Ferill 167. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 241  —  167. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um markaðar tekjur.

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



I. KAFLI

Breyting á lögum um Íslandsstofu, nr. 38/2010, með síðari breytingum.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      1. tölul. fellur brott.
     b.      2. tölul. orðast svo: Fjárveiting sem ákvörðuð er af ráðherra á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum.
     c.      Í stað orðanna „tekjum af markaðsgjaldi“ í 5. tölul. kemur: fjárveitingu skv. 2. tölul.
     d.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                 Markaðsgjald, 0,05%, skal lagt á gjaldstofn til greiðslu tryggingagjalds eins og hann er skilgreindur í III. kafla laga nr. 113/1990, um tryggingagjald. Um álagningu og innheimtu markaðsgjalds fer eftir ákvæðum þeirra laga. Markaðsgjald má draga frá tekjum þess rekstrarárs þegar stofn þess myndaðist.
                 Tekjur Íslandsstofu skv. 2. tölul. 1. mgr. skulu aldrei vera lægri en sem nemur markaðsgjaldi skv. 2. mgr.

II. KAFLI

Breyting á lögum um Fiskræktarsjóð, nr. 72/2008, með síðari breytingum.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      A-liður orðast svo: fjárveiting á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum.
     b.      C-liður fellur brott.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                 Veiðiréttarhafar skulu greiða 2% gjald af hreinum tekjum af veiði í ám og vötnum á hverju almanaksári og rennur gjaldið í ríkissjóð.
     b.      Í stað orðsins „Fiskræktarsjóði“ í 2. mgr. kemur: ríkissjóði.

III. KAFLI

Breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, með síðari breytingum.

4. gr.

    2. mgr. 15. gr. laganna orðast svo:
    Tekjur af bensíngjaldi renna í ríkissjóð.

IV. KAFLI

Breyting á lögum um olíugjald og kílómetragjald, nr. 87/2004, með síðari breytingum.

5. gr.

    Í stað orðanna „til Vegagerðarinnar að frádregnum 0,5% sem renna í ríkissjóð til að standa straum af kostnaði við framkvæmd laga þessara“ í 2. mgr. 23. gr. laganna kemur: í ríkissjóð.

V. KAFLI

Breyting á lögum um vitamál, nr. 132/1999, með síðari breytingum.

6. gr.

    6. gr. laganna orðast svo:
    Greiða skal vitagjald af skipum sem sigla við Íslandsstrendur og hafa hér viðkomu og rennur gjaldið í ríkissjóð.

VI. KAFLI

Breyting á lögum um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála, nr. 120/2012, með síðari breytingum.

7. gr.

    1. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
    Verkefni Vegagerðarinnar og rekstur skal fjármagna með fjárveitingu á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum.

VII. KAFLI

Breyting á lögum um leigubifreiðar, nr. 134/2001, með síðari breytingum.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      2. mgr. fellur brott.
     b.      Í stað orðanna „til Samgöngustofu eða eftir atvikum til einstakra sveitarstjórna enda hafi þeim verið falin framkvæmd mála er varða leigubifreiðar innan sveitarfélagsins, sbr. 4. mgr. 2. gr.“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: í ríkissjóð.
     c.      2. málsl. 3. mgr. fellur brott.

VIII. KAFLI

Breyting á lögum um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012, með síðari breytingum.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      Orðin „er renni til Samgöngustofu“ í 1. málsl. 1. mgr. falla brott.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Gjöld samkvæmt þessari grein renna í ríkissjóð.

IX. KAFLI

Breyting á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum.

10. gr.

    Í stað lokamálsliðar 5. mgr. 6. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Tekjur af aflaheimildum þessum skulu renna í ríkissjóð. Ráðherra skal á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum ákvarða fjárveitingu til rannsóknasjóðs til að auka verðmæti sjávarfangs.

X. KAFLI

Breyting á lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, með síðari breytingum.

11. gr.

    Í stað orðanna „óskipt til Þjóðskrár Íslands“ í 3. mgr. 24. gr. laganna kemur: í ríkissjóð.

XI. KAFLI

Breyting á lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, með síðari breytingum.

12. gr.

    3. mgr. 4. gr. b laganna orðast svo:
    Árlegt framlag í lýðheilsusjóð skal ákveðið með fjárveitingu á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum.

XII. KAFLI

Breyting á lögum um tóbaksvarnir, nr. 6/2002, með síðari breytingum.

13. gr.

    15. gr. laganna fellur brott.

XIII. KAFLI

Breyting á lögum um gjald af áfengi og tóbaki, nr. 96/1995, með síðari breytingum.

14. gr.

    7. gr. laganna fellur brott.

XIV. KAFLI

Breyting á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Í stað 1. málsl. 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ríkisskattstjóri skal leggja á þá sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga um tekjuskatt sérstakt gjald samhliða álagningu opinberra gjalda skv. 93. gr. sömu laga. Tekjur af gjaldinu renna í ríkissjóð.
     b.      4. mgr. orðast svo:
                 Tekjur Framkvæmdasjóðs aldraðra eru árleg fjárveiting á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum, frjáls framlög og aðrar tekjur er til kunna að falla.

XV. KAFLI

Breyting á lögum um endurskoðendur, nr. 79/2008, með síðari breytingum.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. mgr. 18. gr. laganna:
     a.      Orðin „til að standa straum af kostnaði við störf endurskoðendaráðs“ í 1. málsl. falla brott.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra ákvarðar fjárveitingu á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum til að standa straum af kostnaði við störf endurskoðendaráðs.

XVI. KAFLI

Breyting á skipulagslögum, nr. 123/2010, með síðari breytingum.

17. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 17. gr. laganna orðast svo: Ráðherra skal á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum ákvarða fjárveitingu til Skipulagssjóðs.

XVII. KAFLI

Breyting á lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, nr. 146/1996, með síðari breytingum.

18. gr.

    Við 14. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Tekjur af gjöldum skv. 1., 4. og 5. tölul. 1. mgr. renna í ríkissjóð.

XVIII. KAFLI

Breyting á lögum um mannvirki, nr. 160/2010, með síðari breytingum.

19. gr.

    4. málsl. 1. mgr. 50. gr. laganna orðast svo: Tekjur af byggingaröryggisgjaldi renna í ríkissjóð.

XIX. KAFLI

Breyting á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 49/1997, með síðari breytingum.

20. gr.

    12. gr. laganna orðast svo:
    Leggja skal árlegt gjald á allar brunatryggðar húseignir sem nemur 0,3‰ af vátryggingarverðmæti. Gjaldið skal innheimt ásamt iðgjaldi til Viðlagatryggingar Íslands og fer um innheimtu þess samkvæmt lögum um viðlagatryggingu, þar á meðal skal gjaldið njóta lögtaksréttar og lögveðsréttar í vátryggðri eign. Tekjur af gjaldinu renna í ríkissjóð. Álagning gjalds þessa skal ekki hafa áhrif til hækkunar á innheimtuþóknun til vátryggingafélaga samkvæmt lögum um viðlagatryggingu.
    Sérstakur sjóður ríkisins, ofanflóðasjóður, er í vörslu ráðuneytisins.
    Tekjur sjóðsins eru:
     1.      Fjárveiting á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum sem byggist á rekstri sjóðsins, framkvæmdaáætlun til næstu fimm ára og öðrum verkefnum. Framkvæmdaáætlun skal miðast við markmið reglugerðar um hættumat vegna ofanflóða og flokkun og nýtingu hættusvæða.
     2.      Vaxtatekjur, sbr. 13. gr.
     3.      Aðrar tekjur.
    Lán til starfsemi sjóðsins, sem eru með ábyrgð ríkissjóðs, skulu háð samþykki hlutaðeigandi ráðherra.

XX. KAFLI

Breyting á lögum um Jarðasjóð, nr. 34/1992, með síðari breytingum.

21. gr.

    4. gr. laganna orðast svo:
    Tekjur Jarðasjóðs eru fjárveiting á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum ár hvert.

XXI. KAFLI

Breyting á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, með síðari breytingum.

22. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      Í stað 1. mgr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                 Ríkisskattstjóri leggur á sérstakt gjald samhliða álagningu opinberra gjalda skv. 93. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Gjaldskylda hvílir á þeim einstaklingum sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga um tekjuskatt, og þeim lögaðilum sem skattskyldir eru og bera sjálfstæða skattaðild skv. 2. gr. sömu laga, öðrum en dánarbúum, þrotabúum og þeim lögaðilum sem undanþegnir eru skattskyldu skv. 4. gr. sömu laga. Undanþegnir gjaldinu eru þeir einstaklingar sem ekki skulu sæta álagningu sérstaks gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra eða skulu fá það gjald fellt niður skv. 2. mgr. 10. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999. Gjaldið skal nema 17.100 kr. ár hvert á hvern einstakling og lögaðila og rennur það í ríkissjóð.
                 Tekjustofnar Ríkisútvarpsins eru sem hér segir:
                  1.      Árleg fjárveiting á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum sem nemur að lágmarki áætlun fjárlaga um tekjur af gjaldi skv. 1. mgr.
                  2.      Rekstrarafgangur af starfsemi sem fellur undir 4. gr.
                  3.      Tekjur af þjónustu sem fellur undir 3. gr., sbr. 4. mgr.
                  4.      Aðrar tekjur.
     b.      5. málsl. 2. mgr. orðast svo: Fyrsta virkan dag hvers mánaðar skal ráðuneyti sem fer með fjárreiður ríkisins greiða Ríkisútvarpinu fjárhæð sem svarar til 1/12 af fjárveitingu hvers árs skv.1. tölul. 2. mgr.

XXII. KAFLI

Breyting á lögum um fiskeldi, nr. 71/2008, með síðari breytingum.

23. gr.

    A-liður 20. gr. d laganna orðast svo: árleg fjárveiting á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum.

24. gr.

    Í stað orðanna „óskipt til Umhverfissjóðs sjókvíaeldis“ í 1. mgr. 20. gr. e laganna kemur: til ríkissjóðs.

XXIII. KAFLI

Breyting á lögum um Fiskistofu, nr. 36/1992, með síðari breytingum.

25. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist: í ríkissjóð.
     b.      Við 2. málsl. 2. mgr. bætist: og rennur það í ríkissjóð.
     c.      Í stað orðanna „Tekjum af strandveiðigjaldi skal ráðstafa“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: Ráðherra skal á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum ákvarða fjárveitingu sem samsvarar tekjum af strandveiðigjaldi.

26. gr.

    Í stað orðanna „strandveiðigjaldi, sbr. 2. mgr. 6. gr.“ í lokamálslið 1. mgr. 8. gr. laganna kemur: gjöldum skv. 6. gr.

XXIV. KAFLI

Breyting á lögum um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, nr. 37/1992, með síðari breytingum.

27. gr.

    1. og 2. málsl. 3. mgr. 1. gr. laganna orðast svo: Gjald skv. 2. mgr. skal renna í ríkissjóð. Ráðherra skal á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum ákvarða fjárveitingu til sjóðs í vörslu ráðuneytisins, sem nefnist Verkefnasjóður sjávarútvegsins, og skal verja fé úr honum til rannsókna og nýsköpunar á sviði sjávarútvegs og til eftirlits með fiskveiðum.

XXV. KAFLI

Breyting á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, með síðari breytingum.

28. gr.

    Í stað orðanna „í jöfnunarsjóð alþjónustu“ í a-lið 2. mgr. 6. gr. laganna kemur: jöfnunargjald.

29. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 22. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „jöfnunarsjóð í vörslu Póst- og fjarskiptastofnunar“ í 1. mgr. kemur: ríkissjóð.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra skal á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum ákvarða fjárveitingu til jöfnunarsjóðs alþjónustu sem nemur að lágmarki áætlun fjárlaga um tekjur af jöfnunargjaldi.
     c.      Í stað orðanna „í jöfnunarsjóð“ í 6. mgr. kemur: á jöfnunargjaldi.

