Ferill 247. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 343  —  247. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016 (EES-reglur, eftirlitsstofnanir o.fl.).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Á undan orðunum „27. gr.“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: 2.–5. mgr.
     b.      Við 5. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Reglurnar geta meðal annars falið í sér ákvæði um gjaldþolskröfur, stjórnarhætti og upplýsingagjöf til Fjármálaeftirlitsins.

2. gr.

    Við 19. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Fjármálaeftirlitið skal setja reglur sem byggjast á tæknilegum framkvæmdastöðlum Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar um meðferð máls þegar starfsleyfi er veitt fyrir félag með sérstakan tilgang. Í reglunum skulu einnig vera ákvæði um form á eyðublöðum vegna gagnaskila skv. 6. tölul. 1. mgr.
    Fjármálaeftirlitið getur sett reglur sem byggjast á tæknilegum framkvæmdastöðlum Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar um meðferð mála vegna samvinnu og upplýsingaskipta milli eftirlitsstjórnvalda í aðildarríkjum þegar félag með sérstakan tilgang gerir ráð fyrir áhættu vegna vátryggingafélags sem er í öðru aðildarríki en þar sem félag skv. 1. mgr. hefur starfsleyfi.

3. gr.

    Við 25. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Fjármálaeftirlitið skal tilkynna Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni um veitt starfsleyfi hér á landi.

4. gr.

    Á eftir 3. mgr. 30. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Fjármálaeftirlitið skal afhenda Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni árlega eftirfarandi upplýsingar:
     1.      Meðaltal viðbótargjaldþolskröfu á hvert vátryggingafélag og dreifingu viðbótargjaldþolskrafna sem Fjármálaeftirlitið hefur lagt á árið á undan sem skal mælt sem hlutfall af gjaldþolskröfum og sýnt aðskilið fyrir:
                  a.      vátryggingafélög,
                  b.      líftryggingafélög,
                  c.      skaðatryggingafélög,
                  d.      vátryggingafélög sem reka bæði líftrygginga- og skaðatryggingastarfsemi,
                  e.      endurtryggingafélög.
     2.      Hlutfall viðbótargjaldþolskrafna sem lagðar eru á skv. 1. mgr. 32. gr., sundurgreint skv. 1. tölul. þessarar málsgreinar.
     3.      Fjölda vátryggingafélaga sem fá undanþágu frá reglubundnum gagnaskilum til Fjármálaeftirlitsins og fjölda vátryggingafélaga sem fá undanþágu frá því að skila lista yfir allar eignir skv. 6. og 7. mgr. 31. gr. ásamt umfangi gjaldþolskrafna, iðgjalda, vátryggingaskuldar og eigna, mældu, eftir því sem við á, sem hlutfall af heildarumfangi gjaldþolskrafna, iðgjalda, vátryggingaskuldar og eigna vátryggingafélaga hér á landi.

5. gr.

    Í stað orðsins „lífeyriseftirlitsstofnunarinnar“ í 13. mgr. 31. gr., 9. mgr. 44. gr., 5. mgr. 45. gr., 4. mgr. 49. gr., 2. og 3. mgr. 50. gr., 4. mgr. 57. gr., 1. og 2. mgr. 101. gr., 2. og 3. mgr. 103. gr., 2. mgr. 121. gr. og í 173. gr. laganna kemur: lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar.

6. gr.

    Við 33. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Fjármálaeftirlitið getur óskað eftir aðstoð Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA, eftir því sem við á, skv. 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1094/2010 um að koma á fót evrópskri eftirlitsstofnun (Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin) ef því er ekki heimilað að gera vettvangsathugun skv. 3. mgr. Sama gildir um eftirlitsstjórnvöld annarra aðildarríkja ef þeim er ekki heimilað að gera vettvangsathugun hjá vátryggingafélagi sem hefur útvistað starfsemi hér á landi, sbr. 2. mgr.
    Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni er heimilt skv. 21. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1094/2010 um að koma á fót evrópskri eftirlitsstofnun (Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin) að taka þátt í vettvangsathugun vegna útvistaðrar starfsemi ef tvö eða fleiri eftirlitsstjórnvöld gera hana sameiginlega.

7. gr.

    Í stað orðsins „sjálfstæðir“ í 1. málsl. og orðsins „sjálfstæði“ í 2. málsl. 7. mgr. 41. gr. laganna kemur: heilbrigðir; og: heilbrigði.

8. gr.

