Ferill 203. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 282  —  203. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögum um fullnustu refsinga (sakarkostnaður).

Frá dómsmálaráðherra.Breyting á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum.
1. gr.

    Í stað orðanna „1. mgr. 240. gr.“ í 3. mgr. 11. gr. laganna kemur: 1. mgr. 241. gr.

2. gr.

    Á eftir 238. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi, og breytist númeraröð annarra greina samkvæmt því:
    Lagt skal út fyrir sakarkostnaði úr ríkissjóði. Sakarkostnaður sem sakfelldum manni er gert að greiða samkvæmt dómi, úrskurði eða viðurlagaákvörðun skal innheimtur hjá honum, eftir atvikum með fjárnámi og nauðungarsölu. Skal hann bera kostnað af þeim aðgerðum, svo og aðgerðum vegna fullnustu refsingar og annarra viðurlaga á hendur honum, til viðbótar sakarkostnaði.
    Nú liggur nægilega ljóst fyrir að sakfelldur maður hefur hvorki eignir né tekjur til að standa straum af sakarkostnaði sem honum hefur verið gert að greiða og ber þá að falla frá kröfu á hendur honum um greiðslu kostnaðarins.

3. gr.

    Í stað orðanna „245. gr.“ í 246. gr., 1. og 3. mgr. 247. gr. og 248. gr. laganna kemur: 246. gr.

Breyting á lögum um fullnustu refsinga, nr. 15/2016, með síðari breytingum.
4. gr.

    2. mgr. 91. gr. laganna orðast svo:
    Um niðurfellingu sakarkostnaðar fer eftir lögum um meðferð sakamála.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Við samþykkt laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála (millidómstig), nr. 49/2016, urðu þau mistök að efni 221. gr. þágildandi laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, er fjallaði um innheimtu og niðurfellingu sakarkostnaðar, féll niður. Þessi mistök uppgötvuðust ekki fyrr en lög um meðferð sakamála með innfelldum breytingum vegna stofnunar millidómstigs voru birt í heild sinni á vef Alþingis. Í umræddu ákvæði er m.a. fjallað um hvernig standa skuli að innheimtu sakarkostnaðar sem og mælt fyrir um skyldu til niðurfellingar hans við tilteknar aðstæður. Nauðsynlegt er að bregðast við þessum annmarka og er því lagt til með frumvarpi þessu að ákvæðinu verði bætt við lögin að nýju í óbreyttri mynd. Jafnframt eru lagðar til samsvarandi lagfæringar á lagatilvísunum í sömu lögum og lögum um fullnustu refsinga.
    Í frumvarpinu felast engin álitaefni er varða samræmi við stjórnarskrá eða mannréttindaskuldbindingar. Þá hefur frumvarpið engan kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.