Ferill 87. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 154  —  87. mál.
Skýrsla


Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 2017.


1. Inngangur.
    Á vettvangi þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE-þingsins, bar á árinu 2017 hæst málefni flóttamanna, hryðjuverk og átökin í Úkraínu. Einnig var mikið rætt um netöryggi, mannréttindamál í Hvíta-Rússlandi og átökin í Nagorno-Karabakh.
    Flóttamannamál voru efst á baugi í umræðum á vetrarfundi ÖSE-þingsins þrátt fyrir að vera ekki formlega á dagskrá. Á ársfundi ÖSE-þingsins í Minsk var ályktað bæði í stjórnmála- og öryggismálanefnd og efnahagsmálanefnd um málefnið auk þess sem tvær aukaályktanir um flóttamannamál voru samþykktar. ÖSE-þingið hvatti aðildarlöndin til að samræma viðbrögð sín við flóttamannastraumnum, efla björgunaraðgerðir sínar á Miðjarðarhafi, berjast gegn skipulagðri glæpastarfsemi sem hagnast á neyð flóttafólks og leita leiða til að leysa flóttamannavandann til frambúðar með því að aðstoða þróunarlönd við að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga, átaka og fátæktar.
    Hryðjuverkaógnin var rædd á vetrarfundi ÖSE-þingsins þar sem fram kom að baráttan gegn hryðjuverkum væri ein af megináherslum öryggisnefndar Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Á ársfundi sínum stofnaði ÖSE-þingið sérstaka nefnd um baráttu gegn hryðjuverkum og hvatti aðildarlönd sín til að stöðva fjármögnun hryðjuverkahópa. Í aukaályktun um aukið hlutverk ÖSE í baráttu gegn hryðjuverkum voru aðildarríki ÖSE einnig hvött til að hamla för grunaðra hryðjuverkamanna milli landa og einnig takmarka flæði vopna og fjármuna yfir landamæri.
    Á ársfundi sínum hvatti ÖSE-þingið til þess að hernaðaraðgerðir í Úkraínu yrðu stöðvaðar og að rússnesk stjórnvöld drægju til baka innlimun Krímskaga. Mikið var rætt um málefni Úkraínu og Rússa í almennum umræðum og einnig var ályktað um ferðafrelsi eftirlitsstofnana ÖSE á svæðinu. Átökin í Nagorno-Karabakh voru sömuleiðis áberandi í almennum umræðum og í ályktun ársfundar eru átakaaðilar hvattir til að hefja án tafar friðarviðræður.
    Netöryggi var mikið í umræðunni á vettvangi ÖSE-þingsins árið 2017 í kjölfar vísbendinga þess efnis að Rússar hefðu haft áhrif á niðurstöður forsetakosninga í Bandaríkjunum með árásum á netkerfi þar í landi. Formaður vettvangs öryggissamvinnu ÖSE tilkynnti á vetrarfundi ÖSE-þingsins að lögð væri sérstök áhersla á netöryggi árið 2017. Í ályktun ÖSE-þingsins á ársfundinum var ítrekað að litið væri á netárásir á mikilvæga innviði sömu augum og aðrar árásir á ríki.
    Ársfundur ÖSE-þingsins var haldinn í Minsk í Hvíta-Rússlandi árið 2017 og var staðsetning fundarins hvati að aukinni umræðu um mannréttindamál í Hvíta-Rússlandi. Dauðarefsingar eru löglegar í Hvíta-Rússlandi og hefur forseti landsins, Alexander Lukashenko, verið uppnefndur eini einræðisherrann í Evrópu af vestrænum fjölmiðlamönnum. Í umræðum á ÖSE-þinginu og drögum að aukaályktunum voru mannréttindamál í landinu gagnrýnd harðlega, þá helst takmarkanir á tjáningarfrelsi og félagafrelsi og harkaleg viðbrögð stjórnvalda við fjöldamótmælum sem áttu sér stað í febrúar og mars 2017. Hvati mótmælanna var löggjöf um sérstakan skatt á atvinnulausa, sem kallaður hefur verið „fátæktarskattur“ af gagnrýnendum stjórnvalda.

