Ferill 29. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 284  —  29. mál.
Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um samræmd próf.


     1.      Hvert er hlutverk og markmið samræmdra prófa í grunnskólum samkvæmt lögum og reglugerðum?
    Samkvæmt reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla, nr. 173/2017, er hlutverk og markmið samræmdra könnunarprófa margþætt. Í fyrsta lagi er þeim ætlað að athuga, eftir því sem kostur er, að hvaða marki hæfniviðmiðum aðalnámskrár í viðkomandi námsgrein eða námsþáttum hafi verið náð, í öðru lagi að vera leiðbeinandi um áherslur í námi einstakra nemenda, í þriðja lagi að veita nemendum, foreldrum, skólum og menntayfirvöldum upplýsingar um námsárangur og námsstöðu nemenda og í fjórða lagi að veita upplýsingar um hvernig einstakir skólar og skólakerfið í heild standa í þeim námsgreinum og námsþáttum sem prófað er úr.
    Gert er ráð fyrir að niðurstöður prófanna séu nýttar við skipulag náms og kennslu nemenda að því marki sem kennarar eða skólastjórnendur telja gagnlegt og taka tillit til réttmætra óska nemenda og foreldra þeirra um slíkt. Þá ber Menntamálastofnun jafnframt að nýta niðurstöður prófanna til að stuðla að umbótum og þróun í skólastarfi.
    Megintilgangur prófanna er því að afla upplýsinga um námsstöðu nemenda sem nýtast eiga þeim við áframhaldandi nám en einnig er möguleiki á að nýta niðurstöður prófanna til að meta árangur skólastarfs almennt.

     2.      Er hlutverkið í samræmi við vísindalega þekkingu á samræmdum prófum og áhrifum af notkun þeirra á nemendur og menntun? Hvaða rannsóknir á framkvæmd samræmdra prófa er stuðst við í fyrirkomulagi samræmdra prófa hér á landi?
    Rannsóknir að baki stöðluðum prófum eiga sér langa sögu. Segja má að fræðilegar undirstöður slíkra prófa séu einkum þrenns konar. Þær lúta að innihaldi prófanna, uppbyggingu þeirra og að tegundum prófspurninga á stöðluðum prófum.
    Innihald prófa af því tagi sem samræmd próf eru hefur þróast í takt við breytt sjónarmið um námskrár og hugmyndir um nám og vitsmunaþroska. Þar hefur verið þróun frá námskrám sem tiltaka ákveðin efnisatriði yfir í áherslu á ákveðna kunnáttu, hæfni eða leikni sem nemendur hafa vald á. Jafnframt hafa rannsóknir og fræðileg þróun á stöðluðum prófum leitt til aðferða sem tryggja að upplýsingar um hugsmíð, sem metin er, falli að tilgangi prófa og að stöðugleiki verði í því hvernig próf virka frá ári til árs. Í ljósi rannsókna og reynslu hafa þróast aðferðir sem gera kleift að útbúa próf sem gefa mismiklar upplýsingar um nemendur af ólíkum getustigum eftir því hver tilgangur prófanna er. Þessi fræðilegi grunnur er nýttur við gerð samræmdra könnunarprófa.
    Samræmd próf byggja á uppsafnaðri reynslu og rannsóknum á námsmati sem nær yfir meira en eitt hundrað ára tímabil. Fyrstu skref í þessari þróun voru í lok nítjándu aldar og byrjun þeirrar tuttugustu og drógu þær rannsóknir fram veikleika á munnlegum og ýmsum skriflegum prófum. Meginmarkmið í þróun staðlaðra prófatriða var að draga úr áhrifum af ónákvæmni sem mat á opnum prófatriðum felur alla jafna í sér og að koma í veg fyrir mismunun sem oft tengdist félagslegri stöðu. Einnig komu hagkvæmnissjónarmið við sögu í þróun staðlaðra aðferða við prófanir á tímabilum þegar menntun breyttist frá því að vera forréttindi fámennra þjóðfélagshópa yfir í að vera réttindi allra barna. Rannsóknir sem bera saman staðlaðar prófspurningar eins og fjölvalsspurningar og ýmsar gerðir opnari prófatriða voru gerðar alla tuttugustu öldina og hafa sýnt fram á að ólíkar aðferðir við spurningar á prófum meta sömu hugsmíðar með svipuðum hætti. Það eru einkum hugsmíðar á borð við ritun og tjáningu þar sem fram kemur munur. Samræmd könnunarpróf hér á landi byggja enn fremur á fræðilegum grunni á kennslufræði, sálfræði, tölfræði, próffræði og fleiri greinum og á vinnubrögðum sem hafa verið viðhöfð til lengri tíma.
    Áreiðanleiki er forsenda prófa og einkunnir á prófum þurfa að hafa þá eiginleika að vera stöðugar í tímans rás. Sami nemandi á að fá svipaða einkunn ef hann tekur sambærilegt próf aftur við sambærilegar aðstæður. Réttmæti prófa vísar til þess að hve miklu leyti einkunnir prófa endurspegla raunverulega kunnáttu nemenda. Áreiðanleiki og réttmæti eru byggð upp með innra og ytra mati. Hér á landi eru prófatriði samin af reyndum kennurum og próffræðingum með beinni skírskotun til aðalnámskrár. Þá fer fram sérstakt mat starfsmanna og kennara af vettvangi sem fara yfir öll prófatriði og meta þau í samræmi við hæfnimarkmið aðalnámskrár. Þannig fæst mat á inntaksréttmæti prófanna.
    Samræmdum könnunarprófum er, eins og áður segir, ætlað að kanna hvort hæfniviðmiðum aðalnámskrár hefur verið náð og vísa prófatriði beint í hæfnimarkmið námskrárinnar. Prófin taka til ólíkra námsþátta. Til dæmis metur íslenskuprófið málnotkun, lesskilning og fleiri þætti sem er grunnur að endurgjöf á því hvort kennslan hafi skilað árangri. Í hverju prófi er ákveðinn fjöldi prófatriða úr hverjum námsþætti sem er grunnur að mati á námsstöðu nemandans. Þannig fær nemandinn niðurstöðu úr hverjum námsþætti og samanburð við árangur jafnaldra (raðeinkunn). Einnig eru birt sýnispróf sem sýna hvernig námsþættir eru metnir. Þá fá skólar upplýsingar um sinn árangur í námsgreinum sem ásamt niðurstöðum fyrir skólakerfið í heild eru birtar í sérstökum skýrslugrunni (skyrslur.mms.is). Þar birtist árangur hvers skóla miðað við meðaltal landsins og fleiri þætti.
    Áreiðanleiki samræmdra könnunarprófa er metinn reglulega. Árið 2015 fór fram mat á áreiðanleika prófa í 4., 7. og 10. bekk og var niðurstaðan að svokallaður alfastuðull væri 0,90, sem er í samræmi við áreiðanleika fyrri ára. Stuðlar undirprófa voru svipaðir. Þá voru innbyrðis tengsl námsþátta og samræmdra einkunna skoðuð. Í ljós kom að fylgni milli samræmdra einkunna var nokkuð há (frá 0,53 til 0,71). Háa fylgni má skýra með því að nemendur sem standa sig vel í einu fagi standa sig að jafnaði vel í öðru fagi. Þá hafa tengsl niðurstaðna á samræmdum könnunarprófum við önnur próf verið rannsökuð.
    Síðustu áratugi hefur fyrirkomulag og úrvinnsla prófa verið athuguð með reglubundnum hætti. Fyrir liggja skýrslur um samræmd próf síðustu tvo áratugi. Þar má nefna skýrslu frá Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála frá árinu 1998, þar sem gerð er athugun á réttmæti og áreiðanleika; handbók frá árinu 2005 um túlkun og mat framfara sem unnin var á vegum Námsmatsstofnunar; og loks fjölmargar árlegar skýrslur um framkvæmd samræmdra prófa. Eins hafa íslenskir fræðimenn birt rannsóknir á próffræðilegum eiginleikum samræmdra könnunarprófa og öðrum þáttum prófanna, sjá t.d. Jóhönnu Einarsdóttur, Ingibjörgu Símonardóttur og Amalíu Björnsdóttur (2011). 1
    Mikilvægt er að þróa samræmd könnunarpróf áfram miðað við ný sjónarmið um hæfni nemenda, m.a. svokallaða hæfni 21. aldar. Hefur ráðuneytið falið Menntamálastofnun að vinna tillögu að fimm ára áætlun um þróun samræmdra könnunarprófa með mið af aðalnámskrám og nútímakröfum um hæfnimiðuð próf.
    Í lokin er rétt að taka fram að mat á hæfni og framförum nemenda er reglubundinn þáttur í skólastarfi og órjúfanlegur þáttur í námi og kennslu. Eins og aðalnámskrá tilgreinir er megintilgangur námsmats að leiðbeina nemendum um námið og hvernig þeir geti náð markmiðum þess. Námsmatið í skólum fer fram með fjölbreyttum aðferðum, til dæmis má nefna munnleg verkefni, verkleg, skrifleg, myndræn, stuttar afmarkaðar æfingar, einstaklingsverkefni, hópverkefni, verkefnamöppu, rafræn verkefni, próf og fleira. Samræmd könnunarpróf eru einn hluti af heildarnámsmati og viðbót við annað reglubundið námsmat í skólum.

