Ferill 67. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 108  —  67. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum (launafyrirkomulag forstöðumanna).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gunnar Björnsson, Mörtu Birnu Baldursdóttur og Söru Lind Guðbergsdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og Ingibjörgu S. Sverrisdóttur og Kristínu Lindu Árnadóttur frá Félagi forstöðumanna ríkisstofnana. Umsögn barst frá Lögreglustjórafélagi Íslands.
    Í frumvarpinu er lögð til breyting á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem miðar að því að koma í veg fyrir aukinn kostnað við lífeyrisskuldbindingar vegna ósamræmis milli 39. gr. a laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og 2. mgr. 24. gr. laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sbr. 1. mgr. 35. gr. sömu laga.
    Samhliða setningu nýrra heildarlaga um kjararáð, nr. 130/2016, voru gerðar breytingar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þar sem við bættust ný ákvæði, þ.e. 39. gr. a til 39. gr. c, þar sem m.a. var kveðið á um launafyrirkomulag forstöðumanna ríkisstofnana. Helstu breytingar laganna voru að fjölga aftur þeim sem tækju laun samkvæmt kjarasamningum á venjulegan hátt og einnig að þeir sem ekki gætu samið um laun á venjulegan hátt vegna eðlis starfs hefðu meiri aðkomu að málum þegar teknar væru ákvarðanir um laun og starfskjör þeirra.
    Lögum um kjararáð var breytt með lögum nr. 37/2017, m.a. til að fresta framkvæmd lagaákvæða um að ákvörðun um laun forstöðumanna færðist frá kjararáði. Ástæðan var álitamál um samspil ákvarðana um annars vegar laun og hins vegar eftirlaun þeirra sem nýta sér svonefnda eftirmannsreglu í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins þar sem í nýjum ákvæðum í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins var ekki greint á milli launa fyrir dagvinnu og annarra launa.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 27. desember 2017.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Bryndís Haraldsdóttir. Brynjar Níelsson.
Helgi Hrafn Gunnarsson. Oddný G. Harðardóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.
Silja Dögg Gunnarsdóttir. Þorsteinn Víglundsson.