2. Almennt um ÖSE-þingið.
    Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, starfar á grundvelli Helsinki-sáttmálans (e. Helsinki Final Act) frá árinu 1975. Með Helsinki-sáttmálanum skuldbundu aðildarríkin sig til þess að bæta samstarf sín á milli, virða landamæri hvert annars og tryggja mannréttindi íbúa sinna. Lagalega séð er Helsinki-sáttmálinn hins vegar ekki hefðbundinn sáttmáli þar sem hann er ekki staðfestur af lögþingum í löndum þeirra þjóðhöfðinga sem undir hann skrifa. ÖSE er ólík öðrum fjölþjóðlegum stofnunum hvað þetta varðar. Markmið ÖSE er að stuðla að friði, öryggi, lýðræði og samvinnu á starfssvæði sínu og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum og meginreglum réttarríkisins. ÖSE sinnir hlutverki sínu m.a. með baráttu gegn hryðjuverkum, mansali, þjóðernisofstæki, eiturlyfjasmygli og ólöglegri vopnasölu.
    Á leiðtogafundi ÖSE vorið 1990 var Parísarsáttmálinn samþykktur (e. Charter of Paris for a New Europe). Sáttmálinn kveður m.a. á um stofnun formlegs vettvangs fyrir þingmenn. ÖSE-þingið og ÖSE eru þannig greinar af sama meiði.
    Fyrsti fundur ÖSE-þingsins var haldinn í júlí 1992. Aðild að ÖSE-þinginu eiga 57 þjóðþing í Evrópu, Norður-Ameríku og Mið-Asíu. Þingið er skipað 323 fulltrúum. Þar af á Alþingi þrjá.
    Hlutverk ÖSE-þingsins er að hafa áhrif á stefnumótun og áherslur í starfi ÖSE og að hafa eftirlit með og meta árangurinn af starfi stofnunarinnar. Í málefnanefndum þingsins er unnið að undirbúningi ályktana. Þær eru síðan afgreiddar á ársfundi og komið á framfæri við ráðherraráð ÖSE, sem er vettvangur utanríkisráðherra aðildarríkjanna, og fastaráð ÖSE en þar eiga sæti sendiherrar eða fastafulltrúar aðildarlandanna gagnvart ÖSE. Fastaráðið fundar vikulega í Vín. Í samspili við ÖSE er þingið hugmyndabanki fyrir áherslur í starfi ÖSE auk þess sem þingið veitir ÖSE bæði stuðning og aðhald með eftirliti sínu og umræðu um starf stofnunarinnar. Hvað viðvíkur formlegum samskiptum ÖSE-þingsins og ÖSE þá ávarpar formaður ráðherraráðs ÖSE-þingið og gefur skýrslu um verkefni sem unnið er að hjá ÖSE. Þá geta þingfulltrúar beint fyrirspurnum til ráðherrans. ÖSE-þingið tekur einnig þátt í því að þróa leiðir til að koma í veg fyrir ágreining milli ríkja og stuðla að eflingu lýðræðislegra stofnana á því svæði sem starfsemi ÖSE tekur til. Að lokum hefur kosningaeftirlit verið eitt helsta verkefni þingsins frá upphafi. Sú starfsemi hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár. ÖSE-þingið hefur samvinnu við lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE (ODIHR) um kosningaeftirlit. Einnig hefur ÖSE-þingið samvinnu um kosningaeftirlit við aðrar fjölþjóðlegar þingmannasamkundur, eins og Evrópuráðsþingið og Evrópuþingið.
    ÖSE-þingið kemur saman til ársfundar í allt að fimm daga í júlí. Einstök aðildarríki skiptast á að halda ársfund. Ársfundur afgreiðir mál úr öllum þremur málefnanefndum þingsins í formi ályktunar ársfundar. Auk þess geta einstakir þingmenn eða landsdeildir lagt fram ályktunartillögur sem verða hluti af ályktun ársfundar að gefnu samþykki í atkvæðagreiðslu.
