Ferill 193. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 271  —  193. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um samning Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.


Flm.: Steinunn Þóra Árnadóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Ólafur Þór Gunnarsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá til þess að Ísland gerist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

Greinargerð.

    Samhljóða tillaga var lögð fram á 147. þingi (45. mál). Hún er nú lögð fram aftur með lítillega breyttri greinargerð.
    Hinn 7. júlí 2017 samþykktu 122 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna samning um bann við kjarnorkuvopnum. 1 Samningurinn tekur gildi þegar 50 ríki hafa undirritað og lögfest hann. Vonir standa til þess að samningur þessi muni með tímanum komast í hóp mikilsverðustu afvopnunarsamninga þjóða heims, á borð við samninga sem kveða á um bann við efnavopnum, sýklavopnum og jarðsprengjum.
    Það er til marks um mikilvægi þessa samkomulags að samtökin ICAN, sem unnu ötullega að gerð þess, hlutu friðarverðlaun Nóbels árið 2017. Líkt og segir í rökstuðningi norsku Nóbelsnefndarinnar áttu samtökin stærstan þátt í að leiða saman þjóðir heims og undirbúa gerð þessa mikilvæga sáttmála. Á fimmta hundrað friðarhópar og félagasamtök um víða veröld standa saman að ICAN-samtökunum.
    Aðdragandi samningsins er langur. Sáttmálinn um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna frá árinu 1968 (NPT), sem 191 ríki er aðili að, hefur löngum verið talinn mikilvægasti afvopnunarsamningurinn á sviði kjarnorkuvígbúnaðar. Sá samningur felur í sér bann við frekari útbreiðslu þessara háskalegu vopna en jafnframt leggur hann skyldur á herðar þeim ríkjum sem þegar búa yfir slíkum vopnum um að vinna að útrýmingu þeirra. Lítið hefur borið á efndum á þeim hluta samningsins. Kjarnorkusprengjum hefur að sönnu fækkað en þær hafa þess í stað stækkað og orðið fullkomnari þannig að sprengimátturinn hefur stóraukist. Jafnframt verja flest kjarnorkuveldin svimandi háum upphæðum til þróunar nýrra og fullkomnari kjarnorkuvopna og hugmyndin um takmarkaða notkun slíkra vopna í almennum hernaði er rædd af sífellt meiri alvöru. Í því sambandi má nefna nýlega endurskoðaða kjarnorkuvopnastefnu Trump-stjórnarinnar í Washington, sem gerir ráð fyrir mun víðtækari beitingu kjarnorkuvopna en áður hefur verið rætt.
    Andstæðingar kjarnorkuvopna hafa lengi varað við þessari þróun og benda á að eftir því sem meiri orku og fjármunum er varið í þróun og framleiðslu vopnanna skapist meiri þekking sem aftur stuðli að aukinni útbreiðslu. Mannkynið hefur aldrei smíðað vopn sem það beitir ekki að lokum eins og reynslan sýnir.
    Í ljósi þessa komst hópur ríkja að þeirri niðurstöðu að alþjóðasamfélagið yrði að ganga lengra og leiða í lög algjört bann við kjarnorkuvopnum þar sem fullreynt væri að kjarnorkuveldin myndu sjálf stuðla að útrýmingu þeirra innan gildandi sáttmála. Slíkur samningur myndi, líkt og t.d. var raunin með samninginn um bann við jarðsprengjum, byrja að frumkvæði þeirra ríkja sem ekki ráða yfir slíkum vopnum nú en verða með tímanum almennur.
    Ríkin sem leitt hafa baráttuna fyrir kjarnorkuvopnabanni á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eru víða í heiminum, en Evrópulöndin sem stóðu að samþykkt málsins voru Svíþjóð, Austurríki, Kýpur, Írland, Malta og Sviss. Illu heilli ákváðu nær öll aðildarríki NATO að sniðganga viðræðurnar um gerð sáttmálans, enda byggist hernaðarstefna bandalagsins enn á því að áskilja sér rétt til að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði.

1     undocs.org/a/conf.229/2017/8