Ferill 86. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Prentað upp.

Þingskjal 153  —  86. mál.
Leiðrétt fyrirsögn.
Skýrsla


Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2017.


1. Inngangur.
    Á vettvangi Evrópuráðsþingsins á árinu 2017 bar hæst flóttamannavandann í Evrópu, spillingarmál á Evrópuráðsþinginu og samskipti Rússa og Evrópuráðsþingsins. Í almennum umræðum var staða lýðræðisstofnana í Tyrklandi og deilur í Nagorno-Karabakh og Úkraínu einnig ofarlega á baugi.
    Málefni flóttamanna voru til umræðu á öllum þingfundum ársins 2017. Í tilmælum þingsins um heildstæð viðbrögð við flóttamannastraumnum til Evrópu hvatti þingið aðildarlönd til að viðurkenna að fólksflutningar milli landa héldu áfram að aukast og að þeir væru grundvöllur fyrir endurnýjun og þróun Evrópu. Í ályktun um mannréttindi í ljósi viðbragða Evrópuríkja við fólksflutningum yfir Miðjarðarhafið kemur fram að í kjölfar samnings Evrópusambandsins (ESB) við Tyrkland og lokunar landamæra hafi komum flóttafólks til Balkanskaga og Ungverjalands fækkað um 83%. Þessi aðgerð hafi hins vegar ekki haft áhrif á komu flóttafólks sjóleiðis frá Norður-Afríku. Þingið skoraði á ESB að hafa viðveru á Miðjarðarhafinu við leit og björgun, að herða aðgerðir sínar gegn smyglurum og að auka samstarf við líbísk stjórnvöld. Fjallað var um slæman aðbúnað flóttafólks á stærstu móttökustöðvum í Evrópu, á Ítalíu og Grikklandi, og Evrópuríki hvött til þess að axla í auknum mæli sameiginlega ábyrgð á móttöku flóttafólks. Talsvert var rætt um viðkvæma hópa flóttafólks, sérstaklega aðbúnað og öryggi fylgdarlausra barna.
    Fréttir af spillingu þingmanna Evrópuráðsþingsins settu svip sinn á starf þingsins. Fregnir bárust af því á árinu að nokkrir þingmenn hefðu þegið mútur frá stjórnvöldum í Aserbaídsjan í tengslum við eftirlit með mannréttindamálum og kosningum þar í landi. Forseti þingsins, Pedro Agramunt, þingmaður landsdeildar Spánar, þótti ekki taka nógu hart á málum og var orðaður við spillingu sjálfur, en hann hefur gegnt kosningaeftirliti í Aserbaídsjan fyrir hönd þingsins. Á vormánuðum fór Agramunt svo í umdeilda ferð til Sýrlands með aðstoð Rússa og hitti Bashar al-Assad forseta. Í kjölfar Sýrlandsheimsóknarinnar lýstu flokkahópar á þinginu því yfir að forsetinn nyti ekki lengur trausts þeirra. Samkvæmt þingsköpum Evrópuráðsþingsins var hins vegar ekki hægt að leggja fram formlega vantrauststillögu til atkvæðagreiðslu. Framkvæmdastjórn Evrópuráðsþingsins kom hins vegar saman á aprílfundinum og svipti Agramunt rétti sínum til að fara í opinberar heimsóknir fyrir hönd þingsins. Á þingfundi í júní var reglum þingsins breytt þannig að unnt er að setja forseta þingsins, varaforseta og formenn nefnda af í kjölfar vantrausts. Vantrauststillaga var lögð fram á sumarþingi en samkvæmt hinum nýju þingsköpum Evrópuráðsþingsins eru vantrauststillögur teknar á dagskrá á næsta þingfundi, nema yfirgnæfandi meiri hluti þingheims skrifi undir þær. Formleg vantrauststillaga var því á dagskrá fundarins í október en daginn áður en hún var tekin til umræðu sagði Agramunt af sér. Stella Kyriakides, þingmaður landsdeildar Grikklands og meðlimur í flokkahópi íhaldsmanna, var kjörin forseti út árið 2017.
    Líkt og síðustu ár var aðild Rússlands að átökunum í Úkraínu og stjórnmálaástandið á Krímskaga og Austur-Úkraínu ofarlega á blaði. Í apríl 2014 var landsdeild Rússlands svipt atkvæðisrétti í Evrópuráðsþinginu vegna aðkomu Rússlands að átökunum. Rússar hafa ekki skipað landsdeild síðan og hafa því ekki tekið þátt í störfum Evrópuráðsþingsins síðastliðin þrjú ár. Á októberfundi þingsins árið 2016 fordæmdi þingið enn og aftur aðkomu Rússlands að átökunum og ólöglega innlimun landsins á Krímskaga. Sumarið 2017 versnuðu samskipti Rússa og Evrópuþingsins enn þegar Rússar tilkynntu að þeir mundu ekki greiða framlög sín til Evrópuráðsins fyrr en landsdeild þeirra fengi skilyrðislausan atkvæðisrétt í Evrópuráðsþinginu. Á haustþingi samþykkti þingið tilmæli þar sem kallað var eftir því að reglur ráðherranefndarinnar og Evrópuþingsins um þátttöku aðildarlanda Evrópuráðsins yrðu samræmdar. Tilmælin voru samþykkt með miklum meiri hluta en í kjölfarið er tekist á um það hvort eigi að breyta reglum Evrópuráðsþingsins þannig að þinginu sé ekki fært að svipta landsdeild atkvæðisrétti sínum. Rússar myndu þá geta skipað nýja landsdeild án þess að eiga á hættu að missa atkvæðisréttinn.