XXVI. KAFLI

Breyting á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, með síðari breytingum.

30. gr.

    Í stað orðanna „í jöfnunarsjóð alþjónustu“ í a-lið 2. mgr. 5. gr. laganna kemur: jöfnunargjalds.

31. gr.

    13. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
    Póst- og fjarskiptastofnun annast innheimtu gjalda samkvæmt þessari grein. Tekjur af gjöldunum renna í ríkissjóð, að undanskildum tekjum skv. 2., 11. og 12. mgr. sem renna til stofnunarinnar.

32. gr.

    7. mgr. 14. gr. a laganna orðast svo:
    Póst- og fjarskiptastofnun annast innheimtu gjalda samkvæmt þessari grein og renna þau í ríkissjóð.

33. gr.

    Í stað orðanna „einstök framlög til jöfnunarsjóðs“ í 2. málsl. 15. gr. laganna kemur: jöfnunargjaldsgreiðslur.

XXVII. KAFLI

Breyting á lögum um vörur unnar úr eðalmálmum, nr. 77/2002, með síðari breytingum.

34. gr.

    Í stað orðanna „beint til Neytendastofu“ í lokamálslið 1. mgr. 12. gr. laganna kemur: í ríkissjóð.

XXVIII. KAFLI

Breyting á lögum um rafrænar undirskriftir, nr. 28/2001, með síðari breytingum.

35. gr.

    3. málsl. 2. mgr. 19. gr. laganna orðast svo: Eftirlitsgjaldið skal innheimt af Neytendastofu og renna í ríkissjóð.

XXIX. KAFLI

Breyting á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, með síðari breytingum.

36. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „gjald“ í lokamálslið 1. mgr. kemur: í ríkissjóð.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                 Gjald fyrir veiðikort skal vera 3.500 kr. fyrir hvert veiðiár og rennur það í ríkissjóð. Ráðherra ákvarðar fjárveitingu til Umhverfisstofnunar á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum til rannsókna, vöktunar og stýringar á stofnum villtra dýra og útgáfu veiðikorta. Ráðherra úthlutar fé til rannsókna af fjárveitingu skv. 2. málsl. að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar.

XXX. KAFLI

Breyting á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum.

37. gr.

    Í stað orðanna „skal það standa undir kostnaði við eftirlit stofnunarinnar“ í 11. mgr. 3. gr. laganna kemur: rennur það í ríkissjóð.

XXXI. KAFLI

Breyting á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 99/1999, með síðari breytingum.

38. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „rekstur Fjármálaeftirlitsins“ í 1. mgr. kemur: opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                 Eftirlitsgjald samkvæmt lögum þessum er innheimt af Fjármálaeftirlitinu og rennur í ríkissjóð.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Ráðherra skal á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum ákvarða fjárveitingu til reksturs Fjármálaeftirlitsins sem nemur að lágmarki áætlun fjárlaga um tekjur af eftirlitsgjaldi og greiðslur fyrir sértækar aðgerðir samkvæmt lögum þessum.

39. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „1. júlí“ í 1. mgr. kemur: 1. febrúar.
     b.      Í stað orðanna „1. júní“ í 2. mgr. kemur: 1. janúar.

XXXII. KAFLI

Breyting á lögum um umboðsmann skuldara, nr. 100/2010, með síðari breytingum.

40. gr.

    Við 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna bætist: sem rennur í ríkissjóð.

XXXIII. KAFLI

Breyting á lögum um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara, nr. 166/2011, með síðari breytingum.

41. gr.

    5. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Gjaldið rennur í ríkissjóð.

XXXIV. KAFLI

Breyting á lögum um vaktstöð siglinga, nr. 41/2003, með síðari breytingum.

42. gr.

    Í stað orðanna „til að mæta kostnaði af rekstri sjálfvirka tilkynningarkerfisins“ í 3. mgr. 5. gr. laganna kemur: í ríkissjóð.

XXXV. KAFLI

Breyting á lögum um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara, nr. 103/1994, með síðari breytingum.

43. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 2. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „sérstakan sjóð – flutningsjöfnunarsjóð olíuvara“ kemur: ríkissjóð.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum skal ráðherra ákvarða fjárveitingu í sérstakan sjóð, flutningsjöfnunarsjóð olíuvara, sem nemur að lágmarki áætlun fjárlaga um innheimtu tekna af gjaldi skv. 1. málsl.

44. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Orðin„til flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara“ í 1. mgr. falla brott.
     b.      Í stað orðsins „flutningsjöfnunarsjóðs“ í 3. mgr. kemur: ríkissjóðs.

XXXVI. KAFLI

Breyting á lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990, með síðari breytingum.

45. gr.

    1. tölul. 2. mgr. 3. gr. laganna fellur brott.

46. gr.

    1. málsl. 18. gr. laganna orðast svo: Árlegt framlag til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða skal ákvarðað á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum.

47. gr.

    23. gr. a laganna orðast svo:
    Árleg fjárveiting til starfsendurhæfingarsjóða, sem starfræktir eru á grundvelli laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, skal ákvörðuð á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum.

XXXVII. KAFLI

Breyting á lögum um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, nr. 60/2012, með síðari breytingum.

48. gr.

    1. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
    Árleg fjárveiting til starfsendurhæfingarsjóða, sem starfræktir eru á grundvelli laga þessara, skal ákvörðuð á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum.

XXXVIII. KAFLI

Breyting á lögum um sölu fasteigna og skipa, nr. 70/2015, með síðari breytingum.

49. gr.

    Í stað 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Árleg fjárveiting til að standa straum af kostnaði við störf eftirlitsnefndar fasteignasala skal ákvörðuð á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum. Sérhver fasteignasali skal greiða árlegt eftirlitsgjald í ríkissjóð að fjárhæð 75.000 kr.

XXXIX. KAFLI

Breyting á lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001, með síðari breytingum.

50. gr.

    Í stað 1. og 2. málsl. 8. mgr. 10. gr. laganna koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Leyfishafi rannsóknar- og vinnsluleyfis skal á gildistíma leyfis greiða árlegt framlag í ríkissjóð. Í rannsóknar- og vinnsluleyfi skal nánar kveðið á um upphaflegt framlag sem og árlegt framlag. Ráðherra skal á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum ákvarða fjárveitingu til sérstaks menntunar- og rannsóknarsjóðs.

51. gr.

    Í stað orðanna „í sérstakan menntunar- og rannsóknarsjóð“ í 9. tölul. 1. mgr. 11. gr. laganna kemur: skv. 8. mgr. 10. gr.

XL. KAFLI

Breyting á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003, með síðari breytingum.

52. gr.

    1. tölul. 2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo: Fjárveiting á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum ár hvert.

XLI. KAFLI

Breyting á lögum um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003, með síðari breytingum.

53. gr.

    Við 1. mgr. 17. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Innheimtur á kröfum sjóðsins renna í ríkissjóð.

54. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Greiða skal sérstakt ábyrgðargjald af greiddum vinnulaunum, þóknun og reiknuðu endurgjaldi, hvaða nafni sem nefnist, sem skattskylt er og rennur gjaldið í ríkissjóð.
     b.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Tekjur Ábyrgðasjóðs launa eru árleg fjárveiting á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum, sem nemur að lágmarki áætlun fjárlaga um innheimtu tekna af ábyrgðargjaldi.
     c.      Orðin „og skoðast það sem lántaka“ í 2. málsl. 3. mgr. falla brott.

XLII. KAFLI

Gildistaka.

55. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með frumvarpi þessu, sem samið var í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, að teknu tilliti til ákvæða laga nr. 123/2015, um opinber fjármál, er lagt til að ákvæði um markaðar skatttekjur ríkissjóðs verði felld brott. Með lögum um opinber fjármál var tekið upp breytt fyrirkomulag rammastýringar á útgjöldum ríkisins, sem felur m.a. í sér að horfið er frá því að fjármagna verkefni með beinni mörkun skatttekna og að reikningsskilum ríkisins verður breytt í það horf að skatttekjur færast hjá ríkissjóði en ekki á reikninga einstakra rekstraraðila og verkefna. Þessar breytingar snerta þannig meðferð tekna hjá ríkissjóði í heild og einstökum aðilum í A-hluta ríkissjóðs. Gengið er út frá því að framlög til viðkomandi rekstraraðila og verkefna verði í mörgum tilfellum sambærileg því sem hinar mörkuðu tekjur hefðu orðið og frumvarp þetta felur ekki í sér skerðingu á fjárheimildum. Engu að síður felst í frumvarpinu að verði það að lögum mun það falla innan fjárstjórnarvalds Alþingis að leggja mat á umfang stofnanareksturs og verkefna og formleg ákvörðun um ráðstöfun fjármuna til þeirra færist þannig í auknum mæli úr sérlögum í fjárlög.
    Sambærilegt frumvarp, um breytingar á ýmsum lagaákvæðum um markaðar tekjur ríkissjóðs, var samið af fjármála- og efnahagsráðuneytinu og lagt fram af meiri hluta fjárlaganefndar á 143. löggjafarþingi 2013–2014, sbr. þskj. 588, 306. mál, þar sem lagt var upp með að leggja af markaðar tekjur þannig að þær rynnu í ríkissjóð og yrðu einungis tekjufærðar þar en ekki í bókhaldi einstaka ríkisaðila. Frumvarpið hlaut ekki afgreiðslu á þinginu. Líkt og í því frumvarpi eru með frumvarpi þessu ekki lagðar til skerðingar á framlögum til stofnana eða einstakra verkefna heldur eingöngu breyting á framsetningu reikningsskila. Þannig er gert ráð fyrir því að í stað þess að hinir mörkuðu tekjustofnar renni til tiltekinna rekstraraðila komi beint framlag úr ríkissjóði sem í mjög mörgum tilfellum yrði jafnhátt áætluðum tekjum af viðkomandi tekjustofni.
    Í 1. mgr. 51. gr. laga um opinber fjármál er kveðið á um skilgreiningu og flokkun tekna samkvæmt alþjóðlegum staðli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um fjármál hins opinbera, svokölluðum GFS-staðli (e. Government Finance Statistics Manual), sem byggist á þjóðhagsreikningakerfi Sameinuðu þjóðanna. Í 3. mgr. 51. gr. er mælt fyrir um að auk tekjufærslu hjá ríkissjóði skuli rekstrartekjur ríkisaðila í A-hluta tekjufærðar í reikningum þeirra. Af því leiðir að allar aðrar tekjur skuli eingöngu færast til tekna í yfirlit fyrir ríkissjóð í heild. Af þessu leiðir að breyta þarf ákvæðum í gildandi lögum um skatttekjur sem markaðar eru tilteknum stofnunum og verkefnum án þess að gjaldendum sé veitt sérgreint endurgjald í formi þjónustu á móti.
    Í frumvarpi þessu er því lagt til að ákvæði um markaðar skatttekjur ríkissjóðs í fjölda laga verði felld brott og þannig tekið á veikleika í fjárlaga- og áætlanagerð ríkisins sem felst í ráðstöfun skatttekna með sérlögum. Í stað mörkunar muni slíkir tekjustofnar renna í ríkissjóð og framlög verða veitt til viðkomandi aðila og verkefna í samræmi við ákvarðanir Alþingis á hverju fjárlagaári. Að mati fjármála- og efnahagsráðuneytisins mun það auka skilvirkni og gegnsæi við meðferð fjárveitingavalds Alþingis.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
2.1 Forsaga.
    Með vísan í 51. gr. laga um opinber fjármál er óhjákvæmilegt að leggja þetta frumvarp fram og leggja með því til að markaðar skatttekjur verði lagðar af, enda er mælt fyrir um í ákvæðinu að slíkar tekjur færist eingöngu hjá ríkissjóði. Sú breyting á fyrirkomulagi fjármögnunar sem felst í ákvæðinu endurspeglar þá meginreglu að skatttekjur skuli ekki eyrnamerktar verkefnum eða rekstraraðilum heldur sé það í verkahring Alþingis að ákveða til hvaða aðila og verkefna skatttekjum er ráðstafað.
    Ríkisendurskoðun og fjárlaganefnd Alþingis hafa oftsinnis fundið að fyrirkomulagi markaðra tekna og hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tekið undir þau sjónarmið. Þannig segir í skýrslu sjóðsins með tillögum um nýja rammalöggjöf um opinber fjármál í janúar 2012 að það hve sértekjur og markaðar tekjur hafa færst mikið í vöxt sé alvarlegt vandamál fyrir fjárlaga- og áætlanagerð, útgjaldastýringu og reikningshald hér á landi. Þar kemur einnig fram að á Íslandi séu 17% af vergum ríkisútgjöldum fjármögnuð með sértekjum eða mörkuðum skatttekjum, sem sé óvenjuhátt hlutfall á meðal þróaðra ríkja.
    Áður en lög um opinber fjármál voru samþykkt á Alþingi hafði fjármálaráðherra oft áréttað nauðsyn þess að styrkja fjármálastjórn ríkisins og tryggja betur fjárstjórnarvald þingsins með því að draga sem allra mest úr vægi markaðra tekna. Þannig segir í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Kristjáns Þórs Júlíussonar um markaðar tekjur og ríkistekjur á 138. löggjafarþingi (þskj. 1057, 493. mál) að í tengslum við fjárlagagerð hafi ráðuneytið haft þá stefnu að auka ekki vægi markaðra tekna í fjármögnun verkefna heldur draga helst úr þeim, og jafnvel hverfa nánast með öllu frá þeim. Í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um markaðar tekjur til vegamála, á 146. löggjafarþingi (þskj. 1075, 366. mál), kom fram að til þess að byggja undir það hlutverk Alþingis að ákvarða ráðstöfun fjármagns til einstakra málaflokka væri í vinnslu í ráðuneytinu frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum þar sem lagt yrði til að markaðar skatttekjur yrðu lagðar af.

