Ferill 72. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 286  —  72. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Jóni Steindóri Valdimarssyni um rekstrarform og ráðstöfun eigna Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.


     1.      Hefur starfshópur sem ráðherra skipaði til að fara yfir og koma með tillögur að framtíðarrekstrarformi og ráðstöfun eigna Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins skilað niðurstöðum til ráðherra? Ef ekki, hvað skýrir drátt á skilum og hvenær má reikna með þeim? Ef niðurstöðum hefur verið skilað, hvers vegna hafa þær ekki verið birtar og hvenær hyggst ráðherra birta þær?
    Starfshópurinn sem skipaður var hefur ekki skilað inn tillögum til ráðherra. Starfshópurinn fór fram á að fá lengri tíma við vinnu sína og varð ráðherra við þeirri beiðni. Ráðherra er þó kunnugt um að vinnan sé vel á veg komin og að skýrslu sé að vænta í byrjun mars.

     2.      Hyggst ráðherra leggja fram frumvarp til breytinga á lögum nr. 61/1997, um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, á yfirstandandi þingi? Ef svo er, hvert yrði markmið þeirra breytinga og hvaða leiðir að þeim hyggst ráðherra leggja til grundvallar í væntanlegu frumvarpi?
    Afstaða til þess hvort ástæða sé til breytinga á lögum um sjóðinn verður tekin þegar skýrslan liggur fyrir. Leggi starfshópurinn til lagabreytingar er þó ekki raunhæft að frumvarp verði lagt fram á þessu þingi, til þess er tíminn of skammur.

     3.      Hyggst ráðherra leggja til auknar fjárveitingar til starfsemi Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins?
    Eins og fram hefur komið liggur skýrsla starfshópsins ekki fyrir og því hefur ekki verið tekin afstaða til þess hvort fjárveitingar verða auknar til sjóðsins.