2. Almennt um Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið.
    Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um grundvallarhugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi, lýðræði og réttarríki, auk þess að stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum. Í þeim tilgangi beitir ráðið sér m.a. fyrir gerð og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála.
    Ályktanir og fjölþjóðasáttmálar Evrópuráðsins hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar ráðsins á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á lýðræði og réttarríki, en mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og alþjóðleg samtök. Þar ber hæst mannréttindasáttmála Evrópu og félagsmálasáttmála Evrópu.
    Frá lokum kalda stríðsins hefur Evrópuráðið m.a. gegnt því veigamikla hlutverki að styðja við lýðræðisþróun í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, m.a. með tæknilegri aðstoð á sviði laga- og stjórnsýsluuppbyggingar auk kosningaeftirlits. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört síðan Berlínarmúrinn féll og eru þau nú 47 talsins. Svartfjallaland er nýjasta aðildarríkið en það sleit ríkjasambandi við Serbíu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í maí 2006 og varð aðili að Evrópuráðinu í maí 2007. Þar með mynda ríki Evrópuráðsins eina órofa landfræðilega heild í álfunni, að Hvíta-Rússlandi undanskildu.
    Evrópuráðsþingið er vettvangur fulltrúa þjóðþinga 47 aðildarríkja Evrópuráðsins. Á þinginu sitja 324 fulltrúar og jafnmargir til vara. Ólíkt ráðherranefnd Evrópuráðsins þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar. Á þinginu starfa níu fastanefndir og sex flokkahópar. Þá sitja forseti, 20 varaforsetar, formenn fastanefnda og flokkahópa í framkvæmdastjórn þingsins, sem hefur umsjón með innri málefnum þess. Sami hópur skipar stjórnarnefnd þingsins ásamt formönnum landsdeilda. Þingið kemur saman ársfjórðungslega, eina viku í senn, að jafnaði í janúar, apríl, júní og október. Stjórnarnefndin fundar þrisvar á milli þingfunda. Loks kemur sameiginleg nefnd þingsins með ráðherranefnd Evrópuráðsins reglulega saman samhliða fundum Evrópuráðsþingsins í Strassborg.
    Evrópuráðsþingið er nokkurs konar hugmyndabanki Evrópuráðsins um stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfis- og orkumál og menningar- og menntamál.
    Mikilvægi þingsins felst einkum í því að:
    –        eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum til ráðherranefndarinnar,
    –        hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir ef misbrestur verður þar á, og
    –        vera vettvangur fyrir skoðanaskipti og samráð þingmanna aðildarríkjanna og styrkja þannig lýðræðismenningu og efla tengsl þjóðþinga.
    Á þingfundum Evrópuráðsþingsins eru skýrslur nefnda ræddar og ályktað á grundvelli þeirra. Þingið getur beint tilmælum og álitum til ráðherranefndarinnar sem fjallar um þau og bregst við eftir atvikum með beinum aðgerðum. Evrópuráðsþingið á þannig oft frumkvæði að gerð fjölþjóðlegra sáttmála sem eru lagalega bindandi fyrir aðildarríkin. Sem dæmi má nefna að Evrópusáttmálinn um aðgerðir gegn mansali, sem tók gildi árið 2008, á rætur sínar að rekja til ályktana Evrópuráðsþingsins frá árunum 1997 og 2002. Þar eru stjórnvöld hvött til þess að grípa til samstilltra aðgerða til að stemma stigu við þeirri skipulögðu glæpastarfsemi sem mansal er. Einnig má nefna að á árinu 2011 lauk vinnu við gerð samnings sem tekur á ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi en gerð hans er einnig í samræmi við ályktanir Evrópuráðsþingsins.
    Evrópuráðsþingið er fjölþjóðastofnun þar sem þingmenn frá öllum ríkjum Evrópu, að Hvíta-Rússlandi undanskildu, starfa saman á jafnréttisgrundvelli. Jafnframt hafa störf Evrópuráðsþingsins bein áhrif á störf þjóðþinganna þar sem fulltrúar á Evrópuráðsþinginu eru þingmenn í heimalöndum sínum, ólíkt því sem á t.d. við um Evrópuþingið. Þingfundir Evrópuráðsþingsins þar sem þingmenn bera saman bækur sínar og skiptast á hugmyndum eru því afar mikilvægt framlag til löggjafarstarfs heima fyrir og hafa þeir hraðað mjög þeirri öru lýðræðisþróun sem hefur orðið í Evrópu eftir lok kalda stríðsins og stutt hana. Þá hefur reynslan sýnt að þjóðir sem hafa skýr markmið í störfum sínum innan þingsins og kappkosta að ná þeim fram geta haft áhrif langt umfram stærð og pólitískt bolmagn. Sú staðreynd varpar skýru ljósi á mikilvægi íslenskrar þátttöku á Evrópuráðsþinginu og þá hagsmuni sem í henni felast.

3. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.
    Kosið var til Alþingis 29. október 2016 og var Íslandsdeild kjörin á þingfundi í janúar 2017. Aðalmenn voru Þórhildur Sunna Ævarsdóttir formaður, þingflokki Pírata, Vilhjálmur Árnason varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Katrín Jakobsdóttir, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Varamenn voru Ásta Guðrún Helgadóttir, þingflokki Pírata, Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Sat Íslandsdeild óbreytt fram að kosningum 28. október 2017.

Skipan Íslandsdeildar í nefndir Evrópuráðsþingsins var sem hér segir:
    *     Sameiginleg nefnd Evrópuráðsþingsins og ráðherraráðsins: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
    *     Stjórnarnefnd: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
    *     Stjórnmála- og lýðræðisnefnd: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
    *     Laga- og mannréttindanefnd: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
    *     Nefnd um félagsmál, heilbrigðismál og sjálfbæra þróun: Vilhjálmur Árnason.
    *     Nefnd um fólksflutninga og málefni flóttamanna: Katrín Jakobsdóttir.
    *     Nefnd um menningar- og menntamál, fjölmiðla og vísindi: Katrín Jakobsdóttir.
    *     Jafnréttisnefnd: Vilhjálmur Árnason.

    Ritarar Íslandsdeildar voru Vilborg Ása Guðjónsdóttir, Jörundur Kristjánsson og Bylgja Árnadóttir.
    Íslandsdeild fundaði með formanni jafnréttisnefndar Evrópuráðsþingsins, Elenu Centemero, í Reykjavík 30. ágúst 2017. Fundinn sóttu Katrín Jakobsdóttir og Vilhjálmur Árnason, ásamt ritara Íslandsdeildar. Á dagskrá voru jafnréttismál á Íslandi og ný löggjöf um jafnlaunavottun. Centemero fundaði einnig með félagsmálaráðherra, utanríkisráðherra, allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis, Félagi kvenna í atvinnulífinu, Jafnréttisstofu og Kvenréttindafélagi Íslands.
    Ný Íslandsdeild var kosin 14. desember 2017 í kjölfar Alþingiskosninga. Aðalmenn eru Rósa Björk Brynjólfsdóttir formaður, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir varaformaður, þingflokki Pírata, og Bergþór Ólason, þingflokki Miðflokksins. Varamenn eru Ólafur Þór Gunnarsson, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Halldóra Mogensen, þingflokki Pírata, og Birgir Þórarinsson, þingflokki Miðflokksins.

4. Fundir Evrópuráðsþingsins 2017.
    Þingfundir Evrópuráðsþingsins eru haldnir í Evrópuhöllinni í Strassborg fjórum sinnum á ári, að jafnaði í janúar, apríl, júní og október. Auk þess koma framkvæmdastjórn og stjórnarnefnd Evrópuráðsþingsins saman til funda á milli þinga og afgreiða mál sem æðsta vald þingsins. Árið 2017 sótti Íslandsdeild aðeins tvo þingfundi af fjórum. Fyrsti þingfundur ársins var haldinn í sömu viku og fyrsti þingfundur Alþingis í kjölfar kosninga í október 2016 og var því engin Íslandsdeild á janúarfundinum. Á októberfundi Evrópuráðsþingsins var Íslandsdeild önnum kafin vegna kosninga til Alþingis 28. október 2017 og því var ekki farið á þann fund.