2.2 Flokkun ríkistekna og fjárveitingavald Alþingis.
    Í 51. gr. laga um opinber fjármál er kveðið á um að tekjur A-hluta ríkissjóðs skuli skilgreindar og flokkaðar samkvæmt alþjóðlegum staðli, svokölluðum GFS-staðli. Megintekjuflokkar GFS-staðalsins eru skatttekjur, tryggingagjöld, fjárframlög og aðrar tekjur. Í staðlinum eru þessir meginflokkar skilgreindir nánar. Skatttekjur eru skilgreindar sem lögbundnar tilfærslur skattgreiðenda til hins opinbera án þess að á móti komi bein þjónusta eða umbun. Tryggingagjald sem lagt er á launagreiðslur og rennur til almannatrygginga er ekki skilgreint sem skattur þar sem greiðandinn er á móti talinn öðlast aðgang að almannatryggingum. Fjárframlög teljast framlög frá innlendum eða erlendum stjórnvöldum, þ.e. ríki og sveitarfélögum, eða frá alþjóðastofnunum. Aðrar tekjur greinast í eignatekjur, rekstrartekjur ríkissjóðs, rekstrartekjur ríkisaðila í A-hluta, sektir og skaðabætur, framlög önnur en fjárframlög og óskilgreindar tekjur.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að felld verði brott ákvæði laga um markaðar skatttekjur, þ.e. skatttekjur sem ráðstafað er til þess að standa undir kostnaði við tiltekna málaflokka, verkefni eða viðfangsefni án þess að veitt sé sérgreind þjónusta á móti til gjaldenda. Samkvæmt skilgreiningu eru skatttekjur lögboðin gjöld sem ríkið krefur einstaklinga eða lögaðila um án þess að á móti komi bein framlög eða þjónusta sem svarar beinlínis til gjaldanna. Markaðar skatttekjur eru því skatttekjur þar sem ekki er veitt sérgreind þjónusta á móti en eru engu að síður eyrnamerktar tilteknu viðfangi.
    Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að þeir aðilar og þau verkefni sem frumvarpið tekur til fái bein framlög úr ríkissjóði í samræmi við ákvörðun Alþingis í stað markaðra tekna. Þannig verði rofin þau beinu lagalegu tengsl milli tekna og útgjalda að tekjum ríkissjóðs sé í lögum sjálfvirkt beint í tiltekna útgjaldafarvegi. Þess í stað muni Alþingi, sem fer með fjárveitingavaldið, ákveða fjárheimildir málaflokka við afgreiðslu fjárlaga. Við því er þó að búast að tengingu milli tekna og útgjalda verði í mörgum tilfellum viðhaldið, standi til þess efnisleg rök.
    Í frumvarpi þessu er gerður greinarmunur á mörkuðum tekjum sem lög kveða á um að skuli varið til að fjármagna útgjöld tiltekinna málaflokka, stofnana eða verkefna og markaðra rekstrartekna stofnana, þ.e. tekna sem varið er til að fjármagna útgjöld stofnana eða verkefna samkvæmt lögum sem ekki teljast skatttekjur. Gert er ráð fyrir að ákvæði laga um rekstrartekjur ríkisaðila þar sem skilyrt er að á móti komi sérgreind þjónusta stofnunar (þjónustugjöld) standi áfram. Dæmi um slíkar lögboðnar rekstrartekjur eru greiðslur fyrir auglýsingar í Stjórnartíðindum og ýmis skráningar- og eftirlitsgjöld sem standa undir sérgreindri þjónustu sem veitt er gjaldendum og þar sem fjárhæð er ekki ákvörðuð í lögum heldur á grundvelli kostnaðarþátta.

2.3 Sjónarmið um markaðar tekjur.
    Markaðar tekjur geta verið breytilegar í takt við hagsveiflur, eftirspurn eða aðra hagræna þætti án þess að breytingin sé í beinu sambandi við fjárþörf viðkomandi stofnunar eða í samræmi við ákvörðun Alþingis um fjármögnun tiltekinna verkefna. Má þar nefna (1) tekjur af bensíngjaldi og framlög til framkvæmda í vegamálum, (2) tekjur af tryggingagjaldi og útgjöld starfsendurhæfingarsjóða og (3) tekjur af útgáfu leyfa og rekstrarkostnað Samgöngustofu.
    Færsla markaðra skatttekna í reikninga stofnana án tillits til þeirrar heimilda sem Alþingi hefur veitt í fjárlögum og fjáraukalögum til að ráðstafa tekjunum hefur valdið ýmsum vandkvæðum og flækjum í reikningsuppgjöri stofnana og tafið fyrir framlagningu árlegra lokafjárlaga. Má þar nefna óvissu í viðskiptastöðu innan ársins gagnvart ríkissjóði, óskýra stöðu gagnvart fjárheimildum og myndun svonefnds bundins eigin fjár í reikningum stofnana. Þá hefur ósamræmi skapast þegar ríkisaðilum er fært til tekna og eignar í uppgjöri ríkisreiknings meira af tekjum ríkissjóðs en heimilað hefur verið í fjárlögum og fjáraukalögum. Þetta fyrirkomulag kallar á talsverða vinnu við utanumhald um slíkar tekjur og ráðstöfunarrétt á þeim bæði í fjárlögum og ríkisreikningi með tilheyrandi kostnaði stjórnsýslunnar.
    Vegagerðin er gjarnan nefnd sem dæmi um stofnun sem alfarið átti að fjármagna með mörkuðum skatttekjum. Reyndin hefur verið sú að útgjaldaheimildir stofnunarinnar í fjárlögum hafa jafnan verið úr takti við markaðar tekjur til málaflokksins. Samkvæmt lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., renna tekjur af vörugjöldum á ökutæki og tekjur af almennu vörugjaldi á bensín í ríkissjóð en tekjum af sérstöku vörugjaldi á bensín skal varið til vegagerðar samkvæmt vegáætlun. Tekjur samkvæmt lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, renna til Vegagerðarinnar. Tekjur samkvæmt lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, renna til ríkissjóðs. Í öllum þessum tilvikum er um að ræða álögur á eigendur eða rekstraraðila ökutækja en tekjunum er ýmist ætlað að fjármagna útgjöld vegamála eða renna í ríkissjóð. Í fjárlögum eru öll framlög til vegamála talin vera fjármögnuð með mörkuðum skatttekjum nema annað hafi sérstaklega verið ákveðið. Nægi markaðar tekjur viðkomandi árs ekki til að fjármagna fjárveitingar hefur verið gert ráð fyrir að ríkissjóður veiti stofnuninni vaxtalaust lán fyrir því sem upp á vantar og að það verði endurgreitt af framtíðartekjum sem markaðar eru vegamálum og Vegagerðinni. Uppsöfnuð áhrif þessa fyrirkomulags eru þau að samkvæmt ríkisreikningi 2016 er höfuðstóll Vegagerðarinnar í árslok jákvæður um tæpa 2 milljarða. kr. en bundið eigið fé neikvætt um 17 milljarða kr. Þetta þýðir að reikningsfærð útgjöld hafa verið 2 milljörðum kr. innan fjárheimilda en fjárveitingar fjármagnaðar með mörkuðum tekjum 17 milljörðum kr. umfram tekjurnar. Vandséð er að þetta fyrirkomulag þjóni tilgangi sínum og gagnsærra og einfaldara væri að láta þessa tekjustofna renna í ríkissjóð og veita í þess stað bein framlög til reksturs og framkvæmda í vegamálum í samræmi við fjárþörf og forgangsröð stjórnvalda og Alþingis um umsvifin á hverju fjárlagaári. Þó svo að þessum bókhaldslegu aðgerðum við að sýna fjármögnun útgjalda í fjárlögum yrði hætt mundi eftir sem áður vera auðvelt að bera saman fjárveitingar til framkvæmda í vegamálum og tekjur af bifreiðum og umferð því tekjurnar verða eftir sem áður færðar í bókhaldi ríkisins og upplýsingar um tekjur, fjárheimildir og gjöld þar jafn aðgengilegar og tiltækar og verið hefur.