    Við 60. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Fjármálaeftirlitið getur sett reglur sem byggjast á tæknilegum framkvæmdastöðlum Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar þar sem fram koma tæmandi upplýsingar um hvað eigi að koma fram í tilkynningu um fyrirhuguð kaup eða aukningu á virkum eignarhlut.
    Fjármálaeftirlitið skal setja reglur sem byggjast á tæknilegum framkvæmdastöðlum Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar sem tilgreina nánar þau atriði sem hafa skal til hliðsjónar við mat á hæfi skv. 61. gr.

9. gr.

    Við 4. mgr. 69. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Fjármálaeftirlitið skal samþykkja fyrir fram ákvarðanir sem hafa í för með sér lækkun á gjaldþolsliðum vátryggingafélags, þ.m.t. endurkaupaáætlanir á eigin hlutabréfum.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 117. gr. laganna:
     a.      Við 4. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Eftirlitsstofnun EFTA tekur ákvörðun að beiðni Fjármálaeftirlitsins um það hvort aðstæður teljist mjög óvenjulegar eða óhagstæðar. Eftirlitsstofnun EFTA skal í samráði við Fjármálaeftirlitið meta hvort aðstæðurnar séu enn fyrir hendi og Eftirlitsstofnun EFTA lýsir því yfir í samráði við Fjármálaeftirlitið þegar aðstæður teljast ekki lengur mjög óvenjulegar eða óhagstæðar.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Ef Fjármálaeftirlitið telur að fjárhagsstaða vátryggingafélags sem fær frest til að endurreisa fjárhag við mjög óvenjulegar og óhagstæðar aðstæður muni versna enn frekar getur það takmarkað eða bannað ráðstöfun vátryggingafélags á fjármunum og eignum þess. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna eftirlitsstjórnvöldum aðildarríkja þar sem vátryggingafélagið hefur útibú eða starfsemi um aðgerðir sem það grípur til eftir því sem við á. Fái Fjármálaeftirlitið slíka tilkynningu um útibú eða starfsemi vátryggingafélags hér á landi frá eftirlitsstjórnvöldum annarra aðildarríkja skal það grípa til sömu aðgerða hér á landi gagnvart félaginu. Fjármálaeftirlitið skal tilgreina þær eignir sem falla undir slíkar aðgerðir.

11. gr.

    Við 7. mgr. 122. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Fjármálaeftirlitið skal einnig tilkynna Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni um afturköllun starfsleyfis.

12. gr.

    Við 127. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Fjármálaeftirlitið getur óskað eftir aðstoð Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA, eftir því sem við á, skv. 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1094/2010 um Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunina ef eftirlitsstjórnvöld annarra aðildarríkja vinna ekki með þeim vegna annmarka á að útibú hér á landi fari að lögum þessum. Sama gildir um eftirlitsstjórnvöld annarra aðildarríkja ef Fjármálaeftirlitið vinnur ekki með þeim vegna útibúa þar.
    Fjármálaeftirlitið skal tilkynna Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni og Eftirlitsstofnun EFTA um synjun á stofnun útibús hér á landi skv. 124. gr. og starfsemi hér á landi skv. 126. gr. Einnig skal Fjármálaeftirlitið tilkynna til hvaða ráðstafana hefur verið gripið skv. 3. og 4. mgr.

13. gr.

    Við 128. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Eftirlitsstjórnvöld aðildarríkja geta óskað eftir aðstoð Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA, eftir því sem við á, skv. 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1094/2010 um að koma á fót evrópskri eftirlitsstofnun (Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin) ef þeim er ekki heimilað að gera vettvangsathugun hér á landi skv. 1. mgr. Sama gildir um Fjármálaeftirlitið ef það fær ekki að taka þátt í vettvangsathugun eftirlitsstjórnvalda annarra aðildarríkja hér á landi eða fær ekki að gera vettvangsathugun hjá útibúi vátryggingafélags í öðru aðildarríki.
    Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni er heimilt skv. 21. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1094/2010 um að koma á fót evrópskri eftirlitsstofnun (Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin) að taka þátt í vettvangsathugun skv. 1. mgr. hér á landi ef tvö eða fleiri eftirlitsstjórnvöld gera hana sameiginlega.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 130. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Fjármálaeftirlitið skal tilkynna Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni um örðugleika sem koma upp vegna fyrirhugaðrar starfsemi vátryggingafélags í landi utan aðildarríkja.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Fjármálaeftirlitið skal tilkynna Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni um fyrirhugaða starfsemi vátryggingafélags, sem hefur höfuðstöðvar utan aðildarríkja og útibú hér á landi, í öðrum aðildarríkjum. Einnig skal Fjármálaeftirlitið tilkynna það ef félag með höfuðstöðvar í ríki utan aðildarríkja eignast hlut í vátryggingafélagi og félagið yrði af þeim orsökum talið útibú hér á landi.