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 24.–28. apríl 2017.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður, Vilhjálmur Árnason, varaformaður, og Katrín Jakobsdóttir, auk Jörundar Kristjánssonar, starfandi ritara. Helstu mál á dagskrá voru umræður um virkni lýðræðisstofnana í Tyrklandi, staða mannréttinda í Norður-Kákasus, umræður um vaxandi misskiptingu, aðgerðir til að vernda flóttakonur fyrir kynbundnu ofbeldi, 25 ára starf Evrópunefndar um forvarnir gegn pyndingum, misnotkun á kerfum Interpol, vernd trúarlegra minnihlutahópa, leiðir til að bæta fjármögnun aðstoðar við flóttamenn í neyð og samhengi gervigreindar og mannréttinda. Þá fóru fram sérstakar umræður um vaxandi útlendingaandúð í Evrópu, einkum gegn gyðingum og múslimum, þróun mála í Ungverjalandi með fyrirhugaðri lagasetningu sem takmarka störf frjálsra félagasamtaka og háskóla, og sérstakar umræður um drög að sáttmála um varnir gegn eyðileggingu á menningarminjum.
    Þingið gerði alvarlegar athugasemdir við stöðu mála í Tyrklandi og virkni lýðræðislegra stofnana. Í kjölfar valdaránstilraunar sumarið 2016 voru sett neyðarlög, sem framlengd hafa verið, lög sem veita stjórnvöldum ríkar heimildir á grundvelli neyðarástands. Í ályktun þingsins var lýst miklum áhyggjum af þróun mála, m.a. því að kjörnir fulltrúar á tyrkneska þinginu hefðu verið hnepptir í varðhald, og Tyrklandi bent afdráttarlaust á að endurupptaka dauðarefsingar væri ekki samrýmanleg aðild að Evrópuráðsþinginu. Í ályktuninni voru tyrknesk yfirvöld hvött til að aflýsa neyðarástandi hið fyrsta og Tyrkir hvattir til að fylgja ráðum Feneyjanefndarinnar við breytingar á stjórnarskrá.
    Í tilmælum þingsins til ráðherraráðsins um stöðu mannréttinda í Norður-Kákasus lagði þingið áherslu á að staða mála á svæðinu, hvað varðar mannréttindi og virkni réttarríkisins, væri afar slæm og beindi þeim tilmælum til ráðherraráðsins að auka eftirlit með stöðu mála, einkum í Dagestan og Tsjetsjeníu.
    Í ræðu sinni, við umræður um vaxandi misskiptingu, rakti Katrín Jakobsdóttir áhrif frjálshyggju á efnahagslega misskiptingu og lagði áherslu á nýja nálgun í hagfræði og styrkingu velferðarkerfisins. Samþykkti þingið ályktun þar sem m.a. var hvatt til aðgerða til að berjast gegn launamun kynjanna.
    Í ályktun þingsins um aðgerðir til að vernda flóttakonur fyrir kynbundnu ofbeldi voru aðildarþing hvött til að fullgilda hið fyrsta samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi.
    Í sérstökum umræðum um vaxandi útlendingaandúð, einkum gegn gyðingum og múslimum, var Katrín Jakobsdóttir framsögumaður flokkahóps sameinaðra evrópskra vinstri manna. Rakti hún m.a. orsakir aukinnar útlendingaandúðar til efnahagskreppunnar og hvernig lýðhyggja hefði fengið byr undir báða vængi með vaxandi misskiptingu. Þórhildur Sunna flutti einnig ræðu undir þessum dagskrárlið og vakti athygli á að það væri ekki einungis efnahagskreppan, heldur einnig – og ekki síður – opinber orðræða og hugtakanotkun sem væri olía á eld útlendingaandúðar.
    Í umræðum um skýrslu Evrópunefndar um forvarnir gegn pyndingum kvaddi Þórhildur Sunna sér hljóðs og fagnaði sérstaklega tillögum um aukið samráðsferli nefndarinnar og laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsins. Einnig benti hún á að ríki eins og Ísland, sem hefur almennt góða ímynd, fylgdi ekki til fulls tilmælum nefndarinnar gegn nauðungarvistun á geðdeildum. Í samþykktum tilmælum Evrópuráðsþingsins til ráðherranefndarinnar var hvatt til þess að starfsemi Evrópunefndar um forvarnir gegn pyndingum væri styrkt.
    Í umræðum um misnotkun kerfa Interpol var Vilhjálmur Árnason framsögumaður flokkahóps íhaldsmanna. Sagði hann löggæslu mikilvægan hornstein samfélagsins og traust milli löggæslustofnana og borgara lykilatriði. Því væri afar mikilvægt að einstök aðildarríki misnotuðu ekki Interpol-kerfin til handtöku og framsalsbeiðna því að fyrir utan órétt gegn borgurum kæmi það niður á trausti til stofnunarinnar.
    Í sérstökum umræðum um þróun mála í Ungverjalandi lýstu þingmenn miklum áhyggjum af löggjöf sem var í undirbúningi og var ætlað að takmarka störf frjálsra félagasamtaka og setja skorður á starfsemi eins ákveðins háskóla í Búdapest sem var í erlendri eigu. Í tillögu þingsins var Feneyjanefndin hvött til að skila áliti um hvort lagafrumvarpið samræmdist skuldbindingum Ungverjalands gagnvart Evrópuráðinu og ungversk yfirvöld hvött til samstarfs. Þá var ályktað um að fylgjast áfram með þróun mála í Ungverjalandi.
    Í kjölfar umræðna um vernd trúarlegra minnihlutahópa og leiðir til að bæta fjármögnun aðstoðar við flóttamenn í neyð voru samþykktar tvær ályktanir. Í þeirri fyrri voru aðildarríki Evrópuráðsins hvött til að virða skuldbindingar um trúfrelsi og mannréttindi. Í þeirri síðari voru aðildarríki hvött til að deila byrðum jafnt er kæmi að móttöku flóttamanna og Evrópusambandið hvatt til að íhuga lækkun skulda Grikklands og Ítalíu til að koma til móts við þann kostnað sem löndin bæru vegna flóttamannastraums frá Miðausturlöndum og Norður-Afríku.
    Síðasti liður á reglulegri dagskrá var umræður um samhengi gervigreindar og mannréttinda og sértækar umræður um drög að sáttmála um varnir gegn eyðileggingu á menningarminjum og samþykkti þingið ályktanir um þessi efni.
    Auk reglubundinnar dagskrár fluttu konungur Spánar, Filippus VI, og forseti Grikklands, Prokopios Pavlopoulos, þinginu sérstök ávörp. Einnig komu formaður ráðherraráðsins, Ioannis Kasoulides, utanríkisráðherra Kýpur, og framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Thorbjørn Jagland, fyrir þingið og sátu fyrir svörum. Nils Muiznieks, mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins, flutti þinginu skýrslu sína og svaraði fyrirspurnum.
    Fyrir utan hefðbundna dagskrá þings var staða forseta þess í brennidepli, en Pedro Agramunt, forseti Evrópuráðsþingsins, hafði legið undir ámæli fyrir ferð til Sýrlands. Gaf hann kost á þinglegum yfirheyrslum um ferðina og lýstu flokkahópar því yfir í kjölfarið að hann nyti ekki trausts til áframhaldandi starfa. Samkvæmt þingsköpum Evrópuráðsþingsins var ekki hægt að bera fram formlega vantrauststillögu til atkvæða. Á fundi framkvæmdastjórnar Evrópuráðsþingsins, á síðasta degi þings, ályktaði hún að Agramunt væri bannað að fara í opinberar heimsóknir í nafni Evrópuráðsþingsins eða senda frá sér yfirlýsingar í nafni þess.