2.4 Ráðstöfun markaðra tekjustofna.
    Mörg þeirra verkefna sem í dag njóta markaðra tekna eru mikilvæg og tilefni er til að árétta að með þessu frumvarpi er ekki dregið úr gildi þeirra. Það mundi í einhverjum tilfellum orka tvímælis ef framlög til viðkomandi verkefna yrðu til framtíðar lægri en sem nemur tekjum sem þeim tengjast og þótt ekki sé um lagaleg sjónarmið að ræða kynni að verða litið á það sem forsendubrest af hálfu hagsmunaaðila eða almennings ef misbrestur yrði á því að framlög væru sambærileg viðkomandi tekjustofnum. Gengið er út frá því að slík sjónarmið verði í mörgum tilvikum lögð til grundvallar af hálfu Alþingis og stjórnvalda við ákvörðun fjárheimilda. Að einhverju marki er heppilegt að kveða í lögum á um ákvörðun framlags til samræmis við tekjur, sem nefna má lögbundið framlag. Slíkt kann að vera nauðsynlegt vegna lagalegra skuldbindinga eða samkvæmt þjóðarétti. Í öðrum tilfellum geta komið upp álitamál um hvort tilteknum tekjustofnum, sem hingað til hafa verið markaðir, verður viðhaldið eða þeir aflagðir en í þessu frumvarpi er ekki tekin afstaða til slíks.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1 Efnisatriði frumvarpsins.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum sem miða að því að afnema ákvæði um mörkun tekna sem ekki teljast til rekstrartekna. Um er að ræða skatttekjur sem ráðstafað er með lagaákvæðum til þess að standa undir kostnaði við tiltekna málaflokka, verkefni eða rekstur án þess að veitt sé sérgreind þjónusta á móti. Í daglegu tali hefur þetta verið nefnt eyrnamerking skatta.
    Lagt er til að í stað þess að markaðar skatttekjur renni til viðkomandi rekstraraðila eða verkefna renni þær í ríkissjóð og í stað mörkuðu teknanna komi bein framlög úr ríkissjóði samkvæmt ákvörðun Alþingis. Þótt bókhaldslegri mörkun tekna verði hætt verður unnt að bera saman fjárveitingar til viðkomandi aðila eða verkefna og tekjur af viðkomandi skattstofni í bókhaldi ríkisins. Þetta er sérstaklega mikilvægt í þeim tilvikum þegar rök standa til þess að halda samræmi þar á milli. Verði frumvarpið að lögum munu markaðar skatttekjur þannig ekki færast í reikninga stofnana heldur hjá ríkissjóði en Alþingi getur, ef rök standa til þess, tryggt að stofnun fái beint framlag úr ríkissjóði á grundvelli fjárlaga sem er jafnhátt áætluðum tekjum. Frumvarpið felur því ekki í sér skerðingu á framlögum til stofnana heldur fyrst og fremst breytingu á framsetningu reikningsskila þeirra. Þá er ekki er gert ráð fyrir breytingum á reikningshaldi eða öðru fyrirkomulagi vegna sértekna stofnana sem ekki teljast markaðar skatttekjur.

3.2 Markmið sem stefnt er að.
    Verði frumvarp þetta að lögum færast markaðar skatttekjur ekki lengur í reikninga stofnunar heldur hjá ríkissjóði eingöngu. Í mörgum tilfellum má gera ráð fyrir að Alþingi ákvarði framlag til verkefnis eða stofnunar sem er jafnhátt áætluðum tekjum en í öllu falli verða framlög undirorpin fjárveitingar- og fjárstjórnarvaldi Alþingis í stað þess að umræddar ríkistekjur streymi sjálfvirkt líkt og nú er.
    Með frumvarpinu er öðrum þræði ætlunin að draga úr sveiflum í fjármálum einstakra ríkisaðila og eyða óvissu sem getur skapast um hverjar séu fjárheimildir stofnana á fjárlagaárinu. Sömuleiðis er ætlunin að stuðla að því að stofnanir sitji í auknum mæli við sama borð við ákvörðun fjárheimilda og að ákvarðanir um ráðstöfun ríkistekna verði teknar í fjárlögum og fjáraukalögum eingöngu.
    Loks er afnám markaðra skatttekna til þess fallið að einfalda fjárlagagerð og reikningsskil stofnana, gerð ríkisreiknings og lokafjárlaga og fjármálastjórn stofnana og ríkisins í heild.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins kemur ekki beint inn á svið stjórnarskrárinnar en styrkir þó fjárveitingar- og fjárstjórnarvald Alþingis sem leiðir af ákvæðum hennar.
    Efnahags- og framfarastofnunin og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa bent á að umfang markaðra tekna hérlendis sé meira en almennt gengur og gerist. Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins með tillögum um nýja rammalöggjöf um opinber fjármál kom fram að um 17% af ríkisútgjöldum eru fjármögnuð með sértekjum eða mörkuðum tekjum. Áformin eru þannig í samræmi við ábendingar alþjóðastofnana og bestu framkvæmd við fjárlagagerð í þeim löndum sem stjórnvöldum er tamt að bera sig saman við.
    Að því marki sem alþjóðlegar skuldbindingar eða ábendingar alþjóðastofnana krefjast er gert ráð fyrir því varðandi tiltekna tekjustofna að samsvarandi fjárhæð renni til verkefna sem skuldbindingarnar taka til.

5. Samráð.
    Líkt og nefnt er í inngangskafla felast í frumvarpi þessu breytingar á reikningsskilum þannig að skatttekjur færast hjá ríkissjóði en ekki hjá einstökum rekstraraðilum. Frumvarpið hefur ekki áhrif á fjárheimildir. Segja má að frumvarpið snerti helst þá sem hafa tekið á móti mörkuðum skatttekjum milliliðalaust sem og þá sem greitt hafa viðkomandi skatta. Margvíslegt samráð hefur átt sér stað vegna málsins og skal hér nánar greint frá því.

