Ferill 152. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 410  —  152. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni um heilbrigðisþjónustu í fangelsum.


     1.      Hvernig er aðgengi að heilbrigðisþjónustu háttað í fangelsum landsins? Svar óskast sundurliðað eftir fangelsum.
    Samkvæmt 29. gr. laga um fullnustu refsinga, nr. 15/2016, skulu fangar njóta sambærilegrar heilbrigðisþjónustu og almennt gildir um landsmenn, í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu. Í lögum um fullnustu refsingar er í 23. gr. kveðið á um að læknir skuli skoða fanga við upphaf afplánunar og ef þörf krefur meðan á afplánun stendur, og í 77. gr. er kveðið á um að læknir skuli skoða fanga í einangrun eða öryggisklefa daglega ef unnt er.
    Aðgengi að almennri heilsugæslu í fangelsum landsins er með eftirfarandi hætti:
     a.      Litla-Hraun: Heilbrigðisstofnun Suðurlands sinnir heilbrigðisþjónustu fanga á Litla-Hrauni. Hjúkrunarfræðingar eru á vakt mánudaga til fimmtudaga. Fastir viðverutímar lækna eru tvisvar í viku aðra hvora viku og einn dag hina vikuna. Fangaverðir skrá viðtalsbeiðnir og hjúkrunarfræðingar meta síðan hvaða föngum er sinnt eingöngu af hjúkrunarfræðingi og hverjir þarfnast viðtals við lækni. Utan fastra viðverutíma lækna og hjúkrunarfræðinga á Litla-Hrauni fá fangar þjónustu á Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
     b.      Hólmsheiði: Heilsugæslan Lágmúla sinnir heilbrigðisþjónustu fanga í fangelsinu á Hólmsheiði samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Velferðarráðuneytið hefur nýlega falið Sjúkratryggingum Íslands að leita samninga við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um heilbrigðisþjónustu fanga í fangelsinu á Hólmsheiði. Skipulag þjónustunnar nú er þannig að tveir hjúkrunarfræðingar í samtals 75% starfi veita þjónustu í fangelsinu tvo daga í viku. Auk þess veita þeir ráðgjöf í síma eftir þörfum. Læknar eru með viðtalstíma tvo hálfa daga í viku og veita ráðgjöf í síma þess utan. Fangaverðir bóka í tímana og hjúkrunarfræðingar og læknar skipta síðan með sér verkum. Utan dagvinnutíma er farið með fanga á Læknavaktina ef nauðsyn krefur.
     c.      Akureyri: Læknar frá Heilsugæslunni á Akureyri eru með fasta viðtalstíma í fangelsinu í eina og hálfa klukkustund einn dag í viku. Fangaverðir bóka í tímana og hafa samband við lækna sem veita þjónustuna eins og þörf er á. Enginn hjúkrunarfræðingur starfar í fangelsinu á Akureyri. Heilbrigðisþjónusta utan ofangreinds tíma er veitt á Heilsugæslustöðinni á Akureyri.
     d.      Kvíabryggja: Heilsugæslustöðin í Grundarfirði sér um almenna heilbrigðisþjónustu fanga á Kvíabryggju. Heilbrigðisstarfsmaður er ekki með fasta viðveru í fangelsinu heldur koma fangar í viðtal á heilsugæslustöðina eftir þörfum. Vaktlæknir fer þó í vitjanir í fangelsið þegar nauðsyn ber til.
    Samkvæmt samkomulagi milli heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og Fangelsismálastofnunar frá 2. desember 1997 sér ráðuneytið um og ber ábyrgð á a) heilsugæsluþjónustu fanga, þar með talið hjúkrunarþjónustu, b) nauðsynlegri sérhæfðri læknisþjónustu, þar með talið geðlæknisþjónustu, og c) sjúkraþjálfun sem nauðsynleg er talin að mati lækna. Fangelsismálastofnun sér hins vegar um að fangar njóti þjónustu sálfræðinga. Að auki sér Fangelsismálastofnun um tannlæknaþjónustu við fanga.
    Heilbrigðisstofnun Suðurlands fær fjárveitingu vegna stöðu geðlæknis en ekki hefur tekist að manna þá stöðu undanfarin ár. Geðlæknar á Landspítala og á Sjúkrahúsinu á Akureyri sinna því geðlæknisþjónustu fanga. Fangar fá þjónustu á göngudeildum sjúkrahúsanna samkvæmt beiðnum lækna utan sjúkrahúsanna. Einnig er mögulegt að vísa föngum til geðlækna á einkareknum stofum en sú þjónusta er veitt á grundvelli samnings við Sjúkratryggingar Íslands. Fangar, eins og aðrir þjóðfélagsþegnar, eru lagðir inn á geðdeild þegar læknar telja andlegt ástand þeirra gefa tilefni til þess.

     2.      Hvaða fangelsi eru með gilda samninga við heilbrigðisstofnanir?
    Fangelsin gera ekki samninga um heilbrigðisþjónustu. Velferðarráðuneytið, sem ber ábyrgð á heilbrigðisþjónustu fanga nema sálfræðiþjónustu og tannlæknaþjónustu, hefur falið Heilbrigðisstofnun Suðurlands að sjá um heilbrigðisþjónustu fanga á Litla-Hrauni, Heilsugæslunni í Grundarfirði, sem nú tilheyrir Heilbrigðisstofnun Vesturlands, að annast heilbrigðisþjónustu fanga á Kvíabryggju og Heilsugæslunni á Akureyri, sem nú tilheyrir Heilbrigðisstofnun Norðurlands, að annast heilbrigðisþjónustu fanga í fangelsinu á Akureyri. Fjárveitingar til að annast þjónustuna eru hluti af rekstrarfé heilbrigðisstofnananna.
    Eins og fram kemur í svari við fyrsta tölulið fyrirspurnar þessarar hefur velferðarráðuneytið falið Sjúkratryggingum Íslands að semja um heilbrigðisþjónustu við fanga í fangelsinu á Hólmsheiði. Heilsugæslan Lágmúla sinnti samkvæmt samningi heilbrigðisþjónustu við fanga í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg og í Kvennafangelsinu í Kópavogi þar til þeim fangelsum var lokað. Samningurinn hefur verið yfirfærður á þjónustu við fanga í fangelsinu á Hólmsheiði og gert er ráð fyrir að svo verði þar til formlegur samningur við nýjan þjónustuaðila, sem nú er unnið að, hefur verið undirritaður.

     3.      Hvernig er þörfin á heilbrigðisþjónustu í fangelsum landsins metin?
    Eins og fram kemur í svari við fyrsta tölulið fyrirspurnar þessarar fá fangar þá almennu heilbrigðisþjónustu sem þeir telja sig þurfa, annaðhvort frá læknum eða hjúkrunarfræðingum. Hið sama gildir um fanga og aðra þjóðfélagsþegna hvað varðar sérhæfða heilbrigðisþjónustu, það er að hún er veitt á grundvelli tilvísana heilsugæslulækna eða annarra þar til bærra aðila.
Velferðarráðuneytið hefur unnið að endurskoðun gæða- og þjónustukrafna fyrir heilbrigðisþjónustu fanga. Sú vinna er á lokastigi og munu þær gæða- og þjónustukröfur gilda um heilbrigðisþjónustu fanga í öllum fangelsum landsins.