Ferill 129. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 347  —  129. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Unu Hildardóttur um samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvað líður fullgildingu og innleiðingu samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi (CETS nr. 210) af hálfu Íslands og hvenær er fyrirhugað að því ferli verði lokið af hálfu íslenskra stjórnvalda?

    Hinn 11. maí 2011 undirritaði Ísland samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi.
    Í október 2012 gaf Mannréttindastofnun Háskóla Íslands út skýrslu, styrkta af innanríkisráðuneytinu, um það hvernig samningurinn félli að íslensku réttarkerfi og kannaði það hvort breyta þyrfti lögum, reglum, framkvæmd, verklagi eða öðru til að tryggja samræmi milli ákvæða samningsins og íslensks réttar. Helstu niðurstöður hennar voru að ekki þyrfti að ráðast í umfangsmiklar lagabreytingar en hins vegar þyrfti að huga að ákveðnum skyldum og aðgerðum sem samkvæmt samningnum hvíla á ríkinu.
    Í upphafi árs 2013 fór þáverandi innanríkisráðherra þess á leit við refsiréttarnefnd að nefndin kannaði hvort og þá hvaða breytingar nauðsynlegt væri að gera á íslenskri refsilöggjöf til að fullgilda mætti samninginn. Fyrsta áfanga í fullgildingu samningsins var náð í mars 2016 þegar lög nr. 23/2016 tóku gildi en með þeim voru gerðar nauðsynlegar breytingar á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, lögum nr. 25/1975, um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, og lögum nr. 88/2008, um meðferð sakamála, til samræmis við samninginn. Það er mat dómsmálaráðuneytisins að frekari lagabreytinga sé ekki þörf til að unnt sé að fullgilda samninginn.
    Eftir stóð að leggja mat á og eftir atvikum, koma í farveg þeim skyldum og aðgerðum sem hvíla á ríkinu samkvæmt samningnum en sem krefjast ekki lagabreytinga.
    Á árinu 2017 óskaði því dómsmálaráðuneytið eftir umsögnum og afstöðu þeirra fagráðuneyta og fagaðila, sem ábyrgð bera á þeim málaflokkum sem heyra undir samninginn, til þess hvort íslenska ríkið uppfyllti nú þegar þær kröfur sem leiða mætti af samningnum eða til hvaða aðgerða væri nauðsynlegt að grípa til að svo mætti verða. Nú er verið að leggja lokahönd á að bregðast við þeim umsögnum eftir því sem þurfa þykir en það var þó mat þeirra fagráðuneyta sem samráð var haft við að ekkert væri því til fyrirstöðu að fullgilda samninginn.
    Í samráði við þau ráðuneyti sem bera ábyrgð á málaflokknum ásamt dómsmálaráðuneytinu, þ.e. velferðarráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið, var því ákveðið að óska eftir því við utanríkisráðuneytið að hefja formlegt fullgildingarferli og er það ferli nú á lokametrunum. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna er einnig kveðið á um að Istanbúlsamningurinn verði fullgiltur á kjörtímabilinu. Áætlað er að formleg fullgilding samningsins verði á fyrri hluta þessa árs.