Ferill 108. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 177  —  108. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um tekjuskatt, 90/2003 (skattleysi uppbóta á lífeyri).

Flm.: Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson.


1. gr.

    Við 28. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Uppbætur á lífeyri skv. 1. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi nú þegar.

Greinargerð.

    Með frumvarpinu er lagt til að uppbót á lífeyri vegna kostnaðar, sem ekki fæst greiddur eða bættur með öðrum hætti, til lífeyrisþega sem ekki getur framfleytt sér án hennar, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, og uppbót til hreyfihamlaðs elli- eða örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega vegna reksturs bifreiðar, sbr. 2. mgr. 10. gr. sömu laga, verði undanþegin skattskyldu samkvæmt lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003.
    Ólíkt örorkulífeyri miðar slík uppbót ekki að því að bæta launamissi vegna skertrar vinnugetu heldur að því að koma til móts við sérstök útgjöld lífeyrisþega. Það markmið næst augljóslega ekki ef stór hluti uppbótarinnar er tekinn í skatt. Skilgreining hennar sem skattskyldar tekjur hefur enn fremur keðjuverkandi áhrif því hún skerðir fyrir vikið aðrar bætur til tekjulágra lífeyrisþega, svo sem húsnæðisbætur, sérstakan húsnæðisstuðning og barnabætur.
    Samkvæmt upplýsingum sem flutningsmenn hafa aflað sér fengu 1.245 einstaklingar samtals 203 millj. kr. í uppbætur árið 2016 skv. 1 . mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð og greiddu af þeim 46 millj. kr. í tekjuskatt og 5.750 einstaklingar samtals 1.018 millj. kr. í uppbætur skv. 2. mgr. sömu greinar og greiddu af þeim rúmar 229 millj. kr. í tekjuskatt. Ríkissjóður verður því ekki af verulegum skatttekjum verði breytingarnar að veruleika. Lífeyrisþegar sem bera mikinn kostnað vegna fötlunar eða sjúkdóma fyndu aftur á móti verulega fyrir breytingunum. Með því að samþykkja þær getur ný ríkisstjórn, strax á fyrstu dögum sínum, sýnt í verki áherslur sínar í velferðarmálum sem fram koma í stjórnarsáttmála stjórnarflokkanna sem kynntur var 30. nóvember síðastliðinn.