Ferill 190. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Prentað upp.

Þingskjal 264  —  190. mál.
Flutningsmaður.
Frumvarp til laga


um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011 (fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn).

Flm.: Jón Gunnarsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Bergþór Ólason, Karl Gauti Hjaltason, Njáll Trausti Friðbertsson, Ólafur Ísleifsson, Óli Björn Kárason, Páll Magnússon, Vilhjálmur Árnason, Willum Þór Þórsson, Guðmundur Ingi Kristinsson.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                 Í sveitarstjórn skal fjöldi fulltrúa standa á oddatölu. Fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn skal ákveðinn í samþykkt skv. 9. gr. Skulu aðalmenn aldrei vera færri en fimm. Þar sem íbúar sveitarfélags eru færri en 2.000 skulu aðalmenn ekki vera fleiri en sjö.
     b.      Orðin „eða fjölga“ og orðin „hærri eða“ í 1. málsl. 2. mgr. falla brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Sveitarfélög eru stjórnvöld og falla þar með í flokk handhafa framkvæmdarvalds skv. 2. gr. stjórnarskrárinnar. Sveitarfélögin eru því hluti af stjórnsýslukerfinu og ber að fylgja almennum reglum sem gilda um starfsemi stjórnvalda og framkvæmd stjórnsýslu. Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar skulu sveitarfélög ráða sjálf málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Með þessu orðalagi, að þau ráði sjálf málefnum sínum, er vísað til sjálfstjórnar sveitarfélaga. Í sjálfstjórn sveitarfélaga felst m.a. að íbúar sveitarfélags hafi lýðræðislegan rétt á að kjósa stjórn sveitarfélagsins í almennum kosningum.
    Kveðið er á um fjölda sveitarstjórnarmanna í 1. mgr. 11. gr. sveitarstjórnarlaga. Gildandi lagaákvæði hefur þannig áhrif á fjölda fulltrúa í sveitarstjórnum. Mikilvægt er að standa vörð um sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga og tryggja að sú lýðræðislega hugsun sem býr að baki sveitarstjórnarstiginu og reglum um kosningar til sveitarstjórnar, að sveitarstjórnarfulltrúar séu fulltrúar íbúa sveitarfélagsins, endurspegli á virkan hátt vilja íbúanna.
    Hugmyndafræðilegur grundvöllur 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar er að tryggja rétt íbúa á staðbundnum svæðum til að ráða sjálfir tilteknum málefnum án afskipta ríkisvaldsins. Því telja flutningsmenn frumvarps þessa rétt að sveitarfélög geti sjálf ráðið fjölda aðalmanna í sveitarstjórn. Hafa beri eftirfarandi í huga, eins og fram kom í athugasemdum við 2. mgr. 11. gr. í greinargerð frumvarpsins sem varð að gildandi sveitarstjórnarlögum: „Mikilvægt er þó einnig að hafa í huga að það stjórnskipulag sem frumvarpið gerir ráð fyrir að gildi um starfsemi sveitarfélaga gerir ekki ráð fyrir mjög stórum sveitarstjórnum enda byggt á því að sveitarstjórnin sjálf taki allar meiri háttar ákvarðanir um rekstur og stjórnsýslu sveitarfélagsins og beri á þeim ábyrgð.“ Verði frumvarp þetta að lögum verður sveitarstjórnum í sjálfsvald sett að ákveða fjölda aðalmanna í sveitarstjórn í samþykktum sínum innan þeirra einu marka að fulltrúarnir verði aldrei færri en fimm og ekki fleiri en sjö þar sem íbúar sveitarfélags eru færri en 2.000. Breytingarnar sem lagðar eru til á 2. mgr. 11. gr. laganna skýrast af því að verði frumvarpið að lögum verður sveitarfélagi aldrei skylt að fjölga fulltrúum í sveitarstjórn þótt íbúafjöldi taki breytingum.
    Þá má nefna að sveitarfélögin hafa sjálfstæða tekjustofna og fjárveitingarvald innan ramma laga, sbr. 2. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar. Tekjur sveitarfélaga og svigrúm til að nýta þær eru lykilþættir þegar litið er til þess hvað sveitarfélögin geta tekið sér fyrir hendur sjálf, þ.e. að eigin frumkvæði, eins og t.d. að ákvarða fjölda aðalmanna í sveitarstjórn. Hafa ber hugfast að frumvarpi þessu er ekki ætlað að hafa áhrif á hvort sveitarfélög fjölgi fulltrúum fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar eður ei. Fjárhagsleg áhrif ákvæða frumvarpsins á ríkissjóð eru engin.