Ferill 85. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 152  —  85. mál.
Skýrsla


Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2017.

1. Inngangur.
    Málefni norðurslóða bar hæst á vettvangi Vestnorræna ráðsins á árinu 2017. Á ársfundi ráðsins og í alþjóðlegu samstarfi hefur verið fjallað um áskoranir sem svæðið stendur frammi fyrir, m.a. í formi loftslagsbreytinga, súrnunar sjávar og mengunar, en einnig tækifæri í t.d. ferðaþjónustu og auknum flutningum. Alþjóðlegur áhugi á norðurslóðum hefur stóraukist vegna áhrifa loftslagsbreytinga á ásýnd og aðgengi að svæðinu. Vestnorræna ráðið hefur lagt áherslu á að umræðan snúist um fólkið sem búi á norðurslóðum og hvernig tryggja megi íbúum svæðisins öryggi og hagsæld.
    Í maí var umsókn Vestnorræna ráðsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu samþykkt og í kjölfarið fór í hönd vinna á skrifstofu ráðsins við að móta stefnu varðandi áheyrnaraðildina. Á ráðstefnunni Hringborði norðurslóða í október stóð Vestnorræna ráðið fyrir málstofu um hlutverk áheyrnaraðila að Norðurskautsráðinu þar sem fyrirlesarar með víðtæka reynslu af starfi ráðsins ræddu hvernig best væri að nýta áheyrnaraðild til áhrifa. Strax í umsóknarferlinu var ákveðið að Vestnorræna ráðið tæki þátt í starfi vinnuhóps um sjálfbæra þróun (e. sustainable development working group) innan Norðurskautsráðsins. Í drögum að verkefnatillögu Vestnorræna ráðsins fyrir vinnuhópinn er lögð áhersla á forvarnir gegn áfengis- og vímuefnanotkun ungmenna á norðurslóðum. Einnig er áformað að formaður ráðsins taki þátt í fundum æðstu embættismanna Norðurskautsráðsins (e. Senior Arctic Officials) ásamt framkvæmdastjóra.
    Á þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins í Færeyjum í febrúar var rætt um kynbundnar áskoranir með áherslu á málefni karla. Meðal umræðuefna var fæðingarorlof feðra og leiðir til að auka orlofstöku þeirra, heilsa og lífslíkur karla, réttur feðra til barna sinna eftir skilnað, karlanefndir á Íslandi og karlahópar á Grænlandi.
    Ársfundur Vestnorræna ráðsins var haldinn á Alþingi 31. ágúst og 1. september og var það í fyrsta sinn sem ársfundur var haldinn í þingsal aðildarlands. Á ársfundi voru samþykktar þrjár ályktanir sem verða lagðar fram á þjóðþingum landanna þriggja til umfjöllunar og samþykktar á árinu 2018. Sú fyrsta fjallar um samsetningu og útgáfu vestnorrænnar söngbókar með dægurlögum á öllum þremur tungumálum landanna. Önnur ályktunin hvetur stjórnvöld landanna þriggja til að leita leiða til að auka samvinnu um menntun í sjávarútvegi, sérstaklega í fisktækni og gæðaeftirliti. Sú þriðja kallar á stjórnvöld að rannsaka innihald örplasts í sjávarafurðum í Norður-Atlantshafi og magn plastmengunar í hafinu. Sökum þess hve Alþingi starfaði stutt haustið 2016 náðist ekki að leggja fram tvær ályktanir ársfundarins 2016 til þingsályktunar og bíða þær því til ársins 2018.
    Utanríkisráðherrar Vestur-Norðurlanda ávörpuðu ársfund Vestnorræna ráðsins og í kjölfar hans skrifuðu ráðherrarnir undir samstarfssamning sem byggist á ályktunum Vestnorræna ráðsins. Í samstarfssamningnum kemur fram að ráðherrarnir muni hittast árlega til að ræða sameiginleg áhersluefni og að sérstakur vinnuhópur verði stofnaður til að starfa að aukinni samvinnu og fríverslun milli landanna. Á Norðurlandaráðsþingi í Helsinki undirrituðu menningarmálaráðherrar Vestur-Norðurlanda einnig samstarfssamning. Sá samningur kveður á um námskeið fyrir handritshöfunda frá löndunum þremur og byggist einnig á ályktun Vestnorræna ráðsins.
    Í forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins eiga sæti formenn landsdeilda Íslands, Grænlands og Færeyja, átti sinn árlega fund með sendinefnd Evrópuþingsins í Brussel í júní. Bann Evrópusambandsins við innflutningi á selaafurðum og málefni norðurslóða voru helst til umræðu. Þá tók forsætisnefnd þátt í 69. þingi Norðurlandaráðs í Helsinki í október þar sem hún fundaði með ráðherrum Vestur-Norðurlanda og forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Til umræðu á fundunum var m.a. áheyrnaraðildin að Norðurskautsráðinu, málefni norðurslóða og sjávarútvegsmál.
    Ný Íslandsdeild var kosin 14. desember í kjölfar alþingiskosninga í októberlok 2017 og hélt hún fyrsta fund sinn milli jóla og nýárs.