5.1 Frumvarp fjárlaganefndar 2014.
    Frumvarp þetta er efnislega sambærilegt frumvarpi sem flutt var af meiri hluta fjárlaganefndar Alþingis á 143. löggjafarþingi árið 2014 (þskj. 588, 306. mál) sem samið var í fjármála- og efnahagsráðuneytinu að beiðni nefndarinnar. Líkt og rakið er í greinargerð með því frumvarpi kynnti nefndin öðrum ráðuneytunum áform sín um framlagningu frumvarpsins og ráðuneytin komu flest athugasemdum á framfæri við nefndina. Í mörgum tilvikum lögðust þau gegn frumvarpinu, þrátt fyrir að frumvarpið fæli ekki í sér skerðingu á rekstrarumfangi stofnana. Nefndin flokkaði athugasemdir ráðuneyta í þrennt.
     a.      Oft væru tengsl á milli kostnaðar stofnunar og tekjuöflunar, þ.e. aukin tekjuöflun markaðra tekna eða rekstrartekna kallar jafnframt á aukin útgjöld.
     b.      Mörkun tekna byggist á samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins eða samræmdu evrópsku regluverki.
     c.      Markaðar tekjur byggist á áralangri hefð og að almennt ríki sátt um núverandi fyrirkomulag.
    Meiri hluti fjárlaganefndar taldi að í greinargerð frumvarpsins væri athugasemdum ráðuneytanna svarað og að ekki væri ástæða til þess að taka undir athugasemdirnar nema í þeim undantekningartilvikum þegar ríkið leggur á skatta og innheimtir fyrir aðra en ríkisaðila og voru ekki lagðar til lagabreytingar í þeim tilfellum. Þar er um að ræða gjöld til höfundarétthafa og búnaðargjald, sem bæði hafa verið aflögð.
    Jafnframt bárust fjárlaganefnd Alþingis ellefu umsagnir um frumvarpið við þinglega meðferð þess. Helst er þar að nefna að stofnanir sem að miklu eða öllu leyti eru reknar fyrir markaðar tekjur lögðust gegn frumvarpinu. Þá voru Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins mótfallin frumvarpinu að því er varðar breytta ráðstöfun tryggingagjalds. Hér verður farið yfir hverja og eina umsögn sem bárust nefndinni.
     a.      Vinnueftirlit ríkisins bendir á að í frumvarpinu sé kveðið á um breytingar á ákvæðum um rekstrartekjur stofnunarinnar, enda þótt markmið frumvarpsins væri að taka á mörkuðum skatttekjum. Í frumvarpinu voru lagðar til breytingar á 49. gr. og 74. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Ábending Vinnueftirlitsins er réttmæt að mati fjármála- og efnahagsráðuneytisins þar sem um er að ræða tekjur samkvæmt gjaldskrá sem samkvæmt reglum stjórnsýsluréttar um þjónustugjöld taka mið af kostnaði við þau verkefni sem um ræðir. Því eru ekki tillögur um breytingar á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum í frumvarpi þessu.
     b.      Umsögn Vátryggingafélags Íslands lýtur eingöngu að nýtingu á uppsöfnuðu bundnu eigin fé Mannvirkjastofnunar. Hún tengist þannig ekki meðferð markaðra skatttekna með beinum hætti og því er ekki tekin afstaða til hennar í þessu frumvarpi.
     c.      Í ábendingum utanríkisráðuneytisins kemur fram að nauðsynlegt sé að viðhalda tengslum milli markaðsgjalds og framlaga til Íslandsstofu og að Samtök atvinnulífsins geri kröfu um að markaðsgjald falli niður ef bein tengsl tekna og framlaga til Íslandsstofu verða rofin. Telur utanríkisráðuneytið ekki grundvöll til að breyta fyrirkomulaginu. Því er til að svara að enda þótt núverandi fyrirkomulag gangi gegn frummarkmiði þessa frumvarps er tekið mið af kröfum Samtaka atvinnulífsins og lagt til að Íslandsstofa njóti óbreyttra framlaga af fjárlögum með því að kveða á um lögbundið framlag sem sé jafnhátt áætluðum tekjum af markaðsgjaldi. Þannig verður það ekki í verkahring Alþingis að ákveða framlög til stofnunarinnar heldur verða þau áfram fyrirframákveðið hlutfall af breytilegum skattstofni líkt og nú er. Í ljósi þess að með þessu munu framlögin sveiflast með breytingum á gjaldstofninum verður að telja fyrirkomulagið óheppilegt til þess að mæta fjárþörf stofnunarinnar.
     d.      Í umsögn Samtaka atvinnulífsins segir að óásættanlegt sé að draga úr mörkun ríkistekna án þess að afnema jafnframt tekjustofninn með vísan til tilgangs upphaflegrar lagasetningar um hinn markaða gjaldstofn. Á þetta sjónarmið getur fjármála- og efnahagsráðuneytið þó ekki fallist alfarið á í ljósi þess að Alþingi getur eftir sem áður viðhaldið tengslum milli tiltekins gjalds og framlaga til viðkomandi rekstraraðila eða verkefnis. Þá mótmæla samtökin breytingum á ráðstöfun tryggingagjalds, enda sé því ætlað að fjármagna réttindi launafólks og byggist á samkomulagi milli ríkisins og aðila vinnumarkaðarins. Tekið er tillit til sjónarmiða samtakanna að stóru leyti í þessu frumvarpi. Loks mótmæla samtökin aftengingu markaðsgjalds við rekstur Íslandsstofu sem sé fyrst og fremst samstarfsvettvangur opinberra aðila og einkaaðila um kynningar- og ímyndarmál Íslands en ekki hefðbundin ríkisstofnun. Um þetta atriði vísast til umfjöllunar um umsögn utanríkisráðuneytisins undir c-lið hér að framan. Ekki er gert ráð fyrir að framlög til Íslandsstofu verði ákveðin með fjárlögum enda þótt slíkt fyrirkomulag væri eðlilegra þegar um er að ræða samstarfsverkefni ríkisins og einkaaðila.
     e.      Samband íslenskra sveitarfélaga gerir fjölmargar athugasemdir við frumvarp meiri hluta fjárlaganefndar. Snúast þær mikið til um ætluð fjárhagsleg áhrif á sveitarfélög sem sambandið telur leiða af frumvarpinu. Í því sambandi ber að árétta að frumvarp þetta, líkt og frumvarp fjárlaganefndar, felur ekki í sér breytingar á rekstrargrundvelli þeirra aðila sem hafa til þessa verið móttakendur markaðra skatttekna. Eftirfarandi eru viðbrögð við einstökum athugasemdum sem settar eru fram í umsögninni, að því marki sem þær tengjast efni frumvarpsins.
              *      Gerð er athugasemd við þá fyrirætlan að greiðslur frá sveitarfélögum skv. 24. gr. laga um skráningu og mat fasteigna renni í ríkissjóð í stað þess að vera markaðar Þjóðskrá Íslands. Að mati Sambandsins er nauðsynlegt að þeim kostnaði sem greiðslurnar hafa staðið undir sé haldið aðgreindum í bókhaldi Þjóðskrár. Undir það síðastnefnda getur fjármála- og efnahagsráðuneytið tekið. Í umsögninni segir að um sé að ræða gjald fyrir tilgreinda þjónustu. Í frumvarpi þessu er tekið undir það sjónarmið að hluta og eru ekki lagðar til breytingar á þeim hluta gjalda í 24. gr. sem uppfyllir skilyrði þess að geta talist þjónustugjald, heldur einungis á lögákveðnu 850 kr. gjaldi fyrir vélrænar fyrirspurnir úr þinglýsingabók.
              *      Gerð er athugasemd við tillögur um breytingar á lögum um tryggingagjald, enda sé almenn sátt um núverandi fyrirkomulag ráðstöfunar tryggingagjalds og atvinnutryggingagjalds. Í frumvarpi þessu er ekki gert ráð fyrir að mörkun gjaldanna verði að fullu afnumin.
              *      Gerð er athugasemd við þá fyrirætlan að leggja niður Skipulagssjóð og sértekjur hans með breytingum á skipulagslögum. Með frumvarpi fjárlaganefndar var lögð til sú breyting að sérstakar tekjur sjóðsins féllu niður og í stað fjárveitinga úr honum kæmi beint framlag í fjárlögum á sömu forsendum. Ráðgert er í frumvarpi þessu að fjárveiting til sjóðsins verði óbreytt en að forminu til færist ákvörðun um fjárheimildir til Alþingis og fjárveitingar verði í höndum ráðherra. Ráða má af athugasemd sambandsins að hætta sé talin á að fjárveitingar til sjóðsins verði úr takti við tekjur af skipulagsgjaldinu en að mati ráðuneytisins er ekki hætta á því að fjárveitingar til Skipulagssjóðs skerðist þótt ráðstöfun umræddra skatttekna yrði færð að fullu undir fjárstjórnarvald Alþingis.
              *      Athugasemd er gerð við að gjald samkvæmt lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum sem runnið hefur í ofanflóðasjóð renni þess í stað í ríkissjóð, með þeim rökum að verkefni ofanflóðasjóðs hafi mikla þýðingu fyrir sveitarfélög. Ráðuneytið tekur undir rökin en þau standa ekki undir athugasemdinni, enda var gert ráð fyrir því í frumvarpi fjárlaganefndar að sjóðurinn nyti framlaga á fjárlögum í stað hinna mörkuðu tekna. Jafnframt er í athugasemdinni bent á að frumvarp fjárlaganefndar hafi ekki kveðið á um ráðstöfun á eigin fé ofanflóðasjóðs. Því er til að svara að frumvarp fjárlaganefndar gerði ekki ráð fyrir breytingum á starfsemi sjóðsins. Sama tilhögun er lögð til í frumvarpi þessu.
     f.      Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) bendir á að sú þjóðaréttarlega skuldbinding hvíli á Íslandi samkvæmt EES-rétti að rekstrargjöldum og tíðni- og númeragjöldum samkvæmt lögum um Póst- og fjarskiptastofnun skuli eingöngu ráðstafað til þeirra eftirlitsþátta sem taldir eru upp í tilskipun 2002/20/EB sem tekin hefur verið upp í EES-samninginn. Tekið hefur verið tillit til framangreindra sjónarmiða við gerð þessa frumvarps og er gert ráð fyrir að þótt mörkun skatttekna verði afnumin séu umræddar skuldbindingar teknar með í reikninginn við undirbúning og meðferð fjárlaga hvers árs, enda kann að stofnast endurgreiðslukrafa á hendur ríkissjóði ef misbrestur er á því að samsvarandi fjármunum sé veitt í viðkomandi verkefni. Þannig er unnt að jafna út ófyrirséðar sveiflur milli ára án þess að fjármunirnir renni í reynd til annarra verkefna en kveðið er á um í tilskipuninni. Með þessu er staðinn vörður um að gjöld sem lögð eru á eftirlitsskylda aðila standi undir framlögum vegna eftirlits stofnunarinnar.
                 Í umsögn PFS er bent á sérstöðu hennar og mikilvægi þess að hún búi yfir nægilegu fjárhagslegu sjálfstæði. Ráðuneytið telur fjárhagslegt sjálfstæði eftirlitsstofnana almennt mikilvægt en bendir á að afnám mörkunar tekna sé ekki sem slíkt til þess fallið að skerða rekstrargrundvöll eða sjálfstæði stofnunarinnar. Sú ábyrgð mun hvíla á Alþingi sem endranær að tryggja að stofnunin geti sinnt verkefnum sínum með viðunandi hætti og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Þetta er í samræmi við ráðleggingar í skýrslu Cullen International frá 2014 sem vísað er til í umsögn PFS, þar sem fram kemur á bls. 35 að sjálfstæði feli í sér (i) aðskilnað frá eftirlitsskyldum aðilum, (ii) að stofnunin verði ekki fyrir gerræðislegri pólitískri íhlutun og (iii) getu til að starfa með skilvirkum hætti sem tryggð er með fullnægjandi mannafla, fjármagni og eftirlitsheimildum. 1
     g.      Í umsögn Lyfjastofnunar er bent á ósamræmi á milli markmiða frumvarpsins frá 2014 og útfærslu á tillögðum breytingum á lyfjalögum. Ráðuneytið hefur tekið mið af þeim ábendingum og í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að sértekjur og gjöld þar sem sérgreind þjónusta er veitt á móti, þ.e. þjónustugjöld sem taka mið af kostnaði vegna hvers og eins gjaldanda, renni áfram beint til Lyfjastofnunar. Eftir stendur í frumvarpinu að gert er ráð fyrir að lyfjaeftirlitsgjald renni í ríkissjóð og Alþingi ákvarði þess í stað framlag til að standa undir kostnaði við eftirlit stofnunarinnar.
                 Í umsögninni er fettur fingur út í þá fullyrðingu í greinargerð með frumvarpi fjárlaganefndar að það feli ekki í sér skerðingu á rekstrarumhverfi stofnana og segir í umsögninni að fullyrðingin stangist á við það markmið frumvarpsins að Alþingi taki ákvörðun um fjármögnun verkefna með hliðsjón af fjárþörf þeirra. Er því haldið fram að almenn sjónarmið um afnám markaðra skatttekna sem fram koma í frumvarpinu eigi ekki við um Lyfjastofnun og að sú tilhögun sem lögð er til kunni að „leiða til almennrar hnignunar Lyfjastofnunar og almennt lakari þjónustu við lyfjafyrirtæki á Íslandi“. Hvað þetta varðar vísar ráðuneytið til umfjöllunar hér að framan um ábyrgð Alþingis við meðferð fjárveitingavalds og þær leiðir sem Alþingi hefur við beitingu þess, m.a. að bera framlög saman við þá skattstofna sem fram til þessa hafa verið markaðir stofnunum.
     h.      Landssamband veiðifélaga leggst í umsögn sinni gegn því að skatttekjur sem markaðar hafa verið Fiskræktarsjóði renni í ríkissjóð og sjóðurinn verði fjármagnaður með framlagi í fjárlögum. Samkvæmt umsögninni telur sambandið að með breytingunni yrði sjóðurinn af tekjum ef það væri undir Alþingi komið hvernig framlögum til hans yrði háttað. Hvað slík sjónarmið varðar vísar ráðuneytið til þess sem að framan greinir um að gera verði ráð fyrir að í mjög mörgum tilfellum verði framlag úr ríkissjóði jafnhátt áætluðum tekjum vegna skatttekna sem fram til þessa hafa verið markaðar. Til þess geta staðið pólitísk rök að þótt tekjur færist eingöngu hjá ríkissjóði verði sambandi haldið á milli þeirra og útgjalda til verkefna sem þeim tengjast.
     i.      Í umsögn Fjármálaeftirlitsins (FME) er bent á nauðsyn þess að stofnunin búi yfir fjárhagslegu sjálfstæði, þ.e. geti ákvarðað umfang fjárhagsáætlunar sinnar, ráðstafað fjármunum og forgangsraðað verkefnum innan fjárhagsáætlunar án pólitískra afskipta. Líkt og kunnugt er hefur lögbundið eftirlitsgjald sem staðið hefur undir rekstri FME tekið breytingum reglulega með hliðsjón af rekstraráætlun FME sem borin hefur verið undir ráðherra. Með þessu frumvarpi er komið til móts við áhyggjur sem hafa verið viðraðar um að breytingar á núverandi fyrirkomulagi bjóði heim hættu á pólitískum afskiptum af starfsemi FME með þeim hætti að um leið og mörkun tekna fellur brott er kveðið á um lögbundið framlag úr ríkissjóði til FME sem taki mið af áætluðum tekjum af eftirlitsgjaldinu á viðkomandi ári.
     j.      Fiskræktarsjóður bendir í umsögn á að sjóðurinn gæti átt erfitt með að uppfylla hlutverk sitt samkvæmt lögum verði hann af tekjum vegna frumvarps fjárlaganefndar. Í frumvarpinu var þó ekki gert ráð fyrir skerðingu á rekstrarhæfi sjóðsins frekar en annarra móttakenda markaðra tekna. Hið sama á við um frumvarp þetta.
     k.      Umsögn Alþýðusamband Íslands (ASÍ) lýtur að meginstefnu til að mörkuðum tekjum sem runnið hafa til Atvinnuleysistryggingasjóðs, Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga, Fæðingarorlofssjóðs, jöfnunar á örorkubyrgði og starfsendurhæfingarsjóða. Í henni er undirstrikað að tilurð og eðli viðkomandi tekna sé með öðrum hætti en annarra markaðra skatttekna. Um sé að ræða fyrirkomulag sem vísað er til í kjarasamningum og breytingar á ráðstöfun geti skoðast sem inngrip í þá samninga, „aðför að því réttindakerfi sem verkalýðshreyfingin hefur beitt sér fyrir að hér verði byggt upp“ og „nánast umbyltingu vinnumarkaðskerfisins hér á landi“. ASÍ lagðist þannig gegn þeim hluta frumvarpsins sem sneri að tryggingagjaldi og áhrifum frumvarpsins „á réttindakerfi launafólks“ en lýsti sig um leið reiðubúið til samstarfs um breytingar á frumvarpinu sem yrðu til þess að tryggja sátt um framgöngu þess. Andstaða ASÍ við frumvarp fjárlaganefndar var nokkuð hörð þrátt fyrir að fyrir lægi að ríkissjóður mundi áfram fjármagna útgjöld framangreindra sjóða að fullu og efnisleg áhrif á rétthafa væru því óveruleg.
                 Í frumvarpi þessu hefur verið komið til móts við framangreind sjónarmið að því er varðar Atvinnuleysistryggingasjóð, Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga og Fæðingarorlofssjóð. Á hinn bóginn er lagt til að framlög til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða og gjald til starfsendurhæfingarsjóða verði ákveðin í fjárlögum hvers árs. Ekki er gert ráð fyrir að sú breyting hafi áhrif á umfang framlaga til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða eða á rekstrarumfang og -hæfi starfsendurhæfingarsjóða. Hið opinbera mun áfram standa við gerða samninga og stuðla að jafnvægi á vinnumarkaði í samræmi við skuldbindingar sem stofnað hefur verið til þótt framlög til verkefna verði ákveðin í fjárlögum hvers árs.
                 Í umsögn ASÍ segir enn fremur að verði „bein tengsl“ gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra við sjóðinn rofin falli sátt um skattinn „um sjálfa sig“ og réttara væri þá að fella skattinn niður. Þarna virðist horft fram hjá því að frumvarp fjárlaganefndar gerði ráð fyrir því að í stað mörkunar gjaldsins kæmu framlög í framkvæmdasjóðinn úr ríkissjóði. Hitt er rétt að ef framlög Alþingis úr ríkissjóði yrðu lægri en sem nemur tekjum af sérstöku gjaldi samkvæmt lögum um málefni aldraðra er hætt við að það mæltist illa fyrir hjá aðilum vinnumarkaðarins og almenningi. Ekkert slíkt felst í þessu frumvarpi og fjármála- og efnahagsráðuneytið mælist ekki til þess að framlög í framkvæmdasjóðinn verði lægri en sem nemur tekjum af gjaldinu.

