Ferill 200. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Prentað upp.

Þingskjal 279  —  200. mál.
Leiðrétt nafn.
Tillaga til þingsályktunar


um skiptingu útsvarstekna milli sveitarfélaga.


Flm.: Þórunn Egilsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Karl Gauti Hjaltason.


    Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að skipa starfshóp sem móti tillögur í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga um skiptingu útsvarstekna milli sveitarfélaga með það að leiðarljósi að hún endurspegli sem best útgjöld sveitarfélaga fyrir
veitta þjónustu. Starfshópurinn horfi m.a. til tilvika þar sem einstaklingur á frístundahús eða
jörð eða starfar í öðru sveitarfélagi en hann á lögheimili í.
    Ráðherra skili tillögum til Alþingis fyrir árslok 2018.


Greinargerð.

    Tillaga þessi var flutt á 146. og 147. löggjafarþingi (270. og 49. mál) en náði ekki fram að ganga. Hún er nú endurflutt með örlitlum breytingum með tilliti til athugasemda Byggðastofnunar.
    Skv. 1. málsl. 2. mgr. 20. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, greiða menn sem bera ótakmarkaða skattskyldu hérlendis útsvar til þess sveitarfélags þar sem þeir eiga lögheimili. Hafi einstaklingur átt lögheimili í fleiri en einu sveitarfélagi á tekjuárinu skal leggja á hann útsvar sem skiptist hlutfallslega eftir búsetutíma, sbr. 2. málsl. sömu málsgreinar.
    Sveitarfélög geta þó haft verulegan kostnað af þjónustu við aðra en þá sem þar eiga lögheimili, t.d. einstaklinga sem eiga þar frístundahús eða jörð og dvelja þar jafnvel drjúgan hluta ársins án þess að stunda þar búskap. Sem dæmi þar um má nefna kostnað við snjómokstur. Hér er því lagt til að starfshópi verði falið að móta tillögur í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga um skiptingu útsvarstekna milli tveggja eða fleiri sveitarfélaga þannig að hún endurspegli sem best útgjöld sveitarfélaga fyrir veitta þjónustu.