    Málefnanefndirnar eru nefnd um stjórnmál og öryggismál (1. nefnd), nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni-, og umhverfismál (2. nefnd) og nefnd um lýðræðis- og mannréttindamál (3. nefnd). Formaður, varaformaður og skýrsluhöfundur hverrar málefnanefndar eru kjörnir af viðkomandi nefnd í lok hvers ársfundar. Skýrsluhöfundur nefndar velur málefnið sem tekið verður fyrir í nefndinni það árið í samráði við formann og varaformann viðkomandi nefndar. Síðan undirbýr skýrsluhöfundur skýrslu og drög að ályktun sem lögð er fyrir nefndina til umræðu og að lokum til umræðu og afgreiðslu á ársfundi. Málefnanefndir þingsins koma einnig saman á vetrarfundinum sem haldinn er í Vín í febrúar ár hvert. Þar fá þingmenn einnig tækifæri til að hlýða á framlag fastafulltrúa og embættismanna ÖSE sem hafa aðsetur í Vín, eins og fyrr segir. Auk ársfundar og vetrarfundar er haldinn haustfundur þar sem stjórnarnefnd og framkvæmdastjórn þingsins koma saman auk þess sem árleg málefnaráðstefna þingsins fer fram.
    Þessu til viðbótar getur forseti þingsins skipað tímabundið sérstaka fulltrúa og stjórnarnefnd tekið ákvörðun um stofnun sérnefndar (e. ad hoc committee) til að ræða, taka afstöðu til og vera ráðgefandi um aðkallandi málefni eða úrlausnarefni. Einnig eru stofnaðir sérstakir vinnuhópar (e. working group) og þingmannalið (e. parliamentary team) um ákveðin málefni. Sérnefndir hafa t.d. verið stofnaðar um málefni Abkhasíu, Kósóvó og fangabúðir Bandaríkjahers í Guantánamo á Kúbu. Í lok árs 2017 eru starfandi sérstakar nefndir eða hópar um gagnsæi og endurbætur á starfi ÖSE, málefni Hvíta-Rússlands, málefni Moldóvu, fólksflutninga og baráttuna gegn hryðjuverkum. Einnig er starfrækt sérstök undirnefnd um starfsreglur og vinnulag ÖSE-þingsins. Starf sérnefndanna hefur oftar en ekki skilað miklum árangri við að fá deiluaðila að samningaborðinu og við að upplýsa mál og kynna fyrir almenningi. Forseti ÖSE-þingsins getur einnig skipað sérstaka fulltrúa í tilteknum málum. Í lok árs 2017 eru starfandi sérstakir fulltrúar um Austur-Evrópu, sáttamiðlanir, gyðingahatur, kynþáttahatur og fordóma, málefni norðurslóða, jafnrétti kynjanna, mansal, málefni Miðjarðarhafsins, landamæri ÖSE-svæðisins, Suður-Kákasussvæðið og Suðaustur-Evrópu.

3. Íslandsdeild ÖSE-þingsins.
    Íslandsdeild var kosin á þingfundi 26. janúar 2017 og voru aðalmenn Gunnar Bragi Sveinsson, formaður, þingflokki Framsóknarflokks, Birgitta Jónsdóttir, varaformaður, þingflokki Pírata, og Pawel Bartoszek, þingflokki Viðreisnar. Varamenn voru Elsa Lára Arnardóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Smári McCarthy, þingflokki Pírata, og Jóna Sólveig Elínardóttir, þingflokki Viðreisnar. Á vormánuðum vék Birgitta Jónsdóttir fyrir Halldóru Mogensen, þingflokki Pírata, sem var í kjölfarið kjörin varaformaður Íslandsdeildar og sat Íslandsdeild óbreytt fram að kosningum 28. október. Ritarar Íslandsdeildar voru Vilborg Ása Guðjónsdóttir og Bylgja Árnadóttir.
    Skipan málefnanefnda starfsárið 2017 var eftirfarandi:

1. Nefnd um stjórnmál og öryggismál Gunnar Bragi Sveinsson
2. Nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál Pawel Bartoszek
3. Nefnd um lýðræðis- og mannréttindamál Halldóra Mogensen/Birgitta Jónsdóttir

    Ný Íslandsdeild var kosin 14. desember í kjölfar alþingiskosninga. Aðalmenn eru Gunnar Bragi Sveinsson, formaður, þingflokki Miðflokksins, Bryndís Haraldsdóttir, varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Guðmundur Andri Thorsson, þingflokki Samfylkingar. Varamenn eru Sigurður Páll Jónsson, þingflokki Miðflokksins, Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Logi Einarsson, þingflokki Samfylkingar.