2. Almennt um Vestnorræna ráðið.
    Lögþing Færeyja, Landsþing Grænlands (Inatsisartut) og Alþingi stofnuðu Vestnorræna þingmannaráðið í Nuuk á Grænlandi 24. september 1985 sem samstarfsvettvang þinganna þriggja. Með því var formfest samstarf landanna sem oft ganga undir nafninu Vestur-Norðurlönd (Vestnorden). Stofnun ráðsins var fyrst og fremst byggð á sameiginlegum bakgrunni landanna á ýmsum sviðum; bæði með hliðsjón af nánum sögulegum og menningarlegum arfi og tengslum sem og sameiginlegum hagsmunum í umhverfis-, samgöngu- og efnahagsmálum. Á aðalfundi ráðsins árið 1997 var nafni þess breytt í Vestnorræna ráðið þegar samþykktur var nýr stofnsamningur. Á sama fundi voru markmið samstarfsins skerpt, nýjar vinnureglur samþykktar, ákveðið að setja á fót skrifstofu ráðsins og ráða framkvæmdastjóra. Lögþing Færeyinga, Alþingi Íslendinga og Landsþing Grænlendinga velja hvert um sig sex fulltrúa til setu í Vestnorræna ráðinu, þ.e. átján fulltrúa alls.
    Markmið Vestnorræna ráðsins eru að starfa að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, vernda auðlindir og menningararfleifð Norður-Atlantshafssvæðisins, stuðla að samvinnu ríkisstjórna og landsstjórna Vestur-Norðurlanda um mikilvæg mál og vera þingræðislegur tengiliður milli vestnorrænna samstarfsaðila. Vestnorræna ráðið hefur ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfismál, auðlinda- og samgöngumál, björgunar- og öryggismál, málefni norðurslóða, heilbrigðismál, menningarmál og íþrótta- og æskulýðsmál, svo fátt eitt sé nefnt.
    Vestnorræna ráðið kemur saman tvisvar á ári, til þemaráðstefnu í janúar og til ársfundar í ágúst eða byrjun september. Ársfundur fer með æðsta ákvörðunarvald ráðsins. Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins skipuleggur verkefni og störf ráðsins milli ársfunda. Forsætisnefnd samanstendur af einum fulltrúa frá hverju landi, formanni, fyrsta varaformanni og öðrum varaformanni. Formennska í ráðinu skiptist árlega á milli landanna þriggja. Ráðið getur einnig skipað sérstakar vinnunefndir um einstök mál. Ársfundur samþykkir ályktanir um ýmis mál sem síðan eru lögð fyrir þjóðþing landanna sem þingsályktunartillögur. Samþykki þingið ályktanirnar er þeim beint til viðeigandi ráðuneyta sem bera ábyrgð á að hrinda ályktunum í framkvæmd. Á hverjum ársfundi er tekin ákvörðun um hvaða þema verður tekið fyrir á þemaráðstefnu ráðsins árið eftir.
    Árið 2002 var undirritaður samningur um samstarf Vestnorræna ráðsins og ríkisstjórna Vestur-Norðurlanda. Með samningnum var kveðið á um að ríkisstjórnir landanna þriggja gæfu ráðinu skýrslu um stöðu framkvæmda gildandi ályktana fyrir ársfund ráðsins. Forsætisnefnd gæfist auk þess tækifæri til að funda með ráðherrum landanna í tengslum við Norðurlandaráðsþing ár hvert. Eftir því sem kostur væri tæku ráðherrar landanna einnig þátt í fundum Vestnorræna ráðsins.
    Vestnorræna ráðið vinnur jafnframt að framgöngu markmiða sinna með virkri þátttöku í norrænu og evrópsku samstarfi og norðurskautssamstarfi. Árið 2006 var undirritaður samstarfssamningur Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs. Samningurinn veitir Vestnorræna ráðinu og Norðurlandaráði gagnkvæman þátttökurétt hvort á fundum annars og formgerir samstarfið á milli ráðanna frekar. Samningurinn gerir það m.a. mögulegt að ályktanir Vestnorræna ráðsins séu teknar til umfjöllunar í Norðurlandaráði. Árið 2011 héldu Vestnorræna ráðið og Norðurlandaráð sína fyrstu sameiginlegu ráðstefnu sem fjallaði um öryggi á sjó á Norður-Atlantshafi. Önnur ráðstefna var haldin árið 2013 og fjallaði um nýtingu auðlinda hafsins og sú þriðja árið 2016 um sjálfbæra svæðisbundna þróun á norðurslóðum. Árið 2008 varð að samkomulagi milli Vestnorræna ráðsins og Evrópuþingsins að halda reglubundna upplýsinga- og samráðsfundi. Auk þess hefur Vestnorræna ráðið áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál. Loks gerði ráðið samstarfssamning við Hringborð norðurslóða árið 2016.

3. Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.
    Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins var kosin á þingfundi 26. janúar 2017. Aðalmenn voru kosnir Bryndís Haraldsdóttir, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaformaður, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Einar Brynjólfsson, þingflokki Pírata, Njáll Trausti Friðbertsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Eygló Harðardóttir, þingflokki Framsóknarflokks, og Pawel Bartoszek, þingflokki Viðreisnar. Varamenn voru Valgerður Gunnarsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Steinunn Þóra Árnadóttir, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Eva Pandora Baldursdóttir, þingflokki Pírata, Páll Magnússon, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Þórunn Egilsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, og Jón Steindór Valdimarsson, þingflokki Viðreisnar. Ritarar Íslandsdeildar voru Vilborg Ása Guðjónsdóttir og Bylgja Árnadóttir.
    Íslandsdeild hélt sjö fundi á árinu þar sem þátttaka í fundum ráðsins var undirbúin og starf ráðsins rætt. Á einn fund sinn bauð Íslandsdeild fulltrúum frá Íslandsdeild Norðurlandaráðs og Íslandsdeild þingmannaráðstefnu um Norðurslóðamál. Á dagskrá fundarins var umræða um norðurslóðamál og málefni Norðurlanda.
    Ný Íslandsdeild var kosin 14. desember 2017 í kjölfar alþingiskosninga. Aðalmenn eru Guðjón S. Brjánsson, formaður, þingflokki Samfylkingar, Þórunn Egilsdóttir, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, Ásmundur Friðriksson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Bryndís Haraldsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Inga Sæland, þingflokki Flokks fólksins, og Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Varamenn eru Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingflokki Samfylkingar, Halla Signý Kristjánsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Njáll Trausti Friðbertsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Karl Gauti Hjaltason, þingflokki Flokks fólksins, og Ólafur Þór Gunnarsson, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

4. Fundir Vestnorræna ráðsins 2017.
    Þemaráðstefna ársins var haldin í Færeyjum í lok febrúar og ársfundurinn í Reykjavík mánaðamótin ágúst/september. Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins fundaði fjórum sinnum á árinu auk þess sem nefndin átti fund með þingmannanefnd Evrópuþingsins í Brussel í júní. Þá fundaði forsætisnefnd með ráðherrum frá Vestur-Norðurlöndum í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Helsinki mánaðamótin október/nóvember auk fundar með forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Bryndís Haraldsdóttir, formaður Íslandsdeildar, sat sem formaður Vestnorræna ráðsins til 1. september 2017. Sem formaður ráðsins sótti Bryndís tvo fundi þingmannanefndar um norðurslóðamál á árinu, annan í Grænlandi og hinn á Íslandi. Hún tók einnig þátt í ráðstefnu Hringborðs norðurslóða í Reykjavík í október fyrir hönd forsætisnefndar.

