Ferill 115. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 184  —  115. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á raforkulögum og lögum um stofnun Landsnets hf. (ýmsar breytingar).

Frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.



I. KAFLI

Breyting á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum.

1. gr.

    6. mgr. 9. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Flutningsfyrirtækið skal í samráði við raforkufyrirtæki setja almennar reglur um rekstur og stýringu raforkuflutnings sem Orkustofnun samþykkir. Í reglunum skal m.a. kveðið nánar á um þau atriði sem tilgreind eru í 3. og 4. mgr.

2. gr.

    Við 5. mgr. 9. gr. a laganna bætist: og um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

3. gr.

    Við 1. málsl. 2. mgr. 9. gr. b laganna bætist: og um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

4. gr.

    Á eftir orðunum „lagningu raflína“ í 2. mgr. 9. gr. c laganna kemur: og um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

5. gr.

    Í stað orðsins „samkeppnisráði“ í 2. málsl. 2. mgr. 27. gr. laganna kemur: Samkeppniseftirlitinu.

6. gr.

    Á eftir orðunum „skýrslu um“ í 1. málsl. 2. mgr. 31. gr. laganna kemur: framkvæmd raforkueftirlits á liðnu ári og.

II. KAFLI

Breyting á lögum um stofnun Landsnets hf., nr. 75/2004, með síðari breytingum.

7. gr.

    3. gr. laganna fellur brott.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni frumvarpsins er einföldun og lagfæring á ákvæðum raforkulaga, nr. 65/2003, og lögum um stofnun Landsnets hf., nr. 75/2004. Um breytingar er að ræða sem annars vegar er ætlað að skýra betur ákvæði sem áður hafa þótt óskýr og hins vegar eru uppfærð ákvæði sem orðin eru úrelt vegna breytinga sem orðið hafa á lögum og stjórnsýslu undanfarin ár.

2. Meginefni frumvarpsins.
    Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru tvíþættar. Annars vegar eru lagðar til breytingar á raforkulögum, nr. 65/2003, sem fela í sér ákveðnar uppfærslur á ákvæðum laganna. Hins vegar er um að ræða breytingu á lögum um stofnun Landsnets hf., nr. 75/2004, þar sem fellt er úr gildi ákvæði sem snýr að stofnun Landsnets hf. og hefur ekki þýðingu í dag, en er hamlandi varðandi fjölda stjórnarmanna í flutningsfyrirtækinu.
    Nánar tiltekið eru efnisatriði frumvarpsins eftirfarandi.

2.1. Reglur um kerfisstjórnun (netmálar).
    Samkvæmt 9. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, hefur flutningsfyrirtækið heimild til þess að setja reglur um kerfisstjórnun sem staðfestar eru af ráðherra. Í daglegu tali eru þessar reglur kallaðar netmálar (e. network codes).
    Með frumvarpinu er lagt til að samþykki reglnanna færist frá ráðherra til Orkustofnunar. Það er almennt í höndum eftirlitsaðila á Evrópska efnahagssvæðinu að samþykkja reglur og gjaldskrár flutningsfyrirtækja og í samræmi við aukið hlutverk eftirlitsaðila samkvæmt þriðju raforkutilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/72/EB.
    Með frumvarpinu er jafnframt skýrar kveðið á um gildissvið reglnanna þannig að þær nái yfir almenna skilmála sem nauðsynlegir eru fyrir rekstur og stýringu flutningskerfisins.

2.2. Tilvísun í stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.
    Með lögum nr. 26/2015, um breytingu á raforkulögum, var bætt við ákvæði í raforkulög þess efnis að ráðherra skuli á fjögurra ára fresti leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku (39. gr. a). Í 9. gr. a raforkulaga er fjallað um kerfisáætlun um uppbyggingu flutningskerfis raforku og er með frumvarpi þessu lagt til að þar verði m.a. vísað til stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.
    Fyrir liggja drög að tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku og er ráðgert að sú tillaga verði lögð fram á Alþingi á vorþingi 2018.

