Ferill 58. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 310  —  58. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Smára McCarthy og Birni Leví Gunnarssyni um valkvæða bókun um hávaðamengun í skipum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hyggst ráðherra beita sér fyrir fullgildingu á valkvæðum viðauka við samning IMO, Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar, MSC.337(91) frá 2012, um hávaðamengun í skipum, í þeim tilgangi að bæta hljóðvist sjávardýra og draga úr orkusóun í skipum?

    Tilgangur kóðans um hávaðastig um borð í skipum, sem fylgir ályktun siglingaöryggisnefndar Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (e. International Maritime Organization, IMO) MSC.337(91), er að vernda áhafnir um borð í skipum og stuðla þannig að heilsusamlegum vinnuaðstæðum um borð. Kóðinn er því settur á forsendum vinnuverndar og varðar ekki beint hljóðvist sjávardýra eða orkusóun í skipum.
    Kóðinn var settur á grundvelli reglu II-1/3-12 SOLAS-samningsins eins og honum var breytt með ályktun MSC.338(91). Ályktunin var samþykkt með ákvörðun siglingaöryggisnefndarinnar í samræmi við breytingarákvæði SOLAS-samningsins. Í ályktun siglingaöryggisnefndarinnar var kveðið á um að kóðinn myndi öðlast gildi 1. júlí 2014 nema þriðjungur aðildarríkja, er ráða sameiginlega yfir kaupskipaflota sem er að brúttótonnatölu að minnsta kosti helmingur kaupskipaflota heimsins, mótmæli gildistöku. Engin slík mótmæli bárust og er því kóðinn orðinn hluti af SOLAS-samningnum.
    Umræddur kóði þarfnast ekki sérstakrar fullgildingar hér á landi þar sem íslensk stjórnvöld fullgiltu SOLAS-samninginn þegar árið 1983, sbr. auglýsingu nr. 7/1983.