Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 96  —  1. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2018.

Frá 4. minni hluta fjárlaganefndar.


    Það er ekkert í lagi við þetta mál. Allt sem hugsast getur fer í ranga átt. Sumir vilja ef til vill kenna aðstæðunum um, að það sé ekki tími til að gera betur, að þetta sé þó það besta sem hægt er að gera í stöðunni, að það séu nú ýmis góð verk fjármögnuð í þessu frumvarpi. Þetta er allt saman fyrirsláttur, afsökun og friðþæging eigin samvisku. Það er ekki nóg að segjast bara hafa fylgt reglunum, við berum meiri ábyrgð en að haka bara við í kassa um að lýðræðinu sé nú fullnægt af því að farið var eftir öllum kúnstarinnar reglum.
    Fjórði minni hluti vil taka það sérstaklega fram að engum er kennt um það sem er að fara úrskeiðis hérna, það vilja allir gera sitt besta en með því hugarfari getur fólk oft afvegaleiðst og misst sjónar á hinu eiginlega markmiði. Hlutverk þingsins er að fara með fjárveitingavaldið og, eins og segir í 41. gr. stjórnarskrárinnar: „Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“
    Nú erum við á þeirri vegferð að samþykkja fjárlög fyrir næsta ár á methraða, svo miklum hraða að við höfum ekki hugmynd um það hvaða heimildir til fjárveitinga við erum að samþykkja. Sem dæmi, getur einhver flett því upp í fjárlagafrumvarpinu eða fylgiritinu og sagt af hverju bundin útgjöld til málefnasviðs 3 um æðstu stjórnsýslu hækka um 367 millj. kr.? Getur einhver sagt hvaða nýju eða auknu verkefni fyrir 196 millj. kr. á að ráðast í á því málefnasviði? Getur einhver sagt af hverju 250 millj. kr. eru „forgangsraðaðar innan ramma“ til nýrra verkefna á meðan aðhaldskrafan er tekin af útgjaldasvigrúmi til nýrra verkefna í stað þess að taka útgjaldasvigrúmið af rammanum og setja þessi nýju verkefni upp á 250 millj. kr. inn í gegnum útgjaldasvigrúmið? Ástæðan fyrir því er einföld, útgjaldasvigrúmið er ekki nægilega mikið til þess að rúma öll þau nýju verkefni. 4. minni hluti biðst velvirðingar á því að taka eitt málefnasvið fram yfir önnur. Það er ekki af því að framsetningin sé verri í því málefnasviði en öðrum. Það var bara handhægt.
    Fjárlaganefnd fékk gesti sem kynntu umsagnir sýnar fyrir nefndinni. Forsætisráðuneytið fékk klukkutíma til þess að kynna sinn hluta fjárlaganna, skrifstofa Alþingis hálftíma og velferðarráðuneytið fékk tvo klukkutíma, þar af hálfan klukkutíma til þess að kynna velferðarmálahluta fjárlagafrumvarpsins. Utanríkisráðuneytið fékk hálftíma. Mennta- og menningarmálaráðuneytið fékk klukkutíma, Háskóli Íslands tuttugu mínútur, Félag skólameistara tuttugu mínútur, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið klukkutíma, dómsmálaráðuneytið klukkutíma, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið