Ferill 82. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 149  —  82. mál.
Beiðni um skýrslu


frá ríkisendurskoðanda um stjórnsýsluendurskoðun á starfsemi Útlendingastofnunar.

Frá Rósu Björk Brynjólfsdóttur, Andrési Inga Jónssyni, Loga Einarssyni, Helgu Völu Helgadóttur, Helga Hrafni Gunnarssyni, Smára McCarthy, Hönnu Katrínu Friðriksson, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, Þorsteini Víglundssyni og Jóni Steindóri Valdimarssyni.


    Með vísan til 17. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016, er þess óskað að ríkisendurskoðandi geri stjórnsýsluendurskoðun á starfsemi Útlendingastofnunar.
    Í skýrslunni verði dregið fram hvernig Útlendingastofnun takist að uppfylla lögbundið hlutverk sitt samkvæmt lögum um útlendinga, nr. 80/2016, sem ætlað er að tryggja réttarstöðu og réttaröryggi útlendinga sem koma til landsins eða fara frá því, sækja um dvalarleyfi eða dveljast hér á landi. Skal horft til málsmeðferðar stofnunarinnar og þjálfunar starfsfólks og lagðar fram tillögur um úrbætur ef við á.
    Ríkisendurskoðandi skili Alþingi skýrslu eigi síðar en 1. september 2018.

Greinargerð.

    Þessi beiðni um skýrslu var áður flutt á 147. löggjafarþingi (105. mál) og er nú endurflutt.
    Með skýrslubeiðninni er leitast við að varpa ljósi á starfsemi og rekstur Útlendingastofnunar. Með vísan til 17. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga er þess óskað að ríkisendurskoðandi framkvæmi stjórnsýsluendurskoðun á starfsemi Útlendingastofnunar skv. 6. gr. laganna. Í skýrslunni verði dregið fram hvernig Útlendingastofnun takist að uppfylla hlutverk sitt með tilliti til hagkvæmni og skilvirkni málsmeðferðar, málshraða og lögbundins þjónustuhlutverks Útlendingastofnunar.
    Samkvæmt 6. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga er í 6. gr. kveðið á um að stjórnsýsluendurskoðun feli í sér mat á frammistöðu þeirra aðila sem ríkisendurskoðandi hefur eftirlit með. Markmið stjórnsýsluendurskoðunar er að stuðla að úrbótum þar sem einkum er horft til eftirfarandi atriða:
     a.      meðferðar og nýtingar ríkisfjár,
     b.      hvort hagkvæmni og skilvirkni sé gætt í rekstri stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins,
     c.      hvort framlög ríkisins skili þeim árangri sem að er stefnt.
    Við mat á frammistöðu skal m.a. líta til þess hvort starfsemi sé í samræmi við fjárheimildir, þá löggjöf sem gildir um hana og góða og viðurkennda starfshætti.
    Árið 2016 voru sett ný lög um útlendinga sem fólu í sér heildarendurskoðun á löggjöf um útlendinga sem koma til landsins og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Fram kemur í athugasemdum við frumvarpið sem varð að þeim lögum að við vinnslu þess hefði verið tekið mið af reynslu af framkvæmd eldri laganna til að styrkja lagastoð fyrir framkvæmdinni og að sníða af vankanta.
    Málefni útlendinga hafa á undanförnum misserum hlotið nokkra gagnrýni, sérstaklega hvað varðar umsækjendur um alþjóðlega vernd. Vonir voru bundnar við að með nýjum lögum mætti að nokkru leyti koma til móts við þá gagnrýni, enda segir í athugasemdum við frumvarpið sem varð að þeim lögum að mikilvægt sé að veitt verði fullnægjandi þjónusta og að þeir fjármunir sem til ráðstöfunar séu verði nýttir sem best. Breytingar sem lögin fólu í sér áttu að stuðla að aukinni þjónustu við útlendinga, sérstaklega umsækjendur um alþjóðlega vernd, erlenda sérfræðinga á vinnumarkaði, rannsakendur o.fl. með það að leiðarljósi að auka skilvirkni og gæði innan stjórnsýslu þessa málaflokks. Flutningsmenn telja því mikilvægt að fram fari úttekt á starfsemi Útlendingastofnunar og að athugað sé hvort með nýjum lögum um útlendinga hafi náðst það markmið að bæta þjónustu og gæði innan stjórnsýslu málaflokksins.
    Óskað er því eftir að ríkisendurskoðandi skili skýrslu um starfsemi Útlendingastofnunar eigi síðar en 1. september 2018.
    Meðal þess sem óskað er eftir að skýrslan fjalli um er:
     1.      Málsmeðferð. Almenn greining á hraða og fyrirkomulagi málsmeðferðar Útlendingastofnunar og hvort núverandi fyrirkomulag sé eins skilvirkt og hagkvæmt og best verður á kosið.
                  a.      Hvernig aðgengi umsækjenda að viðeigandi upplýsingum um meðferð mála sé háttað sem og aðgengi þeirra að eyðublöðum og öðrum upplýsingum, m.a. um réttindi og skyldur.
                  b.      Hvort Útlendingastofnun óski eftir viðeigandi upplýsingum eftir því á hvaða stigi umsókn er á hverjum tíma fyrir sig og eftir því um hvers konar mál sé að ræða.
                  c.      Hvernig meðferð þeirra gagna sé háttað sem umsækjendur skila inn máli sínu til stuðnings.
                  d.      Hvort forgangsröðun við vinnslu mála veiti sem stystan umsóknartíma, sbr. 29. gr. laga um útlendinga um forgangsmeðferð, og hvort viðunandi verklag sé til staðar til að meta forgang umsókna.
                  e.      Hvort Útlendingastofnun geti sinnt leiðbeiningarskyldu sinni með öðrum hætti en nú í því skyni að auka skilvirkni og að málsmeðferð verði markvissari.
                  f.      Hvort upplýsingamiðlun milli Útlendingastofnunar og annarra aðila sé eins og best verði á kosið með tilliti til skilvirkni í málsmeðferð, svo sem við Vinnumálastofnun, Barnaverndarstofu, barnaverndarnefndir, félagsþjónustu sveitarfélaga og lögreglu.
                  g.      Hvernig samspili milli Útlendingastofnunar, Barnaverndarstofu og barnaverndarnefnda skv. 31. gr. laga um útlendinga sé háttað og hvort núverandi fyrirkomulag sé eins og best sé á kosið.
     2.      Verklagsreglur og þjálfun starfsfólks Útlendingastofnunar.
                  a.      Hvort þjálfun starfsfólks sé viðeigandi til þess að auka skilvirkni í málsmeðferð stofnunarinnar.
                  b.      Hvort viðunandi verklagsreglur séu til fyrir starfsfólk Útlendingastofnunar til að meta og greina einstök mál og sinna leiðbeiningarskyldu skv. 11. gr. útlendingalaga og 7. gr. stjórnsýslulaga.