Ferill 178. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 252  —  178. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum (réttur til einbýlis og sambúðar við maka á öldrunarstofnunum).

Flm.: Ólafur Þór Gunnarsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Ásmundur Friðriksson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Halldóra Mogensen, Hanna Katrín Friðriksson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Inga Sæland, Líneik Anna Sævarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Vilhjálmur Árnason, Willum Þór Þórsson, Þorsteinn Víglundsson.


Breyting á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, með síðari breytingum.

1. gr.


    Við 1. mgr. 16. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Maki eða sambúðarmaki heimilismanns sem dvelst til langframa í hjúkrunarrými getur þó búið þar einnig ef aðstæður leyfa.

2. gr.


    Við 16. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Öllum sem dveljast á hjúkrunar- og dvalarheimilum sem njóta daggjalda frá ríkinu skal standa einbýli til boða á viðkomandi stofnun.

Breyting á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum.


3. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 14. gr. laganna:
     a.      Lokamálsliður 2. tölul. orðast svo: Við hönnun hjúkrunar- og dvalarrýma skal þess gætt að öllum íbúum sem óska eftir að búa í einbýli gefist kostur á því.
     b.      Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Heimilismaður sem dvelur til langframa á stofnun fyrir aldraða skal eiga kost á að vera samvistum við maka eða sambúðarmaka sinn þar þegar aðstæður leyfa. Maki skal greiða sanngjarna leigu vegna veru sinnar og greiða þann kostnað sem af dvöl hans hlýst. Maki skal eftir atvikum hafa aðgang að þjónustu stofnunarinnar gegn gjaldi. Maki samkvæmt þessum tölulið er undanþeginn færni- og heilsumati og skal eiga lögheimili utan stofnunarinnar. Maki eða sambúðarmaki getur dvalið á öldrunarstofnuninni í allt að átta vikur eftir fráfall heimilismanns. Á þeim tíma skal meta hvort forsendur eru fyrir áframhaldandi dvöl á stofnuninni og fellur dvalarréttur niður nema niðurstaða færni- og heilsumats skv. 15. gr. verði að forsendur séu fyrir áframhaldandi búsetu og öðlast þá viðkomandi sjálfstæðan rétt sem heimilismaður á stofnun fyrir aldraða.
                  Ráðherra setur reglugerð um dvöl maka og sambúðarmaka á öldrunarstofnunum þar sem m.a. skal tilgreina greiðslur, greiðslufyrirkomulag, réttindi, tryggingar og kostnaðarþátttöku ríkisins.

4. gr.


    2. málsl. 2. mgr. 15. gr. laganna orðast svo: Enginn getur dvalið til langframa í hjúkrunarrými eða dvalarrými án undangengins mats færni- og heilsufarsnefndar á þörf fyrir slíka dvöl nema maki eða sambúðarmaki heimilismanns skv. 14. gr.

5. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2019.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Öldrunarstofnanir skulu innan fimm ára frá gildistöku þessara laga geta boðið öllum sem þar dvelja upp á búsetu í einbýli. Innan árs frá gildistöku laga þessara skal ráðherra heilbrigðismála leggja fram áætlun sem gerir öldrunarstofnunum fært að uppfylla kröfuna um einbýli innan ofangreindra tímamarka.

Greinargerð.

    Frumvarpi þessu er ætlað að auka réttindi íbúa hjúkrunar- og dvalarrýma með því annars vegar að öllum sem þar búa verði tryggður réttur til einbýlis og hins vegar að heimilismenn öðlist lögvarinn rétt til að vera þar samvistum við maka sinn eða sambúðarmaka.
Frumvörp svipaðs efnis hafa verið flutt áður. Á 139. löggjafarþingi flutti flutningsmaður þessa frumvarps frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu og lögum um málefni aldraðra (214. mál) sem fól það í sér að öllum heimilismönnum á hjúkrunar- og dvalarheimilum stæði til boða að búa í einbýli. Svandís Svavarsdóttir flutti á 145. löggjafarþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, sem ætlað var að tryggja heimilismönnum á stofnun fyrir aldraða rétt til að vera þar samvistum við maka sinn eða sambúðarmaka (352. mál). Málið var endurflutt á 146. þingi, nokkuð aukið og breytt (185. mál). Hvorugt fyrrgreindra þingmála náði fram að ganga. Hér er efni þeirra sameinað í eitt frumvarp enda er hvort tveggja efnið réttindamál sem snertir sama hópinn.