klukkutíma, fjármála- og efnahagsráðuneytið fjörutíu og fimm mínútur og umhverfis- og auðlindaráðuneytið klukkutíma. Alþýðusamband Íslands fékk fjörutíu og fimm mínútur, Samtök atvinnulífsins fjörutíu og fimm mínútur, Ríkisendurskoðun fjörutíu og fimm mínútur, Seðlabanki Íslands hálftíma, en notaði bara korter, Viðskiptaráð Íslands fjörutíu og fimm mínútur, framkvæmdastjórar stjórnmálaflokka hálftíma, Landspítalinn klukkutíma, Sýslumannafélag Íslands hálftíma og Sjúkrahúsið á Akureyri hálftíma. Fulltrúar frá heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og heilsugæslunni fengu klukkutíma og Samtök fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu klukkutíma. Landssamtök Þroskahjálpar fengu tuttugu mínútur. Örykjabandalag Íslands fékk tuttugu mínútur. Samtök eldri borgara fengu tuttugu mínútur. EAPN á Íslandi, samtök gegn fátækt, fékk tuttugu mínútur. Að auki kom fjármála- og efnahagsráðuneytið með kynningu á ýmsum forsendum fjárlaganna og fékk til þess þrjá og hálfan klukkutíma.
    Á grundvelli þessara kynninga eigum við að taka upplýsta ákvörðun um þær fjárheimildir til ríkisstjórnarinnar sem eru í þessu fjárlagafrumvarpi. Réttara sagt telur 4. minni hluti að fólk viti alveg að það er ekki að taka upplýsta ákvörðun og sé einfaldlega að sætta sig við það af einhverjum orsökum. Þar vísar 4. minni hluti í fyrri ummæli um að allir séu að gera sitt besta. Almennt séð vísar 4. minni hluti hins vegar ábyrgðinni af þessum gjörningi á ríkisstjórnina og sest sjálfur í eftirlitsstólinn. Hér er bent á þá annmarka sem eru á þessum málatilbúnaði og vakin athygli á að því fylgir ábyrgð að afgreiða þetta mál á þennan hátt. Með þessari málsmeðferð er verið að gera eftirlitsstarfið mjög erfitt. Það er nánast verið að gefa framkvæmdarvaldinu óútfyllta ávísun. Það gefur auga leið að það verður mjög erfitt að fylgjast með því hvort ríkisstjórnin sé að fara eftir ákvæði stjórnarskrárinnar um að gjöld skuli ekki greiða nema heimild sé til þess í fjárlögum.
    Þegar málið var tekið úr nefnd kom upp sú hugmynd að fá öll ráðuneyti á fund fjárlaganefndar til þess að gefa nákvæmari kynningar á efni fjárlagafrumvarpsins snemma á næsta ári. Sú hugmynd fékk ágætis undirtektir. Framkvæmdin er vissulega öfugsnúin, að kynna fjárlagafrumvarpið fyrir fjárlaganefnd eftir að búið er að samþykkja frumvarpið, en það væri vissulega viðleitni til þess að uppfylla skilyrðið um að útskýra hvað á að nota fjárheimildirnar í áður en eftirlit með framkvæmd fjárlaga hefst. Ef eitthvað óboðlegt kemur upp hlýtur að vera hægt að flytja fjáraukalagafrumvarp þar sem einhverjar fjárheimildir eru lækkaðar. Það mundi vissulega geta fallið undir skilyrði fjáraukalagafrumvarps um tímabundið, ófyrirséð og óhjákvæmilegt atvik.

