Ferill 61. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 218  —  61. mál.
Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Smára McCarthy og Birni Leví Gunnarssyni um varnir gegn loftmengun frá skipum.


     1.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir fullgildingu VI. viðauka Marpol-samningsins frá 19. maí 2005, um varnir gegn loftmengun frá skipum?
    VI. viðauki MARPOL-samningsins hefur verið fullgiltur af Íslands hálfu og var fullgildingarskjal Íslands afhent Alþjóðasiglingamálastofnuninni (IMO) 22. nóvember 2017 og mun viðaukinn öðlast gildi hvað Ísland varðar 22. febrúar næstkomandi.

     2.      Hefur verið gerð úttekt á nauðsynlegum framkvæmdum við hafnir og raforkudreifikerfi til að styðja við að skip við bryggju séu almennt keyrð á rafmagni úr landi í stað ljósavéla?
    Margar íslenskar hafnir hafa frá árinu 1980 boðið upp á landtengingu skipa með lágspennukerfi, sem þýðir að smærri skip og flestir togarar hafa getað tekið landrafmagn. Heildstæð úttekt á stöðu mála og nauðsynlegum framkvæmdum í framtíðinni liggur ekki fyrir, en er í vinnslu.
    Eitt af þeim verkefnum sem ráðuneytið setti af stað á vegum Sóknaráætlunar í loftslagsmálum árið 2015 var kortlagning á möguleikum til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda í sjávarútvegi, þ.m.t. skoðun á möguleikum á rafvæðingu hafna. Að þeirri vinnu koma margir aðilar, en Hafið – Öndvegissetur um sjálfbæra nýtingu og verndun hafsins hefur verið leiðandi í þeirri vinnu. Reiknað er með að Hafið skili niðurstöðum til umhverfis- og auðlindaráðuneytis fyrir árslok 2018.
    Í vinnu Hafsins hefur m.a. verið lögð áhersla á að ná heildstæðri yfirsýn yfir orkuþörf og nauðsynlegan tengibúnað hafna, skipaumferð, legudaga í höfnum, orkuþörf, framboð orku og tengimöguleika við dreifikerfið. Margir aðilar þurfa að koma að slíkri kortlagningu og hefur Hafið komið á góðu samstarfi við útgerðaraðila, Samgöngustofu, hafnayfirvöld, orkusala og dreifiaðila. Gögnum hefur m.a. verið safnað um vélarafl skipa, orkusölu í höfnum og legudaga skipa í höfn.
    Áhersla hefur verið lögð á það í byrjun að horfa til minni báta og fiskiskipa þar sem tækni og innviðauppbygging er aðgengileg, en þar er um að ræða skip sem hægt er að tengja við lág- eða millispennu. Mikilvægt er talið að afla reynslu af tengingum þeirra skipa sem tengst geta lág- eða millispennu áður en lagst verður í vinnu við tengingar orkufrekari skipa, þ.e. stórra frystiskipa, stórra farþegaskipa og stórra flutningaskipa, sem þurfa háspennu til að geta tengst. Háspenna er í fæstum tilfellum við hafnir landsins og því krefst það mikilla fjárfestinga í flutningskerfinu eigi að vera möguleiki á að tengja þau skip við landrafmagn. Unnið hefur verið með Faxaflóahöfnum sem, meðal annarra, hafa unnið ötullega að því að skip í höfn tengist við landrafmagn og hafa lagt áherslu á að leysa tæknileg og önnur vandamál sem upp hafa komið.
    Til að meta það hvaða hafnir hafa mesta skipaumferð og jafnframt gott aðgengi að raforku, vinnur Hafið, í samvinnu við Samorku, að greiningu á því í hvaða höfnum mætti fá mestan ávinning af samdrætti í útblæstri með minnstum tilkostnaði varðandi uppbyggingu á raforkukerfinu.
     Hafið er jafnframt í samstarfi við fleiri aðila um að leggja drög að verkefni sem byggist á því að skoða háspennutengingu annars vegar og mögulega tengingu með hleðslumöguleika hins vegar.
    Margir eru farnir að sýna þessum málum áhuga, sem er vel, en skýra þarf hlutverk þeirra aðila sem koma að landtengingum skipa í höfn, svo sem hvað varðar orkuframboð og fyrirkomulag orkusölu og aðra áðurnefnda þætti en einnig þarf að skoða leyfisveitingar, framkvæmdir, eignarhald, fjármögnun, rekstur og viðhald innviðanna. Hafið hefur unnið að því, í samstarfi við Grænu orkuna, að mynda net aðila sem að þessum málum koma og að tryggja að reynslu af innleiðingu raftenginga fyrir bíla megi yfirfæra á landtengingar skipa í höfn.

