Ferill 246. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 342  —  246. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001,
með síðari breytingum (húsnæðisliður vísitölu neysluverðs).


Flm.: Þorsteinn Sæmundsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Birgir Þórarinsson, Sigurður Páll Jónsson, Bergþór Ólason.


1. gr.

    Á eftir orðinu „neysluverðs“ í 1. málsl. 1. mgr. 14. gr. laganna kemur: án húsnæðisliðar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Skv. 1. málsl. 1. mgr. 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, er heimilt að verðtryggja sparifé og lánsfé í íslenskum krónum sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs. Hagstofa Íslands birtir mánaðarlega breytingar á vísitölunni með og án húsnæðisliðar.
    Undanfarin ár hafa verðtryggð lán hækkað mikið vegna áhrifa húsnæðisliðar í neysluvísitölu og mun meira en gerst hefði ef miðað hefði verið við neysluvísitölu án húsnæðisliðar, en hækkun húsnæðisliðar hefur haldið uppi verðbólgu á Íslandi að mestu undanfarin sex ár. Þessi þróun hefur hækkað verðtryggð lán íslenskra heimila um allt að 180 milljarða kr. undanfarin sex ár miðað við að verðtryggð lán heimila nemi um 1.500 milljörðum kr.
    Heimili landsins og aðrir lántakendur geta ekki til lengdar staðið undir þvílíkum hækkunum. Íslensk heimili og aðrir lántakendur hafa borið alla áhættu af lántökum en lánveitendur nær enga. Það getur hvorki talist heilbrigt né sanngjarnt. Brýna nauðsyn ber því til að breyta núverandi tilhögun til að vernda hagsmuni íslenskra heimila og annarra lántakenda á meðan unnið er að undirbúningi þess að afnema verðtryggingu neytendalána með öllu eða að minnka verulega hlutdeild verðtryggðra neytendalána í heildarútlánum með öðrum hætti.
    Í öðrum aðildarríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) er kostnaður vegna húsaleigu, viðhalds og rekstrar fasteigna hluti af neysluvísitölu en óþekkt er að fasteignaverð og hækkun þess hafi áhrif á neysluvísitölu í öðrum OECD-löndum.
    Þrátt fyrir boðaða breytingu samkvæmt frumvarpinu heldur Hagstofa Íslands áfram að reikna og birta neysluvísitölu með inniföldum húsnæðislið ásamt öðrum vísitölum sem Hagstofan mælir og heldur utan um lögum samkvæmt.