Lög um opinber fjármál.
    Frumvarp til fjárlaga á að byggjast á gildandi fjármálastefnu og fjármálaáætlun. Samkvæmt umsögn Ríkisendurskoðunar er teflt á tæpasta vað og að fjárlagafrumvarpið sé komið yfir það sem fjármálaáætlun gerði ráð fyrir árið 2018. Fyrir þá sem vita það ekki þá er þetta stofnanamál fyrir „þið eruð komin út í móa með þetta“. Í tölum þýðir þetta að frumgjöld aukast um 14,4 milljarða kr. og frumjöfnuður versnar um 10,5 milljarða kr. umfram forsendur fjármálaáætlunar. Vaxtajöfnuður kemur aðeins á móti en það var vegna aðgerða fyrri ríkisstjórnar og samkvæmt gildandi fjármálastefnu. Til viðbótar, af breytingartillögum meiri hluta koma næstum 600 millj. kr. aukalega í gjöld og rúmar 260 millj. kr. í tekjulækkun koma frá fjármála- og efnahagsráðherra.
    Í lögum um opinber fjármál er fjallað um að fylgja skuli ákveðnum grunngildum. Af framangreindu er ekki hægt að sjá að verið sé að fylgja grunngildinu um festu sem felst í því að forðast óvæntar eða fyrirvaralitlar breytingar frá gildandi stefnu og áætlunum um þróun opinberra fjármála. Ríkisstjórnin vill gera lítið úr þessu en henni ber að fara eftir samþykktum þingsins og skila fjárlögum sem eru í takti við gildandi fjármálastefnu og fjármálaáætlun. Hvað þingmenn gera svo við sitt umboð, samkvæmt sinni sannfæringu, er svo allt annað mál. Við erum hins vegar ekki í þeim aðstæðum núna, ríkisstjórnin er að fara gegn samþykkt þingsins.
    Eitt af markmiðum laga um opinber fjármál (LOF) var að dreifa umræðunni um fjárlög yfir á vorþing þannig að þungi þeirra á haustþingi yrði ekki eins mikill. Þá væri búið að ræða umfang málefnasviða, stefnu stjórnvalda og áherslur í málefnaflokkum. Hins vegar á stefna fyrri ríkisstjórnar ekkert sérstaklega við núna eftir kosningar, a.m.k. er óljóst í fjárlagafrumvarpinu hverjum af þeim stefnumálum sem lögð voru fram í fjármálaáætluninni á að framfylgja. Því til viðbótar var mjög óljóst í fjármálaáætluninni á hvaða málaflokka þáverandi ríkisstjórn ætlaði að leggja áherslu og voru umræður því mjög óskilvirkar. Það er mjög erfitt að ræða um breytt fjárframlög til einhvers málefnasviðs án þess að hafa hugmynd um til hvaða málaflokka þau fjárframlög eiga að renna, sérstaklega vegna þess að stefna þáverandi ríkisstjórnar var alla jafna ekki kostnaðarmetin og átti að rúmast innan ramma. Það var því almennt séð ómögulegt að tengja stefnu við tillögur um auknar fjárheimildir. Þótt fjármálaáætlunin hefði verið frábær og farið hefði verið eftir einu og öllu í frumvarpi til fjárlaga er þessi stutti tími sem okkur er skammtaður til þess að fara yfir fjárlagafrumvarpið samt of stuttur.
    Það er ekki alltaf hægt að segja „þetta verður í lagi næst“. Einhvern tíma kemur að skuldadögum. Það þýðir ekki að setja alltaf einhverjar reglur um hvernig á að gera hitt og þetta og fara svo aldrei eftir þeim. Ef verklagið má vera svona þótt reglurnar segi annað er best að skrifa það a.m.k. niður á blað. Vandamálið sem við glímum við hérna, að afgreiða fjárlög á örskömmum tíma, er vegna þess að reglurnar segja að við verðum að gera það. Vandamálið er ekki tímaskorturinn heldur að það hafi ekki verið gert ráð fyrir tímaskorti þegar reglurnar voru samdar. 4. minni hluti mælir með því að stjórnvöld finni einhvern sem er menntaður í gæðastjórnun til þess að villuprófa löggjöf áður en hún er tekin til afgreiðslu. Það mætti koma í veg fyrir fullt af vandamálum ef lög væru almennilega gæðaprófuð áður en þau færu í þinglega meðferð.
    Hvernig mundi villuprófun á löggjöf virka? Segjum sem svo að það væru lög sem heimila erlendum nemendum að fá dvalarleyfi þegar þeir eru í námi á Íslandi. Þá væru þau lög villuprófuð með því að láta Íslendinga sækja um dvalarleyfi, með því að láta einhvern sem er með heimilisfang á tunglinu sækja um dvalarleyfi, með því að láta erlendan nema sækja um dvalarleyfi en stunda svo aldrei námið, og svo framvegis. Aðalmálið er að það er reynt að finna allar leiðir sem hægt er til þess að bæði svindla á kerfinu og allar réttmætar leiðir til þess að nota kerfið og athuga hvort það virkar rétt fyrir alla möguleika. Svona gæðastjórnun er langt frá því að vera auðveld né er hún örugg leið til þess að komast hjá því að það komi upp villur. Markmið gæðastjórnunar er hins vegar að fækka villum og minnka áhrif þeirra ef þær koma upp. Sem sagt, ef einhver ófyrirséð atvik gerast þá taki við eitthvert almennt ferli sem kemur í veg fyrir að allt skemmist.
    Á jákvæðu nótunum þá var nefndinni kynnt mjög spennandi verkefni um aukið gagnsæi í fjárlagavinnunni allri þar sem verið væri að taka í gagnið hugbúnað sem leyfir notendum að skoða sundurliðun fjárlaga niður á einstök markmið samkvæmt stefnu stjórnvalda. Það verður samt að sýna hóflega bjartsýni með tímasetningar á slíkum hugbúnaði.