5.2 Frumvarp til laga um opinber fjármál.
    Við þinglega meðferð frumvarps til laga um opinber fjármál áttu þeir sem töldu sig eiga hagsmuna að gæta þess kost að koma að athugasemdum við það sem síðar varð 51. gr. laga um opinber fjármál. Í umsögnum frá aðilum vinnumarkaðarins komu fram athugasemdir við að með greininni væri lögð til breytt ráðstöfun á tryggingagjaldi eða öðrum mörkuðum tekjustofnum sem þeir hefðu samið um og talið ígildi iðgjalda. Að beiðni fjárlaganefndar tók ráðuneytið saman minnisblað, dags. 18. mars. 2015, þar sem fjallað var m.a. um skilgreiningu tryggingagjalds og meðferð tekna sem aflað er með álagningu þess:
          Samkvæmt GFS staðli er ekki litið á tryggingagjald (e. social contributions) sem skatt þar sem greiðandinn er talinn öðlast aðgang að almannatryggingum í staðinn. Það er lagt á launagreiðslur og er markað almannatryggingum. Tryggingagjaldið er samkvæmt GFS staðli greint í þrennt eftir því hver uppruni þess er eða í (1) tryggingagjald greitt af launþegum, (2) tryggingagjald greitt af atvinnurekendum og (3) reiknað tryggingagjald.
         Skattar á launagreiðslur og vinnuafl er eins og heitið ber með sér lagður á launagreiðslur og vinnuafl. Þeir eru annaðhvort lagðir á sem hlutfall af t.d. launagreiðslum eða sem ákveðin fjárhæð á launþega. Þessir skattar eru ekki markaðir almannatryggingum eins og tryggingagjald.
         Munurinn á skatti á launagreiðslur og tryggingagjaldi er að síðarnefndi tekjustofninn er markaður almannatryggingum, sem eru skilgreindar á þann veg að þeir tryggðu eiga rétt til félagslegra bóta eða þjónustu ef ákveðnar aðstæður koma upp (að uppfylltum ákveðnum skilyrðum). Undir almannatryggingar falla meðal annars lífeyristryggingar, sjúkratryggingar, atvinnuleysistryggingar og fæðingarorlofssjóður.
         Tryggingagjald eins og það er notað hér samsvarar hugtakinu „social contributions“ í GFS staðlinum og þjóðhagsreikningum (SNA2008). Tryggingagjald í hinni íslenskri notkun er aftur víðtækara og nær einnig til gjalda sem flokka á sem launaskatta. Eftirtaldir tekjupóstar undir tryggingagjald, þ.e. atvinnuleysisgjald, fæðingarorlofsgjald, iðgjald vegna slysatryggingar sjómanna og jafnvel ábyrgðargjald vegna tryggingar krafna vegna gjaldþrota vinnuveitenda. Hér eru greiðendur að kaupa ákveðna tryggingu fyrir bótum/þjónustu ef ákveðnar aðstæður koma upp. Öðru máli gegnir hins vegar um gjald til jöfnunar og lækkunar örorkubyrði lífeyrissjóða, gjald til starfsendurhæfingarsjóða og markaðsgjald. Hér er ekki um að ræða kaup á ákveðinni tryggingu heldur er verið að nýta tekjustofn til að fjármagna ákveðna starfsemi. Þess konar gjaldtaka á launagreiðslur er því flokkuð sem skattur á launagreiðslur.
         Tryggingagjald er álagt og innheimt samkvæmt lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, og skiptist í almennt tryggingagjald og atvinnutryggingagjald. Samkvæmt lögunum skulu tekjur af atvinnutryggingagjaldi renna til Atvinnuleysistryggingasjóðs og Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga en tekjum af almennu tryggingagjaldi skal ráðstafað í nánar tilgreindum hlutföllum til starfsendurhæfingarsjóða sem starfræktir eru á grundvelli laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu, lífeyrissjóða til jöfnunar og lækkunar á örorkubyrði sjóðanna og Fæðingarorlofssjóðs en það sem umfram er skal varið til að fjármagna útgjöld lífeyris- og slysatrygginga almannatrygginga. Tryggingagjaldið er innheimt í staðgreiðslu af innheimtumönnum ríkissjóðs og innheimtar tekjur renna í ríkissjóð en á móti myndast skuld ríkissjóðs við rétthafa gjaldsins í ríkisbókhaldinu. Skil ríkissjóðs á tekjunum til rétthafanna (innborganir inn á skuldina) ráðast af fjárþörf hvers rétthafa, nema hlutdeild lífeyrissjóða sem er skilað að fullu.
    Í minnisblaði ráðuneytisins til fjárlaganefndar kom einnig fram að yrði frumvarpið að lögum mundi ríkissjóður eftir sem áður fjármagna útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs, Fæðingarorlofssjóðs og almannatrygginga, enda væru þessir liðir hvort sem er ávallt fjármagnaðir að fullu miðað við lögboðinn bótarétt einstaklinga, þannig að þar yrði í raun engin breyting á. Hins vegar mætti gera ráð fyrir að lífeyrissjóðum og starfsendurhæfingarsjóðum yrði greitt samkvæmt fjárlögum. Fram kom í minnisblaðinu að ekki yrði annað séð en að efnislega hefðu lögin um opinber fjármál einungis óveruleg áhrif á fjárhagsleg samskipti milli ríkissjóðs og núverandi rétthafa tekna af tryggingagjaldi. Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar er síðan sett fram athugasemd vegna tryggingagjalds en þar kemur fram í niðurstöðukafla álitsins „Eftir sem áður er gert ráð fyrir að tryggingagjald verði markaðar tekjur og renni til Atvinnuleysistryggingasjóðs, Fæðingarorlofssjóðs og fleiri liða sem byggjast á samkomulagi ríkisins og aðila vinnumarkaðarins.“ Fjárlaganefnd gekk þannig út frá því að tryggingagjald yrði áfram markaðar tekjur sem rynnu til nánar tilgreindra rétthafa samkvæmt lögunum um tryggingagjald.

5.3 Faglegt samráð milli ráðuneyta.
    Í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og stjórnartillagna óskaði fjármála- og efnahagsráðuneytið eftir því að áform um lagasetningu um þær breytingar sem frumvarpið felur í sér yrðu sett í farveg innra samráðs. Vegna sumarleyfa fór formlegt innra samráð ekki fram um áformin en samráð var haft við önnur ráðuneyti um drög að frumvarpinu í desember 2017. Til þess er einnig að líta, sbr. kafla 5.1 hér að framan, að samráð var haft við önnur ráðuneyti vegna frumvarps meiri hluta fjárlaganefndar sem efnislega er sambærilegt frumvarpi þessu.
    Fjármála- og efnahagsráðueytinu er kunnugt um að til standi að breyta sumum þeirra lagabálka sem frumvarp þetta tekur til. Þar má einkum nefna lög um Íslandsstofu og lög um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

5.4 Samráð við almenning.
    Í samræmi við 3. gr. samþykktar ríkisstjórnarinnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og stjórnartillagna kynnti fjármála- og efnahagsráðuneytið áform um lagasetningu um þær breytingar sem frumvarp þetta felur í sér með því að birta áformaskjal á vef Stjórnarráðsins 19. júlí 2017. Skjalið var birt á vefnum á miðju sumri og því ekki búist við miklum viðbrögðum. Einungis barst ein umsögn, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, en í henni var fundið að því að of stuttur frestur væri gefinn til að skila inn ábendingum en að öðru leyti vísað í umsögn sambandsins til fjárlaganefndar árið 2014, sbr. kafla 5.1 hér að framan.

6. Mat á áhrifum.
6.1 Helstu áhrif og hagsmunaaðilar.
    Samkvæmt lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015, er það Alþingi sem ákveður fjárheimildir til málefnasviða og málaflokka í stað þess að veita þær sem fjárheimildir til einstakra ríkisaðila í A-hluta og verkefna eins og áður var. Fram að gildistöku laga nr. 123/2015 hafa þeir tekjustofnar sem falla undir frumvarp þetta verið eignaðir þeim stofnunum sem hafa að stærstum hluta borið ábyrgð á framkvæmd þeirra verkefna sem skattlagningin var mörkuð. Með lögum nr. 123/2015 er hins vegar gert ráð fyrir því að tekjustofn sé tengdur málaflokki í heild sinni en ekki einstökum aðilum sem annast framkvæmd hans. Því ber samkvæmt lögunum að láta tekjurnar renna í ríkissjóð en það er síðan hlutverk Alþingis að ákveða hversu miklu skuli ráðstafað til viðkomandi málaflokks hverju sinni. Loks er það verkefni hlutaðeigandi ráðherra samkvæmt lögunum að ákveða fjárveitingar til þeirra aðila sem annast framkvæmdina.
    Líta verður svo á að almennt orðalag 51. gr. laga nr. 123/2015 veiti ekki nægilega lagastoð til þess að markaðar tekjur samkvæmt skýrum ákvæðum sérlaga skuli ávallt renna í ríkissjóð. Ef ósamræmi er á milli almennra laga og sérlaga þá er það meginregla í lögskýringarfræðum að sérlög ganga framar almennum lögum. Lög um opinber fjármál eru almenn lög gagnvart sérlögum sem afmarka tekjur sem eiga að standa undir kostnaði við tiltekið verkefni. Ef markaðar tekjur sérlaga eiga að renna í ríkissjóð þá er óhjákvæmilegt að leggja fram frumvarp til breytinga á ákvæðum þeirra til að markmiði 51. gr. laganna verði náð. Má í þessu sambandi og vísa til fyrrnefnds frumvarps meiri hluta fjárlaganefndar um breytingar á ýmsum lagaákvæðum um markaðar tekjur ríkissjóðs frá 2014 og nefndarálits meiri hluta fjárlaganefndar (þskj. 481, 148. mál á 145. löggjafarþingi) með frumvarpi til laga um opinber fjármál þar sem segir í niðurstöðukaflanum: „Samhliða samþykkt frumvarpsins telur meiri hlutinn nauðsynlegt að hnykkja á breyttu verklagi varðandi uppgjör markaðra tekna ríkissjóðs. Nefndin undirbýr flutning frumvarps þar sem lagt verður til að dregið verði úr mörkun tekjustofna til liða á gjaldahlið fjárlaga.“
    Hvað varðar tryggingagjald verður þó að gera þann fyrirvara að vilji hefur komið fram um að tryggingagjald verði eftir sem áður markaðar tekjur, sbr. fyrrnefnt nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar með frumvarpi til laga um opinber fjármál. Tryggingagjaldi á Íslandi er ráðstafað með víðtækari hætti en GFS-staðallinn kveður á um og verður því að flokka það að hluta til sem launaskatta. Því vaknar hér sú spurning hvort gjald til jöfnunar og lækkunar örorkubyrði lífeyrissjóða, gjald til starfsendurhæfingarsjóða og markaðsgjald skuli einnig falla undir markaðar tekjur samkvæmt athugasemdum meiri hluta fjárlaganefndar. Hér er ekki um að ræða kaup á tryggingu heldur er verið að nýta tekjustofn til að fjármagna ákveðna starfsemi. Þess konar gjaldtaka á launagreiðslur hefur verið flokkuð sem skattur á launagreiðslur samkvæmt GFS-staðli. Í 1. mgr. 51. gr. laganna kemur skýrt fram að skilgreining og flokkun tekna A-hluta ríkissjóðs skuli gerð samkvæmt alþjóðlegum hagskýrslustaðli um opinber fjármál. Í ljósi þess að 50. gr. frumvarpsins (51. gr. laganna) var ekki breytt til samræmis við þá framkvæmd sem tíðkast hér á landi er varla hægt að skýra athugasemdir meiri hluta fjárlaganefndar á annan veg en þann að þær geti aðeins átt við um atvinnuleysisgjald, fæðingarorlofsgjald, iðgjald vegna slysatryggingar sjómanna og ábyrgðargjald vegna tryggingar krafna vegna gjaldþrota vinnuveitenda þar sem greiðendur eru að kaupa ákveðna tryggingu fyrir bótum/þjónustu ef ákveðnar aðstæður koma upp.