15. gr.

    Við 173. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Með lögum þessum eru tekin upp þau ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/51/ESB, sem breytti meðal annars tilskipun 2009/138/EB og reglugerð (ESB) nr. 1094/2010, sem ekki hafa þegar verið lögleidd hér á landi.

16. gr.

    Við 3. mgr. 174. gr. laganna bætist: að undanskilinni 3. mgr. 91. gr. a.

17. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta byggist á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/51/ESB 1 („Omnibus II“) sem breytti meðal annars tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/138/EB 2 um stofnun og rekstur fyrirtækja á sviði vátrygginga og endurtrygginga (Gjaldþolsáætlun II) vegna valdheimilda Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar (EIOPA) ásamt fleiri atriðum.
    Efni tilskipunar 2009/138/EB ásamt meginefni tilskipunar 2014/51/ESB hefur verið leitt í lög með lögum nr. 100/2016, um vátryggingastarfsemi, og lögum nr. 60/2017, um vátryggingasamstæður.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 100/2016, um vátryggingastarfsemi, sem eru tilkomnar að mestu leyti vegna valdheimilda Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar sem tóku gildi með lögum nr. 24/2017, um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði. Með þeim lögum voru lögfest ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1094/2010 sem komu Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni á fót.
    Gert er ráð fyrir að tilskipun 2014/51/ESB verði tekin upp í EES-samninginn á fyrsta ársfjórðungi ársins 2018.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í kjölfar fjármálaáfallsins árið 2008 voru settar nýjar reglur í Evrópusambandinu á fjármálamarkaði þar sem nýjar samevrópskar eftirlitsstofnanir voru stofnaðar til að tryggja stöðugleika á markaðinum og betra eftirlit. Tilgangur stofnananna er meðal annars að tryggja nánara samstarf eftirlitsstjórnvalda aðildarríkjanna, auðvelda beitingu evrópskra lausna vegna fjölþjóðlegra vandamála og styðja við einsleita beitingu og túlkun reglna.
    Á vátryggingamarkaði var tilskipun 2009/138/EB sett um vátryggingastarfsemi og hún var tekin upp í EES-samninginn í nóvember árið 2011 en henni var mikið breytt með tilskipun 2014/51/ESB, m.a. vegna hinna nýju evrópsku eftirlitsstofnana. Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin var sett á stofn til að hafa eftirlit á vátryggingamarkaði og voru stofnuninni gefnar ríkar valdheimildir gagnvart eftirlitsstjórnvöldum og vátryggingafélögum aðildarríkja. Þar sem lagaumhverfið er sambærilegt í aðildarríkjum er stofnunin mikilvæg til að tryggja nánara samstarf eftirlitsstjórnvalda í aðildarríkjum. Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin hefur heimild til að setja tæknilegar reglur um vátryggingastarfsemi, hefur beint ákvörðunarvald gagnvart eftirlitsstjórnvöldum aðildarríkja og getur gripið inn í atburðarás til að leysa úr ágreiningi milli þeirra ásamt því að sjá til þess að reglum sé beitt á samræmdan hátt. Einnig hefur stofnunin ákveðið samhæfingarhlutverk á neyðartímum.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að teknar verði upp í lög nr. 100/2016, um vátryggingastarfsemi, valdheimildir Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar sem koma fram í tilskipun 2014/51/ESB og hafa stoð í lögum nr. 24/2017, um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði. Við upptöku reglugerðar (ESB) nr. 1094/2010, um Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunina, var reglugerðin aðlöguð að EES-samningnum og valdheimildir sem gera ráð fyrir bindandi ákvörðunum gagnvart EFTA-ríkjunum voru færðar til Eftirlitsstofnunar EFTA í stað Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar. Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin mun eftir sem áður sinna samræmingarhlutverki í öllum aðildarríkjum EES-samningsins og hafa rétt til að óska eftir upplýsingum bæði hjá Fjármálaeftirlitinu og einstökum vátryggingafélögum. Stofnunin mun einnig gera drög að tæknilegum eftirlitsstöðlum og gefa út leiðbeiningar og tilmæli.
    Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar sem þykja nauðsynlegar vegna innleiðingar á tilskipun 2009/138/EB. Eitt vátryggingafélag er í slitameðferð samkvæmt eldri lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 56/2010. Fyrirséð er að ekki verður unnt að uppfylla skilyrði um tímafrest uppgjörsloka og því er lagt til að fallið verði frá tímafrestum.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í fyrsta lagi er í frumvarpinu lagt til að Fjármálaeftirlitið skuli setja reglur sem byggjast á tæknilegum framkvæmdastöðlum Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar um félög með sérstakan tilgang og tilkynningar um fyrirhuguð kaup eða aukningu á virkum eignarhlut.
    Í öðru lagi er lagt til að Fjármálaeftirlitið geti óskað aðstoðar Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA eftir atvikum ef því er ekki heimilað að gera vettvangsathugun vegna útvistaðrar starfsemi í öðru aðildarríki, eftirlitsstjórnvald annars aðildarríkis aðstoðar það ekki vegna útibúa hér á landi sem fara ekki að lögum eða Fjármálaeftirlitið fær ekki að taka þátt í vettvangsathugun hjá útibúi hér á landi eða að gera vettvangsathugun hjá útibúi í öðru aðildarríki. Eftirlitsstjórnvöld annarra aðildarríkja geta einnig leitað aðstoðar Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar ef þau geta ekki gert vettvangsathugun hér á landi vegna útvistaðrar starfsemi vátryggingafélags eða Fjármálaeftirlitið aðstoðar þau ekki með útibú hér á landi sem fara ekki að lögum eða heimilar þeim ekki að gera vettvangskannanir hjá vátryggingafélögum sem reka starfsemi hér á landi og þau hafa veitt starfsleyfi.
    Í þriðja lagi er lagt til að Fjármálaeftirlitið tilkynni Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni um ákveðin atriði eða veiti henni ákveðnar upplýsingar. Þetta eru meðal annars tilkynningar um veitt starfsleyfi hér á landi og afturköllun þeirra, upplýsingar um umfang viðbótargjaldskröfu sem Fjármálaeftirlitið hefur lagt á vátryggingafélög og umfang undanþága vátryggingafélaga frá reglubundnum gagnaskilum. Þá skal Fjármálaeftirlitið tilkynna Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni ef það synjar vátryggingafélagi um að stofna útibú eða veita þjónustu hér á landi ásamt því að tilkynna um þau útibú sem starfa hér á landi og fara ekki að lögum. Einnig er lagt til að Fjármálaeftirlitið tilkynni Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni eða Eftirlitsstofnun EFTA, eftir því sem við á, um örðugleika sem koma upp vegna fyrirhugaðrar starfsemi vátryggingafélags í landi utan aðildarríkja ef það hefur höfuðstöðvar eða útibú hér á landi.
    Í fjórða lagi er lagt til að Eftirlitsstofnun EFTA taki ákvörðun um það hvort aðstæður teljist það óvenjulegar eða óhagstæðar að ástæða sé til þess að Fjármálaeftirlitið veiti vátryggingafélagi enn lengri frest til að endurreisa fjárhag ef það fullnægir ekki gjaldþolskröfu. Þá er lagt til að Fjármálaeftirlitið geti takmarkað eða bannað vátryggingafélagi ráðstöfun á eignum þess þegar það hefur fengið enn lengri frest til að endurreisa fjárhag.
    Í fimmta lagi er Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni heimilað taka þátt í vettvangskönnun hjá vátryggingafélagi, útibúi eða þjónustuaðila vegna útvistunar hér á landi ef hún er gerð sameiginlega hjá tveimur eða fleiri eftirlitsstjórnvöldum.
    Í sjötta lagi eru lögð til ákvæði sem þykja nauðsynleg vegna innleiðingar á tilskipun 2009/138/EB. Meðal annars er lagt til að lagastoð tiltekinna ákvæða verði styrkt, takmörkun á gildis-sviði laganna verði skýrari og tekin verði af öll tvímæli um að samþykki Fjármálaeftirlitsins þurfi til að lækka hlutafé sem hefur í för með sér að gjaldþolsliðir vátryggingafélags lækki.
    Að lokum er lagt til að fallið verði frá því skilyrði í eldri lögum um vátryggingastarfsemi að tímamörk séu á því hvenær uppgjöri vátryggingastofns sé lokið.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Verði frumvarpið að lögum leiðir það til þess að íslenskur réttur verður samræmdur tilskipun 2014/51/ESB sem verður tekin upp í EES-samninginn á fyrri hluta árs 2018. Þannig verður staðið við þá skuldbindingu í samningnum að lögleiða á Íslandi efni þeirra tilskipana sem teknar eru upp í IX. viðauka EES-samninginn.
    Í frumvarpinu felst að valdheimildir eru framseldar til Eftirlitsstofnunar EFTA. Ekki er talið að eðli þeirra framsalsheimilda sé verulega íþyngjandi eða umfram það sem áður hefur verið talið heimilt vegna EES-samningsins. Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar, sbr. umfjöllun um það álitaefni í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 24/2017, um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