Þemaráðstefna í Þórshöfn í Færeyjum 25.–26. febrúar 2017.
    Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu ráðstefnuna Bryndís Haraldsdóttir formaður, Lilja Rafney Magnúsdóttir varaformaður, Einar Brynjólfsson, Jón Steindór Valdimarsson og Njáll Trausti Friðbertsson, auk Helga Þorsteinssonar alþjóðaritara. Frá Íslandi kom jafnframt Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra. Þema ráðstefnunnar var „Kynbundnar áskoranir með áherslu á málefni karlmanna“. Samhliða ráðstefnunni hélt Vestnorræna ráðið aukaársfund og fundaði með Vestnorræna ungmennaráðinu.
    Aukaársfundur Vestnorræna ráðsins var haldinn föstudaginn 24. febrúar. Bryndís Haraldsdóttir, formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins og formaður Vestnorræna ráðsins, setti fundinn. Í ávarpi sínu fjallaði hún m.a. um sterka samstöðu Íslendinga, Grænlendinga og Færeyinga í tengslum við hvarf og dauða Birnu Brjánsdóttur í janúar. Hún þakkaði sérstaklega landsdeild Grænlands í Vestnorræna ráðinu fyrir þá samúð sem hún sýndi fjölskyldu Birnu og Íslendingum almennt. Á fundinum voru til umfjöllunar þrjár tillögur um innri málefni. Tvær af tillögunum snerust um fjármál ráðsins, m.a. um breytingar á starfsáætlun ársins og aðrar ráðstafanir til að mæta fimm milljóna króna halla á rekstri ráðsins árið 2016. Hallann má rekja til breytinga á gengi íslensku krónunnar og aukinnar starfsemi á vegum ráðsins. Þriðja tillagan, um að halda ársfundi Vestnorræna ráðsins í þingsölum aðildarlandanna, fyrst á Íslandi sumarið 2017 og síðan í Færeyjum og á Grænlandi, naut almenns stuðnings en samþykkt tillögunnar var frestað til að hægt væri að gera orðalag hennar skýrara.
    Að loknum aukaársfundi var haldinn kynningarfundur um Þróunaráætlun fyrir Norður-Atlantshafssvæðið (NAUST), en það er áætlun sem stofnunin Norræna Atlantssamstarfið (NORA) er að vinna að fyrir ráðherra byggðamála á Norðurlöndum. Þróunaráætlunin er unnin að tillögu Íslendinga og miðar m.a. að því að aukin áhersla verði lögð á samstarf Norðurlanda við nágrannalönd í vestri en síðustu áratugi hefur þungamiðja samstarfsins verið á Eystrasaltssvæðinu.
    Þemaráðstefnan hófst laugardaginn 25. febrúar með fyrirlestri Ólavs Ellefsen, formanns jafnréttisnefndar Færeyja, um foreldraorlof á Vestur-Norðurlöndum og skiptingu þess milli kynjanna. Í Færeyjum taka feður að meðaltali aðeins 7,4% foreldraorlofs og á Grænlandi 5,6%. Eftir að reglum um foreldraorlof var breytt á Íslandi í byrjun aldarinnar fóru feður að taka um 27% foreldraorlofs að meðaltali. Á Norðurlöndum er þetta hlutfall hæst á Íslandi, næsthæst í Svíþjóð og þar næst í Noregi. Hlutfallið er lægst í Færeyjum og á Grænlandi. Í umræðum komu fram efasemdir meðal fulltrúa Vestnorræna ráðsins varðandi það að stjórnvöld hlutuðust til um málefni fjölskyldna með því að eyrnamerkja hluta fæðingarorlofsins annaðhvort föður eða móður.
    Tryggvi Hallgrímsson, sérfræðingur á Jafnréttisstofu, greindi frá því þegar komið var á fót svonefndri karlanefnd á Íslandi árið 1994 til að auka hlut karla í umræðu um jafnréttismál. Nefndin var starfandi til ársins 2000 og var á þeim árum nokkuð áberandi í umræðu um jafna stöðu karla og kvenna. Önnur slík nefnd var stofnuð árið 2011 og starfaði til 2013. Tryggvi sagði að Ísland hefði verið með fyrstu löndum sem hefðu í verulegum mæli beint sjónum sínum að þessari hlið jafnréttismála. Hann sagði rannsóknir sýna að aukið jafnrétti hefði ýmsar jákvæðar afleiðingar fyrir karlmenn. Þannig hefði verið sýnt fram á að í þeim löndum þar sem jafnrétti kynjanna mældist meira væri lægra hlutfall dauðsfalla af völdum ofbeldis. Jafnframt væri minni munur á sjálfsmorðstíðni karla og kvenna en í löndum þar sem jafnrétti kynjanna væri minna.
    Anda Poulsen frá Grænlandi sagði ítarlega frá starfi sínu að stofnun svonefndra karlahópa, en það eru hópar sem hittast reglulega til að ræða og takast á við þau mörgu vandamál sem karlar á Grænlandi glíma við. Poulsen átti frumkvæði að stofnun fyrsta hópsins árið 2014 og vann það starf í sjálfboðavinnu, en eftir það hafa slíkir hópar verið stofnaðir víða um landið og nú ferðast Poulsen milli byggða Grænlands í umboði landsstjórnarinnar og aðstoðar við að koma starfseminni af stað.
    Páll Wiehe, yfirlæknir í Færeyjum, fjallaði um heilbrigði karla og kvenna á Vestur-Norðurlöndum. Meðalaldur er svipaður í Færeyjum og á Íslandi, en lægri á Grænlandi. Konur lifa að jafnaði lengur en karlar í öllum þremur löndunum, en þegar rannsakað er hvernig einstaklingar upplifa eigin heilsu er nánast enginn munur á svörum kynjanna, þ.e. að karlar telja sig vera við jafn góða heilsu og konur. Wiehe sagðist telja að meðalaldur karla gæti hækkað til jafns við konur ef betur væri fylgst með heilsufarsástandi karla svo þeir fengju meðferð tímanlega og með því að draga úr áfengis- og tóbaksneyslu.
    Katrin Kallsberg, yfirlæknir og þingmaður í Færeyjum, fjallaði einnig um heilbrigðismál. Hún benti á að boðið væri upp á reglulegar heilsufarsskoðanir af ýmsu tagi fyrir konur, t.d. vegna leghálskrabbameins og brjóstakrabbameins, en minna væri um slíkt fyrir karla og að það gæti verið ein skýring á verri heilsu meðal þeirra.
    Í erindi sínu fjallaði Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra m.a. um rétt feðra til barna sinna eftir skilnað og benti á að sameiginlegt forræði væri nú orðin meginreglan á Íslandi. Hún sagði íslensk stjórnvöld jafnframt styðja tillögur um jafna búsetu barna þannig að þau réttindi sem bundin væru við lögheimili skiptust milli foreldranna.
    Vestnorræna ráðið fundaði með Vestnorræna ungmennaráðinu. Síðarnefnda ráðið er nýstofnað og er skipað fulltrúum frá ungmennasamtökum stjórnmálaflokka á Vestur-Norðurlöndum. Það hélt fyrsta fund sinn í október 2016 á Íslandi og samþykkti þá fimm ályktanir sem kynntar voru fyrir Vestnorræna ráðinu í Færeyjum. Tillögur ungmennaráðsins gengu m.a. út á að bjóða upp á ókeypis og aðgengilega sálfræðiþjónustu fyrir ungt fólk, að auka námsframboð á Vestur-Norðurlöndum og að auka húsnæðisframboð fyrir ungt fólk. Bent var á að sérstaklega á Grænlandi og í Færeyjum væru hlutfallslega mörg störf í greinum þar sem karlar væru meiri hluti starfsmanna. Á fundinum var rætt um framtíð Vestnorræna ungmennaráðsins og fjármögnun á starfi þess. Þingmennirnir voru því mjög fylgjandi að ungmennin héldu áfram starfi sínu og hefðu náin tengsl við Vestnorræna ráðið og lofuðu að leita leiða til að finna fjármögnun.
    Í kjölfar þemaráðstefnunnar var farið í kynnisferð í nýja verksmiðju laxeldisfyrirtækisins Bakkafrosts í bænum Glyvrar. Bakkafrost er tíunda stærsta fiskeldisfyrirtæki í heimi og stærsta einkafyrirtæki í Færeyjum með um 750 starfsmenn. Um kvöldið var boðið upp menningardagskrá í Ósá-skólanum í Klakksvík, næststærsta bæ Færeyja, með þátttöku bæjarstjóra og íbúa bæjarins.

Fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins í Kaupmannahöfn 8. apríl 2017.
    Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sótti fundinn Bryndís Haraldsdóttir, auk Helga Þorsteinssonar alþjóðaritara. Helsta mál á dagskrá var undirbúningur undir ársfund ráðsins í Reykjavík í ágúst 2017. Drög að dagskrá ársfundar voru rædd og ákveðið að setja fundinum reglur um ræðutíma í samræmi við reglur Norðurlandaráðsþings. Einnig var ákveðið að fulltrúi úr hverri landsdeild tæki til máls undir öllum umræðuliðum á ársfundinum og kynnti afstöðu deildarinnar til málaflokksins og gildandi ályktana ráðsins. Ákveðið var að þema ársfundarins yrði Vestur-Norðurlönd: sterkt landsvæði á norðurslóðum. Forsætisnefndin ræddi störf nýstofnaðs vestnorræns ungmennaráðs með tilliti til þess hvort mögulegt væri að aðstoða það við fjármögnun eða formgera samstarf þess við Vestnorræna ráðið. Í ljósi þröngra fjárráða Vestnorræna ráðsins og aukinna umsvifa vegna áheyrnaraðildar að Norðurskautsráðinu var stungið upp á því að vestnorræn ungmenni hefðu áhrif á stjórnmál svæðisins í gegnum starf Norðurlandaráðs. Inga Dóra Markussen, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, gerði grein fyrir rekstri ráðsins og fór yfir kostnað við nýafstaðna þemaráðstefnu. Vegna aukinna útgjalda ráðsins var farið yfir leiðir til að bæta fjárhagsstöðu ráðsins. Inga Dóra tilkynnti um umsókn ráðsins um styrk frá íslenska ríkinu vegna húsnæðiskostnaðar framkvæmdastjórans sem mundi draga úr halla ráðsins.

Fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins í Brussel og fundur með Evrópuþinginu 28.–29. júní 2017.
    Bryndís Haraldsdóttir formaður tók þátt í fundi forsætisnefndar í Brussel, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur alþjóðaritara sem tók þátt í gegnum síma. Á fundinum gaf Inga Dóra Markussen framkvæmdastjóri skýrslu um starf ráðsins og ræddi um nýfengna áheyrnaraðild Vestnorræna ráðsins að Norðurskautsráðinu. Hún benti á að forsætisnefnd hefði á fundi sínum sumarið 2016 ákveðið að hækka framlög aðildarlandanna til Vestnorræna ráðsins ef ráðið fengi áheyrnaraðildina. Tekin var ákvörðun um að sú hækkun tæki gildi strax á árinu 2017 og að ráðinn yrði ráðgjafi í hálfa stöðu til að aðstoða framkvæmdastjórann við þá vinnu sem nauðsynleg væri til að undirbúa þátttökuna í vinnuhópi Norðurskautsráðsins um sjálfbæra þróun. Forsætisnefnd fór yfir skipulagningu ársfundar Vestnorræna ráðsins og samþykkti drög að dagskrá. Auk þess var samþykkt fjárheimild fyrir þemaráðstefnu ársins 2018 og ákveðið að hún skyldi haldin mánaðamótin janúar/febrúar í Grænlandi. Í kjölfar umræðna um vestnorrænt ungmennaráð komst forsætisnefnd að þeirri niðurstöðu að ráðið hefði ekki heimildir til þess að stofna eða fjármagna ungdómsráð samkvæmt núgildandi stofnsamningi.
    Bryndís Haraldsdóttir tók einnig þátt í fundi forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins með sendinefnd Evrópuþingsins (SINEEA) í Brussel. Á fundinum ræddu þingmennirnir m.a. norðurslóðamál, selveiðar og þróunaráætlanir Evrópusambandsins. Lars-Emil Johansen, þingforseti Grænlands, sagði frá samþykkt Norðurskautsráðsins um áheyrnaraðild Vestnorræna ráðsins. Jørn Dohrmann, Evrópuþingmaður frá Danmörku, óskaði ráðinu til hamingju með aðildina og sagðist vonast eftir stuðningi Vestnorræna ráðsins við áframhaldandi umsókn Evrópusambandsins um áheyrnaraðild. Hann benti á að ESB væri stærsti fjármögnunaraðili norðurslóða og að augljóst væri að landfræðipólitískar ástæður lægju að baki synjun umsóknarinnar. Christel Schaldemose, Evrópuþingmaður frá Danmörku, sagði frá banni ESB á innflutningi selaafurða sem verið hefði í gildi frá 2008. Innflutningur væri þó leyfilegur á ýmsum selaafurðum í kjölfar sérstakrar undantekningar fyrir inúíta. Vestnorræna ráðið hafði óskað eftir því á síðasta fundi sínum með sendinefnd Evrópuþingsins að almenningur yrði upplýstur um þessar löglegu vörur. Schaldemose sagði að upplýsingarnar væru aðgengilegar á heimasíðu ESB en að tollayfirvöld hefðu þörf fyrir einhvers konar vottorð með vörunum.
    Í umræðum vakti Bryndís máls á því hvort ESB ætti ekki að tryggja í auknum mæli aðkomu vestnorrænna háskóla og rannsóknastofnana að rannsóknaverkefnum sínum. Sér í lagi væri þetta mikilvægt þegar um væri að ræða rannsóknir á málefnum norðurslóða. Hún hvatti einnig til aukinnar áherslu á bláa hagkerfið í þróunaráætlun ESB og vísaði þar í efnahagslegt mikilvægi hafsins. Málefni hafsins, og þá einna helst súrnun sjávar, væru mikil hagsmunamál fyrir vestnorrænu þjóðirnar sem ættu mikið undir sjávarútvegi.