6.2 Áhrif á stjórnsýslu ríkisins.
    Verulegur ávinningur hlýst af afnámi markaðra skatttekna með einföldun á vinnu við fjárlagagerð og reikningshald, nákvæmari upplýsingum um stöðu aðila gagnvart fjárheimildum hverju sinni og markvissari fjármálastjórn ríkisins og einstakra ríkisaðila.
    Ekki hefur farið fram sértækt mat á áhrifum frumvarpsins á stjórnsýsluna enda eru þau fyrst og fremst bókhaldsleg en þó mun það óhjákvæmlega leiða til þess að utanumhald í bókhaldi og ársuppgjörum verður umfangsminna. Ávinningur af samþykkt frumvarpsins felst í einföldun reikningsskila og þá er efni frumvarpsins í samræmi við áskilnað laga um opinber fjármál en með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á þeirri ráðstöfun tekna sem ekki samræmist þeim áskilnaði.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr. (breyting á lögum um Íslandsstofu).

    Íslandsstofa tók við verkefnum og efnahag Útflutningsráðs Íslands og þar með mörkuðum tekjustofni í formi markaðsgjalds sem hefur numið 0,05% af gjaldstofni tryggingagjalds. Hér er lagt til að fjármögnun Íslandsstofu af hálfu ríkisins verði efnislega eins og verið hefur, utan þess að markaðsgjaldið sem slíkt rennur í ríkissjóð en samsvarandi fjárhæð verði ráðstafað til stofnunarinnar með fjárveitingu á grundvelli heimildar í fjárlögum. Gert er ráð fyrir að fjárveiting hvers árs taki mið af áætluðum tekjum af markaðsgjaldi á viðkomandi fjárlagaári.
    Í síðari málsgrein d-liðar 1. gr. er mælt fyrir um tekjur Íslandsstofu samkvæmt fjárveitingu sem ákvörðuð er af ráðherra, sbr. breytingar sem gerðar eru á 2. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga um Íslandsstofu. Í samræmi við áskilnað laga um opinber fjármál mun fjárveiting ráðherra byggjast á áætlun um tekjur af markaðsgjaldi. Ef um vanáætlun er að ræða er gert ráð fyrir því að því sem upp á vantar verði bætt við fjárveitingu ári síðar og eru fjárhæðir framlaga til Íslandsstofu þannig lögbundnar. Ætla má að breytingin muni auðvelda gerð rekstraráætlana fyrir Íslandsstofu þar sem fjárveitingin breytist ekki innan ársins líkt og verið hefur.

Um 2.–3. gr. (breyting á lögum um Fiskræktarsjóð).

    Fiskræktarsjóður hefur það hlutverk að veita lán eða styrki til verkefna sem þjóna þeim markmiðum að efla fiskrækt, bæta veiðiaðstöðu, styðja við rannsóknir í ám og vötnum og auka verðmæti veiði úr þeim. Lagt er til að gjald af veiðitekjum renni í ríkissjóð og sjóðurinn verði alfarið fjármagnaður með fjárveitingu á grundvelli heimildar í fjárlögum.

Um 4.–7. gr. (breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., lögum um olíugjald og kílómetragjald, lögum um vitamál og lögum um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála).

    Bensíngjald hefur verið markað til vegagerðar að frádreginni 0,5% innheimtuþóknun til ríkissjóðs. Hið sama á við um gjöld sem innheimt eru samkvæmt lögum um olíugjald og kílómetragjald og vitagjald sem reiknað er sem hlutfall af stærð skipa sem taka höfn hér á landi.
    Lagt er til að markaðar tekjur Vegagerðarinnar renni í ríkissjóð og stofnunin verði alfarið fjármögnuð með fjárveitingu á grundvelli heimildar í fjárlögum. Í greinargerð er bent á að útgjaldaheimildir Vegagerðarinnar hafi verið úr takti við innheimtar markaðar tekjur Vegagerðarinnar um árabil.

Um 8.–9. gr. (breyting á lögum um leigubifreiðar og lögum um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála).

    Samgöngustofa innheimtir ýmis gjöld þar sem fjárhæð er ákveðin með lögum, svo sem skoðunargjöld og gjöld vegna leyfa. Lagt er til að gjöldin renni í ríkissjóð og að verkefni og rekstur Samgöngustofu verði fjármögnuð með fjárveitingum úr ríkissjóði á grundvelli fjárlaga.

Um 10. gr. (breyting á lögum um stjórn fiskveiða).

    Lagt er til að í stað þess að tekjur af aflaheimildum skv. 5. mgr. 6. gr. laganna renni í rannsóknasjóð til að auka verðmæti sjávarfangs renni þær í ríkissjóð en að rannsóknarsjóðurinn verði fjármagnaður með framlagi samkvæmt heimild í fjárlögum.

Um 11. gr. (breyting á lögum um skráningu og mat fasteigna).

    Í 24. gr. laga um skráningu og mat fasteigna er heimild til handa ráðherra að fengnum tillögum frá Þjóðskrá Íslands til þess að setja gjaldskrá vegna vinnslu og afhendingar upplýsinga úr fasteignaskrá en jafnframt er kveðið á um fast gjald fyrir vélrænar fyrirspurnir úr þinglýsingabók. Tekjur vegna þess gjalds teljast til skatttekna og er lagt til að þær renni í ríkissjóð.

Um 12.–14. gr. (breyting á lögum um landlækni og lýðheilsu, lögum um tóbaksvarnir og lögum um gjald af áfengi og tóbaki).

    Í lögum um landlækni og lýðheilsu er fjallað um lýðheilsusjóð og hefur sjóðurinn það hlutverk að styrkja lýðheilsustarf. Til lýðheilsusjóðs rennur í dag, auk framlags í fjárlögum, 1% af innheimtu áfengisgjaldi og 0,9% af brúttósölu tóbaks. Í frumvarpi þessu er lagt til mörkun tekna til lýðheilsusjóðs verði aflögð og að framlög til sjóðsins verði ákveðin á grundvelli fjárlaga hverju sinni. Með breytingunni er ekki, frekar en í öðrum greinum frumvarpsins, gert ráð fyrir skerðingum á fjárveitingum til verkefnisins sem fram til þessa hefur notið markaðra tekna.

Um 15. gr. (breyting á lögum um málefni aldraða).

    Í 10. gr. laga um málefni aldraðra er mælt fyrir um að Framkvæmdasjóður aldraðra fái tekjur af sérstöku gjaldi sem lagt er á þá sem eru skattskyldir skv. 1. gr. tekjuskattslaga, nr. 90/2003. Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að gjaldið renni í ríkissjóð í stað Framkvæmdasjóðs aldraðra og að sjóðurinn fái þess í stað fjárveitingu á grundvelli heimilda í fjárlögum.

Um 16. gr. (breyting á lögum um endurskoðendur).

    Í 18. gr. laga um endurskoðendur er kveðið á um árlegt gjald sem allir endurskoðendur greiða til að standa straum af kostnaði við störf endurskoðendaráðs. Lagt er til að gjaldið renni í ríkissjóð og ákvæði um ráðstöfun þess falli brott. Jafnframt er lagt til að kostnaður við störf ráðsins verði greiddur úr ríkissjóði.

Um 17. gr. (breyting á skipulagslögum).

    Í skipulagslögum er m.a. kveðið á um álagningu skipulagsgjalds sem rennur í Skipulagssjóð. Einnig er fjallað um kostnaðarskiptingu milli sveitarfélaga, ríkissjóðs og Skipulagssjóðs vegna kostnaðar við skipulagsvinnu. Lagt er til að þess í stað verði sjóðnum ákveðið árlegt framlag á grundvelli heimildar í fjárlögum hverju sinni.

Um 18. gr. (breyting á lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga).

    Í lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga er m.a. kveðið á um gjaldtöku vegna rafmagnsöryggismála sem Mannvirkjastofnun eru falin. Lagt er til að umrædd gjöld renni í ríkissjóð að því marki sem þau fela í sér skatttöku.

Um 19. gr. (breyting á lögum um mannvirki).

    Í 4. málsl. 1. mgr. 50. gr. laganna er kveðið á um að vátryggingafélög og aðrir sem annast vátryggingar skuli árlega innheimta með iðgjöldum sínum sérstakt byggingaröryggisgjald. Byggingaröryggisgjaldið skuli notað til að fjármagna starfsemi Mannvirkjastofnunar. Lagt er til að gjaldið renni í ríkissjóð og að Mannvirkjastofnun verði alfarið fjármögnuð með fjárveitingu á grundvelli heimildar í fjárlögum.
    Fyrirkomulag sértekna skv. 52. gr. laganna verður óbreytt, þ.e. þær færast áfram til tekna í bókhaldi Mannvirkjastofnunar.

Um 20. gr. (breyting á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum).

    Í lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum er kveðið á um sérstakan sjóð, ofanflóðasjóð, og tekjur hans sem nú felast að mestu í gjaldi sem lagt er á allar brunatryggðar húseignir og nemur 0,3‰ af vátryggingarverðmæti. Lagt er til að gjaldið renni í ríkissjóð en þess í stað verði sjóðnum ákveðið árlegt framlag á grundvelli heimildar í fjárlögum hverju sinni og framlagið byggt á rekstri sjóðsins, framkvæmdaáætlun til næstu fimm ára og öðrum verkefnum.

Um 21. gr. (breyting á lögum um Jarðasjóð).

    Í lögum um Jarðasjóð er m.a. fjallað um sölu ríkisjarða og afgjöld þeirra. Lagt er til að tekjur af sölu og afgjöldum renni í ríkissjóð í stað þess að teljast til tekna Jarðasjóðs og sjóðurinn verði eftirleiðis fjármagnaður með sama hætti og aðrir ríkisaðilar.

Um 22. gr. (breyting á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu).

    Í 14. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, er kveðið á um tekjustofna Ríkisútvarpsins, þ.m.t. gjald sem lagt er árlega á einstaklinga og lögaðila. Lagt er til að gjaldið, sem gjarnan er nefnt útvarpsgjald, renni í ríkissjóð og rekstur Ríkisútvarpsins verði fjármagnaður í samræmi við þjónustusamning, með fjárveitingu á grundvelli heimildar í fjárlögum sem nemur að lágmarki áætlun fjárlaga um tekjur af útvarpsgjaldi.

Um 23.–24. gr. (breyting á lögum um fiskeldi).

    Í 20. gr. e laga um fiskeldi er fiskeldisstöðvum gert að greiða árgjald sem runnið hefur óskipt til Umhverfissjóðs sjókvíaeldis. Lagt er til að það renni í ríkissjóð og að sjóðurinn fái þess í stað framlag úr ríkissjóði á grundvelli heimildar í fjárlögum samkvæmt breytingu sem lögð er til á 20. gr. d laganna.

Um 25.–26. gr. (breyting á lögum um Fiskistofu).