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 26.–30. júní 2017.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður, Vilhjálmur Árnason, varaformaður, og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, varamaður, auk Bylgju Árnadóttur ritara. Helstu mál á dagskrá voru mannréttindi flóttafólks og viðbrögð Evrópulanda við flóttamannastraumnum og breytingar á þingsköpum Evrópuráðsþingsins. Þá var hryðjuverkaógnin í Evrópu, ofbeldi gegn konum á almannasvæðum og staða lýðræðis og mannréttindamála í Hvíta-Rússlandi einnig til umræðu.
    Stærsta mál sumarþingsins var tillaga um breytingar á þingsköpum Evrópuráðsþingsins þannig að hægt væri að lýsa vantrausti á forseta þingsins, varaforseta þess og formenn nefnda og setja þá af. Skýrsla málsins og tillagan bar heitið Styrking ábyrgðar í þinginu og átti uppruna sinn í deilum um forseta þingsins, Pedro Agramunt. Á fundi sendinefnda Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna var ákveðið að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður Íslandsdeildar, mundi skrifa bréf til þingsins til að skýra afstöðu landanna til lögfræðilegra álitamála og lýsa stuðningi við fyrirhugaðar breytingar á þingsköpum. Allar landsdeildir Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna skrifuðu undir bréfið og Íslandsdeildin sá um að dreifa því til annarra þingmanna.
    Í umræðum lýstu nær allir ræðumenn sig samþykka breytingunum á þingsköpum. Í máli þeirra kom fram að þingleg ábyrgð hvíldi á því að hægt væri að draga kjörna fulltrúa til ábyrgðar og setja þá af ef þyrfti. Þetta hefði af einhverjum orsökum skort í reglum Evrópuráðsþingsins hingað til. Flestir sem tóku til máls vonuðust til þess að breytingin á þingsköpum og brotthvarf Agramunts endurvekti traust á Evrópuráðsþinginu. Þingmaður Aserbaídsjan taldi hins vegar að þessi reglubreyting mundi skaða trúverðugleika stofnunarinnar og benti á að þegar þingmenn Evrópuráðsþingsins hefðu heimsótt önnur umdeild hernumin svæði, t.d. Nagorno-Karabakh og Krímskaga, hefði ekki komið fram svipuð gagnrýni. Þingmaður Moldóvu tók undir það að gjörðir þingsins bæru vott um tvöfalt siðgæði. Breytingin á þingsköpum var samþykkt í atkvæðagreiðslu með 154 atkvæðum gegn 30 og tveimur dögum síðar var lögð fram vantrauststillaga gegn Agramunt forseta.
    Heill dagur var lagður undir umræður um fjórar skýrslur og tengdar ályktanir um flóttamannamál. Sú fyrsta fjallaði um mannúðaraðstoð og viðbrögð stjórnvalda við flóttamannastraumnum, önnur um viðbrögð Evrópulanda við flóttamannastraumnum í ljósi mannréttinda flóttafólks, sú þriðja um fólksflutninga sem tækifæri fyrir þróun og vöxt í Evrópu og sú fjórða um aðlögun flóttafólks á álagstímum. Framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Thorbjørn Jagland, og Giorgos Kaminis, borgarstjóri Aþenu, fluttu ávörp auk mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins og dómsmálaráðherra Svíþjóðar. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir tók til máls í umræðum um aðlögun flóttafólks og fólksflutninga sem tækifæri til þróunar í Evrópu. Hún sagði það skyldu Íslands sem vel stæðs ríkis að gera meira til að bregðast við flóttamannavandanum. Ekki ætti að líta á flóttafólk sem byrði á efnahag landsins heldur horfa til þess sem fólkið gæti lagt af mörkum til samfélagsins. Hún deildi reynslu Íslands af móttöku flóttafólks og benti á að í nýlegri skýrslu um stöðu flóttafólks hefði verið komist að þeirri niðurstöðu að tungumálið væri lykillinn að aðlögun. Í ljósi þess væri nauðsynlegt að styðja sérstaklega við börn á skólaaldri og bæta íslenskukennslu og túlkaþjónustu. Bjarkey sagði að þegar rætt væri um flóttamannamál þyrfti ávallt að hafa virðingu fyrir mannréttindum og umburðarlyndi í forgrunni og að mikilvægt væri að takast á við orðræðu sem sprottin væri úr ótta og óöryggi. Þannig væri hægt að breyta fordómum í skilning.