Ársfundur í Reykjavík 31. ágúst – 1. september 2017.
    Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu ársfundinn Bryndís Haraldsdóttir formaður, Lilja Rafney Magnúsdóttir varaformaður, Einar Brynjólfsson, Eygló Harðardóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Pawel Bartoszek og Valgerður Gunnarsdóttir varamaður, auk Bylgju Árnadóttur alþjóðaritara. Helstu mál á dagskrá fundarins voru umhverfismál, sjávarútvegsmál og málefni norðurslóða. Í fyrsta sinn var ársfundur Vestnorræna ráðsins haldinn í þingsal og framsögur fóru fram í ræðustól Alþingis.
    Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis og fyrrverandi formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, bauð ráðsmeðlimi velkomna og því næst setti Bryndís Haraldsdóttir, formaður Vestnorræna ráðsins, ársfundinn. Fyrsti dagskrárliður ársfundarins var fundur með utanríkisráðherrum vestnorrænu landanna. Þeir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands, Poul Michelsen, utanríkisráðherra Færeyja, og Erik Jensen, starfandi utanríkisráðherra Grænlands, fluttu ávörp og svöruðu í kjölfarið fyrirspurnum. Í máli ráðherranna og í umræðum sem á eftir komu bar hæst Norðurslóðamál, umhverfismál, sjávarútvegsmál og mikilvægi samstarfs Vestur-Norðurlanda í þessum málaflokkum. Rætt var um áskoranir sem svæðið stæði frammi fyrir í formi loftslagsbreytinga, súrnunar sjávar og mengunar, en einnig tækifæri í ferðaþjónustu og auknum flutningum. Tilkynnt var um nýjan samstarfssamning ráðherranna sem undirritaður var síðar um daginn. Bent var á að sá samningur byggðist að mestu leyti á þremur ályktunum Vestnorræna ráðsins frá árinu 2015 og bæri vitni um árangurinn af starfi ráðsins. Í samstarfssamningnum kemur fram að ráðherrarnir hittist árlega og að sérstakur vinnuhópur leiti tækifæra til samvinnu milli landanna og vinni að aukinni fríverslun.
    Sem formaður Vestnorræna ráðsins gaf Bryndís Haraldsdóttir ársfundinum skýrslu um starf ráðsins síðasta árið. Því næst gerðu formenn landsdeilda grein fyrir starfinu á liðnu ári og flutti Lilja Rafney Magnúsdóttir varaformaður skýrslu Íslandsdeildar. Hún sagði frá þeirri nýbreytni að Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins fundaði með Íslandsdeildum Norðurlandaráðs og þingmannanefndar um Norðurslóðamál, til að ræða þróun mála á norðurslóðum. Hún benti einnig á að vegna kosninga haustið 2016 hefði ekki náðst að leggja ályktanir Vestnorræna ráðsins frá ársfundi 2016 fyrir Alþingi sem þingsályktunartillögur, líkt og vaninn væri. Það yrði hins vegar gert með haustinu.
    Fulltrúar samstarfsaðila Vestnorræna ráðsins ávörpuðu einnig fundinn. Guðlaugur Þór Þórðarson flutti ávarp fyrir hönd samstarfsráðherra Norðurlandanna, Kristjáns Þórs Júlíussonar. Þar benti hann sérstaklega á mikilvægi Norræna Atlantssamstarfsins (NORA) fyrir Vestur-Norðurlönd og stakk upp á að fundin yrðu fleiri tækifæri fyrir NORA til að sinna rannsóknar- og ráðgjafarstörfum fyrir löndin. Kenneth Svendsen, þingmaður norska Stórþingsins, ræddi um mikilvægi þess fyrir Noreg að vera í góðu sambandi við Vestur-Norðurlönd, t.d. varðandi verndun hafsins gegn plastmengun. Ásmundur Guðjónsson, framkvæmdastjóri Norræna Atlantssamstarfsins (NORA), kynnti í ávarpi sínu hugmyndir NORA um að gera greiningu á stöðu Vestur-Norðurlanda í alþjóðastjórnmálum og möguleikum Vestnorræna ráðsins á að þróast. Þingmönnum sem tjáðu sig í kjölfar ávarpsins fannst tillagan áhugaverð en tóku fram að ráðið þyrfti að taka afstöðu til málsins og biðja um slíka greiningu.
    Inga Dóra Markussen, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, gaf ráðinu skýrslu um starf skrifstofu ráðsins frá ársfundi 2016 og sagði að mikilvægasta verkefnið nú væri að móta stefnu ráðsins fyrir áheyrnaraðildina að Norðurskautsráði. Hún talaði einnig um morðmál Birnu Brjánsdóttur og áhrifin sem það hefði haft á samskipti Íslands og Grænlands í upphafi árs 2017. Skrifstofa ráðsins hefði lagt sitt af mörkum til þess að samskipti landanna héldust áfram uppbyggileg og vinsamleg.
    Í umræðum um sjávarútvegsmál benti Eygló Harðardóttir á möguleikana á frekara samstarfi landanna í þróun á úrvinnslu sjávarafurða. Mikilvægt væri að laða ungt fólk að atvinnugreininni, þ.e. matvælavinnslunni, og skoða fleiri möguleika á því hvernig unnið væri úr hráefninu. Í umræðum um jafnréttismál sagði Pawel Bartoszek frá nýsamþykktum lögum um jafnlaunavottun og eigin reynslu af fæðingarorlofi. Hann sagðist hiklaust mæla með lögum um feðraorlof og að hann væri þakklátur fyrir þann tíma sem hann hefði fengið með sínum drengjum. Hins vegar yrði körlum að leyfast að ræða áskorunina sem það væri að takast á við þetta krefjandi verkefni. Einar Brynjólfsson tók til máls í umræðum um umhverfismál og sagði verndun umhverfisins vera stærstu áskorunina sem íbúar Vestur-Norðurlanda stæðu frammi fyrir í dag. Nauðsynlegt væri að tryggja að lífsgæði komandi kynslóða yrðu ekki skert. Ógnirnar væru meðal annarra loftslagsbreytingar, súrnun hafsins og plastmengun.
    Njáll Trausti Friðbertsson ræddi um tækifærin til vestnorrænnar samvinnu hvað varðar ferðaþjónustu og innviðauppbyggingu. Ísland hefði upplifað aukinn ferðamannastraum síðustu ár og gæti mögulega deilt reynslu sinni með nágrannalöndunum. Sjálfbærni væri lykilhugtak og ferðaþjónustan yrði alltaf að taka tillit til hinnar viðkvæmu náttúru á svæðinu. Í umræðum um jaðarsvæði ræddi Lilja Rafney um áskoranirnar sem löndin stæðu frammi fyrir við að halda byggð á jaðarsvæðum. Hún benti á að þar að auki gætu vestnorrænu löndin talist til jaðarsvæða á heimsvísu og þannig væri umtalsverður hluti Íslendinga sem sækti sér menntun erlendis. Það væri til góðs fyrir landið svo fremi sem fólkið skilaði sér heim aftur.
Á ársfundi var samþykkt að næsta þemaráðstefna ráðsins yrði í Ilulissat á Grænlandi í janúar 2018 og að þemaefnið yrði áskoranir og tækifæri í ferðaþjónustu á Vestur-Norðurlöndum. Ársfundurinn samþykkti þrjár ályktanir sem skyldu sendar áfram til þjóðþinga landanna þriggja til umfjöllunar og samþykktar. Sú fyrsta fjallar um samsetningu og útgáfu vestnorrænnar söngbókar með lögum á öllum þremur tungumálum landanna. Önnur ályktunin hvetur stjórnvöld landanna þriggja til að leita leiða til að auka samvinnu um menntun í sjávarútvegi, sérstaklega í fisktækni og gæðaeftirliti. Sú þriðja kallar á stjórnvöld að rannsaka innihald örplasts í sjávarafurðum í Norður-Atlantshafi og magn plastmengunar í hafinu.
    Að lyktum var samþykkt að Ríkisendurskoðun skyldi áfram vera endurskoðandi reikninga Vestnorræna ráðsins. Kári Páll Højgaard, formaður landsdeildar Færeyinga, var einróma kjörinn formaður ráðsins fram að næsta ársfundi.
    Samhliða ársfundinum hélt Vestnorræna ráðið menningarkvöld fyrir almenning í Norræna húsinu þar sem fólki gafst kostur á að syngja saman lög frá öllum löndunum og smakka þjóðlegan mat.