     3.      Hversu mikil mengun (t.d. CO2, NOx og svifryk) kemur nú frá skipum meðan þau liggja í höfn? Hvernig hefur mengunin þróast á undanförnum árum?
    Umhverfisstofnun metur árlega losun gróðurhúsalofttegunda (svo sem CO2) og annarra mengunarefna (svo sem NO x og svifryks) frá skipum, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Losunin er metin út frá sölutölum eldsneytis og koma þær upplýsingar frá Orkustofnun. Ekki liggja fyrir sérgreindar tölur um losun skipa á Íslandi meðan þau liggja í höfn, en Faxaflóahafnir hafa látið gera mat á losun skipa í höfnum sínum. Samkvæmt því var losun skipa samtals í höfnum í Reykjavík, á Akranesi og við Grundartanga um 45 þúsund tonn af CO2, 680 tonn af NO x, 130 tonn af SO2, og 45 tonn af svifryki (PM10 og PM2,5) árið 2016. Losunin var mest af völdum skemmtiferðaskipa og flutningaskipa og mest í Sundahöfn. Ekki liggja fyrir góðar upplýsingar um hvernig mengun frá skipum í höfn hefur þróast á undanförnum árum. Umhverfisstofnun og heilbrigðiseftirlit mæla loftgæði á nokkrum stöðum, en erfitt er að greina hlut einstakra uppsprettna mengunar, þ.m.t. frá skipum í höfn, í þeim mælingum. Umhverfisstofnun undirbýr sérstakt eftirlit með brennisteinsinnihaldi í olíu í skipum í höfn.

     4.      Hyggst ráðherra leggja til bann við notkun svartolíu í skipum?
    Í sáttmála ríkisstjórnarflokkanna segir að stefnt skuli að banni við notkun svartolíu í efnahagslögsögu Íslands. Vinna er hafin við að skoða leiðir til þess. Farið verður yfir reglur um skipaeldsneyti sem er notað í mengunarlögsögu Íslands og eldsneyti sem er til sölu hér á landi, en almennt gilda nú sömu reglur hér og á Evrópska efnahagssvæðinu. Á nokkrum svæðum, svo sem í Eystrasalti og Norðursjó, eru í gildi strangari kröfur um losun brennisteins en almennt eru í gildi. Slík svæði (sk. Emissions Control Areas, ECA) eru samþykkt hjá IMO á grundvelli ákvæða VI. viðauka MARPOL. Ráðuneytið vill athuga hvort grundvöllur sé fyrir útnefningu ECA-svæðis í íslenskri lögsögu eða í hluta hennar og mun fela Umhverfisstofnun að skoða það og skila greinargerð nú í vor. Slíkt er ekki einhliða ákvörðun viðkomandi ríkis eða ríkja, heldur þarf að koma til samþykki IMO. Hertum kröfum um losun er hægt að mæta annars vegar með því að breyta um eldsneyti eða orkugjafa og hins vegar með betri mengunarvarnabúnaði ef svartolía er notuð. Það er því ekki víst að hert regluverk um loftmengun frá skipum leiði endilega til algjörs banns á notkun svartolíu. Ráðuneytið mun skoða hvaða leiðir eru bestar og hagkvæmastar í því skyni að draga úr mengun og losun gróðurhúsalofttegunda frá skipum og vinna að því að hrinda þeim í framkvæmd.