Skuggafjárlög.
    Fyrir kosningar gáfu Píratar út skuggafjárlög, þ.e. þá settum við á blað fyrir kosningar, miðað við nýútgefið fjárlagafrumvarp, hvernig við mundum vilja sjá útgjöld ríkisins til málefnasviða fjárlaga og hverju við mundum breyta í tekjuöflun. Þetta var í fyrsta sinn, svo vitað sé, sem stjórnmálasamtök á Íslandi lögðu fram eigin fjárlög fyrir kosningar. 4. minni hluti telur að sá gjörningur muni reynast sögulegri en viðbrögðin voru.
    Samkvæmt fjárlögum Pírata væru heildarútgjöld um 11 milljörðum kr. hærri, heildartekjur um 2 milljörðum kr. hærri og heildarafgangur því um 9 milljörðum kr. lægri, og væri afgangurinn samt ansi mikill eða um 26 milljarðar kr. En hverju munar?
    Píratar lögðu m.a. fram hálfum milljarði króna meira í nýsköpun en gert er í þessu fjárlagafrumvarpi, um einum milljarði króna meira í samgöngumál til þess að ná svo að fullfjármagna samgönguáætlun á tveimur árum, 300 millj. kr. meira í uppbyggingu í ferðaþjónustu, rétt tæpum 1,5 milljörðum kr. meira í sjúkrahúsaþjónustu, 1,7 milljörðum kr. meira í örorku og málefni fatlaðs fólks, 400 millj. kr. meira í fjölskyldumál og heilum 12 milljörðum kr. meira í húsnæðisstuðning sem allir vita að þarfnast tafarlausra aðgerða. Vandinn á húsnæðismarkaði er gríðarlega alvarlegur. Það sjá Píratar og leggja til lausnir.
    Á nokkrum málefnasviðum gerir fjárlagafrumvarpið betur en skuggafjárlög Pírata. Það er ekkert nema sanngjarnt að veita því sem vel er gert athygli og má þar helst nefna um 900 millj. kr. hærri framlög í menningu, listir og íþrótta- og æskulýðsmál, 700 millj. kr. aukalega í háskólastigið, 800 millj. kr. aukalega í heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa, 1,8 milljarða kr. í lyf og lækningarvörur og að lokum 1,4 milljarða kr. í málefni aldraðra. Það verður þó að bæta við að samkvæmt fjármálaáætlun Pírata þá átti að bæta 2 milljörðum kr. við í málefni aldraðra og heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa og 1 milljarði kr. í háskólastigið og lyf og lækningarvörur árið 2019 ásamt ýmsum viðbótum á nokkrum öðrum málefnasviðum. Allt þetta var metið sem raunsæjustu kosningaloforðin af sérfræðingum sem fóru yfir kosningaloforð allra flokkanna fyrir kosningar.

