Ferill 145. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 313  —  145. mál.
Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur um sparnað ríkissjóðs af Hvalfjarðargöngum.


     1.      Hver er áætlaður sparnaður ríkisins af minni snjómokstri, viðhaldi vega og vegaframkvæmdum í Hvalfirði eftir opnun Hvalfjarðarganga?
    Með tilkomu Hvalfjarðarganga var snjómokstursreglum fyrir Hvalfjarðarveg lítið breytt. Frá opnun ganganna og til dagsins í dag eru enn mokaðir og hálkuvarðir ákveðnir kaflar alla daga vikunnar. Þjónustustigið er hins vegar heldur lægra en það væri ef öll umferð færi um Hvalfjörðinn. Vísbending um hvernig umferð um Hvalfjarðarveg hefði þróast ef göngin hefðu ekki komið til fæst með að skoða umferð um veginn annars vegar og göngin hins vegar. Árið 1997, árið fyrir opnun ganganna, var umferð um Hvalfjörð tvö þúsund bílar á dag að meðaltali á ári (ÁDU). Umferð um Hvalfjarðargöng var 3.200 bílar á dag árið 2000. Árið 2017 var umferðin rétt tæplega 7.000 bílar á dag að meðaltali.
    Vegagerðin skilgreinir mismunandi þjónustustig vetrarþjónustu í fjóra mismunandi flokka. Í hvaða flokk vegarkafli lendir ræðst að miklu leyti af umferð. Í dag er t.d. leiðin frá Reykjavík að Hvalfjarðargöngum í þjónustuflokki 1 en samkvæmt honum er veitt þjónusta á alla daga vikunnar allan sólarhringinn. Öll leiðin er jafnframt hálkuvarin. Hringvegurinn frá Hvalfjarðargöngum og til Akureyrar er hins vegar í þjónustuflokki 2 en samkvæmt honum er þjónustan veitt alla daga milli kl. 07:00 og 21:30 og hættulegir kaflar hálkuvarðir.
    Samkvæmt kostnaðarmódeli Vegagerðarinnar kostar að meðaltali um 11 millj. kr. á ári að þjónusta Hvalfjarðarveg samkvæmt þjónustuflokki 3, eins og nú er. Ef þjónustan færi eftir þjónustuflokki 2 er áætlað að kostnaðurinn væri um 15 millj. kr. á ári að meðaltali. Ef aftur á móti væri farið í þjónustuflokk 1 þá væri áætlaður kostnaður um 35 millj. kr. á ári. Líklegast er að ef Hvalfjarðargöng hefðu ekki komið til hefði vegurinn verið þjónustaður samkvæmt þjónustuflokki 2 síðustu 20 árin. Á því tímabili hefði það þýtt útgjöld sem næmi u.þ.b. 80 millj. kr. á núvirði, eða 4 millj. kr. á ári. Ef miðað er við þjónustuflokk 1 hefur sparnaðurinn á 20 árum hins vegar verið um 480 millj. kr. eða um 24 millj. kr. á ári vegna tilkomu Hvalfjarðarganganna.
    Erfitt er að meta með öruggum hætti hversu miklu fé hefði þurft að verja til viðhalds vegarins ef Hvalfjarðarganga hefði ekki notið við. Árið 1997 fóru að meðaltali (ÁDU) 2.100 bílar um Hvalfjarðarbotn á dag. Tveimur árum eftir opnun ganganna, árið 2000, var meðalumferðin um Hvalfjarðarbotn 215 bílar á dag en um göngin fóru 3.200 bílar á dag. Árið 2016 var meðalumferðin um göngin 6.400 bílar á dag en um Hvalfjarðarbotn 310 bílar á dag. Áætla má að umferðin um Hvalfjörð hefði vart vaxið í samræmi við umferð um göngin en varfærið mat gæti verið 3.000 – 4.500 bílar á dag. Hefði það orðið raunin er nokkuð víst að nauðsynlegt hefði verið að styrkja og breikka a.m.k. helming vegarins og eins hefði þurft að endurnýja slitlag a.m.k. þrisvar sinnum oftar en raunin varð sl. 10 ár. Þetta gæti hafa kostað á verðlagi í dag á milli 1.200 og 2.000 millj. kr.

     2.      Hver er áætlaður sparnaður ríkisins af því að hætta siglingum Akraborgar eftir opnun Hvalfjarðarganga?
    Árlegur kostnaður Vegagerðarinnar vegna Akraborgar síðustu árin sem hún var í rekstri var um 41 millj. kr. á verðlagi ársins 1997. Þar af voru 23 millj. kr. vegna stofnkostnaðar, þ.e. afborgana af lánum og 18 millj. kr. í rekstrarstyrk. Framreiknað með byggingarvísitölu jafngildir það 70 millj. kr. stofnstyrk og 55 millj. kr. rekstrarstyrk eða alls 125 millj. kr. á verðlagi 2018. Á 20 árum eru þetta 2,5 milljarðar kr. á verðlagi 2018.
    Á þessum tíma var verið að greiða síðustu afborganir af þeim lánum sem hvíldu á skipinu. Gera má ráð fyrir að skipið hefði getað siglt áfram í einhvern tíma. Þegar komið hefði að endurnýjun er erfitt að segja til um hvað ný ferja hefði kostað.