Þátttaka forsætisnefndar í ráðstefnunni Hringborði norðurslóða í Reykjavík 13.–15. október 2017.
    Af hálfu Íslandsdeildar sóttu Hringborð norðurslóða Bryndís Haraldsdóttir, formaður Íslandsdeildar, auk Bylgju Árnadóttur alþjóðaritara. Vestnorræna ráðið stóð fyrir málstofu um hlutverk áheyrnaraðila að Norðurskautsráðinu auk þess að halda hádegisverðarfund fyrir þingmannanet um norðurslóðir.
    Á málstofu Vestnorræna ráðsins hélt Bryndís Haraldsdóttir formaður opnunarræðu og kynnti fyrirlesarana. Þeir voru Eirik Sivertsen, formaður þingmannanefndar um norðurslóðamál og þingmaður í Noregi, Nauja Bianco, ráðgjafi hjá ráðherranefnd Norðurlandaráðs, dr. Allen Pope, sérfræðingur hjá International Arctic Science Committee, og Árni Þór Sigurðsson, sendiherra norðurslóðamála. Fyrirlesarar sögðu frá reynslu sinni af áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og ræddu einnig um það hvernig best væri hægt að nýta áheyrnaraðild til áhrifa í ráðinu. Í erindi sínu sagðist Sivertsen hafa gert óformlega könnun á því hvað orðið hefði af tillögum þingmannanefndar um norðurslóðamál til Norðurskautsráðsins gegnum tíðina. Hann hefði orðið undrandi á að sjá hversu mörg þeirra málefna sem nefndin hefði vakið máls á hefðu verið tekin upp á vettvangi Norðurskautsráðs. Hann sagðist hins vegar telja að þingmannasamtök ættu að fá sérstaka stöðu meðal áheyrnaraðila að Norðurskautsráði. Árni Þór sagðist telja það aðeins spurningu um tíma hvenær Norðurskautsráð mundi endurskoða stöðu áheyrnaraðila við ráðið og samskipti sín við þá. Bæði Árni Þór og Sivertsen voru sammála um að mikilvægt væri að leyfa öllum þeim sem áhuga sýndu að taka þátt í starfi Norðurskautsráðs. Umræðan um málefni norðurslóða ætti heima á þessum vettvangi og þá mætti ekki útiloka neinn.
    Þingmannanet um norðurslóðir var stofnað árið 2015 í samstarfi við Hringborð norðurslóða í þeim tilgangi að búa til vettvang fyrir þjóðkjörna fulltrúa frá norðurslóðasvæðum til að koma saman og styrkja tengsl sín á milli. Hádegisverðarfund þingmannanetsins sóttu þingmenn frá Grænlandi, Færeyjum, Bandaríkjunum, Kanada, Noregi og Danmörku.

