Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 124  —  1. mál.

3. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2018.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju eftir 2. umræðu. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga eru m.a. gerðar athugasemdir við aðhaldskröfu í frumvarpinu vegna framlags ríkisins til tónlistarnáms. Meiri hlutinn er meðvitaður um að viðræður eru að hefjast um endurskoðun gildandi samkomulags um stuðning við tónlistarfræðslu og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms. Meiri hlutinn telur eðlilegt að í þeim viðræðum verði leitast við að skýra nánar hvernig framreikna skuli framlög til tónlistarfræðslu ásamt því að samið verði um viðbótarframlög ef í ljós kemur að framlög á fjárlögum hafi verið vanreiknuð. Ekki er gerð breytingartillaga vegna þessa máls.
    Meiri hlutinn gerir tillögu um eftirfarandi breytingar sem fela í sér tvær viðbætur við gjaldahlið og fjórar millifærslur til leiðréttingar auk þess sem lagðar eru til breytingar á 5. og 6. gr.

Gjöld.
03 Æðsta stjórnsýsla.
03.30 Forsætisráðuneyti.
    Við 2. umræðu var samþykkt 14 millj. kr. tímabundið framlag til Hins íslenska fornritafélags í málaflokki forsætisráðuneytis. Verkefnið var hins vegar flutt til mennta- og menningarmálaráðuneytisins við gerð fjárlaga fyrir árið 2017 og því er lagt til að framlagið verði millifært þangað, þ.e. á málaflokkinn 18.20 Menningarstofnanir.

04 Utanríkismál.
04.10 Utanríkisþjónusta og stjórnsýsla utanríkismála.
    Gerð er tillaga um 7 millj. kr. tímabundið framlag í tvö ár til utanríkisþjónustunnar sem verði nýtt til að bjóða fyrrverandi forseta Íslands aðstoð og þjónustu vegna ýmissa verkefna sem áfram eru á hans borði eftir að hann hefur látið af embætti. Áætlað er að viðbótarkostnaður utanríkisráðuneytis vegna þessa nemi allt að 7 millj. kr. á ári, um 5,5 millj. kr. vegna launakostnaðar og um 1,5 millj. kr. vegna ferðakostnaðar. Í nágrannalöndunum er viðtekin venja að fyrrverandi þjóðarleiðtogum bjóðist slík þjónusta og fyrrverandi forseta Íslands, frú Vigdísi Finnbogadóttur, var tryggð aðstoð og þjónusta af þessu tagi.

10 Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála.
10.40 Stjórnsýsla dómsmálaráðuneytis og 10.50 Útlendingamál.
    Gerð er tillaga um að 18 millj. kr. framlag til sjálfstæðrar eftirlitsnefndar með störfum lögreglu verði millifært af málaflokki 10.50 yfir á málaflokk 10.40.

18 Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál.
18.20 Menningarstofnanir.
    Gerð er tillaga um leiðréttingu á hagrænni skiptingu útgjalda en 25 millj. kr. tímabundið framlag til Minjastofnunar vegna viðgerða og uppbyggingar mannvirkja á lóð Húsmæðraskólans á Blöndósi sem samþykkt var við 2. umræðu var skráð sem tilfærslur en hér er lagt til að því verði breytt í önnur gjöld.
    Einnig er lögð til 14 millj. kr. millifærsla vegna leiðréttingar á framlagi til Hins íslenska fornritafélags, sbr. skýringar við málaflokk 03.30 Forsætisráðuneyti.

21 Háskólastig.
21.10 Háskólar.
    Gerð er tillaga um 10 millj. kr. tímabundið framlag til Norræna eldfjallaseturins á Jarðvísindastofnun Háskólans. Mörg undanfarin ár hefur fjármögnun setursins verið skipt milli Norrænu ráðherranefndarinnar og íslenska ríkisins en nú hefur verið ákveðið á vettvangi ráðherranefndarinnar að draga úr fjárframlögum til samnorrænna stofnana og þar með eldfjallasetursins næstu ár og hætta þeim að lokum alveg árið 2023. Setrið gegnir mikilvægu hlutverki í viðbrögðum við eldgosavá enda er þar bæði tækjabúnaður og sérþekking á ákveðnum sviðum eldfjallafræði sem hvergi er til annars staðar hér á landi. Með framlaginu er ætlunin að vega að hluta til upp skerðingu fjárveitingar frá Norrænu ráðherranefndinni árið 2018.

21.20 Rannsóknastarfsemi á háskólastigi.
    Við 2. umræðu var samþykkt 50 millj. kr. tímabundið framlag til að styrkja rannsóknir í landbúnaði við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Samhliða hefði þurft að gera tillögu um samsvarandi breytingar á gjöldum og tekjum skólans og lagt er til að það verði leiðrétt nú en í því felst engin breyting á framlagi úr ríkissjóði.

5. og 6. gr.
    Gerð er tillaga um þá breytingu á 5. gr. að lánsfjárheimild Vaðlaheiðarganga verði hækkuð um 1.000 millj. kr.
    Einnig er lögð til smávægileg lagfæring á 6. gr.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 28. desember 2017.

Willum Þór Þórsson,
form., frsm.
Haraldur Benediktsson. Ásmundur Friðriksson.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Njáll Trausti Friðbertsson.