4. Fundir ÖSE-þingsins.
    ÖSE-þingið kemur saman til reglulegra funda þrisvar á ári. Yfirleitt er vetrarfundur haldinn í febrúar, ársfundur að sumri og haustfundur í október. Sökum alþingiskosninga 28. október komst Íslandsdeild ekki á haustfund ÖSE-þingsins í Andorra í byrjun október.

Vetrarfundur ÖSE-þingsins í Vín 23.–24. febrúar 2017.
    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Gunnar Bragi Sveinsson, formaður, Birgitta Jónsdóttir, varaformaður, og Pawel Bartoszek, auk Hildar Evu Sigurðardóttur, starfandi ritara. Fundinn sóttu um 250 þingmenn frá rúmlega 50 ríkjum en að venju funduðu stjórnarnefnd og málefnanefndir þingsins með embættismönnum ÖSE, auk þess sem haldinn var sameiginlegur fundur málefnanefndanna. Á dagskrá vetrarfundarins var baráttan gegn hryðjuverkum, mannréttindi og hvernig takast ætti á við loftslagsbreytingar. Einnig var mikið rætt um málefni flóttamanna auk þess sem haldin var sérstök umræða um vernd mannréttinda á álagstímum.
    Á fundi nefndar um stjórn- og öryggismál kynnti Steffen Kongstad, formaður nefndar ÖSE um málaflokkinn og sendiherra Noregs hjá ÖSE, vinnuáætlun nefndarinnar fyrir árið 2017, um alþjóðlegar ógnir og umbætur í öryggismálum. Hann sagði mikilvægt að ÖSE-ríkin ykju samvinnu sína í baráttunni gegn alþjóðlegum ógnum, sér í lagi skipulagðri glæpastarfsemi og ofbeldisfullum öfgamönnum. Hann ítrekaði einnig mikilvægi þátttöku kvenna í öryggismálum og friðarviðræðum. Christian Istrate, formaður vettvangs öryggismálasamvinnu ÖSE og sendiherra Rúmeníu hjá ÖSE, sagði frá áherslum Rúmeníu í málaflokknum. Megináherslan væri á átökin í Úkraínu, langvinn átök í löndunum við Svartahafið og netöryggi. Á fundinum var einnig sérstök umræða um hryðjuverk og alþjóðlegt öryggi á ÖSE-svæðinu.
    Á fundi nefndar um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál kynnti Kairat Sarybay, formaður efnahags- og umhverfisnefndar ÖSE og sendiherra Kasakstans hjá ÖSE, vinnuáætlun nefndarinnar fyrir árið 2017. Nefndin hugðist halda fjölda þemafunda á árinu, um efni á borð við efnahagslega stjórnun, stjórnun vatnsauðlinda, orkuöryggi og endurnýjanlega orku. Einnig var haldin sérstök umræða á fundinum um stjórnun náttúruauðlinda, vatnsöryggi og viðbrögð við loftslagsbreytingum.
    Á fundi nefndar um lýðræðis- og mannréttindamál kynnti Sian MacLeod, formaður nefndar ÖSE um málaflokkinn og sendiherra Bretlands hjá ÖSE, vinnuáætlun nefndarinnar fyrir árið 2017. Hún sagði áherslur nefndarinnar taka mið af yfirlýsingum Sebastians Kurz, formanns ÖSE, um að styrkja hlut mannréttindamála innan ÖSE. Fyrirhugaðir fundir nefndarinnar myndu taka á málefnum á borð við tjáningarfrelsi, pyndingar, kynferði og lýðræði. Á fundinum var haldin sérstök umræða um verndun mannréttinda á tímum vaxandi lýðhyggju.