5. Samráð.
    Frumvarpið felur í sér að þær reglur í tilskipun 2014/51/ESB sem ekki eru komnar í íslenskan rétt verða lögfestar. Frumvarpið var unnið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu en samráð var haft við Fjármálaeftirlitið og frumvarpið var kynnt fyrir nefndinni sem samdi frumvarp sem varð að lögum nr. 100/2016, um vátryggingastarfsemi. Í þeirri nefnd sátu aðilar frá Fjármálaeftirlitinu, Samtökum fjármálafyrirtækja og Félagi íslenskra tryggingastærðfræðinga.

6. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarpið að lögum munu ákvæði um Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunina verða hluti af lögum um vátryggingastarfsemi. Ákvæðum um evrópsku eftirlitsstofnanirnar er ætlað að bæta eftirlit með fjármálastarfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu og vernda þannig neytendur og almenning fyrir áföllum og óstöðugleika á markaðinum.
    Valdheimildir Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar verða hjá Eftirlitsstofnun EFTA í ákveðnum tilvikum vegna bindandi ákvarða gagnvart Fjármálaeftirlitinu og vátryggingafélögum með starfsleyfi hér á landi. Eftirlitsstofnun EFTA mun einnig taka ákvörðun um það hvenær aðstæður teljist það óvenjulegar eða óhagstæðar að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að veita vátryggingafélagi lengri frest til að endurreisa fjárhag vegna þess að gjaldþolskröfu er ekki fullnægt.
    Meginreglan verður sú að eftirlit með vátryggingastarfsemi hér á landi verður hjá Fjármálaeftirlitinu. Ekki er gert ráð fyrir að áhrif Eftirlitsstofnunar EFTA né Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar sem eftirlitsstjórnvalda á vátryggingamarkaði hér á landi verði mikil þar sem áhrifa þeirra mun eingöngu gæta ef ágreiningur verður milli Fjármálaeftirlitsins og eftirlitsstjórnvalda í öðrum aðildarríkjum eða þegar aðstæður verða mjög óvenjulegar eða óhagstæðar og vátryggingafélag lendir í vandræðum með fjárhag sinn.
    Innleiðing evrópska eftirlitskerfisins hér á landi stuðlar að fjármálastöðugleika og samkeppnisstaða vátryggingafélaga hér á landi styrkist með samræmingu reglna við það sem gildir á Evrópska efnahagssvæðinu. Verði frumvarpið að lögum mun Ísland uppfylla skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum og eftirlit með vátryggingafélögum hér á landi verður styrkt.

Áhrif á almannahagsmuni.
    Frumvarpið felur í sér ítarlegri reglur um eftirlit með vátryggingafélögum en nú gilda og leggur til auknar valdheimildir til eftirlitsstofnana. Það hefur í för með sér að eftirlitsaðilum á að vera kleift að greina aukna áhættu í vátryggingastarfsemi fyrr en áður og með skilvirkari hætti. Með þessu móti minnka líkur á alvarlegum afleiðingum áfalla sem kunna að verða á vátryggingamarkaði og áhrifum þess á raunhagkerfið.

Áhrif á vátryggingafélög
    Bein áhrif á vátryggingafélög hér á landi með tilkomu ákvæða um eftirlitsstofnanir eru einkum þau að Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin mun hafa heimild til að gera vettvangskönnun hjá þeim ef tvö eða fleiri eftirlitsstjórnvöld gera sameiginlega vettvangskönnun hjá vátryggingafélaginu.
    Frumvarpið á að draga úr áhættu sem getur skapast vegna starfsemi vátryggingafélaga en það mun hafa mjög takmörkuð áhrif á starfsemi og rekstur félaganna.