    Þórhildur Sunna Ævarsdóttir bar fram fyrirspurn til formanns ráðherranefndar Evrópuráðsins, Lubomír Zaorálek, utanríkisráðherra Tékklands. Fyrirspurn Þórhildar Sunnu sneri að ummælum Anders Samuelsen, utanríkisráðherra Dana og verðandi formanns ráðherranefndarinnar, um að Evrópudómstóllinn leyfði sér of rúma túlkun á mannréttindasáttmálanum og að setja þyrfti honum vinnureglur. Hún spurði hvort ráðherranefndin hefði vitneskju um fyrirætlanir danska utanríkisráðherrans í formennsku sinni og hvort þetta hefði verið rætt í ráðherranefndinni. Zaorálek svaraði því til að Danir hefðu enn ekki gert opinbera stefnu sína fyrir formennskuna og því gæti hann ekki svarað fyrir hana. Hann fullvissaði þingið hins vegar um að tékkneska formennskan styddi mannréttindasáttmálann að fullu og að helsta verkefni ráðherranefndarinnar væri að tryggja virkni eftirlitsstofnunar sáttmálans, það er Mannréttindadómstólsins. Í umræðum um framkvæmd dóma Mannréttindadómstóls Evrópu tók Þórhildur Sunna einnig til máls. Hún sagði mannréttindasáttmála Evrópu vera stærstu gjöf forvera okkar til friðar og mannréttinda Evrópubúa. Það væri mikilvægt að stofnaðilar sáttmálans stæðu saman að því að verja hann og leyfðu ekki öðrum að rýra traust til hans. Hún lýsti áhyggjum sínum af fyrrnefndum ummælum danska ráðherrans. Framkvæmdaarmur Evrópuráðsins, þ.e. ráðherranefndin, gæti haft áhrif á skilvirkni dómstólsins en það væri alls óviðeigandi að reyna að hafa áhrif á efnislega túlkun hans á mannréttindasáttmálanum.
    Í almennum umræðum tók Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir til máls fyrir hönd síns flokkahóps og ræddi skattundanskot og skattaskjól. Hún sagði frá því hvernig lekinn, sem síðar var kallaður Panamaskjölin, hefði skekið stjórnmálin á Íslandi vorið 2016 og leitt til þess að boðað var til snemmbúinna kosninga. Skattundanskot væru víðtæk og áætlað væri að Evrópusambandslönd yrðu af milljörðum evra ár hvert vegna þeirra. Þessar upphæðir væri hægt að nota í sameiginleg verkefni, svo sem skóla og heilbrigðiskerfi. Bjarkey benti á að þrátt fyrir aðgerðaáætlanir á vegum ESB, OECD og annarra alþjóðasamtaka síðustu ár sýndu Panamaskjölin að lítill árangur hefði náðst. Þörf væri á auknu gagnsæi og skýrara lagaumhverfi.
    Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hélt erindi á hliðarviðburði um jafnrétti á vegum frjálsra félagasamtaka þar sem umræðuefnið var stjórnmálaþátttaka kvenna. Á viðburðinum fluttu erindi stjórnmálamenn og fulltrúar baráttusamtaka kvenna frá Póllandi, Írlandi, Tyrklandi og Íslandi. Í ræðu sinni lýsti Þórhildur Sunna tilfinningunni þegar hún tók í fyrsta skipti þátt í baráttufundi fyrir jöfnum launum karla og kvenna. Þrátt fyrir baráttufundi íslenskra kvenna síðustu áratuga væri þó enn kynbundinn launamunur á Íslandi og starfsstéttir karla metnar mun hærra en starfsstéttir kvenna. Hún ræddi einnig um ný lög um jafnlaunavottun og benti á að stjórnmálaflokkur sinn hefði verið gagnrýninn á vinnslu málsins og ýmsa þætti laganna.
    Af öðru sem var samþykkt á þinginu má nefna ályktun um útrýmingu kynbundins ofbeldis á almannasvæðum, að auka heiðarleika stjórnvalda til að takast á við spillingu stjórnmálamanna og um áhrif stjórnmálamanna á fjölmiðla. Einnig var rætt um eftirlit þinga með spillingu og ástandið í Hvíta-Rússlandi. Þingið samþykkti auk þess að ræða baráttu Evrópulanda gegn hryðjuverkum undir liðnum umræður um knýjandi málefni, að frumkvæði Tyrkja.