2.3. Samkeppnisráð.
    Lagt er til að tilvísun til samkeppnisráðs verði felld brott úr raforkulögum enda er ráðið ekki lengur starfandi. Þess í stað er vísað til Samkeppniseftirlitsins.

2.4. Skýrslugjöf Orkustofnunar um eftirlitsstörf.
    Í raforkulögum er gert ráð fyrir því að orkumálastjóri skili árlega skýrslu til ráðherra með rekstrarupplýsingum vegna raforkueftirlits. Með frumvarpinu er lagt til að orkumálastjóri skili einnig skýrslu um framkvæmd raforkueftirlits. Er þessi breyting lögð til í ljósi ábendinga frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) um að skv. 23. gr. tilskipunar 2003/54/EB eigi eftirlitsaðilar að birta árlega skýrslu um eftirlitsstörf sín.

2.5. Fjöldi stjórnarmanna Landsnets hf.
    Í 3. gr. laga nr. 75/2004, um stofnun Landsnets hf., er kveðið á um að ríkissjóður Íslands sé eigandi alls hlutafjár í Landsneti við stofnun þess, ráðherra fari með eignarhlut ríkisins og stjórn Landsnets skuli skipuð þremur mönnum sem ráðherra fær til starfans án tilnefningar.
    Íslenska ríkið hafði á sínum tíma forgöngu um stofnun Landsnets, sem ætlað var að annast raforkuflutning og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga, nr. 65/2003. Eins og fram kemur í frumvarpi því er varð að lögum nr. 75/2004 var gert ráð fyrir að eftir stofnun Landsnets skipaði iðnaðarráðherra stjórn til bráðabirgða, sem ætlað var að koma fram fyrir hönd félagsins við mat á verðmæti flutningsvirkja, auk annarra lögbundinna stjórnarstarfa samkvæmt lögum um hlutafélög. Gert var ráð fyrir að stjórnin sæti aðeins þar til endanleg niðurstaða fengist um verðmæti flutningsvirkja og þar með um eignarhlutföll hluthafa í félaginu. Þegar sú niðurstaða væri fengin mundi ríkissjóður á grundvelli heimildar í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 75/2004 selja allt hlutafé sitt í Landsneti til þeirra eigenda flutningsvirkja sem legðu eignir sínar til Landsnets á grundvelli samkomulags um eignarhlutföll milli einstakra hluthafa á grundvelli verðmætis flutningsvirkjanna.
    Í desember 2004 framseldi iðnaðar- og viðskiptaráðherra alla hluti ríkissjóðs í Landsneti til Landsvirkjunar, RARIK og Orkubús Vestfjarða, en Orkuveita Reykjavíkur bættist síðar í hluthafahóp Landsnets. Við afsalið varð 3. gr. laga nr. 75/2004 í raun þýðingarlaus. Núverandi hluthafar Landsnets telja æskilegt að fjölga stjórnarmönnum úr þremur í fimm. Stjórnir Landsvirkjunar, RARIK og Orkubús Vestfjarða eru skipaðar fimm stjórnarmönnum en stjórn Orkuveitu Reykjavíkur sjö mönnum.
    Upphaflegri stjórn Landsnets var aðeins ætlað að vera bráðabirgðastjórn á meðan félagið hefði litla sem enga starfsemi. Í ljósi núverandi verkefna og hlutverks félagsins er talið mikilvægt að fjölga stjórnarmönnum. Samsetning stjórnar þarf að vera í samræmi við starfsemi og stefnu félagsins, þróunarstig þess og aðra viðeigandi þætti í rekstri þess og umhverfi. Þá skapar fjölgun stjórnarmanna möguleika á að auka enn á fjölbreytni og breidd í hæfni, reynslu og þekkingu.
    Fyrirhugað er að breyta samþykktum Landsnets hf. þannig að stjórnarmenn verði fimm. Telja verður eðlilegt að ákvæði hlutafélagalaga gildi alfarið um samsetningu stjórnar Landsnets þannig að í samþykktum félagsins sé kveðið á um fjölda stjórnarmanna. Með frumvarpinu er opnað fyrir að málum verði þannig hagað, og er það í samræmi við vilja Landsnets hf.
    Með vísan til framangreinds er með frumvarpinu lagt til að fellt verði brott ákvæði 3. gr. laga nr. 75/2004.

3. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið þykir ekki kalla á sérstaka skoðun á samræmi við stjórnarskrá. Tillögur frumvarpsins eru í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum.

4. Samráð.
    Frumvarp þetta er unnið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að höfðu samráði við Orkustofnun og flutningsfyrirtækið Landsnet hf. Orkustofnun og Landsnet sendu inn ábendingar um breytingar á raforkulögum. Í kjölfarið var fundað með þessum aðilum og farið yfir ábendingar þeirra. Þau atriði sem ekki náði að fullvinna voru ekki höfð með í þessu frumvarpi, en eru áfram til skoðunar. Frumvarpið var ekki sett í almenna kynningu þar sem ekki er um að ræða atriði sem varða almenning með beinum hætti, heldur snúast breytingarnar fyrst og fremst um einföldun og lagfæringu á gildandi lögum.

5. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarpið að lögum felur það í sér ákveðna einföldun, samræmingu og lagfæringu á ákvæðum raforkulaga, nr. 65/2003, og laga um stofnun Landsnets hf., nr. 75/2004. Um minni háttar breytingar er að ræða sem annars vegar er ætlað að skýra betur ákvæði sem áður hafa þótt óskýr og hins vegar uppfæra ákvæði sem orðin eru úrelt.
    Verði II. kafli frumvarpsins að lögum mun það eingöngu hafa áhrif á Landsnet, að því leyti að ekki verður lögbundið að stjórn Landsnets hf. skuli skipuð þremur mönnum sem ráðherra fær til starfans án tilnefningar. Í stað þess munu gilda almenn ákvæði hlutafélagalaga um samsetningu stjórnar fyrirtækisins.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki fyrirséð að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.
    Frumvarpið felur í sér tæknilegar breytingar og útfærslur sem hafa ekki bein áhrif á einstaklinga og eru því sjónarmið varðandi kynjaskiptingu málinu óviðkomandi. Frumvarpið hefur ekki áhrif á stöðu kynjanna á raforkumarkaði.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að skýrar verði kveðið á um þær heimildir sem flutningsfyrirtækið hefur til setningar reglna um atriði varðandi skyldur fyrirtækisins í tengslum við rekstur og stýringu flutningskerfisins, eins og þær koma fram í 3. og 4. mgr. 9. gr. laganna. Einnig er lagt til að samþykki reglnanna (netmála) færist frá ráðherra til Orkustofnunar. Sjá nánar kafla 2.1 í greinargerðinni.

Um 2.–4. gr.

    Til að gæta samræmis er lagt til að viðkomandi tilvísanir í lögunum verði einnig í stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

Um 5. gr.

    Með greininni er lagt er til að vísað verði til Samkeppniseftirlitsins í stað samkeppnisráðs.

Um 6. gr.

    Með greininni er skýrar kveðið á um innihald skýrslu Orkustofnunar um eftirlitsstörf til ráðherra. Sjá nánar kafla 2.4 í greinargerðinni.

Um 7. gr.

    Með greininni er lagt til að felld verði brott 3. gr. laga nr. 75/2004, um stofnun Landsnets hf., þar sem kveðið er á um að ríkissjóður Íslands sé eigandi alls hlutafjár í Landsneti við stofnun þess, ráðherra fari með eignarhlut ríkisins og stjórn Landsnets skuli skipuð þremur mönnum sem ráðherra fær til starfans án tilnefningar. Eins og rakið er kafla 2.5 í greinargerðinni er ákvæðið í raun þýðingarlaust í dag, en setur skorður fyrir samsetningu stjórnar Landsnets hf.

Um 8. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.