Áhrif á stjórnsýslu ríkisins.
    Fjármálaeftirlitið sinnir eftirliti með vátryggingastarfsemi hér á landi, en Eftirlitsstofnun EFTA og Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin munu einnig gegna hlutverki í því samhengi vegna nýrrar umgjarðar sem er tilkomin vegna evrópsku eftirlitsstofnananna.
    Verkefni Fjármálaeftirlitsins munu aukast vegna meiri samskipta við Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunina og Eftirlitsstofnun EFTA ásamt því að gagnaskil verða meiri. Einnig eru nokkrar reglusetningarheimildir til að innleiða reglur sem byggjast á tæknilegum framkvæmdastöðlum Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar. Verkefni Fjármálaeftirlitsins vegna þess mun fyrst og fremst vera að fara yfir þýðingar frá Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins.
    Verði frumvarp þetta að lögum kallar það ekki á varanlega aukningu stöðugilda hjá Fjármálaeftirlitinu þótt verkefni gætu aukist tímabundið. Annar kostnaður er ekki sýnilegur í tengslum við frumvarpið og ættu útgjöld að rúmast innan fjárheimilda Fjármálaeftirlitsins.

Áhrif á ríkissjóð.
    Fjárhagsleg áhrif frumvarpsins á ríkissjóð eru lítil eða óveruleg.
    Verði frumvarpið að lögum mun það ekki kalla á varanlega aukningu stöðugilda að mati Fjármálaeftirlitsins þótt verkefni gætu aukist tímabundið. Ekki er gert ráð fyrir öðrum kostnaði í tengslum við innleiðinguna og þar af leiðandi er ekki gert ráð fyrir hækkunum á eftirlitsgjaldi Fjármálaeftirlitsins vegna þessa.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 3. gr. laganna koma fram takmarkanir á gildissviði laganna. Í 3. mgr. greinarinnar eru talin upp þau ákvæði sem gilda ekki um tilgreinda vátryggingastarfsemi. Meðal annars er þar tilgreind 27. gr. laganna sem er um nýja greinaflokka. Í 1. mgr. 27. gr. kemur fram að vátryggingafélag sem hyggst taka upp nýjan greinaflokk vátrygginga eða vátryggingagrein eða hyggst breyta starfsemi sinni í verulegum atriðum skuli sækja um leyfi fyrir því hjá Fjármálaeftirlitinu. Þrátt fyrir takmarkanir á gildissviði laganna verður vátryggingafélag eðli máls samkvæmt að sækja um það hjá Fjármálaeftirlitinu ef það hyggst breyta starfsemi sinni. Því er í a-lið lagt til að vísun til 27. gr. einskorðist við 2.–5. mgr. greinarinnar. Í b-lið er lagt til að styrkt verði lagastoð fyrir reglum sem Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja um kröfur til vátryggingafélags sem fellur undir undanþáguákvæði 3. mgr. með því að tilgreina nánar efni reglnanna. Með tillögunni er verið að skerpa ákvæðin og þar með innleiðingu á ákvæðum tilskipunar 2009/183/EB.

Um 2. gr.

    Greinin er í samræmi við málsgreinar 2a og 2b í 211. gr. tilskipunar 2009/138/EB eins og henni var breytt með tilskipun 2014/51/ESB og leggur annars vegar þá skyldu á Fjármálaeftirlitið að setja reglur um meðferð máls þegar félag með sérstakan tilgang óskar eftir starfsleyfi hér landi og hins vegar heimilar Fjármálaeftirlitinu að setja reglur um meðferð mála um upplýsingaskipti og samvinnu við eftirlitsstjórnvöld annarra aðildarríkja þegar félag með sérstakan tilgang gerir ráð fyrir áhættu vegna vátryggingafélags í öðru aðildarríki.

Um 3. gr.

    Greinin er í samræmi við grein 25a í tilskipun 2009/138/EB sem bættist við með tilskipun 2014/51/ESB og leggur þá skyldu á Fjármálaeftirlitið að tilkynna um veitt starfsleyfi til Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar.

Um 4. gr.

    Greinin er í samræmi við 52. gr. tilskipunar 2009/138/EB eins og henni var breytt með tilskipun 2014/51/ESB og leggur þá skyldu á Fjármálaeftirlitið að afhenda Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni árlega tilgreindar upplýsingar um viðbótargjaldþolskröfu sem það hefur lagt á vátryggingafélög ásamt þeim undanþágum sem eru veittar vegna reglubundinna gagnaskila.

Um 5. gr.

