Ferill 69. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 269  —  69. mál.
Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Víglundssyni um búvörusamninga.


     1.      Fylgjast stjórnvöld með framgangi markmiða sem sett eru fram í búvörusamningum? Er reglulega unnið mat á þeim framgangi og þá með hvaða hætti?
    Núverandi búvörusamningar tóku gildi hinn 1. janúar 2017. Í samningunum eru svohljóðandi ákvæði:
Rammasamningur:
     *      Endurskoðun samnings fer fram tvisvar á samningstímanum árin 2019 og 2023. Við endurskoðanir verður fyrst og fremst horft til þess hvernig markmið samningsins hafi gengið eftir og það metið í samhengi við samninga um starfsskilyrði garðyrkju, nautgriparæktar og sauðfjárræktar. Við síðari endurskoðun geta aðilar ákveðið að hefja viðræður um nýjan samning sem geti tekið gildi árið 2025.
Samningur um starfsskilyrði sauðfjárræktar:
     *      Endurskoðun samnings fer fram tvisvar á samningstímanum árin 2019 og 2023. Fyrst og fremst verði horft til þess hvernig framleiðsla sauðfjárafurða og afkoma í greininni hefur þróast, hvaða árangur hefur náðst við útflutning og hvernig markmið samningsins hafi gengið eftir. Einnig skal skoða þróun í bústærð, fjölda búa eftir svæðum og fjárfjölda í landinu.
     *      Fram að endurskoðun 2019 er stefnt að því að auka útflutningstekjur af sauðfjárrækt sem leiði til þess að hlutur bænda í heildarverðmætasköpun greinarinnar aukist um 7,5% að lágmarki. Þetta miðast við óbreyttan fjárfjölda í landinu og fast verðlag. Takist það ekki skal niðurtröppun beingreiðslna endurskoðuð.
     *      Fjölgi fé í landinu yfir 10% frá gildistöku samningsins, fram til fyrri endurskoðunar árið 2019 skal endurskoða býlisstuðning bæði fjárhæðir og þrep. Sérstaklega skal hafa í huga við þá endurskoðun að styðja við byggð alls staðar í landinu.
     *      Síðari endurskoðun skal fara fram árið 2023. Þá skal horfa til sömu þátta og við þá fyrri. Aðilar geta um leið ákveðið að hefja viðræður um nýjan samning sem geti tekið gildi árið 2025.
Samningur um starfsskilyrði nautgriparæktar:
     *      Endurskoðun samnings fari fram tvisvar á samningstímanum árin 2019 og 2023. Fyrst og fremst verði horft til þess hvernig framleiðslan hefur þróast, bæði í mjólk og nautakjöti, hvaða árangur hefur náðst við útflutning mjólkurafurða og hvernig markmið samningsins hafi gengið eftir.
     *      Við endurskoðun 2019 skal taka afstöðu til hvort kvótakerfi í mjólkurframleiðslu verði afnumið frá og með 1. janúar 2021. Verði niðurstaðan sú að afnema ekki kvótakerfið mun framhald þess byggjast á grunni fyrra kerfis.
     *      Við endurskoðun 2019 munu Bændasamtök Íslands láta fara fram atkvæðagreiðslu meðal mjólkurframleiðenda um hvort kvótakerfi í mjólkurframleiðslu skuli afnumið frá og með 1. janúar 2021.
     *      Síðari endurskoðun skal fara fram árið 2023. Aðilar geti þá ákveðið að hefja viðræður um nýjan samning sem geti tekið gildi árið 2025.
Samningur um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða:
     *      Endurskoðun samnings fer fram tvisvar á samningstímanum árin 2019 og 2023. Fyrst og fremst verði horft til þess hvernig framleiðsla garðyrkjuafurða hefur þróast og hvernig markmið samningsins hafi gengið eftir. Einnig verður skoðað hvernig markmiðum um allt að 95% niðurgreiðslu vegna flutningi raforku samkvæmt grein 5 hefur gengið eftir.
     *      Samningsaðilar munu á tímabilinu 2017–2019 greina hagkvæmni þess að taka upp uppskerutengdar greiðslur vegna útiræktaðra garðyrkjuafurða og kartaflna gegn mögulegri niðurfellingu og/eða lækkun tollverndar. Niðurstöður þeirrar greiningar koma til umfjöllunar við endurskoðun þessa samnings 2019.
     *      Síðari endurskoðun skal fara fram árið 2023. Þá skal horfa til þess hvernig framleiðsla garðyrkjuafurða hefur þróast og hvernig markmið samningsins hafi gengið eftir. Aðilar geta um leið ákveðið að hefja viðræður um nýjan samning sem geti tekið gildi árið 2025.

     2.      Hafa stjórnvöld unnið eða látið vinna úttektir á árangri af búvörusamningum á þeim tveimur áratugum sem liðnir eru frá því farið var að gera slíka samninga?
    Stjórnvöld hafa ætíð látið vinna úttektir á árangri búvörusamninga á þeim áratugum sem um er rætt. Í því sambandi er vísað til þess að í aðdraganda núverandi búvörusamninga var byggt á þremur eftirfarandi skýrslum sem lágu til grundvallar þeim samningum:
     *      Skýrsla Hagfræðistofnunar, Aðlögunarsamningur ríkis og garðyrkjubænda 2002–2012, nóvember 2013. 1
     *      Skýrsla Hagfræðistofnunar, Mjólkurvöruframleiðsla á Íslandi – Staða og horfur, júní 2015. 2
     *      Skýrsla Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri, Markmið og forsendur sauðfjárræktarsamnings, október 2015. 3

     3.      Hafa stjórnvöld látið leggja mat á ávinning neytenda annars vegar og bænda hins vegar af búvörusamningum?
    Stjórnvöld hafa ekki látið fara fram sérstakt mat á ávinningi neytenda annars vegar og bænda hins vegar, þó er bent á að í vinnu og efnistökum skýrsluhöfunda framangreindra skýrslna hefur farið fram skoðun og umfjöllun um þá hagsmuni sem spurt er um. Nánar er vísað til þeirra skýrslna.
1     hhi.hi.is/sites/hhi.hi.is/files/C-Series/2013/Graenmeti02122013_loka.pdf
2     www.stjornarradid.is/media/atvinnuvegaraduneyti-media/media/Acrobat/Mjolkurskyrsla_mai_2015_lokaskjal.pdf
3     www.rha.is/static/files/Rannsoknir/2015/markmid_forsendur_saudfjarsamnings_rha_2015.pdf