Ferill 144. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 283  —  144. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur um gerð jarðganga milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar.


     1.      Hvernig miðar rannsóknum á gerð jarðganga milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar, Súðavíkurganga, og hvenær verða niðurstöðurnar birtar?
Ekkert var unnið að rannsóknum árið 2017 vegna mikilla anna á árinu við upphaf Dýrafjarðarganga og lok Norðfjarðarganga. Unnið verður að skipulagi vinnu við Álftafjarðargöng á árinu 2018.
    Árið 2001 var gerð yfirlitsathugun á nokkrum gangaleiðum í tengslum við greinargerð vinnuhóps um öryggismál Djúpvegar milli Súðavíkur og Bolungarvíkur. Greinargerð vinnuhópsins var gefin út sama ár undir heitinu „Jarðgöng á Vestfjörðum, Óshlíð og Súðavíkurhlíð, yfirlit yfir jarðfræðilegar aðstæður“. Höfundur hennar var Ágúst Guðmundsson. Í greinargerðinni var meðal annars gerð grein fyrir gangaleið á milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar. Þar segir m.a.:
    „Skutulsfjörður—Álftafjörður. Tvær um 6 km langar gangaleiðir voru kannaðar frá Skutulsfirði til Álftafjarðar auk tveggja skemmri leiða (um 3 km hvor) er miða ekki að vegstyttingu heldur að víkja vegsambandinu undan snjóflóða- og skriðuhættu á Súðavíkurhlíð.
    Gangaleiðirnar frá Naustum í Skutulsfirði til Sauradalsár ofan Súðavíkur og leiðin frá Engidal að Dvergasteini liggja um berggrunn sem þykir tiltölulega heppilegur til jarðgangagerðar og engir sérstakir veikleikar áberandi, hvorki í brotavirkni né jarðlögum. Tiltölulega auðvelt er með staði fyrir munna við alla gangaenda en þó eru aðstæður fyrir munna heldur hagstæðari á leiðinni frá Naustum að Sauradalsá. Nokkur stytting yrði á vegalengdum milli byggðalaga með þessum göngum. Stutta nýja vegi þarf að leggja vegna þessara jarðganga.
    Um 3 km löng gangaleið frá Arnardal yfir í innanverða Súðavíkurhlíð myndi fara fram hjá snjóflóðasvæðum á Súðavíkurhlíð. Aðstæður fyrir munna eru hagstæðar beggja vegna og einnig með nýlagningu vegar um Arnardal. Bergið á jarðgangaleið þykir hagstætt til jarðgangagerðar.
    Gangaleið í sveig inn í Súðavíkurhlíð frá Djúpagili út undir Brúðarhamar væri liðlega 3 km löng með munna við hagstæðar aðstæður á báðum stöðum meðfram núverandi vegi. Berg á jarðgangaleið er talið vera gott en varúðar ber að gæta varðandi sprungubelti er liggja samhliða meginstefnu ganganna.“








    Á meðfylgjandi mynd úr áðurnefndri greinargerð um hlíðarnar eru sýndar gangaleiðir sem menn töldu þá líklegastar.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Ein línan sýnir munna Skutulsfjarðarmegin undir Naustahvilft til að forðast snjóflóðahættu. Gallinn er á hinn bóginn sá að þar er urðarkápan (skriðan) sennilega þykk og þykkari en annars staðar. Það er bæði mikið verk að grafa sig í gegnum hana og getur orðið mjög áberandi, ekki síst þarna beint á móti eyrinni. Athuga þarf fleiri staði innar, t.d. um það bil beint á móti þveruninni yfir fjörðinn við innri flugvallarendann. Þar virðist urðarþekjan þynnri, í staðinn nær skriðan að vísu hærra upp. Þessi staðsetning munna leiðir að vísu til nokkuð lengri ganga. Þetta þarf allt að skoða. Innsta línan á kortinu er síðan svolítið inni í Engidal og þar koma væntanlega fleiri staðir til greina.
    Í Súðavík var valið á sínum tíma að sýna munna í mynni Eyrardals (Sauradals), þar er hann í nokkurri hæð og þarf að leggja frá honum veg í sneiðingi inn undir Langeyri til að komast niður. Þetta er ókostur, bæði vegna brekkunnar og einnig er þetta lengri leið til Súðavíkur. Athuga þarf hvort hægt er að komast neðar með góðu móti. Athuga þarf einnig fleiri staði, t.d. við sjávarmál utan Súðavíkur, sem leiðir ekki til lengri ganga ef hinn endinn er undir Naustahvilft. Fleira kemur mögulega til greina, eins og munnar innan við Súðavík.
    Til að skoða framangreinda munnastaði ásamt fleirum þarf að frumhanna vegi að þeim og gera einhverjar athuganir á þykkt lausra jarðefna. Ekki er talin ástæða til að fara í frekari athuganir á bergi á þessu stigi, heldur verður stuðst við almenna þekkingu á jarðfræði svæðisins, enda ekkert sem bendir til að þar verði við sérstaklega erfiðar aðstæður að etja. Val á munnastöðum og þar með lengd jarðganga eru þeir þættir sem mestu máli skipta á þessu stigi. Miðað er við að greinargerð um athuganir ársins og stöðu málsins verði lögð fram í lok árs 2018.

     2.      Telur ráðherra að Súðavíkurgöng verði sett á samgönguáætlun þegar hún verður endurskoðuð?
    Í samgönguáætlun 2015–2026 sem lögð var fram á Alþingi haustið 2016 er miðað við að Fjarðarheiðargöng verði næst í röðinni eftir að gerð Dýrafjarðarganga lýkur haustið 2020. Nú er hafin vinna við endurskoðun þessarar áætlunar og reiknað með að ný áætlun, 2019–2030, verði lögð fram á þingi haustið 2018. Ekki er á þessari stundu hægt að segja neitt til um hvort jarðgöng milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar verði þar inni.