Ferill 71. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 164  —  71. mál.
Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Rósu Björk Brynjólfsdóttur um framkvæmd reglugerðar nr. 1009/2015.


     1.      Hvernig hefur Vinnueftirlit ríkisins hagað eftirliti með framkvæmd reglugerðar nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum?
    Samkvæmt lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, hefur Vinnueftirlit ríkisins eftirlit með því að farið sé að ákvæðum laga og reglna á sviði vinnuverndar. Samkvæmt framangreindum lögum ber atvinnurekandi m.a. ábyrgð á því að tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi á vinnustað sínum. Í því skyni ber atvinnurekandi ábyrgð á að gert sé sérstakt áhættumat þar sem meta skal áhættu í starfi með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og áhættuþátta í vinnuumhverfi. Enn fremur skal atvinnurekandi sjá til þess að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað þar sem kemur m.a. fram áætlun um forvarnir, þar á meðal forvarnir gegn einelti, áreitni og ofbeldi og að á viðkomandi vinnustað sé til viðbragðsáætlun komi slík mál upp.
    Vinnueftirlit ríkisins fer í reglubundnar eftirlitsheimsóknir á vinnustaði, m.a. í því skyni að kanna hvort atvinnurekendur hafi uppfyllt skyldur sínar samkvæmt þeirri reglugerð sem hér um ræðir sem og lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Hafi hlutaðeigandi atvinnurekandi ekki gert það beinir stofnunin viðeigandi fyrirmælum um úrbætur til viðkomandi atvinnurekanda.
    Vinnueftirlit ríkisins heimsækir jafnframt vinnustaði í því skyni að taka út sérstök atriði, svo sem tiltekin tæki og/eða félagslegan aðbúnað á viðkomandi vinnustað. Eru slíkar vinnustaðaheimsóknir ýmist farnar vegna ábendinga sem stofnuninni berast, tiltekinna átaksverkefna eða á grundvelli annarra atriða. Þá sendir Vinnueftirlitið í sumum tilvikum bréf til tiltekinna atvinnurekenda í því skyni að kalla eftir upplýsingum um aðgerðir á vinnustöðum, m.a. hvað varðar félagslegan aðbúnað.
    Vinnueftirlit ríkisins hefur þannig eftirlit með því að atvinnurekendur uppfylli skyldur sínar samkvæmt lögum og reglum. Vinnueftirlitið hefur hins vegar ekki heimild samkvæmt lögum til að meta hvort tiltekin háttsemi á vinnustað geti talist einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni eða ofbeldi samkvæmt framangreindri reglugerð.
    Unnt er að koma ábendingum um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi á vinnustað til Vinnueftirlits ríkisins. Berist Vinnueftirlitinu slík ábending fer stofnunin í eftirlitsheimsókn á viðkomandi vinnustað og gengur úr skugga um að til sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustaðnum þar sem m.a. komi fram til hvaða aðgerða skuli gripið í því skyni að koma í veg fyrir framangreinda háttsemi á vinnustaðnum sem og til hvaða aðgerða skuli gripið komi fram kvörtun, ábending eða rökstuddur grunur um slíka háttsemi á vinnustaðnum. Séu slíkar áætlanir fyrir hendi á viðkomandi vinnustað gengur Vinnueftirlitið úr skugga um að viðeigandi áætlun hafi verið virkjuð en hafi það ekki verið gert bendir stofnunin þeim aðila sem kom þeirri ábendingu sem um ræðir til stofnunarinnar að taka málið upp við atvinnurekanda eða fulltrúa hans. Er það gert í ljósi þess að starfsmönnum Vinnueftirlitsins er óheimilt að láta uppi við atvinnurekanda eða fulltrúa hans að eftirlitsferð sé gerð vegna umkvörtunar, sbr. 2. mgr. 83. gr. laga, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Komi í ljós í eftirlitsheimsókn Vinnueftirlitsins að framangreind áætlun sé ekki til á hlutaðeigandi vinnustað beinir stofnunin þeim fyrirmælum til atvinnurekanda að hann uppfylli skyldur sínar samkvæmt umræddri reglugerð.
    Jafnframt bendir Vinnueftirlit ríkisins þeim sem koma ábendingu til stofnunarinnar hverju sinni á hlutverk hennar auk þess sem stofnunin hvetur viðkomandi til að leita til heilsugæslunnar telji hann sig hafa orðið fyrir heilsufarslegum áhrifum af vinnuumhverfi sínu, svo sem í tengslum við félagslegan aðbúnað á vinnustað.

     2.      Hve mörg mál bárust Vinnueftirliti ríkisins frá gildistöku reglugerðar nr. 1009/2015 til ársloka 2017 vegna:
                  a.      eineltis,
                  b.      kynferðislegrar áreitni,
                  c.      kynbundinnar áreitni,
                  d.      ofbeldis á vinnustöðum?

    Samkvæmt upplýsingum frá Vinnueftirliti ríkisins bárust stofnuninni 38 kvartanir vegna ætlaðs eineltis á vinnustað frá því að reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum tók gildi í nóvember 2015 og til ársloka 2017. Á sama tímabili bárust stofnuninni tvær kvartanir í tengslum við ætlaða kynferðislega áreitni á vinnustað auk þess sem þrjú mál bárust stofnuninni þar sem um var að ræða ætlað ofbeldi á vinnustað. Á umræddu tímabili bárust engar kvartanir til Vinnueftirlitsins í tengslum við ætlaða kynbundna áreitni á vinnustað.