    Heiti stofnunarinnar er hér fært til samræmis við heiti hennar í öðrum lögum.

Um 6. gr.

    Greinin er í samræmi við 38. gr. tilskipunar 2009/138/EB eins og henni var breytt með tilskipun 2014/51/ESB og heimilar Fjármálaeftirlitinu að leita aðstoðar Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA, eftir því sem við á, ef það er hindrað í að gera vettvangsathugun hjá þjónustuaðila í öðru aðildarríki vegna útvistaðrar starfsemi vátryggingafélags. Eftirlitsstjórnvöld annarra aðildarríkja geta einnig leitað aðstoðar Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA, eftir því sem við á, ef þau fá ekki að gera vettvangsathugun hjá þjónustuaðila hér á landi vegna útvistaðrar starfsemi. Þá er Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni heimilað að taka þátt í vettvangskönnunum ef tvö eða fleiri eftirlitsstjórnvöld gera könnunina sameiginlega.

Um 7. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að hugtakið fjárhagslegt heilbrigði verði notað í stað fjárhagslegs sjálfstæðis. Hugtakið er þýðing á „financial soundness“ og þykir meira lýsandi fyrir merkingu þess að nota orðin fjárhagslegt heilbrigði. Með tillögunni er verið að skerpa betur ákvæðið og þar með innleiðingu á ákvæðum tilskipunar 2009/183/EB.

Um 8. gr.

    Greinin er í samræmi við 8. mgr. 58. gr. tilskipunar 2009/138/EB eins og henni var breytt með tilskipun 2014/51/ESB og heimilar annars vegar Fjármálaeftirlitinu að setja reglur með tæmandi hætti um þær upplýsingar sem eiga að koma fram í tilkynningu um fyrirhuguð kaup eða aukningu á virkum eignarhlut og hins vegar skyldar það til að tilgreina nánar þau atriði sem hafa skal til hliðsjónar við mat á hæfi þess aðila sem hyggst eignast eða auka virkan eignarhlut.

Um 9. gr.

    Lagt er til að bætt verði við ákvæðið því skilyrði að Fjármálaeftirlitið skuli samþykkja fyrir fram áform um að lækka hlutafé sem hefur í för með sér að gjaldþolsliðir vátryggingafélags lækka. Ákvæðið tekur af öll tvímæli um að samþykki Fjármálaeftirlitsins þurfi að liggja fyrir áður en vátryggingafélag tekur ákvörðun um lækkun hlutafjár sem hefur í för með sér lækkun á gjaldþolsliðum og veitir ákvæðum reglugerðar nr. 585/2017, um vátryggingastarfsemi, þar að lútandi skýra lagastoð. Með ákvæðinu er verið að skerpa betur á innleiðingu á ákvæðum tilskipunar 2009/183/EB.

Um 10. gr.

    Greinin er í samræmi við 4. og 5. mgr. 138. gr. tilskipunar 2009/138/EB eins og henni var breytt með tilskipun 2014/51/ESB. Í fyrsta lagi er lagt til að það verði Eftirlitsstofnun EFTA sem muni taka ákvörðun um hvort aðstæður teljist það óvenjulegar og óhagstæðar að tilefni sé til þess að veita aukinn frest til þess að endurreisa fjárhag vátryggingafélags sem fullnægir ekki gjaldþolskröfu. Í tilskipuninni er það Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin sem hefur ákvörðunarvaldið en við upptöku tilskipunarinnar í EES-samninginn er gert ráð fyrir þeirri aðlögun á tilskipuninni að það verði Eftirlitsstofnun EFTA í tilviki EFTA-ríkjanna sem taki þá ákvörðun. Samkvæmt aðlöguninni skal ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA byggjast á drögum frá Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni. Eftirlitsstofnun EFTA tekur svo í samráði við Fjármálaeftirlitið ákvörðun um það hvort aðstæðurnar séu enn fyrir hendi ásamt þeirri ákvörðun hvort aðstæðurnar teljist ekki lengur vera fyrir hendi. Þá er lagt til að Fjármálaeftirlitið geti takmarkað eða bannað ráðstöfun vátryggingafélags á eignum þess ef það telur að fjárhagsstaða félagsins muni versna enn frekar.

Um 11. gr.

    Greinin er í samræmi við grein 25a í tilskipun 2009/138/EB sem bættist við með tilskipun 2014/51/ESB og leggur þá skyldu á Fjármálaeftirlitið að tilkynna Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni um starfsleyfi sem eru afturkölluð.

