Ferill 68. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 414  —  68. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Jóni Steindóri Valdimarssyni um skattfrádrátt til nýsköpunarfyrirtækja.


    1.     Hve mörg nýsköpunarfyrirtæki hafa notið skattfrádráttar samkvæmt lögum nr. 152/2009, hver er heildarupphæð frádráttar, hve stór hluti kemur til útgreiðslu, hvert er hámark frádráttar og hve mörg fyrirtæki hafa talið fram það mikinn kostnað að endurgreiðsla hefur takmarkast við leyfilegt hámark? Svar óskast sundurliðað eftir árum.
    Upplýsingar í eftirfarandi töflum eru byggðar á gögnum sem bárust frá embætti ríkisskattstjóra og miðast við stöðu álagningar 9. janúar sl., en tölurnar gætu breyst eitthvað þegar frá líður.

Tafla 1.

Álagningarár Fjöldi fyrirtækja Frádráttur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar Þar af endurgreiðsla Þar af skulda-jöfnun upp í álagðan tekjuskatt Fjöldi fyrirtækja, endurgreiðsla takmarkast við hámark
2011 61 635 m.kr. 572 m.kr. 63 m.kr. 9
2012 87 926 m.kr. 854 m.kr. 71 m.kr. 17
2013 101 1.085 m.kr. 937 m.kr. 148 m.kr. 22
2014 117 1.244 m.kr. 1.083 m.kr. 162 m.kr. 24
2015 117 1.285 m.kr. 1.109 m.kr. 176 m.kr. 28
2016 126 1.575 m.kr. 1.314 m.kr. 261 m.kr. 39
2017 138 2.659 m.kr. 2.182 m.kr. 477 m.kr. 9
Heimild: Ríkisskattstjóri.

Tafla 2.

Álagningarár 2011–2016 Álagningarár 2017
Innan
fyrirtækis
Aðkeypt
vinna
Innan fyrirtækis Aðkeypt
vinna
Hámark styrkhæfs kostnaðar vegna rannsókna og þróunar 100 m.kr. 150 m.kr. 300 m.kr. 450 m.kr.
20% skattfrádráttur af styrkhæfum kostnaði (hámark frádráttar) 20 m.kr. 30 m.kr. 60 m.kr. 90 m.kr.
Heimild: Fjármála- og efnahagsráðuneytið.
    



    2.     Hvert er áætlað umfang skattfrádráttar það sem eftir lifir gildistíma laganna? Svar óskast sundurliðað eftir árum.

    Erfitt er að áætla með einhverri nákvæmni hvaða þættir vegi þyngst í ákvörðun fyrirtækja að ráðast í rannsóknar- og þróunarstarf. Í eftirfarandi töflu er einungis tekið mið af hagsveiflunni eins og spár liggja fyrir núna, þegar áætlað umfang skattfrádráttar er metið, og er útkoma álagningar 2017 notuð sem grunnur. Í meðfylgjandi töflu má sjá áætlaðan skattfrádrátt út gildistíma laganna miðað við framangreindar forsendur. Rétt er að benda á að lögin falla úr gildi í lok árs 2019, en skattfrádrátturinn verður ekki að veruleika fyrr en við álagningu opinberra gjalda á lögaðila á árinu 2020.

Tafla 3.

Álagningarár Áætlaður frádráttur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar
2018 2.794 m.kr.
2019 2.962 m.kr.
2020 3.132 m.kr.
Heimild: Fjármála- og efnahagsráðuneytið.



    3.     Hvert væri áætlað umfang skattfrádráttar það sem eftir lifir gildistíma laganna ef hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti hjá hverju fyrirtæki, sbr. 1. mgr. 10. gr. fyrrgreindra laga, yrði afnumið? Svar óskast sundurliðað eftir árum.
    Miðað er við sömu upplýsingar og í töflu 3, en jafnframt tekið mið af þeirri upphæð sem var umfram hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti hjá níu fyrirtækjum í álagningu ársins 2017. Í meðfylgjandi töflu má sjá áætlaðan skattfrádrátt út gildistíma laganna ef hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti hjá umræddum níu fyrirtækjum yrði afnumið.


Tafla 4.

Álagningarár Áætlaður frádráttur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar (ekkert hámark) Kostnaðarauki ríkis-sjóðs af brottfalli þaksins
2018 3.126 m.kr. 332 m.kr.
2019 3.315 m.kr. 353 m.kr.
2020 3.506 m.kr. 374 m.kr.

Heimild: Fjármála- og efnahagsráðuneytið.



    4.     Hvert er mat ráðherra á áhrifum þessa skattfrádráttar á nýsköpun í landinu í heild og á einstök fyrirtæki? Liggi slíkt mat ekki fyrir, hyggst ráðherra láta gera slíkt mat og hvenær á því að vera lokið?
    Skattfrádrátturinn/endurgreiðslan hefur tvímælalaust haft mikil og jákvæð áhrif til að hvetja íslensk fyrirtæki til nýsköpunar á gildistíma laganna. Ekki er ósennilegt að í einhverjum tilvikum hafi hann haft úrslitaáhrif á að sprotafyrirtæki hafi lagt af stað út á þá áhættusömu og grýttu braut sem frumkvöðlar þurfa oftar en ekki að feta. Einungis gróf greining liggur fyrir á áhrifum skattfrádráttarins/endurgreiðslunnar, sbr. tölurnar hér að framan, en unnið er að nákvæmari greiningu á framkomnum gögnum. Áformað er að nýta þá greiningu við endurskoðun á gildandi lögum til undirbúnings nýrri lagasetningu fyrir árslok 2019. Vonast er til að greiningin liggi fyrir um mitt þetta ár og í framhaldinu verði lögð fram drög að nýjum lagaákvæðum um áframhaldandi stuðning á þessu sviði í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en þar kemur fram með skýrum hætti vilji og áhersla ríkisstjórnarinnar á áframhaldandi stuðning við nýsköpun og rannsóknir hér á landi.

         5.     Hyggst ráðherra beita sér fyrir heildarendurskoðun laganna með hliðsjón af fenginni reynslu og hliðstæðum stuðningi í öðrum löndum með það fyrir augum að ný og endurbætt lög taki gildi eigi síðar en 31. desember 2019? Ef svo er, hvaða sjónarmið verða lögð til grundvallar slíkri endurskoðun?
    Það er ástæða til að taka lögin til endurskoðunar með hliðsjón af fenginni reynslu. Sömu sjónarmið verða áfram höfð að leiðarljósi og þegar lögin voru sett upphaflega. Markmiðið er að hvetja til aukinnar starfsemi á sviði nýsköpunar og þróunar enda leggur ríkisstjórnin áherslu á fjölbreytt atvinnulíf og að Ísland búi sig undir að mæta þeim áskorunum og nýta þau tækifæri sem felast í örum tæknibreytingum.