     3.      Hve marga úrskurði hefur Vinnueftirlitið fellt á grundvelli ákvæða reglugerðar nr. 1009/2015 og hvernig flokkast þeir samkvæmt aðgreiningunni í 2. tölul.?
    Samkvæmt upplýsingum frá Vinnueftirliti ríkisins hefur stofnunin í 91 tilviki beint fyrirmælum til atvinnurekenda um úrbætur á grundvelli reglugerðar nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum frá því að reglugerðin tók gildi í nóvember 2015.
    Líkt og komið hefur fram hefur Vinnueftirlit ríkisins hins vegar ekki heimild samkvæmt lögum til að meta hvort tiltekin háttsemi á vinnustað geti talist einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni eða ofbeldi samkvæmt framangreindri reglugerð og tekur því ekki ákvarðanir hvað það varðar.

     4.      Hafa einhverjar og þá hversu margar, ákvarðanir Vinnueftirlitsins sem teknar voru á grundvelli reglugerðar nr. 1009/2015 verið kærðar til velferðarráðuneytisins?
    Velferðarráðuneytinu hefur borist eitt erindi vegna ákvörðunar Vinnueftirlits ríkisins á grundvelli reglugerðar nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

     5.      Hefur einhverjum þeirra atvika sem varða kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi á vinnustöðum og Vinnueftirlitið fjallaði um verið vísað til lögreglu?
    Velferðarráðuneytinu sem og Vinnueftirliti ríkisins er ekki kunnugt um að mál sem varða kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi á vinnustað sem Vinnueftirlitið hefur fjallað um hafi verið vísað til lögreglu.

     6.      Hyggst ráðherra grípa til aðgerða, og þá hverra, til að styrkja eftirlit Vinnueftirlitsins með framkvæmd reglugerðar nr. 1009/2015, einkum hvað snertir kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi á vinnustöðum í ljósi hinnar miklu samfélagsumfjöllunar undir yfirskriftinni „Í skugga valdsins #metoo“ að undanförnu?
    Að mati ráðherra er forvarnarstarf á vinnustöðum mikilvægur þáttur í því að tryggja heilsusamlegt vinnuumhverfi þar sem starfsmönnum líður vel og allir koma heilir heim að loknum vinnudegi. Í því sambandi telur ráðherra jafnframt mikilvægt að efla leiðir til að atvinnurekendur, stjórnendur og starfsmenn tileinki sér hugmyndafræði forvarna. Í því sambandi er lögð áhersla á að Vinnueftirlitið haldi áfram skipulagðri fræðslu um þessi mál. Stofnunin hefur til að mynda gefið út leiðbeiningar fyrir starfsfólk á þremur tungumálum, íslensku, ensku og pólsku, sem heita á íslensku „Enginn á að sætta sig við einelti, áreitni, ofbeldi“ (fræðslu- og leiðbeiningarit nr. 36). Þá hefur stofnunin gefið út leiðbeiningar fyrir stjórnendur, mannauðsráðgjafa og vinnuverndarfulltrúa sem heitir „Sættum okkur ekki við einelti, áreitni, ofbeldi“ (fræðslu- og leiðbeiningarit nr. 35).
    Til að bregðast við þeirri samfélagsumræðu sem kölluð hefur verið „Í skugga valdsins #metoo“ hefur ráðherra ákveðið að skipa nefnd sem hefur það hlutverk að meta umfang kynferðislegarar áreitni, kynbundinnar áreitni og ofbeldis, auk eineltis á íslenskum vinnumarkaði. Jafnframt verður nefndinni falið að rannsaka reynslu þolenda, vitna og gerenda og skoða til hvaða aðgerða er gripið á vinnustöðum í slíkum málum. Þá verður nefndinni ætlað að kanna hvort atvinnurekendur hafi gert skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað sínum, þar sem m.a. komi fram til hvaða aðgerða skuli gripið í því skyni að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi á vinnustaðnum og hvernig brugðist er við komi fram kvörtun, ábending eða rökstuddur grunur um slíka háttsemi á vinnustaðnum.
    Samhliða framangreindri nefnd hefur ráðherra ákveðið að skipa aðgerðahóp en hlutverk hans verður m.a. að koma á fót og fylgja eftir aðgerðum á vinnumarkaði sem miða að því að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Ráðherra gerir ráð fyrir að hópurinn vinni að nánari útfærslu á einstaka verkefnum og líti í því sambandi m.a. til aðgerða annarra ríkja hvað þetta varðar. Jafnframt gerir ráðherra ráð fyrir að hópurinn miði aðgerðir sínar við niðurstöður rannsóknanna sem fyrrnefndri nefnd er ætlað að standa fyrir.
    Gert er ráð fyrir að Vinnueftirlit ríkisins eigi fulltrúa í nefndinni sem og í aðgerðahópnum ásamt fulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins en ætla má að störf beggja hópanna geti orðið til þess að efla störf Vinnueftirlitsins þegar kemur að eftirliti með sálfélagslegum þáttum í vinnuumhverfi hér á landi.