Einbýli á hjúkrunar- og dvalarheimilum.
    Árið 2017 voru almenn hjúkrunarrými á hjúkrunar- og dvalarheimilum landsins 2.526 en dvalarrými 281. Árið 2007 voru hjúkrunarrými tæplega 2.700 en dvalarrými ríflega 700. Fækkaði því hjúkrunarrýmum um rúmlega 6% en dvalarrýmum um nálega 60% milli áranna 2007 og 2017. Í staðinn hefur komið aukin heimaþjónusta ríkis og sveitarfélaga við aldraða og aðra sem þess þurfa og dagvistunarúrræðum fyrir eldra fólk hefur fjölgað.
    Ekki er haldið til haga tölum um fjölda einbýla og fjölbýla á hjúkrunar- og dvalarheimilum með reglulegum hætti en tiltölulega nýlegar tölur liggja fyrir í svari við fyrirspurn Silju Daggar Gunnarsdóttur til heilbrigðisráðherra á 145. löggjafarþingi (394. mál). Þar kemur fram að í lok árs 2015 voru alls 2.646 hjúkrunarrými hér á landi. Spurningu um hvort dvalarrými væru einbýli eða fjölbýli var svarað vegna 2.639 rýma. Af þeim voru 2.133 eða 80,8% einbýli, 469 rými eða 17,8% voru tvíbýli og 33 eða 1,3% voru þríbýli. Með svarinu fylgdi yfirlit yfir staðsetningu dvalar- og hjúkrunarheimilanna sem í hlut áttu og fjölda ein-, tví- og þríbýla á hverju fyrir sig. Áætlað var að um 7 milljarða kr. mundi kosta að byggja þau 250 hjúkrunarrými sem þyrfti til að öll dvalarrými yrðu einbýli. Sú tala gæti verið um 200–300 millj. kr. hærri nú miðað við verðlagsbreytingar sem orðið hafa frá því að svar heilbrigðisráðherra birtist í byrjun febrúar 2016. Ætla má að Framkvæmdasjóður aldraðra gæti staðið undir þeim kostnaði á þeim fimm árum sem ætluð eru til endurbótanna.
    Á undanförnum áratugum hafa þingmenn og ráðherrar viðrað hugmyndir um að útrýma fjölbýlum á hjúkrunarheimilum. Þar nægir að nefna áætlun um fjölgun hjúkrunarrýma, sem var lögð fram af Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi félagsmálaráðherra, sem fól m.a. í sér að fjölbýlum yrði fækkað. Aðrir félags-, velferðar- og heilbrigðisráðherrar hafa svo haft áform um fjölgun rýma og þar með fækkun einbýla, án þess að sérstök lagafrumvörp þar um hafi komið fram. Auk þess hafa þingmenn fjallað um þetta mál alloft í þingræðum og fyrirspurnum. Hér er hins vegar lagt til að skrefið verði stigið lengra, þ.e. að gerð verði áætlun um að á tilteknum tíma verði fjölbýlum á hjúkrunarheimilum útrýmt og að lögfestur verði réttur til einbýlis.
    Samtök aldraðra hafa oft ályktað um málefni hjúkrunarheimila og krafist þess að öllum íbúum gefist kostur á einbýli óski þeir þess. Þegar unnið var að gerð nýrra heilbrigðislaga var rætt um að taka þessa breytingu inn í lögin en horfið frá þeim áætlunum. Stefna þeirra ráðuneyta sem fara með málefni aldraðra og heilbrigðisþjónustu hefur verið að reyna að minnka áherslu á stofnanaþjónustu en auka áherslu á þá þjónustu sem fólk getur fengið heima.
    Þá hefur matsferli vegna búsetu á hjúkrunar- og dvalarheimilum verið breytt á þann hátt að biðtími eftir hjúkrunarrými er nú styttri en áður eftir að matið hefur verið framkvæmt. Aukin áhersla á endurhæfingu aldraðra hefur einnig gert það að verkum að þörf fyrir hjúkrunarrými skapast seinna en áður á æviskeiði flestra.
    Umræðan um yfirtöku sveitarfélaga á málefnum eldra fólks hefur ekki farið hátt undanfarin missiri en vilji stjórnmálamanna þó oft komið fram. Þar hefur m.a. komið fram að eitt af þeim málum sem sveitarfélögin vilja ræða áður er að gengið hafi verið frá þessu réttindamáli fyrir eldra fólk þannig að ekki liggi fyrir veruleg fjárfestingarþörf í málaflokknum þegar hann færist til sveitarfélaganna.
    Í frumvarpinu er annars vegar lagt til að lögfest verði að allir íbúar þessara heimila eigi rétt á að búa einir sé það ósk þeirra. Einnig er skilgreint að þetta skuli gerast á næstu fimm árum og er ráðuneyti heilbrigðismála falið að leggja fram áætlun þar um innan árs frá gildistöku laganna.