Um 12. gr.

    Greinin er í samræmi við 155. gr. tilskipunar 2009/138/EB eins og henni var breytt með tilskipun 2014/51/ESB og heimilar Fjármálaeftirlitinu og eftirlitsstjórnvöldum annarra aðildarríkja að leita aðstoðar Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA, eftir því sem við á, ef örðugleikar verða í samvinnu eftirlitsstjórnvaldanna vegna útibúa sem fara ekki að lögum.
    Þá er Fjármálaeftirlitinu gert skylt að tilkynna Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni og Eftirlitsstofnun EFTA ef það synjar vátryggingafélagi um að stofna útibú eða veita þjónustu hér á landi. Einnig skal það tilkynna hvaða ráðstafanir voru gerðar ef ráðstöfun eigna er takmörkuð hjá útibúi hér á landi eða vátryggingafélagi sem veitir þjónustu hér á landi skv. 3. og 4. mgr. ákvæðisins.

Um 13. gr.

    Greinin er í samræmi við 33. gr. tilskipunar 2009/138/EB eins og henni var breytt með tilskipun 2014/51/ESB og heimilar eftirlitsstjórnvöldum annarra aðildarríkja að leita aðstoðar Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA, eftir því sem við á, ef Fjármálaeftirlitið hindrar þau í að gera vettvangsathugun hér á landi. Sama heimild gildir fyrir Fjármálaeftirlitið ef það fengi ekki að gera vettvangsathugun hjá útibúi vátryggingafélaga, með starfsleyfi hér á landi, í öðru aðildarríki og Fjármálaeftirlitið getur einnig leitað aðstoðar Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA, eftir því sem við á, ef því er meinað að taka þátt í vettvangsathugun með eftirlitsstjórnvöldum annarra aðildarríkja vegna útibúa vátryggingafélaga hér á landi. Þá er Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni heimilað að taka þátt í vettvangsathugun hjá vátryggingafélagi hér á landi ef tvö eða fleiri eftirlitsstjórnvöld gera hana sameiginlega.

Um 14. gr.

    Greinin er í samræmi við 176. og 177. gr. tilskipunar 2009/138/EB eins og þeim var breytt með tilskipun 2014/51/ESB og leggur þá skyldu á Fjármálaeftirlitið að tilkynna Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni um örðugleika sem koma upp ef vátryggingafélag hér á landi hyggst starfa utan aðildarríkja. Eins skal Fjármálaeftirlitið tilkynna um fyrirhugaða starfsemi vátryggingafélags sem hefur höfuðstöðvar utan aðildarríkja eða í öðrum aðildarríkjum ef vátryggingafélagið er með útibú hér á landi. Þá skal tilkynna um félag sem hefur höfuðstöðvar í ríki utan aðildarríkja sem eignast hlut í vátryggingafélagi hér á landi og kaupin hefðu í för með sér að félagið mundi teljast útibú hér á landi.

Um 15. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.

Um 16. gr.

    Ákvæði eldri laga um vátryggingastarfsemi, nr. 56/2010, gilda aðeins um eitt félag sem lýtur stjórn skilastjórnar. Með lögum nr. 33/2014, um breytingu á lögum nr. 56/2010, voru sett tímamörk á það hvenær uppgjöri vátryggingastofns skyldi lokið. Miðað skyldi við að uppgjöri væri lokið innan þriggja ára frá skipunardegi skilastjórnar en Fjármálaeftirlitinu var heimilt að framlengja uppgjörslok um eitt ár í senn í tvígang. Fjármálaeftirlitið mun framlengja uppgjörslokin í seinna skiptið fyrir félagið í febrúar 2018 en fyrir liggur að ekki er raunhæft að ljúka uppgjörinu innan þeirra tímamarka. Því er lagt til að undanskilja tímalengd á uppgjöri félagsins ákvæðum laga nr. 56/2010.

Um 17. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.

1    Directive 2014/51/EU of the European Parliament and of the Council of 16 April 2014 amending Directives 2003/71/EC and 2009/138/EC and Regulations (EC) No 1060/2009, (EU) No 1094/2010 and (EU) No 1095/2010 in respect of the powers of the European Supervisory Authority (European Insurance and Occupational Pensions Authority) and the European Supervisory Authority (European Securities and Markets Authority).
2    Directive 2009/138/EC of the European Parliament and of the Council of 25 November 2009 on the taking-up and pursuit of the business of Insurance and Reinsurance.