Fjárlög 2018.
    Það er hægt að gera ýmsar athugasemdir við fjárlagafrumvarpið en vegna þess að tíminn til þess að rýna í samhengi mismunandi kafla, fjárheimilda og ýmissa annara atriða tæpir 4. minni hluti hér á því helsta sem vekur athygli.

Kjarasamningar og efnahagur.
    Spá Seðlabanka um verðbólgu er 2,9% fyrir árið 2018. Á sama tíma er gert ráð fyrir því að launahækkanir verði 3%. Í kaflanum þar sem fjallað er um verðbólgu er einnig minnst á að raungengi sé nálægt sögulegu hámarki og að launakostnaður sé mjög hár á Íslandi í alþjóðlegu samhengi. Þar er sagt: „Við tilteknar aðstæður, þegar raungengi er lágt, getur hagkerfið þolað launahækkanir umfram framleiðnivöxt í ákveðinn tíma án þess að samkeppnishæfni þess sé skert.“ Til viðbótar við þetta er gert ráð fyrir 4,7% hækkun á bótum almannatrygginga. Á sama tíma er verið að miða við hagvaxtaspár Seðlabankans sem gera ráð fyrir 3,1% hagvexti árið 2018. Miðað við úrskurði kjararáðs að undanförnu og væntingar um launahækkanir í þeim samningaviðræðum sem nú eru í gangi verður gríðarleg áskorun að ná þessum markmiðum.

Framsetning útgjaldabreytinga.
    Fjárlagafrumvarpið útskýrir breytingar á gjöldum milli 2017 og 2018 með brúarmyndriti þar sem byrjað er með útgjöld 2017 og svo sýnt hvernig bundin útgjöld, niðurfellingar, aðhald, útgjaldasvigrúm og launa- og verðlagsbætur annaðhvort bætast við eða dragast frá útgjaldaramma 2017. Samanlagðar breytingar leiða svo til útgjaldaramma 2018. Myndritið er ágætt en sundurliðun á hverjum brúarlið innan hvers málefnasviðs er yfirleitt mjög ábatavant. Sundurliðunin á bls. 136 er þó mjög gott yfirlit yfir helstu breytingar á bundnu útgjöldunum. Svipuð sundurliðun mætti vera í yfirliti yfir helstu breytingar hinna brúarliðanna. Vandamálið er að innan málefnasviðanna er sundurliðun hvers sviðs mjög lítil. Það er erfitt að púsla saman þeim tölum sem fylgja ritinu í þær upphæðir sem koma fram í brúarriti málefnasviðsins.

Fjármálaáætlun.
    Á bls. 142 er farið yfir áherslumál nýrrar ríkisstjórnar og hvernig þau endurspeglast í frumvarpi til fjárlaga. Þar kemur fram að frumgjöldin verði 14,3 milljörðum kr. hærri en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun. Einhverjir taka eflaust eftir því að það er ekki sama tala og var vitnað í hér að framan þar sem sagt var að frumgjöldin yrðu 14,4 milljörðum kr. hærri. Sú tala kemur frá bls. 106 og töflu á bls. 105. Þarna er eflaust um einhverja námundunarvillu að ræða en 100 millj. kr. eru ekki lítil upphæð og eflaust hefur einhver áhuga á að finna hvað er rétt tala í þessu samhengi. Áherslumál ríkisstjórnarinnar eru sögð útskýra ríflega 12 milljarða kr. af þessari hækkun. Hækkunin er svo útskýrð með orðalaginu „breyttar fjárheimildir vegna nokkurra útgjaldamála sem ekki lágu fyrir við vinnslu fjármálaáætlunar og nema þær breytingar um 13,6 ma.kr.“. Vissulega lágu áherslumál nýrrar ríkisstjórnar ekki fyrir við vinnslu fjármálaáætlunar en lærdómurinn af því er kannski að það verði haft meira samráð næst þegar fjármálaáætlun verður unnin þannig að það verði búið að semja um rammann þannig að sama hvernig fer, þá geti hvaða samsetning flokka sem er farið eftir þeim römmum sem fjármálaáætlun setur þegar kemur að fjárlögum þótt forgangsröðun gæti verið mismunandi.

