyrsta valkosti samkvæmt lögum um almannatryggingar“. Landssambandið bendir einnig á að þetta „er ekki heldur í neinu samræmi við öll kosningaloforðin“ og skorað er á ríkisstjórnina að gera „nauðsynlegar breytingar á frumvörpum sem nú liggja fyrir Alþingi og varða þessi mál. Stjórnvöld eiga að bretta upp ermarnar fyrir kjósendur og eldra fólk í landinu.“
    1. minni hluti leggur fram breytingartillögu þar sem útgjöld til aldraða verða aukin um 1.500 millj. kr.

Öryrkjar vanræktir.
    Öryrkjar eru hópur sem hefur allt of lengi verið vanræktur af stjórnvöldum. Því miður verður lítil breyting þar á með ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Ekki er gert ráð fyrir útgjöldum á árinu 2018 til að fara í sambærilega kerfisbreytingu á bótakerfi örorkulífeyrisþega og gert hefur verið gagnvart ellilífeyrisþegum í samræmi við tillögur nefndar um endurskoðun almannatrygginga sem skilaði tillögum sínum um mitt ár 2016.
    Þetta væri brýnt til að bæta kjör öryrkja, að einfalda almannatryggingakerfið gagnvart þessum hópi með sambærilegum hætti og gert hefur verið gagnvart ellilífeyrisþegum, bæta samspilið við lífeyrissjóðina og auka áherslu á starfsgetu og endurhæfingu eins og ASÍ bendir á. 1. minni hluti vill því skoða leiðir, svo sem hækkun tekju- og eignamarka, fyrir uppbót á lífeyri og draga úr skerðingum sem öryrkjar lenda í. Þá lýsir 1. minni hluti áhyggjum yfir því að atvinnuleysisbætur eru nú í sögulegu lágmarki sem hlutfall af lágmarkslaunum.
    1. minni hlut leggur fram breytingartillögu þar sem lagt er til að útgjöld til öryrkja (málefnasvið örorka og málefni fatlaðs fólks) aukist um 3.000 millj. kr.

Afnám bókaskatts.
    Ísland stærir sig af vera bókaþjóð. Hins vegar hefur bókaiðnaður á Íslandi átt högg undir að sækja. Ein leið til að styrkja þennan iðnað er afnám virðisaukaskatts af bókum. Nú þegar eru vissar vörur og þjónusta án virðisaukaskatts og telur Samfylkingin að bækur eigi að vera í þeim flokki.
    1. minni hluti leggur fram breytingartillögu um að virðisaukaskattur af bókum verði afnuminn, sem kostar 350 millj. kr.

Viðbótarútgjöld og lækkun skatta af tillögum 1. minni hluta.
    Séu dregin saman viðbótarútgjöld og lækkun skatta, samkvæmt tillögum 1. minni hluta, eru heildaráhrifin á ríkissjóð 19 milljarðar kr. sem hægt er að fjármagna með betri nýtingu tekjustofna ríkisins. Það er hins vegar augljóst að Samfylkingin er ekki að leggja fram fullmótað fjárlagafrumvarp eins og ríkisstjórnarflokkarnir hafa gert. Þess vegna vill 1. minni hluti leggja áherslu á að hefði Samfylkingin verið í ríkisstjórn hefði fjármögnum annarra og fleiri verkefni komið til greina. Þá hefði tekjugrunnur ríkisins verið styrktur samhliða slíkri útgjaldaaukningu.
    1. minni hluti vill þó reifa nokkrar hugmyndir um auknar tekjur fyrir ríkisvaldið sem hefðu komið til greina ef Samfylkingin hefði verið í ríkisstjórn.
    Hugsanlegar nýjar tekjur ríkisins miðað við fjárlagafrumvarpið:
     1.      Hækkun kolefnisgjalds.
     2.      Tekjutengdur auðlegðarskattur.
     3.      Auknar tekjur af erlendum ferðamönnum.
     4.      Hækkun fjármagnstekjuskatts.
     5.      Auknar arðgreiðslur úr bönkunum.
     6.      Aukin auðlindagjöld.
     7.      Hert skatteftirlit.
    Sé einungis litið til fyrrgreindra hugmynda um auknar tekjur ríkisins væri hægt að auka ríkistekjur um 18–30 milljarða kr. umfram það sem fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir. Þannig væri hægt að fjármagna nauðsynlegar fjárfestingar í innviðum samfélagsins.
    1. minni hluti vill árétta að það er afar mikilvægt að arðurinn af auðlindum landsins nýtist til að bæta lífskjör landsmanna og standa undir fjármögnun öflugs velferðarkerfis. Þar þarf að horfa sérstaklega til þess að ríkið innheimti sanngjarna auðlindarentu í sjávarútvegi og orkuvinnslu og innheimti tekjur af ferðamönnum, bæði til þess að standa undir uppbyggingu við ferðamannastaði og öðrum kostnaði vegna komu þeirra, svo sem í heilbrigðiskerfinu, við löggæslu og björgunarstörf og viðhald vega.
    Til að tryggja sanngjarnan arð af auðlindunum verður t.d. að horfa til útboðs aflaheimilda og álagningar nýrra raforku- eða umhverfisskatta og auka tekjur af erlendum ferðamönnum. Arðurinn ætti að ganga til sveitarfélaga, í sóknaráætlanir og til heilbrigðiskerfisins og annarrar innviðauppbyggingar sem nýtist landsmönnum öllum.

Frumvarp vonbrigða og svika.
    Að ná einungis tveggja prósentustiga breytingu á fjárlagafrumvarpi fyrri ríkisstjórnar sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð útmálaði sem hægri sveltistefnu fyrir nokkrum vikum er skelfilegur árangur. Barnafólk, milli- og lágtekjufólk, sjúklingar, aldraðir og öryrkjar og í raun allur almenningur er því illa svikinn af fjárlagafrumvarpi Katrínar Jakobsdóttur. Þá eru tekjumöguleikar hins opinbera illa nýttir og bitnar það á nauðsynlegri uppbyggingu innviða í samfélaginu. Fjárlagafrumvarpið eru því langt í frá að svara kalli landsmanna um frekari fjárfestingu í meginstoðum samfélagsins og er órafjarri því sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð lofaði fyrir kosningar.

Alþingi, 21. desember 2017.
Ágúst Ólafur Ágústsson.