    Í lögum um Fiskistofu er kveðið á um að stofnunin starfi að stjórnsýsluverkefnum á sviði sjávarútvegsmála, lax- og silungsveiði, fiskræktar o.fl. Fiskistofu er m.a. falið að veita leyfi til fiskveiða auk leyfis til strandveiða þegar við á. Í 6. gr. laganna er kveðið á um að gjald fyrir veitingu almenns veiðileyfis og strandveiðileyfis renni í ríkissjóð. Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að leyfisgjöldin renni í ríkissjóð. Fyrirkomulag rekstrartekna verður óbreytt.

Um 27. gr. (breyting á lögum um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla).

    Lagt er til að gjald fyrir veiðar, verkun, vinnslu eða viðskipti með ólögmætan sjávarafla renni í ríkissjóð í stað þess að renna í Verkefnasjóð sjávarútvegsins en að ráðherra skuli ákvarða sjóðnum árlegt framlag á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum.

Um 28.–29. gr. (breyting á lögum um fjarskipti).

    Jöfnunargjaldi, sem greitt er í jöfnunarsjóð í vörslum Póst- og fjarskiptastofnunar, er ætlað að standa undir fjárframlögum til að tryggja alþjónustu samkvæmt ákvörðunum stofnunarinnar. Hér er lagt til að gjaldið, sem hingað til hefur runnið í jöfnunarsjóð, renni í ríkissjóð og viðkomandi verkefni verði fjármögnuð með framlagi í fjárlögum. Það leiðir af skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum að einungis er heimilt að nýta fjármuni sem innheimtast samkvæmt þessum gjaldstofni í verkefni sem getið er í VI. kafla laga um fjarskipti. Við framkvæmd fjárlaga hvers árs ber að hafa þessar skuldbindingar í huga, en ella kann að stofnast endurgreiðslukrafa á hendur ríkissjóði, þ.e. sé gjaldinu ráðstafað úr ríkissjóði í aðra málaflokka.

Um 30.–33. gr. (breyting á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun).

    Lagt til að gjöld skv. 14. gr. og 14. gr. a laganna, sem mörkuð hafa verið Póst- og fjarskiptastofnun, renni í ríkissjóð. Þjónustugjöld skv. 12. mgr. 14. gr. skulu þó renna áfram til stofnunarinnar. Þá falla heimildir til þess að gera fyrirtæki að greiða útlagðan kostnað skv. 2. og 11. mgr. sömu greinar ekki undir skattlagningarheimildir í skilningi þessa frumvarps og renna þær tekjur því áfram til stofnunarinnar.

Um 34. gr. (breyting á lögum um vörur unnar úr eðalmálmum).

    Lög um vörur unnar úr eðalmálmum taka til framleiðslu á vörum sem unnar eru úr eðalmálmum í atvinnuskyni og til innflutnings, kaupa og sölu á þeim. Lagt er til að gjöld skv. 1. mgr. 12. gr. laganna renni í ríkissjóð en ekki til Neytendastofu líkt og tíðkast hefur.

Um 35. gr. (breyting á lögum um rafrænar undirskriftir).

    Í lögum um rafrænar undirskriftir er kveðið á um réttaráhrif rafrænna undirskrifta og mælt fyrir um kröfur til fullgildra rafrænna undirskrifta, fullgildra vottorða og starfsemi vottunaraðila sem gefa út slík vottorð. Skal vottunaraðili sem gefur út fullgild vottorð greiða gjald að fjárhæð 1.000.000 kr. á ári til að standa straum af kostnaði eftirlits samkvæmt lögunum. Lagt er til í frumvarpi þessu að innheimta gjaldsins verði í höndum Neytendastofu líkt og verið hefur en að það renni í ríkissjóð. Þannig muni kostnaður við eftirlit Neytendastofu samkvæmt lögunum verða greiddur á grundvelli fjárheimilda í fjárlögum.

Um 36. gr. (breyting á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum).

    Í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum er áskilið að veiðimenn afli sér veiðikorta, gegn gjaldi. Umhverfisstofnun er falin útgáfa veiðikorta og veiðileyfa og innheimta gjalda fyrir þau. Hér er lagt til að gjöld vegna veiðikorta skv. 11. gr. laganna renni í ríkissjóð. Til að undirbyggja áframhaldandi fjárveitingar til rannsókna, vöktunar og stýringar á stofnum villtra dýra, sem tengjast framangreindri gjaldtöku, er kveðið á um skyldu ráðherra til þess að veita fé til Umhverfisstofnunar í þessu skyni.
    Ekki eru gerðar breytingar á mörkun námskeiðsgjalda skv. 11. gr. eða gjalda vegna veiðileyfa skv. 14. gr. laganna þar sem þau gjöld eru ákvörðuð með hliðsjón af kostnaði við námskeiðin og við vöktun og eftirlit.

Um 37. gr. (breyting á lyfjalögum).

    Hlutverk og verkefni Lyfjastofnunar eru skilgreind í 3. gr. laganna. Í greininni er einnig fjallað um gjaldtökuheimildir, en þar er ráðherra falið að setja gjaldskrá vegna margvíslegrar starfsemi stofnunarinnar. Að auki leggur Lyfjastofnun á árlegt eftirlitsgjald, sbr. 11. mgr. 3. gr. laganna. Í frumvarpi þessu er lagt til að tekjur vegna eftirlitsgjaldsins renni í ríkissjóð.

Um 38.–39. gr. (breyting á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi).

    Í lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi er kveðið á um fjármögnun Fjármálaeftirlitsins. Í 1. gr. er tiltekið að eftirlitsskyldir og aðrir gjaldskyldir aðilar skuli standa straum af kostnaði við rekstur Fjármálaeftirlitsins. Lagt er til að innheimtan renni í ríkissjóð. Því er einnig bætt við að á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum hverju sinni skuli ákvarða fjárveitingu til stofnunarinnar sem nemur að lágmarki áætlun á tekjuhlið fjárlaga um tekjur af eftirlitsgjaldi og því er ekki hróflað við rekstrarskilyrðum Fjármálaeftirlitsins heldur verður um að ræða eins konar gegnumstreymi gjaldsins úr ríkissjóði þótt mörkun þess leggist af í eiginlegum skilningi. Líkt og í öðrum tilvikum þar sem lagt er til lögbundið framlag sem taki mið af áætluðum tekjum af tilteknum gjaldstofni (óbein mörkun) er hér einungis um að ræða breytingu á því hvernig umræddar tekjur berast stofnuninni.
    Jafnframt eru lagðar til breytingar á viðmiðunardagsetningum vegna skýrslu Fjármálaeftirlitsins til ráðherra um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs, sem eru til komnar vegna breyttrar áætlanagerðar samkvæmt lögum um opinber fjármál.

Um 40.–41. gr. (breyting á lögum um umboðsmann skuldara og lögum um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara).

    Gerð er tillaga um að greiðslur frá gjaldskyldum aðilum renni í ríkissjóð í stað þess að renna „til reksturs umboðsmanns skuldara og greiðslu fjárhagsaðstoðar til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta“ líkt og nú er. Í því skyni eru lagðar til breytingar á 5. gr. laga um umboðsmann skuldara og 1. gr. laga um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara.
    Til þess er að líta að hinu sérstaka gjaldi er samkvæmt lögum ætlað að standa straum af kostnaði við rekstur embættisins og skv. 7. gr. síðarnefndu laganna ber að taka tillit til þess við ákvörðun á fjárhæð gjaldsins fyrir hvert ár hvort rekstrarafgangur eða rekstrartap hafi orðið af starfseminni árið á undan. Því er svigrúm Alþingis til þess að ráðstafa tekjum af gjaldinu til annars en reksturs umboðsmanns skuldara hverfandi.

Um 42. gr. (breyting á lögum um vaktstöð siglinga).

    Lagt er til að árgjald sem eigendur skipa hafa greitt og mætt hefur kostnaði við rekstur sjálfvirks tilkynningarkerfis skipa renni í ríkissjóð og framlög úr ríkissjóði standi þannig alfarið undir rekstri kerfisins.

Um 43.–44. gr. (breyting á lögum um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara).

    Hér er gert ráð fyrir að í stað þess að flutningsjöfnunargjald renni beint í flutningsjöfnunarsjóð renni það í ríkissjóð en flutningsjöfnunarsjóði verði tryggt lögbundið framlag sem nemi áætlun fjárlaga um innheimtar tekjur af flutningsjöfnunargjaldi. Þannig verði um að ræða eins konar gegnumstreymi gjaldsins úr ríkissjóði til flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara en mörkun þess leggst af í eiginlegum skilningi.

Um 45.–48. gr. (breyting á lögum um tryggingagjald og lögum um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða).

    Hér er lagt til að framlög til starfsendurhæfingarsjóða og framlög til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða verði ákvörðuð á grundvelli heimilda í fjárlögum. Framlög til starfsendurhæfingarsjóða miðist þannig við fjárþörf í stað hlutfalls af gjaldstofni tryggingagjalds. Gert er ráð fyrir að framlög til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða verði ákveðin með sama hætti og verið hefur, þ.e. með hliðsjón af skuldbindingum sem stjórnvöld hafa undirgengist um að greiða fyrir jöfnun á örorkubyrði milli lífeyrissjóða. Með því að fastbinda ekki hlutfallið í lögum er unnt að viðhalda sömu aðferðafræði við ákvörðun framlaganna án þess að koma þurfi til leiðréttingar (hækunar eða lækkunar) á fjárhæðum ári síðar þegar endurskoðaður gjaldstofn tryggingagjalds liggur fyrir.

Um 49. gr. (breyting á lögum um sölu fasteigna og skipa).

    Lagt er til að í stað þess að eftirlitsgjald fasteignasala fari til þess að standa straum af kostnaði við störf eftirlistnefndar fasteignasala renni gjaldið í ríkissjóð og fjárveiting til að standa undir kostnaði við störf nefndarinnar verði framvegis ákvörðuð á grundvelli fjárheimilda í fjárlögum.

Um 50.–51. gr. (breyting á lögum nr. 13/2001 um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis).

    Lagt er til að framlög leyfishafa rannsóknar- og vinnsluleyfis renni í ríkissjóð í stað sérstaks menntunar- og rannsóknarsjóðs og að á grundvelli heimilda í fjárlögum skuli ákvarðað framlag til menntunar- og rannsóknarsjóðsins, sem ætla má að taki mið af greiddum framlögum leyfishafa.

Um 52. gr. (breyting á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir).

    Lögð er til sú breyting að í stað þess að tekjur Innviðasjóðs séu einkaleyfisgjald af rekstri peningahappdrætta og önnur framlög líkt og nú er þá samanstandi þær af fjárveitingum í fjárlögum og öðrum framlögum.

Um 53.–54. gr. (breyting á lögum um Ábyrgðasjóð launa).

    Í kaflanum er lagt til að bein mörkun ábyrgðargjalds verði afnumin en þess í stað komi óbein mörkun í formi lögbundins framlags til Ábyrgðasjóðs launa sem miðist að lágmarki við áætlun fjárlaga um innheimtu tekna af almennu tryggingagjaldi og atvinnutryggingagjaldi.

Um 55. gr. (gildistökuákvæði).

    Lagt er til að frumvarpið taki þegar gildi. Þær breytingar sem leiða af áskilnaði 51. gr. laga um opinber fjármál hafa þegar komið að miklu leyti til framkvæmda og frumvarpi þessu er ætlað að laga ákvæði sérlaga að þeim áskilnaði. Áhrif frumvarpsins, sem eru fyrst og fremst bókhaldsleg og hafa því þegar komið fram að hluta.

1    Á ensku: „Independence involves at least three key elements: (i) structural separation of the NRA from the regulated firms, (ii) isolation of the NRA from arbitrary political intervention and (iii) functional effectiveness assured through adequate human and financial resources and enforcement powers.“