Ferill 197. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 276  —  197. mál.
Beiðni um skýrslu


frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um nýjar aðferðir við orkuöflun.

Frá Ara Trausta Guðmundssyni, Kolbeini Óttarssyni Proppé, Ólafi Þór Gunnarssyni, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, Líneik Önnu Sævarsdóttur, Ásmundi Friðrikssyni, Höllu Signýju Kristjánsdóttur, Njáli Trausta Friðbertssyni og Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra flytji Alþingi skýrslu um nýjar aðferðir við orkuöflun þar sem einkum verði fjallað um nýtingu vindorku, sjávarfallaorku og varmaorku með varmadælum og gerð grein fyrir lögum sem lúta að nýtingu vind- og sjávarorku til raforkuframleiðslu. Með tilliti til þess að efni skýrslunnar mun falla vel að því starfi sem nú fer fram við mótun orkustefnu til langs tíma er þess farið á leit að ráðherra flytji Alþingi umbeðna skýrslu um miðjan september 2018.
    Hvað nýtingu vindorku varðar verði m.a. gerð grein fyrir helstu atriðum er snerta staðarval fyrir vindmyllur, uppsetningu þeirra, rekstur og förgun. Þá verði í skýrslunni vísað til erlendra gagna um líftímagreiningu (e. Life Cycle Assessment, eða LCA-greiningu) á vistspori stórra vindmylla og gefið yfirlit yfir þau svæði sem teljast heppileg til öflunar orku með vindmyllum með tilliti til veðurfars, staðhátta, náttúrufars og umhverfis- og skipulagsmála. Lýst verði reynslunni af rekstri vindmylla til orkuframleiðslu hérlendis með skírskotun til fjárhagslegrar afkomu og umhverfisáhrifa og lagt mat á fýsileika orkuframleiðslu hérlendis með vindmyllum í stórum og smáum stíl.
    Lýst verði helstu leiðum til að virkja sjávarfallaorku og birt yfirlit yfir íslensk verkefni sem lúta að nýtingu sjávarorku. Fjallað verði um heppileg svæði til orkuframleiðslu í sjó og lagt mat á möguleika til nýtingar orku frá sjávarfallavirkjunum í raforkukerfi landsins.
    Gerð verði grein fyrir núverandi umfangi nýtingar á varmaorku með varmadælum, fjallað um áform um frekari beitingu þessarar orkuöflunaraðferðar, lýst í meginatriðum þeirri tækni sem notuð hefur verið í þessu skyni og aðferðum og tækni sem þykja koma til greina í framtíðinni, m.a. með tilliti til öflunar varmaorku úr sjó. Enn fremur verði gerð grein fyrir mismunandi orkuhagkvæmni varmadæla eftir landshlutum og stöðum.
    Gerð verði grein fyrir meginatriðum laga og reglna sem eiga við um vindmyllur, sjávarfallavirkjanir og varmadælur og orkuöflun með þessari tækni.

Greinargerð.

    Eins og vikið er að í samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar verður unnið að langtímaorkustefnu fyrir Ísland á næstu misserum. Samfélagið stendur frammi fyrir margvíslegum verkefnum og úrlausnarefnum í umhverfis- og orkumálum, loftslagsmál eru aðkallandi og lausn þeirra kallar á nýjar leiðir til orkuöflunar og á breytta orkunýtingu. Náttúruvernd hefur fengið veglegri sess nú en áður og sama er að segja um hið mikilvæga sjónarmið að nýting og neysla hljóti að byggjast á sjálfbærni ef ekki eigi illa að fara.
    Ýmsir orkuöflunar- og orkunýtingarkostir sem nýttir hafa verið á undanförnum áratugum þykja ekki lengur tækir en ný tækifæri hafa skapast og önnur eru í sjónmáli sem gætu nýst vel við orkuöflun í framtíðinni. Sumar þeirra orkuöflunarleiða sem koma til álita hér á landi hafa verið reyndar erlendis, svo sem raforkuframleiðsla með vindmyllum, þannig að fyrir liggur verðmæt þekking á slíkum rekstri og efnahags- og umhverfislegum áhrifum hans sem einboðið er að nýta þótt auðvitað verði að kanna rekstrarforsendur og umhverfisáhrif hér á landi einnig með sjálfstæðum rannsóknum.
    Fram til þessa hafa nokkrar vindmyllur verið settar upp hérlendis, á örfáum stöðum, bæði stórar og smáar. Þær stærstu, með 1–2 mW aflgetu, eru starfræktar í tilraunaskyni á vegum Landsvirkjunar á Hafinu ofan við Búrfell. Gögn úr þessum tilraunum sýna að vindmyllur reynast vel þar sem aðstæður eru þeim hagfelldar. Rekstur heldur minni vindmylla í Þykkvabæ hefur bent til hins sama.
    Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur hefur kannað og metið ýmsa staði á landinu með tilliti til staðbundinna veðurfarslegra skilyrða fyrir rekstri vindmylla til raforkuframleiðslu þannig að nokkur þekking liggur þegar fyrir á þessum þætti rekstrarumhverfis vindmylla.
    Hér á landi hefur raforka ekki verið framleidd með því að virkja hreyfiorku hafsins en á fáeinum stöðum erlendis hafa verið útbúin mannvirki í sjó í þessu skyni. Yfirleitt eru þetta ærið stór, botnföst, steinsteypt mannvirki með allstórum rafhverflum. Lítið íslenskt fyrirtæki, Valorka, hefur fengist við þróun hverfla sem nota mætti við að breyta orku fallastrauma í raforku; hverflarnir fljóta í straumnum í stað þess að vera botnfastir. Ekki leikur vafi á því að mikil orka er í hafinu umhverfis Ísland og fyllilega er vert að kanna þá möguleika sem kunna að vera til hagnýtingar hennar við raforkuöflun.
    Ágætur árangur hefur fengist af því á svonefndum köldum svæðum hér á landi að nýta varmadælur til húshitunar með því að flytja varma úr umhverfinu inn í kyndikerfi húsa. Þannig er unnt að afla orku á umhverfisvænan hátt í næsta nágrenni við notandann svo að ekki er þörf fyrir veigamikið flutningskerfi. Allar varmadælur sem settar hafa verið upp hérlendis hingað til eru litlar en nú hillir undir breytingu á því þar sem áform eru uppi um stórt varmadæluverkefni í Vestmannaeyjum þar sem varmaorka úr hafinu verður nýtt til að skerpa á kyndingunni í húsum Eyjamanna. Kanna þarf frekar þýðingu þessarar orkuöflunartækni fyrir orkubúskap framtíðarinnar.
    Mikilvægt er fyrir íslenskt samfélag að þær leiðir sem hér hafa verið nefndar til öflunar sjálfbærrar og umhverfisvænnar orku verði kannaðar og metnar. Ákvörðun um gerð langtímaorkuspár veldur því að heppilegt er og raunar nauðsynlegt að ganga í þetta verk nú.