Fundir forsætisnefndar á Norðurlandaráðsþingi 30. október – 2. nóvember 2017.
    Af hálfu Íslandsdeildar sóttu þingið Bryndís Haraldsdóttir formaður, auk Bylgju Árnadóttur alþjóðaritara. Auk þátttöku í Norðurlandaráðsþingi átti forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins fund með fulltrúum forsætisnefndar Norðurlandaráðs sem og vestnorrænum ráðherrum. Einnig var haldinn undirbúningsfundur fyrir þessa fundi.
    Formaður Íslandsdeildar, Bryndís Haraldsdóttir, flutti ræðu á þinginu fyrir hönd Vestnorræna ráðsins undir liðnum almennar umræður. Í máli sínu ræddi hún um nýfengna áheyrnaraðild Vestnorræna ráðsins að Norðurskautsráðinu. Hún sagði umsókn um áheyrnaraðild hafa komið til vegna stóraukins alþjóðlegs áhuga á norðurskautinu. Loftslagsbreytingar væru líklegar til að leiða af sér bráðnun íshellunnar á norðurpólnum og aukna umferð skipa um svæðið og aukið aðgengi að auðlindum, bæði sjávarfangi og mögulega olíu. Bryndís sagði þessar miklu breytingar fela í sér bæði tækifæri og áskoranir fyrir íbúa svæðisins. Mikilvægt væri að umræðan snerist um fólkið sem byggi á norðurslóðum og hvernig tryggja mætti að það yrði áfram öruggt og gott að búa á þessu svæði. Markmið Vestnorræna ráðsins með þátttöku í Norðurskautsráðinu væri að tala máli íbúa á norðurslóðum með hagsmuni og velferð þeirra í huga. Þessu markmiði ætlaði Vestnorræna ráðið að ná með þátttöku í vinnuhópi um sjálfbæra þróun. Bryndís ítrekaði að það að ná tökum á loftslagsbreytingum skipti íbúa norðurslóða höfuðmáli. Afleiðingar loftslagsbreytinga hefðu t.d. sést í náttúruhamförunum á vesturströnd Grænlands fyrr á árinu þar sem kröftug flóðbylgja olli manntjóni. Bryndís þakkaði sérstaklega fyrir hið góða samstarf sem Vestnorræna ráðið ætti við Norðurlandaráð og ítrekaði að þrátt fyrir aukna áherslu á norðurslóðamál mundi ekki draga úr samstarfi Vestnorræna ráðsins við Norðurlandaráð.
    Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins fundaði með samstarfsráðherranum Agathe Fontain frá Grænlandi og sjávarútvegsráðherranum Høgna Høydal frá Færeyjum. Kristján Þór Júlíusson, samstarfsráðherra frá Íslandi, sinnti einnig skyldum forsætisráðherra á Norðurlandaráðsþingi og gat því ekki tekið þátt í fundinum sökum anna. Bryndís Haraldsdóttir stýrði fundinum og þakkaði ráðherrunum og ráðuneytum þeirra fyrir þátttöku í ársfundi Vestnorræna ráðsins á Íslandi í ágúst og fyrir skýrslur þeirra um stöðu vinnu til að bregðast við ályktunum ráðsins. Hún lýsti einnig ánægju með samstarfssamninginn sem undirritaður var á fundi utanríkisráðherra landanna í tengslum við ársfundinn og byggist á ályktun Vestnorræna ráðsins. Hún sagði frá vinnu ráðsins við að móta stefnu fyrir þátttöku í Norðurskautsráðinu og einnig frá þemaráðstefnu sem halda á í janúar næstkomandi á Grænlandi og fjalla mun um áskoranir og tækifæri í ferðaþjónustu á Vestur-Norðurlöndum. Jørgen Niclasen, starfandi formaður landsdeildar Færeyja, fór stuttlega yfir þær ályktanir ráðsins sem eru í gildi og sagði frá þemaráðstefnunni sem haldin var í janúar 2017 og fjallaði um jafnréttismál með áherslu á áskoranir karla. Høgni Høydal sagði vestnorrænt samstarf mjög mikilvægt og að Færeyingar legðu mikla áherslu á að fara eftir ályktunum Vestnorræna ráðsins. Samstarf á norðurslóðum yrði sífellt mikilvægara, sérstaklega í ljósi erfiðleika Evrópusambandsins í kjölfar útgöngu Breta. Hann lýsti ánægju sinni með þær ályktanir ráðsins sem snúa að sjávarútveginum. Á vettvangi sjávarútvegarins litu löndin yfirleitt svo á að þau væru í samkeppni hvert við annað en á málefnasviðinu væru tækifæri til gagnlegrar samvinnu. Sú samvinna hefði auðvitað verið torvelduð síðustu tvö árin sökum tíðra ráðherraskipta, bæði á Íslandi og Grænlandi. Høydal benti hins vegar á að engar gildandi ályktanir Vestnorræna ráðsins fjölluðu um heilbrigðismál og sagðist einnig sakna þess að sjá ekki ályktun um jafnréttismál út frá þemaráðstefnunni í janúar. Í umræðum um þemaráðstefnu ársins 2018 benti Niclasen á að það væru fleiri áskoranir í ferðaþjónustu en eingöngu sú að fá ferðamenn til landanna. Hann benti á að ýmis vandamál væru tengd ferðaþjónustunni á Íslandi, t.d. húsnæðisskortur í Reykjavík. Agathe Fontain lýsti ánægju með samstarfið við Vestnorræna ráðið og sagði nýju ályktanirnar vera áhugaverðar og spennandi. Í umræðum um norðurslóðamál sagði Niclasen mikilvægt að hafa í huga að málefnið snerist um fólk. Norðurslóðir og sjálfbær þróun væru sameiginlegt viðfangsefni allra á Vestur-Norðurlöndum, þrátt fyrir að íbúarnir væru annars ólíkir um margt.
    Á fundi Vestnorræna ráðsins með forsætisnefnd Norðurlandaráðs var rætt um samstarf ráðanna tveggja. Bryndís Haraldsdóttir, formaður Íslandsdeildar, þakkaði fyrir þátttöku Norðurlandaráðs í fundum Vestnorræna ráðsins. Fulltrúi Norðurlandaráðs í Vestnorræna ráðinu, Phia Andersson, tók undir með henni og sagði mikilvægt að halda góðu sambandi og samstarfi milli ráðanna. Britt Lundberg, formaður Norðurlandaráðs, sagðist hafa séð það í heimsóknum sínum til Vestur-Norðurlanda hversu mikilvæg málefni norðurslóða væru orðin í samskiptum landanna og á alþjóðavísu. Einnig var tilkynnt að halda ætti septemberfundi Norðurlandaráðs í Nuuk á Grænlandi árið 2018 en að ekki væri búið að ákveða efni fyrir sameiginlega málstofu fundarins. Jørgen Niclasen vakti þá athygli á ályktun Vestnorræna ráðsins um rannsóknir á örplastmengun í hafi. Fulltrúar Norðurlandaráðs sögðu málefnið einnig vera áhersluefni þeirra og ákváðu að stefna að því að örplastmengun yrði viðfangsefni málstofunnar. Auk þess var rætt um að halda sameiginlega ráðstefnu í tengslum við ársfund Vestnorræna ráðsins árið 2019. Fulltrúar forsætisnefndar Norðurlandaráðs óskuðu Vestnorræna ráðinu til hamingju með áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og Bryndís sagði frá vinnu ráðsins við stefnumótun vegna þátttökunnar. Lundberg sagði frá vinnu Norðurlandaráðs í tengslum við norðurslóðamál, þar á meðal ráðstefnu sem haldin var í Helsinki í lok nóvember. Martin Kolberg, þingmaður frá Noregi, sem tekur við formennsku í Norðurlandaráði 2018, kvaðst gjarnan vilja ræða norðurslóðamál nánar þegar ný ríkisstjórn hefði tekið við á Íslandi. Niclasen sagði íbúa Vestur-Norðurlanda hafa mikið fram að færa í umræðunni um norðurslóðir. Hafið væri það allra mikilvægasta fyrir þessar þjóðir og sömuleiðis sjálfbær nýting auðlinda hafsins.

Fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins í Brussel 22. nóvember 2017.
    Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundinn Bryndís Haraldsdóttir formaður, auk Bylgju Árnadóttur ritara. Helstu mál á dagskrá fundarins voru mótun stefnu Vestnorræna ráðsins vegna áheyrnaraðildar að Norðurskautsráðinu og þemaráðstefna ráðsins í janúarlok 2018. Aðrir fundarmenn voru Inga Dóra Markussen, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, Kári Páll Højgaard, formaður Vestnorræna ráðsins, og í síma voru einnig Aaja Chemnitz Larsen, starfandi formaður landsdeildar Grænlands, og Vilborg Ása Guðjónsdóttir, starfsmaður Vestnorræna ráðsins.
    Inga Dóra sagði frá þátttöku ráðsins í starfi Norðurskautsráðsins frá því umsókn um áheyrnaraðild var samþykkt í maí 2017. Strax í umsóknarferlinu var ákveðið að Vestnorræna ráðið tæki þátt í starfi vinnuhóps um sjálfbæra þróun (e. sustainable development working group). Einnig mun formaður ráðsins taka þátt í fundum æðstu embættismanna Norðurskautsráðsins (e. Senior Arctic Officials) ásamt framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjórinn fór yfir þær þrjár hugmyndir sem uppi voru um verkefni sem Vestnorræna ráðið gæti beitt sér fyrir innan vinnuhópsins. Í fyrsta lagi var það tillaga að úttekt á áfengis- og vímuefnanotkun ungmenna á norðurslóðum, að fyrirmynd íslenskra lýðheilsurannsókna meðal ungmenna. Inga Dóra sagðist hafa fengið góð viðbrögð frá fulltrúum annarra landa í Norðurskautsráðinu við þessari hugmynd og að brýn þörf væri á að gera rannsókn á stöðu þessara mála á svæðinu. Önnur verkefnatillagan sneri að samvinnu um myndun sjávarklasa á norðurslóðum að fyrirmynd Íslenska sjávarklasans á Granda í Reykjavík. Á vegum vinnuhóps um sjálfbæra þróun er í gangi verkefni um matvælaframleiðslu á norðurslóðum og gæti þessi hugmynd orðið þáttur í því. Tilgangurinn væri að stuðla að nýsköpun í atvinnurekstri og bættri nýtingu sjávarafurða. Þriðja tillagan var að setja á fót miðlægt net þar sem smærri fyrirtæki gætu komist í samband við áhugasama fjárfesta og sótt um ráðgjöf eða fjármögnun. Mikil áhersla hefði verið á stór umbótaverkefni tengd innviðum á svæðinu en með þessu verkefni yrði áherslan á smærri fyrirtæki í dreifðari byggðum.
    Í umræðum voru fundarmenn sammála um að setja aðaláherslu á tillöguna um rannsókn á áfengis- og vímuefnanotkun ungmenna á norðurslóðum. Vímuefnavandi ungmenna væri alvarlegur víða á svæðinu en lítið væri um tölfræðilegar upplýsingar þar um. Ákveðið var að halda einnig áfram vinnu við hugmyndina um sjávarklasa á norðurslóðum. Verkefnatillagan um að tengja smærri fyrirtæki við fjárfesta þótti einnig mjög áhugaverð og ákveðið var að vinna áfram með hana innan Vestnorræna ráðsins.
    Rætt var stuttlega um þemaráðstefnuna sem halda á í Ilulissat á Grænlandi í janúar 2018. Forsætisnefnd samþykkti endanlega dagsetningar ráðstefnunnar og flugáætlun vegna hennar. Ráðstefnan verður haldin dagana 29.–31. janúar. Rætt var stuttlega um þemað sjálft, áskoranir og tækifæri í ferðaþjónustu á Vestur-Norðurlöndum, og ítrekað mikilvægi þess að leggja áherslu á sjálfbærni í tengslum við ferðaþjónustu.

5. Ályktanir Vestnorræna ráðsins sem samþykktar voru á ársfundi ráðsins í Reykjavík 31. ágúst – 1. september 2017.
          Ályktun nr. 1/2017, um útgáfu á vestnorrænni söngbók á öllum þremur tungumálum landanna.
          Ályktun nr. 2/2017, um samvinnu á sviði menntunar í sjávarútvegsfræðum, sérstaklega fisktækni og gæðaeftirliti.
          Ályktun nr. 3/2017, um rannsóknir á örplasti í sjávarfangi í Norður-Atlantshafi og útbreiðslu plastmengunar í sjó.

Alþingi, 18. janúar 2018.

Guðjón S. Brjánsson,
form.
Þórunn Egilsdóttir, varaform. Ásmundur Friðriksson.
Bryndís Haraldsdóttir. Inga Sæland. Lilja Rafney Magnúsdóttir