     3.      Á hvaða rannsóknum um notkun á samræmdum prófum eða rökum var byggt þegar reglugerð um breytingu á reglugerð um innritun nemenda í framhaldsskóla, nr. 1199/2016, var sett, nánar tiltekið c-liður 1. gr.?
    Þegar tillaga var gerð um breytingu á reglugerð um innritun, nr. 1199/2016, var skýrt að breytingin takmarkaði ekki rétt borgara til að fá skólavist heldur væri einungis verið að draga fram þann möguleika framhaldsskóla að horfa til viðbótargagna við ákvörðun um skólavist, sbr. ákvæði c-liðar 1. gr. Markmiðið með breytingunni var að auka skýrleika og að veita þannig skólameisturum framhaldsskóla betri leiðsögn við innritun í framhaldsskóla.
    Hvað varðar hættuna á að skólar létu niðurstöður samræmdra prófa eingöngu ráða við ákvörðun um skólavist er bent á að þegar reglugerðarbreytingin var gerð var búið að tilkynna að samræmd könnunarpróf yrðu flutt frá haustönn 10. bekkjar til vorannar 9. bekkjar. Allir hagsmunaaðilar vissu því þegar reglugerðarbreytingin var gerð að niðurstöður samræmdra prófa yrðu í framtíðinni ársgamlar við innritun í framhaldsskóla og því engin hætta á að þær yrðu nýttar öðruvísi en sem viðbótargögn.
1     Langtímarannsókn á forspárgildi athugana á málþroska: Frá leikskólaaldri til fullorðinsára. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun: netla.hi.is/greinar/2011/ryn/006.pdf