    Á sameiginlegum fundi málefnanefndanna þriggja var sérstök umræða sem bar yfirskriftina „Vernd mannréttinda á álagstímum“. Ræðumenn vöktu máls á fjölbreyttum vandamálum, t.d. var rætt um takmarkanir á tjáningarfrelsi og félagafrelsi og mikilvægi þess að standa vörð um jafnrétti. Einnig var rætt um mikilvægi þess að standa vörð um réttindi minnihlutahópa á ÖSE-svæðinu og að þróa viðbrögð við róttækni og ofbeldisfullum öfgum.
    Á fundi stjórnarnefndar ÖSE-þingsins voru m.a. ræddar breytingar á starfsreglum þingsins. Með breytingunum var lagt til að hver þingmaður gæti einungis flutt fjórar breytingartillögur við ályktanir. Til að unnt væri að taka breytingartillögu fyrir þyrfti hið minnsta fimm flutningsmenn frá a.m.k. tveimur löndum. Nokkur umræða varð um þessa breytingu og bent á að þar sem hver breytingartillaga gæti einungis átt við eina málsgrein væri hætta á að með þessu væri tjáningarfrelsi og tillöguréttur þingmanna skertur. Á móti var bent á mikilvægi þess að koma böndum á fjölda breytingartillagna og tryggja skilvirkni starfa þingsins. Tillögur að breyttum starfsreglum voru samþykktar og tóku gildi 30 dögum eftir samþykkt þeirra, 25. mars 2017.

Samráðsfundur Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna innan ÖSE-þingsins í Kaupmannahöfn 21.–22. maí 2017.
    Fyrir hönd Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sótti fundinn Pawel Bartoszek, auk Elínar Valdísar Þorsteinsdóttur, starfandi ritara. Fundinn sóttu 13 þingmenn Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna innan ÖSE-þingsins. Á dagskrá var undirbúningur fyrir ársfund þingsins í Minsk í Hvíta-Rússlandi í byrjun júlí 2017 ásamt kynningu á áskorunum í netöryggismálum.
    Margareta Cederfelt, þingmaður sænsku landsdeildarinnar og skýrsluhöfundur nefndar ÖSE-þingsins um stjórn- og öryggismál, kynnti drög sín að skýrslu og ályktun nefndarinnar. Fundarmenn ræddu nokkrar tillögur að orðalagsbreytingum og viðbótum. Rætt var um mikilvægi þess að hafa ályktunina almenna. Þá voru kynnt drög að nokkrum aukaályktunum frá öðrum fundarmönnum, þar á meðal um stöðu mála í Austur-Evrópu, eftirlit með nýrri tækni við framkvæmd kosninga, stöðuna í Hvíta-Rússlandi og um efnahagslega samvinnu á ÖSE-svæðinu. Cederfelt lagði til að landsdeildirnar yrðu tilbúnar með undirskriftir og ályktanir fimm dögum fyrir ársfundinn. Nýta mætti rafrænar undirskriftir og upplýsa um fjölda þeirra sem hefðu undirritað og hverjir hefðu gert það. Einnig var rætt um mikilvægi þess að fulltrúar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna sæktust eftir embættum innan ÖSE-þingsins, þ.m.t. embættum varaforseta, skýrsluhöfunda og nefndarformanna.
    Kent Härstedt, formaður sænsku landsdeildarinnar, kynnti sænska hliðarviðburðinn sem haldinn yrði í Minsk. Tilgangurinn væri að varpa ljósi á stöðu mannréttindamála í Hvíta-Rússlandi og bæði fulltrúar mannréttindasamtaka og stjórnvalda myndu taka þátt í viðburðinum.
    Thomas Lund-Sørensen, framkvæmdastjóri hinnar dönsku miðstöðvar netöryggis (d. Center for Cybersikkerhed) og Astrid Gufler, ráðgjafi sömu stofnunar, héldu erindi um netöryggismál. Í erindi þeirra kom fram að stofnunin metur netöryggi á fjögurra stiga kvarða út frá áhættumati á áhrifum af netárás. Þau ítrekuðu mikilvægi þess að allir skildu hvernig hægt væri að bæta netöryggi, svo sem með reglulegum uppfærslum á tækjum.
    Ákveðið var að næsti samráðsfundur Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna innan þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu yrði í Lettlandi í september 2017.

Ársfundur ÖSE-þingsins í Minsk 5.–9. júlí 2017.
