Ferill 114. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Prentað upp.

Þingskjal 183  —  114. mál.
Leiðréttur texti.
Frumvarp til laga


um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (bann við umskurði drengja).

Flm.: Silja Dögg Gunnarsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Inga Sæland, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Ólafur Ísleifsson, Jón Þór Ólafsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson.


1. gr.

    1. málsl. 218. gr. a orðast svo: Hver sem með líkamsárás veldur tjóni á líkama eða heilsu barns eða konu með því að fjarlægja kynfæri að hluta eða öllu leyti skal sæta fangelsi allt að 6 árum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Öldum saman, eða í um 5.000 ár, hefur sá siður tíðkast víða að umskera barnunga drengi, framan af með almennu samfélagslegu samþykki og skilningi á helgisiðum tiltekinna trúfélaga, gyðinga og múslima aðallega. Á 19. öld jókst tíðni umskurða verulega, þegar almennt var hvatt til þess að drengir væru umskornir til að koma í veg fyrir ýmsa kvilla og hegðun. Á undanförnum árum hefur sú skoðun verið að ryðja sér til rúms, og er nokkuð útbreidd í Evrópu, að umskurður framkvæmdur í öðrum tilgangi en læknisfræðilegum sé brot á mannréttindum drengja því um sé að ræða óafturkræft inngrip í líkama þeirra sem þeir hafi ekki haft neitt um að segja. Þeir séu þar að auki látnir þola mikinn sársauka og séu settir í mikla hættu, m.a. sýkingarhættu.
    Umskurður fer þannig fram að fremsti hluti forhúðar getnaðarlims er fjarlægður með skurðaðgerð. Meðal gyðinga er algengast að drengir séu umskornir á áttunda degi lífs. Á meðal múslima er hins vegar algengast að drengir séu umskornir í kringum tíu ára aldurinn.
    Ýmislegt við framkvæmd umskurðar er umdeilt og má nefna eftirfarandi:
     1.      Aðgerðin er framkvæmd án deyfingar eða með lítilli deyfingu og sársauki því mikill, börnin fá áfall, sýna einkenni áfallastreituröskunar. Ekki er notast við svæfingar. Börn ýmist gráta ákaflega eða sýna engin viðbrögð. Viðbragðsleysi barna hefur verið útskýrt með því að börn séu ekki farin að skynja sársauka svo ung. Rannsóknir hafa leitt í ljós að viðbragðsleysið sé áfallsviðbragð, eins konar stjarfi.
     2.      Víða er umskurður framkvæmdur annars staðar en á skurðstofum, svo sem í heimahúsum sem ekki eru dauðhreinsuð og ekki af læknum heldur af trúarleiðtogum. Mikil hætta er á sýkingum við slíkar aðstæður sem geta leitt til dauða.
     3.      Umskurður á ungum börnum brýtur gegn rétti barna til að segja skoðun sína á málefnum sem þau varða.
    Á 131. löggjafarþingi voru með lögum nr. 83/2005 samþykktar breytingar á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, þess efnis að banna umskurð á kynfærum stúlkna (67. mál). Umskurður á kynfærum stúlkna telst samkvæmt almennum hegningarlögum til líkamsárásar samkvæmt ákvæði 218. gr. a en þar segir að hver sem með líkamsárás valdi tjóni á líkama eða heilsu stúlkubarns eða konu með því að fjarlægja kynfæri hennar að hluta eða öllu leyti skuli sæta fangelsi allt að 6 árum. Ekki var kveðið á um bann við umskurði drengja. Á 145. löggjafarþingi lagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir fram fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um umskurð á börnum (539. mál) þar sem rakin var staðan í þessum málum. Ekki kom fram í svari ráðherra að það væri stefna yfirvalda að banna umskurð drengja. Vísað var í bann við umskurði stúlkna og lögð áhersla á þátttöku íslenskra