Málefnasvið.
    Á bls. 180 í fjárlagafrumvarpinu er sagt að kynning á stefnum fyrir málefnasvið í fjármálaáætlun eigi að tryggja Alþingi greinargóðar upplýsingar um meginlínur og áherslur. Hér er gripið niður í það handhæga málefnasvið „æðsta stjórnsýsla“ sem fær þriggja blaðsíðna umfjöllun í fjármálaáætlun þar sem stefna málefnasviðsins birtist í eftirfarandi orðum: „Framtíðarsýn forsætisráðuneytisins er áframhaldandi framþróun og samhæfing faglegra og gagnsærra vinnubragða á vettvangi ríkisstjórnar, í ráðherranefndum, á sviði þjóðhagsmála og löggjafarmála. Nánar verður gerð grein fyrir markmiðum og aðgerðum í starfi forsætisráðuneytisins í ríkisaðilastefnu ráðuneytisins sem unnin verður og birt í samræmi við ákvæði laga um opinber fjármál.“ Augljóslega er ekki hægt að fjalla mjög mikið um stefnu þessa málefnasviðs í þinglegri meðferð á fjármálaáætlun. Stefnan segir bara að forsætisráðuneytið ætli að gera það sem það á að gera. Önnur málefnasvið gera aðeins betur hvað varðar meginlínur og áherslur en falla svo á prófinu í einhverju öðru. Til að mynda er algengur mælikvarði á árangur í málefnasviði utanríkismála „Þetta er erfitt að mæla og verður byggt á sjálfsmati“.
    Þegar allt kemur til alls þá ætti þingið nú að vera að bera saman þá stefnu sem sett er fram í fjármálaáætlun og það sem sett er fram í fjárlögum. Ef allt passar saman ættu fjárlög að vera tiltölulega fljótafgreidd. Ef framsetning fjármálaáætlunar og fjárlaga væri á tölvulesanlegu sniðmáti væri meira að segja hægt að láta forrit bera þetta allt saman og sýna frávikin. Ef framsetningin væri opin og tölvutæk gætu áhugasamir jafnvel búið til eitthvað áhugavert úr gögnunum.

Breytingartillögur.
    Í nefndaráliti meiri hlutans er talað um að áhersla sé lögð á menntamál, heilbrigðismál og samgöngur í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi. Það er vissulega hægt að segja að þar sé áhersla umfram ýmislegt annað en raunveruleikinn er að það er verið að halda í horfinu. Sanngirnin knýr þó á að minnast á að uppbygging spítalahúsnæðis er ansi fyrirferðamikil og verður umfangsmeiri í næstu fjárlögum. Það er enn verið að greiða niður skuldir, eða a.m.k. skipta út hávaxtaskuldum fyrir skuldir með lægri vexti. Það er vissulega verið að mæta brýnni þörf á málefnasviði háskólanna þar sem fyrsta skrefið er stigið í átt að markmiðum vísinda- og tækniráðs um að ná meðalframlögum til menntamála hjá OECD. Í breytingartillögum meiri hlutans er líka komið til móts við heilbrigðisstofnanir, heilsugæslur, sjúkrahúsið á Akureyri og NPA-samningum fjölgað um sem nemur 70 millj. kr. Það er hins vegar ekki verið að fullfjármagna samgönguáætlun og af einhverjum undarlegum orsökum er ákveðið að skilja Landspítalann eftir með áætlun um neikvæðan rekstrarafgang upp á einungis 645 millj. kr. 4. minni hluti vill vekja athygli á að þetta er það sem áhersla þýðir í þessum fjárlögum, heilbrigðiskerfi í mínus eða rétt við núllið.
    Fjölmargir aðilar sendu inn erindi til fjárlaganefndar þar sem beðið var um styrki til ýmissa verkefna. Afgreiðsla meiri hluta fjárlaganefndar sést í breytingartillögum meiri hlutans en nokkurn veginn allar beiðnirnar voru samþykktar ef þær voru ekki óheppilega háar, nokkurs konar bland í poka þar sem allt nammi sem var ekki of stórt datt ofan í pokann. Grundarfjarðarbær var t.d. einn fyrsti umsagnaraðilinn til þess að senda inn umsögn um fjárlagafrumvarpið og bað um 110 millj. kr. til þess að lengja hafnargarð. Samkvæmt samgönguáætlun átti að fjármagna þetta verkefni en enga fjárveitingu var að finna í fjárlagafrumvarpi. Grundarfjarðarbær telur brýnt að undirbúa verkefnið a.m.k. fyrst og biður um að ríkissjóður komi að undirbúningshlutanum með sitt framlag. Því miður var verkefnið of dýrt til þess að fá að vera með í pokanum. Að mati 4. minni hluta var umsóknin vel rökstudd út frá samgönguáætlun og leggur hann því fram breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið þess efnis að undirbúningshluti þessa verkefnis verði fjármagnaður um þær 110 millj. kr. sem upp á vantar.
    Aðrar breytingartillögur 4. minni hluta eru 1.731 millj. kr. í hækkun örorkulífeyris og lækkun krónu á móti krónu skerðingu, 2.750 millj. kr. til Landsspítala Háskólasjúkrahús til þess að tryggja rekstur, tækjakaup og að viðhald og uppbygging myglaðra húsa sé fjármagnað, 300 millj. kr. í sjúkrahúsið á Akureyri til þess að tryggja rekstur, tækjakaup og undirbúning við nýja legudeild og 12 milljarðar kr. í nýbyggingar til sölu og útleigu til íbúa, í formi stofnframlags inn í Íbúðalánasjóð og hækkaðra framlaga inn í húsnæðissamvinnufélög. Unnið yrði með sveitarfélögum að því að minnka uppsafnaða þörf fyrir húsnæði. Unnið skal í samræmi við útgefinn aðgerðalista Íbúðalánasjóðs. Gerð er tillaga um 560 millj. kr. í heimahjúkrun og 300 millj. kr. til þess að tryggja rekstrargrundvöll sýslumannsembættanna.