    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Gunnar Bragi Sveinsson, formaður, Halldóra Mogensen, varaformaður, og Pawel Bartoszek, auk Bylgju Árnadóttur alþjóðaritara. Fundinn sóttu um 260 þingmenn frá ríkjum í Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu en yfirskrift fundarins var „Efling trausts og samvinnu í þágu friðar og velmegunar á ÖSE-svæðinu“. Meginviðfangsefni fundarins var hryðjuverkaógn, ógn við netöryggi, óstöðugleiki í Úkraínu og í Nagorno-Karabakh og viðbrögð tyrkneskra stjórnvalda við valdaránstilraun þar í landi.
    Málefnanefndirnar þrjár tóku fyrir fram ákveðin mál til umfjöllunar með áherslu á yfirskrift ársfundarins. Gunnar Bragi Sveinsson tók þátt í störfum 1. nefndar um stjórn- og öryggismál. Í ályktun nefndarinnar voru aðildarríki ÖSE hvött til að vinna saman að því að binda endi á átök sín á milli. Þingið harmaði mannfall af völdum hryðjuverka og kallaði eftir því að aðildarríkin berðust gegn róttækni og öfgahyggju og þróuðu leiðir til að stöðva fjármögnun hryðjuverkahópa, sér í lagi samtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki. Kallað var eftir aðgerðum til að auka netöryggi milli ríkja til að koma í veg fyrir átök vegna notkunar upplýsingatækni. Ríki á Balkanskaga voru hvött til að draga úr spennu á svæðinu og stuðla að uppbyggilegri samskiptum milli þjóðarbrota. Einnig var lýst yfir vonbrigðum með handtökur tyrkneskra þingmanna og tyrknesk stjórnvöld hvött til að virða málfrelsi og fjölmiðlafrelsi. Þá var kallað eftir því að hernaðaraðgerðir í Úkraínu yrðu stöðvaðar og rússnesk stjórnvöld hvött til að láta af herskárri framkomu og draga til baka innlimun Krímskaga. Áreiti gagnvart eftirlitssveit ÖSE á svæðum undir stjórn Rússa var einnig fordæmt. Loks var lýst áhyggjum af hernaðaruppbyggingu og flutningi á herafla á ÖSE-svæðinu árin 2016–2017 og að átök hefðu aftur brotist út í Nagorno-Karabakh.
    Pawel Bartoszek tók þátt í störfum 2. nefndar um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál. Í ályktun nefndarinnar var áréttað að hagvöxtur gæti farið saman við sjálfbærni í umhverfismálum og aðildarríki ÖSE voru hvött til þess að viðurkenna aðsteðjandi ógn vegna loftslagsbreytinga. Lýst var yfir vonbrigðum með þá ákvörðun Bandaríkjastjórnar að draga landið út úr Parísarsamkomulaginu um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Mælt var með því að ÖSE-ríki samræmdu viðbrögð sín við straumi innflytjenda til landanna, settu björgunarstörf á Miðjarðarhafi í forgang og berðust gegn glæpasamtökum sem hagnast á neyð flóttafólks. Einnig var lögð áhersla á skyldur iðnvæddra landa til að aðstoða þróunarlönd við að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga, átaka eða fátæktar og stuðla þannig að lausn á flóttamannavandanum til lengri tíma. Ítrekað var að samkvæmt fyrri yfirlýsingum ÖSE-þingsins væru netárásir á mikilvæga innviði litnar sömu augum og aðrar árásir á ríki.
