Ferill 11. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 236  —  11. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum (fasteignasjóður).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðna Geir Einarsson og Ólaf Hjörleifsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Umsagnir bárust frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og Fljótsdalshéraði.
    Frumvarpinu er ætlað að útvíkka lögbundið hlutverki fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem komið var á fót þegar málefni fatlaðs fólks voru færð frá ríki til sveitarfélaga 2011. Upphaflegu hlutverki sjóðsins, að annast þær fasteignir í eigu ríkisins sem nýttar voru til þjónustu við fatlað fólk, er nú því sem næst lokið þar sem allar þær eignir sem undir sjóðinn heyrðu hafa verið seldar, utan einnar sem er í söluferli. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að gert sé ráð fyrir að sjóðurinn fari eftir sem áður með réttindi og skyldur sem tengjast fasteignum í eigu ríkisins sem nýttar eru til þjónustu við fatlað fólk, m.a. þar sem sjóðurinn hafi enn tekjur vegna sölu eignanna. Auk þess verði heimilt að nýta fjármuni sjóðsins til að jafna stöðu sveitarfélaga við uppbyggingu fasteigna þar sem veitt er þjónusta við fatlað fólk og fólk með miklar stuðningsþarfir. Á fundi nefndarinnar kom fram að í vissum tilvikum gæti fé úr sjóðnum m.a. nýst til að gera nauðsynlegar breytingar á heimilum mjög fatlaðra einstaklinga. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherra mæli nánar fyrir um skilyrði fyrir úthlutun og fyrirkomulag í reglugerð að höfðu samráði við fagráðherra málefna fatlaðs fólks, Samband íslenskra sveitarfélaga og ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
    Frumvarp þetta er byggt á sameiginlegri viljayfirlýsingu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 6. júlí 2017. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um málið kemur fram að sambandið styðji eindregið að frumvarpið verði að lögum. Sami tónn er sleginn í öðrum umsögnum sem bárust nefndinni.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Björn Leví Gunnarsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, styður framgang þessa máls.

Alþingi, 1. febrúar 2018.

Jón Gunnarsson,
1. varaform., frsm.
Ari Trausti Guðmundsson. Hanna Katrín Friðriksson.
Helga Vala Helgadóttir. Karl Gauti Hjaltason. Líneik Anna Sævarsdóttir.
Maríanna Eva Ragnarsdóttir. Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Vilhjálmur Árnason.