Samantekt.
    Vonandi kemur sá tími að Alþingi getur unnið fjármálaáætlun og fjárlög á eðlilegan hátt, án tímapressu og ríkisstjórnarkrísu (starfsstjórn eða ný stjórn). Það er margt í þessu frumvarpi sem er í rétta átt en það ber þess líka merki hvaða flokkar eru að semja þetta frumvarp. Þó að það sé vakin athygli á því í frumvarpinu sjálfu að tekjustofnarnir sem standa undir langstærstum hluta tekna ríkissjóðs séu viðkvæmir fyrir kólnun í hagkerfinu er engin tilraun gerð til þess að ná breiðari tekjugrundvelli fyrir ríkissjóð. Slíkar aðgerðir gætu meira að segja leitt til þess að minnka álagið á stærstu tekjustofnana á móti. Að minnsta kosti gæfi breiðari skattstofn ríkinu meira svigrúm til þess að stilla þá til eða frá eftir því í hvaða ástandi hagkerfið er, þá í áttina að því að sveiflujafna. Núverandi verkfæri eru stórtæk og viðkvæm.
    Þrátt fyrir aðstæðurnar sem þessi fjárlög eru afgreidd við og kannski frekar vegna þeirra aðstæðna býst 4. minni hluti við því að ríkisstjórnin verði einstaklega liðleg þegar kemur að eftirliti með framkvæmd fjárlaga, vandi sig einstaklega vel við að fara eftir lögum um opinber fjármál og hafi frumkvæði að því að gera betur ásamt því að hlusta á minni hlutann þegar áhyggjur eru viðraðar. Ekkert elur meira á tortryggni en þegar lítið er gert úr áhyggjum. Það einfaldlega eykur áhyggjurnar, áhyggjur sem Bill Watterson setti svo snilldarlega fram í myndasögu sinni um Calvin og Hobbes þar sem Calvin segir að stundum verði hann áhyggjufullur og geti þá ekki sofnað, að í myrkrinu finni hugurinn skelfilega atburði sem ekki er hægt að koma í veg fyrir og að það sé sérstaklega erfitt að mæta slíkum hugsunum með hugrekki í teiknimyndanáttfötum. Þess vegna sefur Hobbes nakinn. 4. minni hluti mælir með því að ríkisstjórnin fari að ráðum Hobbes og mæti áhyggjum með gagnsæi. Þá er átt við tígrisdýrið Hobbes en ekki Thomas Hobbes.

Alþingi, 21. desember 2017.

Björn Leví Gunnarsson.