stjórnvalda í þeirri umræðu og vinnu sem farið hefur fram á alþjóðavettvangi, t.d. hjá Sameinuðu þjóðunum og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, um aðgerðir til að koma í veg fyrir limlestingar kvenna. Ísland var til að mynda eitt þeirra ríkja sem lagði fram ályktun sem samþykkt var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 2012 og kallaði eftir efldu alþjóðlegu átaki til að útrýma limlestingum á kynfærum kvenna. Skörulegri framgöngu íslenskra stjórnvalda í þessum málaflokki ber að fagna. Flutningsmenn telja rétt að taka næsta skref í þessari vegferð og banna einnig limlestingar á kynfærum drengja.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að bannað verði að umskera unga drengi með breytingu á 218. gr. a almennra hegningarlaga nema slík aðgerð sé talin nauðsynleg af heilsufarslegum ástæðum.
    Það er skoðun flutningsmanna að umskurður á ungum drengjum feli í sér brot á réttindum þeirra, nema slík aðgerð sé talin nauðsynleg af heilsufarslegum ástæðum. Umskurður felur í sér varanlegt inngrip í líkama barns sem getur haft í för með sér mikinn sársauka, auk þess sem slíkri aðgerð fylgir hætta á sýkingum og öðrum vandamálum. Það er mat flutningsmanna að drengir sem vilja láta umskera sig af trúarlegum eða menningarlegum ástæðum taki ákvörðun um slíkt þegar þeir hafa sjálfir náð aldri og þroska til þess að skilja hvað felst í slíkri aðgerð.
    Umskurður á ungum drengjum samræmist illa 12. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem fjallar um rétt barna til þess að hafa áhrif á eigið líf. Auk þess telst umskurður brot gegn 3. mgr. 24. gr. sáttmálans sem tryggir börnum vernd gegn hefðum sem eru skaðlegar heilbrigði barna. Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hefur einnig hvatt öll ríki til þess að banna aðgerðir sem stefna mannlegri reisn barna í hættu og eru ekki í samræmi við réttindi barna. Þó að það sé vissulega réttur foreldra að veita barni sínu leiðsögn þegar kemur að trúarbrögðum getur slíkur réttur aldrei gengið framar rétti barnsins. Má í því sambandi benda á að skv. 3. gr. barnasáttmálans á það sem er barni fyrir bestu að hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða barn. Á réttur barna og mannhelgi þeirra því að ganga framar rétti fullorðinna til að taka trúarlegar og menningarlegar ákvarðanir fyrir hönd barna sinna. Í því samhengi er mikilvægt að líta til almennrar athugasemdar (e. general comment) frá barnaverndarnefndinni í Genf. Þar er m.a. fjallað um samspil 3. og 19. gr. barnasáttmálans.
    Fram kemur að það sem er barninu fyrir bestu verði að túlka heildstætt með öllum greinum sáttmálans, þ.m.t. 19. gr., og vernda börn gegn hvers kyns ofbeldi. Ekki er hægt að beita 3. gr. sáttmálans í þeim tilgangi að réttlæta venjur sem hafa verið við lýði, eins og líkamlega, grimmúðlega eða niðurlægjandi refsingu sem fer gegn mannlegri reisn og líkamlegum heilindum. Enn fremur er tekið fram í athugasemdinni að mat fullorðins einstaklings á því hvað sé barni fyrir bestu geti ekki komið í stað raunverulegra skuldbindinga um virðingu fyrir réttindum barna samkvæmt barnasáttmálanum.
    30. september 2013 skrifuðu umboðsmenn barna á Norðurlöndum og ýmsir heilbrigðisstarfsmenn undir yfirlýsingu gegn umskurði ungra drengja. Þeir telja brýnt að vinna að því að umskurður á ungum drengjum verði bannaður. Mikilvægt er að virða sjálfsákvörðunarrétt barna og banna umskurð á drengjum þar til viðkomandi hefur náð aldri og þroska til að veita samþykki sitt.