    Halldóra Mogensen tók þátt í störfum 3. nefndar um lýðræðis- og mannréttindamál. Í ályktun nefndarinnar var lýst yfir áhyggjum af birtingarmyndum þjóðernishyggju, gyðingahatri, kynþáttafordómum og mismunun gagnvart múslimum, kristnum og hinsegin fólki. Þingið ítrekaði nauðsyn þess að aðildarríki virtu réttarríki, lýðræðislegar stofnanir, bann við pyndingum og borgaralega stjórn hersins þegar þau brygðust við ógnum við þjóðaröryggi. Einungis skyldi lýsa yfir neyðarástandi þegar nauðsyn krefði og ráðstafanir sem takmörkuðu réttindi borgara þyrftu að vera í samræmi við ógnina sem að steðjaði. Þingið kallar eftir því að ÖSE-ríkin virtu öllum stundum rétt þingmanna til að nýta umboð sitt og lýsti samstöðu með þeim þingmönnum sem sátu í varðhaldi. Þá fordæmdi þingið brot á mannréttindum hinsegin fólks (LGBTQI) í mörgum ÖSE-ríkjum og hvatti þing þeirra til að samþykkja lög sem tryggðu hinsegin fólki réttindi á borð við viðurkennd sambönd, ættleiðingu barna og uppeldi þeirra. Vakin skal athygli á því að málsgrein um viðurkenningu réttinda hinsegin fólks var felld út úr yfirlýsingu ÖSE-þingsins árið 2016.
    Ályktanir nefndanna voru samþykktar á þingfundum ÖSE-þingsins og auk þess voru til viðbótar samþykktar 13 aukaályktanir, en saman mynduðu þær yfirlýsingu ársfundarins. Á meðal aukaályktana voru tvær um viðbrögð við flóttamannastraumnum til Evrópu. Önnur þeirra hvatti til aukinnar samvinnu milli ÖSE-ríkjanna með áherslu á sameiginlega ábyrgð. Aðildarríkin yrðu að taka til sín stærri hluta flóttafólksins sem þarfnaðist alþjóðlegrar verndar og dveldi um þær mundir að stærstum hluta í Tyrklandi, Grikklandi og á Ítalíu. Í umræðum um ályktanirnar var þingmönnum Ítalíu mikið niðri fyrir þegar þeir ræddu skort á stuðningi annarra Evrópuríkja við Ítali, en landið tekur við stærstum hluta þeirra flóttamanna sem flýr gegnum Líbíu yfir Miðjarðarhafið.
    Í umræðum um ályktun um þróun löggjafar til að taka á nýjum gerðum eiturlyfja tók Pawel Bartoszek til máls og benti á hætturnar við það að reyna að berjast gegn notkun sumra tegunda lyfja með löggjöf og löggæslu. Reynslan sýndi að slíkar aðferðir dygðu ekki til að stemma stigu við notkun lyfjanna en kostuðu ríki mikla fjármuni auk þess að stuðla að glæpavæðingu markaðarins. Aðgerðir á borð við þær sem lýst væri í ályktuninni leiddu vissulega til þess að hægt væri að bregðast hraðar við nýjum tegundum lyfja en þær ykju ekki öryggi neytenda lyfjanna eða ríkjanna sjálfra.
    Í ályktun þingsins um tæknilegar aðgerðir til að koma í veg fyrir kynferðislega misnotkun barna á netinu voru ríki m.a. hvött til að nýta sér alla þá tækni sem völ væri á til að koma í veg fyrir aðgengi barna að klámsíðum. T.d. var bent á leiðir til að ganga úr skugga um aldur þeirra sem notuðu klámsíður. Halldóra Mogensen tók til máls í umræðum um ályktunina og lýsti áhyggjum sínum af notkun slíkra tæknilausna. Í raun fælu slík kerfi í sér söfnun persónuupplýsinga um notendur klámsíðna en engar kvaðir væru lagðar á ríkisstjórnir að vernda þessar persónuupplýsingar. Halldóra benti á leka persónuupplýsinga á vegum síðunnar Ashley Madison árið 2015 sem hefði leitt af sér sjálfsmorð meðal notenda síðunnar. Hægt væri að ímynda sér hversu mikla hættu leki á upplýsingum um kynlífslanganir gæti skapað hinsegin fólki víðs vegar í ÖSE-ríkjunum. Fyrir utan ógnina við einkalíf fólks væru slíkar tæknilausnir ekki líklegar til að þjóna tilgangi sínum við að vernda börn þar sem auðvelt væri að fara fram hjá slíkum hindrunum.