5. Nefndarfundir utan þinga.
    Formaður Íslandsdeildar, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, sótti fundi stjórnmála- og lýðræðisnefndar í mars, maí og september, fundi laga- og mannréttindanefndar í mars, maí og september, auk stjórnarnefndarfundar í mars. Þórhildur Sunna var einnig höfundur álits stjórnmála- og lýðræðisnefndar um skýrslu laga- og mannréttindanefndar um saksókn og refsingu fyrir glæpi gegn mannkyni og þjóðarmorð framin af samtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki. Skýrslan var lögð fyrir á októberfundi Evrópuráðsþingsins en þar sem Íslandsdeild komst ekki á fundinn var flutningsmaður álits Þórhildar Sunnu varaformaður nefndarinnar, Hendrik Daems. Katrín Jakobsdóttir sótti einnig fund menningar- og menntamálanefndar í mars. Einnig skal nefna að á starfstímabili fyrri Íslandsdeildar sótti Ögmundur Jónasson fund félagsmálanefndar í Flórens í nóvember 2016.

Alþingi, 18. janúar 2018.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir,
form.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir,
varaform.
Bergþór Ólason.


Fylgiskjal.


Ályktanir, tilmæli og álit Evrópuráðsþingsins árið 2017.


    Ályktun er ákvörðun Evrópuráðsþingsins eða yfirlýsing um afstöðu þess í tilteknu máli. Tilmæli eru tillögur sem alla jafna byggjast á ályktunum þingsins og er beint til ráðherranefndarinnar sem tekur þær til umfjöllunar og bregst við eftir atvikum með beinum aðgerðum eða tillögu að lagasetningu í aðildarríkjunum. Álit eru oftast gefin sem umsögn eða svör við spurningum sem ráðherranefndin beinir til þingsins, t.d. varðandi inngöngu nýrra aðildarríkja en einnig um fjárlög Evrópuráðsins og drög að nýjum Evrópusamningum.
    Eftirfarandi ályktanir, álit og tilmæli til ráðherranefndar Evrópuráðsins voru samþykkt á þingfundum og stjórnarnefndarfundum Evrópuráðsþingsins árið 2017:

Fyrsti hluti þingfundar 23.–27. janúar:
     *      Tilmæli 2097 um árásir á fjölmiðlafólk og fjölmiðlafrelsi í Evrópu.
     *      Tilmæli 2098 um mismunun og hatursorðræðu á netinu.
     *      Ályktun 2141 um árásir á fjölmiðlafólk og fjölmiðlafrelsi í Evrópu.
     *      Ályktun 2142 um mannúðarmál á Gazasvæðinu.
     *      Ályktun 2143 um áskoranir og ábyrgð í netblaðamennsku.
     *      Ályktun 2144 um mismunun og hatursorðræðu á netinu.
     *      Ályktun 2145 um virkni lýðræðisstofnana í Úkraínu.
     *      Ályktun 2146 um eflingu félagslegra umræðna til að tryggja stöðugleika og aukið félagslegt og efnahagslegt jafnrétti.
     *      Ályktun 2147 um nauðsyn þess að endurskoða stefnu Evrópulanda varðandi fólksflutninga.
     *      Ályktun 2148 um málsmeðferð ósamþykktra kjörbréfa landsdeildar Slóvakíu.
     *      Ályktun 2149 um eftirlit þingsins (september 2015 – desember 2016) og reglubundið eftirlit með uppfyllingu skuldbindinga Austurríkis, Tékklands, Danmerkur, Finnlands, Frakklands og Þýskalands.
     *      Ályktun 2150 um ástandið í Líbanon og áhrif á stöðugleika á svæðinu og öryggi í Evrópu.
     *      Ályktun 2151 um tengsl mannréttinda við gerðardóma í málum milli fjárfesta og ríkja.
     *      Ályktun 2152 um „nýja kynslóð“ viðskiptasamninga og áhrif þeirra á félagsleg réttindi, lýðheilsu og sjálfbæra þróun.
     *      Ályktun 2153 um þátttöku rómafólks.

Stjórnarnefndarfundur 10. mars:
     *      Ályktun 2154 um aðgengi fanga að lögfræðingum.
     *      Ályktun 2155 um stjórnmálaleg réttindi fatlaðra.

Annar hluti þingfundar 24.–28. apríl:
     *      Álit 293 um drög að sáttmála Evrópuráðsins um glæpi gegn menningarminjum.
     *     
Tilmæli 2099 um mannréttindi í Norður-Kákasus til að fylgja eftir ályktun 1738 (2010).
     *      Tilmæli 2100 um Evrópunefnd um forvarnir gegn pyndingum.
     *      Tilmæli 2101 um verndun réttinda foreldra og barna sem tilheyra trúarlegum minnihlutahópum.
     *      Tilmæli 2102 um tæknilega samleitni, gervigreind og mannréttindi.
     *      Ályktun 2156 um virkni lýðræðisstofnana í Tyrklandi.
     *      Ályktun 2157 mannréttindi í Norður-Kákasus til að fylgja eftir ályktun 1738 (2010).
     *      Ályktun 2158 um baráttu gegn tekjuójöfnuði.
     *      Ályktun 2159 um verndun kvenna og stúlkna gegn kynbundnu ofbeldi.
     *      Ályktun 2160 um Evrópunefnd um forvarnir gegn pyndingum.
     *      Ályktun 2161 um misnotkun á Interpol-kerfinu og þörfina fyrir strangari lagalegar öryggisráðstafanir.
     *      Ályktun 2162 um ógnvekjandi þróun í Ungverjalandi: drög að lögum um frjáls félagasamtök sem hugsanlega leiða af sér lokun European Central University.
     *      Ályktun 2163 um verndun réttinda foreldra og barna sem tilheyra trúarlegum minnihlutahópum.
     *      Ályktun 2164 um mögulegar leiðir til að bæta fjármögnun neyðaraðstoðar fyrir flóttafólk.

Stjórnarnefndarfundur 30. maí:
     *      Álit 294 um fjárlög og stefnu Evrópuráðsins fyrir árin 2018–2019.
     *      Álit 295 um drög að bókun við samning Evrópuráðsins um flutning dæmdra manna.
     *      Tilmæli 2103 um pólitísk umskipti í Túnis.
     *      Tilmæli 2104 um mannréttindi eldri borgara og alhliða umönnun þeirra.
     *      Ályktun 2165 um útgjöld Evrópuráðsþingsins árin 2018–2019.
     *      Ályktun 2166 um pólitísk umskipti í Túnis.
     *      Ályktun 2167 um réttindi starfsmanna á evrópskum heimilum.
     *      Ályktun 2168 um mannréttindi eldri borgara og alhliða umönnun þeirra.

