Ferill 31. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 199  —  31. mál.
Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um siðareglur og upplýsingagjöf.

     1.      Hefur ríkisstjórnin sett sér siðareglur og, ef svo er, hver ber ábyrgð á að þeim sé framfylgt og hver er málsmeðferðin komi upp brot á siðareglum ráðherra?
    Ríkisstjórnin samþykkti siðareglur sér til handa á ríkisstjórnarfundi 16. desember sl. og staðfesti forsætisráðherra þær með undirritun sinni sama dag. Eru siðareglurnar birtar í B-deild Stjórnartíðinda, nr. 1250/2017, og á vefsíðu Stjórnarráðsins. Eins og fram kemur í inngangskafla reglnanna er það á ábyrgð hvers ráðherra að gæta þess fyrir sitt leyti að farið sé eftir reglunum. Í vafatilvikum getur ráðherra þó leitað ráðgjafar hjá forsætisráðuneytinu, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga um Stjórnarráð Íslands. Enn fremur kemur fram í inngangskafla reglnanna að koma megi ábendingum á framfæri við umboðsmann Alþingis en hann gætir þess m.a. að stjórnsýslan fari fram í samræmi við siðareglur settar á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga um umboðsmann Alþingis. Telji einhver að brot á siðareglum hafi jafnframt falið í sér að hann sjálfur hafi verið beittur rangsleitni er unnt að bera fram kvörtun við umboðsmann Alþingis, sbr. 2. mgr. 4. gr. sömu laga.

     2.      Hver leggur mat á hvort upplýsingar sem ráðherra hefur undir höndum varðandi skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum varði almannahag eða ekki, sbr. 6. gr. siðareglna ráðherra um upplýsingagjöf og samskipti við almenning?
    Mat á því hvort upplýsingar, sem ráðherra hefur undir höndum, varði almannahag, sbr. 6. gr. siðareglna ráðherra, er á hendi viðkomandi ráðherra.

     3.      Hefur farið fram mat á því hvort efni skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum varði almannahag? Ef svo er, hver var niðurstaða þess mats? Ef ekki, hvers vegna ekki?
    Sú skýrsla sem spurt er um var unnin á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Fyrirspurnum er varða efni hennar, eða mat á efni hennar, ber að beina til fjármála- og efnahagsráðherra, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga um þingsköp Alþingis.

     4.      Hvað telst vera reglulegur og skipulagður háttur við upplýsingagjöf til almennings og fjölmiðla?
    Ráðherrar sinna upplýsingagjöf til almennings og fjölmiðla með margvíslegum hætti, svo sem með útgáfu skýrslna, útsendingu fréttatilkynninga og svörun upplýsingabeiðna og annarra fyrirspurna bæði munnlega og skriflega. Þá má geta þess að eigi síðar en 1. júní nk. munu ráðherrar, hver fyrir sig, í fyrsta sinn, á grundvelli 62. gr. laga um opinber fjármál, gefa út ársskýrslu. Þar skal gera grein fyrir niðurstöðu útgjalda innan málefnasviða og málaflokka sem undir ráðherrann heyra og hún borin saman við fjárheimildir fjárlaga, auk þess sem greint skal frá flutningi fjárheimilda skv. 30. gr. Þá skal greina frá fjárveitingum til einstakra ríkisaðila og verkefna og meta ávinning af ráðstöfun þeirra með tilliti til settra markmiða og aðgerða. Að öðru leyti fer það eftir málefninu sem um ræðir í hverju tilviki hvað telst nægjanlegt með hliðsjón af ákvæði siðareglna um reglulega og skipulagða upplýsingagjöf.

     5.      Braut ráðherra siðareglur með töfum á birtingu skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum?
    Samkvæmt siðareglum ráðherra nr. 1250/2017 hefur forsætisráðuneytið ráðgefandi hlutverk gagnvart ráðherrum um túlkun þeirra. Það er hins vegar ekki hlutverk forsætisráðuneytisins að kveða upp úrskurði um það hvort siðareglur hafa verið brotnar í einstökum tilvikum.