Ferill 107. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 299  —  107. mál.




Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni um skipta búsetu barna.


     1.      Hefur ráðherra kynnt sér niðurstöður starfshóps í skýrslu sem var unnin fyrir innanríkisráðherra árið 2015 um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum? Ef svo er, hver er afstaða ráðherra til þeirra breytinga sem eru lagðar til af starfshópnum?
    Ráðherra hefur kynnt sér skýrslu innanríkisráðherra um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum, sem lögð var fram á Alþingi í september 2015. Ráðherra er jákvæður gagnvart þeim tillögum sem þar eru lagðar fram og reiðubúinn til samstarfs við dómsmálaráðuneytið.

     2.      Hyggst ráðherra á yfirstandandi kjörtímabili leggja fram frumvarp til breytinga á lögum eða gera breytingar á reglugerðum til þess að innleiða þær tillögur sem eru lagðar til í niðurstöðum starfshópsins?
    Í framhaldi af skýrslu innanríkisráðherra um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum, sem lögð var fram á Alþingi í september 2015, skipaði innanríkisráðherra verkefnisstjórn þriggja ráðuneyta, þ.e. innanríkis-, velferðar- og fjármála- og efnahagsráðuneytis, auk fulltrúa frá Þjóðskrá Íslands. Hlutverk verkefnisstjórnarinnar var að annast nákvæma greiningu á því hvaða ákvæðum laga og reglugerða væri nauðsynlegt að breyta svo að hægt væri að útbúa frumvarp og lögfesta ákvæði í barnalög sem heimila foreldrum, sem fara með sameiginlega forsjá barns og hafa ákveðið að ala það upp saman á tveimur heimilum, að semja um skipta búsetu barns að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Verkefnisstjórnin lauk störfum í mars 2017. Í skýrslu verkefnisstjórnarinnar kemur fram að breyta þurfi ýmsum gildandi lögum og reglugerðum sem heyra undir velferðarráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. Hefur dómsmálaráðuneytið þegar óskað eftir tengiliðum frá fyrrnefndum ráðuneytum vegna fyrirhugaðrar vinnu við frumvarp til breytinga á barnalögum. Lagt var til að hvert ráðuneyti semdi drög að breytingum á þeim lagaákvæðum sem undir það heyra sem yrðu síðan hluti af bandormi með frumvarpi til breytinga á barnalögum sem dómsmálaráðherra legði fram. Tengiliðir hafa nú verið tilnefndir frá hverju ráðuneyti og er fyrirhugað að vinna við frumvarpið geti hafist í febrúar.