Sambúðarréttur á hjúkrunarheimilum.
    Sá hluti frumvarpsins sem snýr að rétti sambúðarmaka snýst einnig um mikilvæg réttindi eldra fólks. Vel er þekkt úr umræðunni hve sárt það getur verið fyrir eldra fólk að þurfa að skiljast að þegar heilsa makans brestur, oft eftir áratuga samvistir. Því er hér leitast við að leysa úr þeim vanda eftir því sem hægt er og taka á þeim álitaefnum sem upp kunna að koma í því sambandi.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að íbúar sem eiga heima á öldrunarstofnunum geti verið áfram samvistum við maka sinn. Markmið frumvarpsins er að gera fólki mögulegt að búa áfram með maka sínum sem hefur af heilsufarsástæðum þurft að flytjast á heimili sem krefjast færni og heilsumats til búsetu. Með samþykkt frumvarpsins yrði ekki lengur áskilið að heilbrigður eða heilbrigðari maki byggi annars staðar en hinn veikari. Frumvarpinu er þannig ætlað að koma í veg fyrir þvinguð sambúðarslit.
    Samkvæmt núgildandi lögum getur enginn búið á hjúkrunar- eða dvalarheimili án undangengins færni- og heilsumats. Þess vegna er nauðsynlegt að veita sérstaka undanþágu frá því ákvæði vegna búsetu maka og er gert ráð fyrir því í frumvarpinu. Einnig er nauðsynlegt að gera í lögunum ráð fyrir því hvernig staðið skuli að þessu auk þess sem reglugerðarákvæði um búsetuna, þ.m.t. aðgengi að þjónustu, kostnað, réttindi, skyldur og fleira þurfa að koma til. Þar sem nauðsynlegt er að ekki sé um skilgreinda varanlega búsetu að ræða er mikilvægt að einnig sé gert ráð fyrir að sambúðarmakinn eigi lögheimili annars staðar en á viðkomandi dvalar- eða hjúkrunarheimili.
    Af augljósum ástæðum má ætla að heppilegast væri að sambúðarmakinn hefði að öðru jöfnu aðgang að þjónustu heimilisins, svo sem hjúkrunar-, læknis- og sjúkraþjálfunarþjónustu.
    Við fráfall maka þarf einnig að vera ljóst að áframhaldandi búseta sambúðarmakans gerist ekki sjálfkrafa, heldur eftir atvikum með sama hætti og aðrir íbúar þurfa að lúta, þ.e. með færni- og heilsumati. Í núverandi framkvæmd er gert ráð fyrir að eldri einstaklingar geti dvalist í hvíldar- eða endurhæfingarinnlögn í allt að átta vikur á ári og því gert ráð fyrir því í frumvarpinu að eftir atvikum geti sambúðarmaki dvalist í allt að þann tíma eftir fráfall maka án þess að færni- eða heilsumat liggi fyrir.
    Þar til tryggt hefur verið að allir íbúar á framangreindum heimilum geti búið í einbýli, kjósi þeir það, verður ekki fortakslaust hægt að verða við óskum um sambýli með þeim hætti sem getur í frumvarpinu og því er orðalag 1. efnismálsl. b-liðar 3. gr. frumvarpsins ákveðið í samræmi við það. Þá er einnig líklegt að á lokuðum deildum eða heimilum þar sem einbýli eru lítil eða þröng geti reynst örðugt að verða við óskum sambúðarmaka, nema þar sem svo háttar til að til eru sérstök rými hugsuð til þessara þarfa.