Ferill 78. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 122  —  78. mál.
Beiðni um skýrslu


frá fjármála- og efnahagsráðherra um ábendingar sem varða stjórnsýsluna í rannsóknarskýrslum Alþingis um orsakir falls íslensku bankanna 2008 annars vegar og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna hins vegar og viðbrögð við þeim.

Frá Birni Leví Gunnarssyni, Hönnu Katrínu Friðriksson, Halldóru Mogensen, Helga Hrafni Gunnarssyni, Ingu Sæland, Jóni Steindóri Valdimarssyni, Kolbeini Óttarssyni Proppé, Oddnýju G. Harðardóttur, Smára McCarthy og Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að fjármála- og efnahagsráðherra flytji Alþingi skýrslu um ábendingar sem varða stjórnsýsluna og viðbrögð við þeim sem fram koma í rannsóknarskýrslu Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 annars vegar og í skýrslu rannsóknarnefndar um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna hins vegar.
    Í skýrslunni verði samantekt á ábendingum þeim til stjórnsýslunnar sem settar eru fram í skýrslunum og fjallað verði m.a. um:
     1.      hversu margar ábendingar koma fram sem beint er til stjórnsýslunnar,
     2.      hverjar þær ábendingar eru,
     3.      hvernig brugðist hefur verið við þeim og
     4.      hvaða ábendingum hefur ekki enn verið brugðist við.
    Í þeim tilvikum sem brugðist hefur verið við ábendingum er óskað eftir að upplýst verði:
     1.      hvernig tryggt hafi verið að þeim hafi verið og verði fylgt eftir,
     2.      hver hafi verið tilnefndur ábyrgðaraðili og
     3.      hvernig ráðherra hyggist fylgja eftir ábendingum þar sem ekki hefur verið tilnefndur ábyrgðaraðili.
    Óskað er eftir tæmandi lista yfir þær ábendingar sem ráðherra hyggst ekki bregðast við ásamt ástæðum þess og mati ráðherra á þeim árangri sem eftirfylgni hefur haft í för með sér og hvernig sá árangur er mældur.
    Að lokum er farið fram á að ráðherra geri grein fyrir þeim breytingum sem hafa orðið á starfsemi banka og sparisjóða í kjölfar ábendinga úr rannsóknarskýrslu Alþingis.

Greinargerð.

    Rannsóknarnefndir Alþingis hafa skilað ítarlegu starfi og hafa þær þrjár rannsóknir sem farið hafa fram skilað rúmlega 5.000 blaðsíðum í 20 bindum. Á þessum síðum er að finna fjölmargar ábendingar um betri stjórnarhætti, öflugri stjórnsýslu og skýrari verkferla. Til þess að þessi mikilvæga greiningarvinna nýtist er nauðsynlegt að hafa yfirsýn yfir þessar ábendingar og tryggja að farið verði eftir þeim svo að sömu mistökin verði ekki gerð á ný.
    Vegna þess hversu yfirgripsmiklar skýrslurnar eru, er mjög erfitt að nálgast heildar samantekt þeirra ábendinga sem þar eru settar fram og hvernig brugðist hefur verið við þeim. Mjög brýnt er því að þessi skýrsla verði lögð fram sem fyrst.