Þriðji hluti þingfundar 26.–30. júní:
     *      Tilmæli 2105 um heiðarleika í stjórnarháttum til að takast á við pólitíska spillingu.
     *      Tilmæli 2106 um samstarf þingsins við fjölmiðla vegna rannsóknar á spillingu.
     *      Tilmæli 2107 um ástandið í Hvíta-Rússlandi.
     *      Tilmæli 2108 um heildstæð viðbrögð við flóttamannastraumnum til Evrópu.
     *      Tilmæli 2109 um fólksflutninga sem tækifæri fyrir þróun í Evrópu.
     *      Tilmæli 2110 um framkvæmd dóma Mannréttindadómstóls Evrópu.
     *      Tilmæli 2111 um pólitísk áhrif á sjálfstæða fjölmiðla.
     *      Tilmæli 2112 um Tórínó-ferlið: að styrkja félagsleg réttindi í Evrópu.
     *      Ályktun 2169 um viðurkenningu og innleiðingu meginreglunnar um ábyrgð í þinginu.
     *      Ályktun 2170 um heiðarleika í stjórnarháttum til að takast á við pólitíska spillingu.
     *      Ályktun 2171 um samstarf þingsins við fjölmiðla vegna rannsóknar á spillingu.
     *      Ályktun 2172 um ástandið í Hvíta-Rússlandi.
     *      Ályktun 2173 um heildstæð viðbrögð við flóttamannastraumnum til Evrópu.
     *      Ályktun 2174 um mannréttindi í ljósi viðbragða Evrópuríkja við fólksflutningum yfir Miðjarðarhafið.
     *      Ályktun 2175 um fólksflutninga sem tækifæri fyrir þróun í Evrópu.
     *      Ályktun 2176 um aðlögun flóttamanna á álagstímum.
     *      Ályktun 2177 um að binda endi á kynferðislegt ofbeldi og áreitni á almannasvæðum.
     *      Ályktun 2178 um framkvæmd dóma Mannréttindadómstóls Evrópu.
     *      Ályktun 2179 um pólitísk áhrif á sjálfstæða fjölmiðla.
     *      Ályktun 2180 um Tórínó-ferlið: að styrkja félagsleg réttindi í Evrópu.

Fjórði hluti þingfundar 9.–13. október:
     *      Tilmæli 2113 um ákall um leiðtogafund Evrópuráðsins til að staðfesta evrópska einingu og verja og efla lýðræðislegt öryggi í Evrópu.
     *      Tilmæli 2114 um að verja regluverk Evrópuráðsins og varðveita 65 ára farsælt milliríkjasamstarf.
     *      Tilmæli 2115 um notkun nýrrar erfðatækni í mönnum.
     *      Tilmæli 2116 um eflingu mannréttinda og afnám mismununar gagnvart intersexfólki.
     *      Ályktun 2181 um starfsemi OECD 2016–2017.
     *      Ályktun 2182 um eftirfylgni ályktunar 1903 (2012) um að stuðla að og efla gagnsæi, ábyrgð og heiðarleika þingmanna Evrópuráðsþingsins.
     *      Ályktun 2183 um mat á samstarfi um lýðræði með tilliti til jórdanska þingsins.
     *      Ályktun 2184 um virkni lýðræðisstofnana í Aserbaídsjan.
     *      Ályktun 2185 um formennsku Aserbaídsjans í Evrópuráðinu og eftirfylgni með tilliti til mannréttinda.
     *      Ályktun 2186 um ákall um leiðtogafund Evrópuráðsins til að staðfesta evrópska einingu og verja og efla lýðræðislegt öryggi í Evrópu.
     *      Ályktun 2187 um lista yfir einkenni réttarríkis frá ráðgjöfum Evrópuráðsþingsins varðandi stjórnskipun (e. Venice Commission).
     *      Ályktun 2188 um nýjar ógnir við réttarríkið í aðildarríkjum Evrópuráðsins.
     *      Ályktun 2189 um nýja úkraínska löggjöf í menntamálum og áhrif hennar á kennslu á móðurmáli minnihlutahópa.
     *      Ályktun 2190 um saksókn og refsingu fyrir glæpi gegn mannkyninu eða jafnvel möguleg þjóðarmorð framin af Daesh.
     *      Ályktun 2191 um eflingu mannréttinda og afnám mismununar gagnvart intersexfólki.
     *      Ályktun 2192 um ungmenni gegn spillingu.

Stjórnarnefndarfundur 24. nóvember:
     *      Álit 296 um drög að bókun við samning Evrópuráðsins um vernd einstaklinga varðandi vélræna vinnslu persónuupplýsinga.
     *      Tilmæli 2117 um barnvænar leiðir til að meta aldur fylgdarlausra flóttabarna.
     *      Ályktun 2193 um samskipti Evrópuráðsins við Kasakstan.
     *      Ályktun 2194 um forsjárdeilur foreldra yfir landamæri.
     *      Ályktun 2195 um barnvænar leiðir til að meta aldur fylgdarlausra flóttabarna.