    Í ályktun um stærra hlutverk ÖSE í baráttu gegn hryðjuverkum voru aðildarríki ÖSE hvött til að lögsækja þá sem tækju þátt í fjármögnun, undirbúningi eða framkvæmd hryðjuverkaárása. Lögð var áhersla á mikilvægi þess að koma í veg fyrir hryðjuverk með því að hamla för grunaðra milli landa og sömuleiðis flutning vopna og fjármuna. Einnig var kallað eftir auknu alþjóðlegu samstarfi opinberra og einkarekinna stofnana til að vinna gegn útbreiðslu áróðurs á netinu.
    Aðrar aukaályktanir fjölluðu m.a. um kynjaða sáttamiðlun, fullveldi Úkraínu, orkuöryggi á ÖSE-svæðinu, samstarf til að standa vörð um drykkjarvatn á heimsvísu, eftirlit með nýjum aðferðum við kosningar og um mismunun á grundvelli trúarbragða.
    Ein aukaályktun til viðbótar var rædd og samþykkt í 1. nefnd en var síðan felld þegar kom að samsetningu heildaryfirlýsingar fundarins. Sú ályktun, frá sænska þingmanninum Christian Holm Barenfeld, fjallaði um stöðu mannréttindamála í Austur-Evrópu en nefndi aðeins á nafn Hvíta-Rússland, Rússland og Aserbaídsjan. Þingmenn landanna þriggja börðust ötullega gegn því að ályktunin yrði samþykkt. Einn þingmaður Hvíta-Rússlands sárbað um meiri tíma til að innleiða staðla um mannréttindi og fara eftir tilmælum frá m.a. ÖSE og Evrópuráðsþinginu. Þingmaður frá Sviss lýsti yfir áhyggjum af orðalagi ályktunarinnar og sagði það bera vott um hlutdrægni og tvískinnungshátt. Ályktunin var samþykkt í 1. nefnd en í atkvæðagreiðslu á þingfundi á lokadegi fundarins greiddu 43 þingmenn atkvæði með því að bæta ályktuninni við Minsk-yfirlýsinguna en 43 gegn því. Líkt og þingsköp kveða á um var ályktunin því ekki hluti af yfirlýsingu fundarins.
    Í lok ársfundar var austurríska þingkonan Christine Muttonen endurkjörin forseti ÖSE-þingsins til eins árs. Einnig voru kosnir fjórir varaforsetar þingsins og gjaldkeri. Fimm voru í framboði til varaforseta og var það Rússinn Kovalev sem náði ekki kjöri. Eftir fundinn var yfirlýsing ársfundar send áfram til utanríkisráðherra og þjóðþinga aðildarríkjanna með von um að hún hefði áhrif á ákvarðanir ráðherranefndar ÖSE og þar með pólitískar skuldbindingar aðildarríkja.

Alþingi, 18. janúar 2018.

Gunnar Bragi Sveinsson,
form.
Bryndís Haraldsdóttir,
varaform.
Guðmundur Andri Thorsson.Fylgiskjal.


Ályktanir ÖSE-þingsins árið 2017.

    Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á ársfundi ÖSE-þingsins árið 2017:
          Ályktun um að tryggja samfellu, samvinnu og ábyrgð í stjórnun vegna fólksflutninga og flóttamannamála.
          Ályktun um fólksflutninga
          Ályktun um beitingu kynjaðrar sáttamiðlunar.
          Ályktun um endurreisn fullveldis Úkraínu og yfirráða innan eigin landamæra.
          Ályktun um stærra hlutverk ÖSE í baráttunni gegn hryðjuverkum.
          Ályktun um að tryggja orkuöryggi á ÖSE-svæðinu.
          Ályktun um þróun löggjafar og viðbragða við nýjum gerðum eiturlyfja.
          Ályktun um samstarf til að standa vörð um drykkjarvatn sem auðlind.
          Ályktun um eftirlit með nýjum kosningaaðferðum.
          Ályktun um tæknilegar aðgerðir til að koma í veg fyrir kynferðislega misnotkun barna á netinu.
          Ályktun um afnám dauðarefsingar.
          Ályktun um fjölmenningu og hlutverk menningarlegra gilda í þróun lýðræðis á tímum alþjóðavæðingar.
          Ályktun um óviðunandi mismunun og fordóma gagnvart kristnum, múslimum og fylgjendum annarra trúarhópa.